Framkvæmdir 2020

Um vinnubrögð

Þann 28. júní kom borðplatan inn í nýja eldhúsið. Langþráð og ægilega lekker. Rafvirki brást fljótt við og tengdi helluborðið svo nú er hægt að matbúa í þessu fáránlega flotta eldhúsi. Einnig tengdi hann eldhúsljósið flotta yfir tilvonandi eldhúsborði. Hann þarf að koma amk einu sinni enn til að taka upp tengingu sem hann setti í ledborða undir skápunum, hann notað bara einn spennubreyti þótt þeir væru þrír í pakkningunni… Og ljósin blikka. Hann fær þá nokkra tíma á reikninginn í viðbót… Enn er líka eftir að ganga frá ledborða, aðfellu og lýsingu upp við loftið… Á síðasta augnabliki tókst Brynjari að láta hann snúa innstungunum langs, en ekki þvers eins og hann hafði teiknað fyrir og hefði verið  glatað..  sjá mynd. Borðplötusmiðunum tókst einhvern veginn að reka sig í og rispa nýmálaðan vegginn í eldshúsinu (þeir létu engan vita) þegar þeir settu plötuna á, sjá mynd. Og yfirsmiður sagaði ótrúlega illa út fyrir álprófíl… sjá mynd. Dæs!

Ég ráðlegg öllum sem ætla í framkvæmdir amk eftirfarandi:

  • Vera búinn að gera allt sem hægt er að gera sjálfur áður en iðnaðarmenn koma (rífa, brjóta niður, færa til stóra hluti, breiða yfir, forða því sem þolir ekki hnjask)
  • Fylgjast vel verkinu, helst standa yfir mönnunum
  • Semja um kaup og kjör fyrirfram
  • Biðja iðnaðarmenn að nota ferðina, ekki koma oft í sama verkefnið (jafnvel bjóðast til að skutlast sjálfur eftir því sem vantar, miklu ódýrara)
  • Prútta og tilgreina skýrt að enginn annar kostnaður verði greiddur (akstur, matur, kaffi…)
  • Ef vörur eru keyptar fyrir þig, fáðu þá reikninginn (frumrit) en ekki bara e-a tölu frá iðnaðarmanninum
  • Vera liðlegur en ákveðinn, hringja ef iðnaðarmaður kemur ekki á tilsettum degi (tíma)
  • Kvarta og láta laga ef vinnubrögð eru ekki ásættanleg
  • Ekki borga fyrr en verki er lokið

106285357_2366511070311624_3292370593489274331_n

Meikar sens að snúa innstungunum langs og hafa þær inni í horninu en ekki þvers í miðjunni eins og rafvirkinn ætlaði

106497565_2590310361233287_3494252453212689239_n

Þetta er við uppþvottavélina og blasir alltaf við þegar hún er opnuð

106579888_3101548536600690_3148916945455166006_nÞessi rispa eftir  borðplötumennina er 45 cm löng

Besti vinur mannsins

20. júní, fjórum mánuðum eftir að framkvæmdir hófust…

Uppþvottavélin kom loksins til lands þrátt fyrir gjaldeyrishöft, brælu og covid. Vænkaðist hagur okkar verulega við það og óhætt að segja að hún sé besti vinur mannsins. Þó þýðir það að sumt er þvegið í vaskinum í þvottahúsinu og hitt fer í vélina og vatnsglas þarf að sækja á baðið. Svo er ég byrjuð að raða í skúffur og skápa í innréttingunni og þá kemur oft upp sú staða að potturinn er í eldhúsinu, hafragrjónin í Inguherbergi og vatnið á baðinu. Og þegar ég sest með grautinn minn og lýsið er skeiðin í skúffu í eldhúsinu. En borðplatan sem allt veltur á er væntanleg 29. júní svo brátt tekur þetta böl nú enda.

