Nú gengur þetta loksins aðeins hraðar. Málari mætti kl 11 á miðvikudegi, eins og hann hafði sagst gera, og var að til kl 19. Eldhúsið var heilspartlað en þar eru veggirnir með létthraunaðri áferð og stofan undirbúin en þar er einskonar marengs á heilum vegg. Við verkstjórinn vorum búin að fara í Sorpu með gömlu kerruna hans pabba sem hefur heldur betur komið að góðum notum í þessum framkvæmdum. Við vorum búin að taka niður gardínur, þjappa öllum mublum saman á einn stað í stofunni og breiða plast yfir. Sömuleiðis var plasti tjaldað yfir bókahilluna enda óþarfi að mála á bak við hana, skilst mér. Keyptar voru sjö hnausþykkar og blýþungar gipsplötur og spýtur í loftgrindina skv. fyrirmælum yfirsmiðsins. Það er nóg af handtökum og snatti þótt ekki séu iðnaðarmennirnir alltaf á staðnum. Málarinn mætti með málninguna, 60 lítra af gullfallegum lit sem Sæja stakk upp á. Hann er grábrúnn, hlýr og dökkur. Mér kom sosum ekki á óvart að hann fékk 0 atkvæði í könnun meðal smekkmanna á Snapchat en ég valdi hann samt. Honum fylgir örugglega góð tilbreyting og nýjar áskoranir fyrir alls konar smartheit.
Gaman aðððessu 🥰