Ofninn nýi frá AEG/Ormsson rokkar þvílíkt! Hann verður heitur á örskotsstundu og hitar allt jafnt og vel. Hef bakað pizzur og eina köku í honum og hún lukkaðist stórvel. Mitt landsfræga lasagna lukkaðist sömuleiðis frábærlega. Hér hafa sko verið haldin fámenn en fjörleg matar- og kaffiboð þrátt fyrir frumstæð skilyrði. Ofninum fylgdu leiðbeiningar á 12 tungumálum en engar á ensku. Einn bæklingur var á dönsku en allar stillingar á ofninum eru á ensku. Svo það er bara húsmóðurhjartað sem finnur hvernig er best að gera þetta, ég hef enga þolinmæði í að horfa á skýringarmyndbönd á youtube, það læt ég Binna mínum eftir.

Veggljós í eldhús bíður uppsetningar, loftljós keypti ég af Sæju arkitekt, sem hefur tekið að sér að hanna forstofu og þvottahús í haust… svo ekki erum við af baki dottin.

104825107_578417459529312_5350763945910437944_n Þetta lítur mjög vel út þótt ég segi sjálf frá, sérstaklega þegar límmiðarnir verða teknir af

105035813_1750414355100944_6896248355722524026_n

Sandblástursfilmuna plokkaði ég af með blóði, svita og tárum. Hún hefur verið á síðan 2005 og búin að þjóna sínu hlutverki

105567606_258514242091853_948716604138698284_n

Uppþvottavélin bjargaði málunum

104667985_2623990197851790_8950669417952406348_nSúkkulaðikakan góða úr nýja ofninum

Spegill, spegill

Ég er byrjuð að raða örlítið í skápana, aðallega öllum þeim hundruðum glasa sem mér hafa áskotnast í gegnum árin. Þarf kona að eiga fleiri en 12 glös, mér er spurn? Sex hafa dugað síðustu tvo mánuði. Blómavasar fylla líka eina hillu, eru notaðir kannski fimm sinnum á ári. Hér er verk að vinna við að útrýma.

Nú er beðið með óþreyju eftir að uppþvottavélin komi til landsins. Áætluð lending er í næstu viku, fyrstu viku júní. Ísskápurinn kemur seinna. Góðar fréttir bárust af borðplötu, hún er væntanleg með skipi í lok júní.

Pípari kom loksins og græjaði tengingu fyrir uppþvottavélina og í leiðinni ákvað verkstjóri að færa lagnir og krana í bílskúrnum og ætlar líka að kaupa varmaskipti fyrir neysluvatnið í húsinu.

Sjónvarpið sem var búið að koma sér þægilega fyrir í svefnherberginu hefur verið fært aftur inn í stofu. Ekki nándar nærri eins kósi að sofna fyrir framan það núna eins og var meðan kúrt var undir sæng. Stofan er að verða sæmilega fín, myndir á eftir að hengja upp, svo og ljós og nýjan spegil (sem er risastór…). Hér gerast góðir hlutir hægt.

101171783_670400890359624_8390170328713658368_n

Gengur ekkert

Innrétting er komin á sinn stað og efri skápar líka. Búið er að kaupa spanhelluborð, vask og krana en pípari hefur ekki sést í viku þrátt fyrir gefin heit. Borðplata er fundin en efnið ekki til, kemur til landsins í síðasta lagi í ágúst. Svo bráðabirgðaplata verður sett upp. 95388808_575148566540627_6245927074624700416_n

Hlífðarplastið ennþá á en lítur samt stórkostlega vel út. Og flísarnar sjóðheitar, bókstaflega.

95542072_2494161490896461_8743163777987379200_n (1)

Ljósahönnun Sæju er til fyrirmyndar og mikið fyrir henni haft. Ledborðinn undir efri skápunum gerir gæfumuninn.

95383257_262847718095378_2890675666389303296_n

Uppþvottavél er fjarlægur draumur.

96557808_236157080990949_8043694878858674176_n

Þessi er ekkert nema þolinmæðin og þrautseigjan fyrir utan hvað hann er sætur.

96512604_667046143842508_490779809765392384_n

Eldunaraðstaðan…97989764_2638364096489185_8591482034357010432_n

Ýmislegt góss sem fer upp í skápana á næstu mynd.

95903511_813194015872879_5099569297953390592_n

Og svona í restina: Lampi sem mig langar doldið í …

96672408_188187925603740_4550843022085980160_n

Hægt gengur

Nú er 1. maí og skrásetjari fyrir löngu búinn að missa yfirsýnina og tímaskortur hefur komið í veg fyrir að sagan sé sögð dag frá degi. Málari hefur lokið störfum og rukkað fyrir, meira en búist var við. Áttuðum okkur ekki á að akstur og tæki bættust við reikninginn. Í raun eru svona framkvæmdir glæfraspil fyrir kaupandann. Enginn veit hvað vinnan mun kosta þótt giskað sé og áætlað og neytandi er í ansi vondri stöðu þegar búið er að inna verk af hendi og reikningur kemur með ýmsum útgjaldaliðum sem aldrei komu til tals en eru sjálfsagðir í huga iðnaðarmanna. Þá er eins gott að halda tímum til haga, skrá hvenær þeir koma og fara svo amk sé hægt að hafa hemil á þeim kostnaðarlið.  Ljóst er að verkefnið mun fara fram úr öllum kostnaðaráætlunum. Við höfum þó stillt okkur um að kaupa nýjan dyrasíma (100þús) og helluborð með viftu (720þús)…

Ferlið er á víxl að bíða eftir iðnaðarmönnum og hafa stjórn á þeim þegar þeir mæta. Sumir hafa bara engan sans fyrir hvar tenglar eiga að vera á vegg eða hvernig flísar ættu að snúa og í stað þess að bíða eða spyrjast fyrir er bara kýlt á þetta. Og engan sans heldur fyrir því að nota ferðina. Koma í smá snatt á hverjum degi í stað þess að nýta ferðina (þetta á ekki við um málarann sem notaði alltaf allan daginn). Nú eru flísalögn lokið og búið að hleypa hita á gólfið með miklum eftirgangsmunum. Rafvirki byrjaður að setja ljós í loftið og setja upp tengla en hann kemur samt ekki að klára þetta fyrr en eftir fjóra daga. Einn laugardag mætti yfirsmiður með leiser ofl og stillti upp innréttingunni og þá fór að komast mynd á þetta.

Hér má sjá stöðuna eins og hún var fyrir nokkrum dögum. Innrétting raðast inn, stofan á hvolfi og uppþvottaaðstaðan ófagra eru meðal myndefnis en það er ekkert rómantískt lengur að vaska upp í höndunum (uppþvottavél kemur til landsins eftir 4-6 vikur skv. nýjustu  upplýsingum).

Dagur 11-15

20. apríl

Dagarnir hafa runnið saman í eitt, mest hefur farið í bið eftir iðnaðarmönnum. Það sem þó er búið að gerast undanfarna daga er að stofuveggurinn fyrrum hraunaði er orðinn rennisléttur og nýmálaður og kemur mjög vel út (mynd síðar). Ofnarnir hafa verið sprautaðir og eru svo fallegir, þetta eru gamlir pottofnar með sál og sjarma sem lifnar nú við. Verkstjórinn er  búinn að semja við málarann um að lakka gluggana í stofu og eldhúsi líka enda hentugt að dunda við milli þess sem spartlið í nýja niðurtekna loftinu í eldhúsinu  (sem tók tvo menn heilan dag að setja upp) þornar.  Svo verkefnið vex og dafnar og líklega fer það fram úr fjárlögum sem var kannski það eina sem var öruggt í þessu ferli. Rafvirkinn kom þegar loftið var tilbúið og tengdi fyrir öllum fínu ljósunum. Eldhúsið fékk líka eina umferð af smarta Sæjulitnum. Loksins fengum við pípara í eldhúsið sem hefur nú hleypt yl á flottu gráu steinflísarnar 60×60 svo ráðskonan þarf ekki lengur að verða köld upp að hnjám þegar hún tiplar fram á morgnana, sýður grautinn sinn og situr við að lesa blöð eða hlusta á rás eitt á náttsloppnum.

Ráðskonan hefur slegið um sig í bráðabirgðaeldhúsinu með m.a. túnfiskpasta, indversku dahl, vegan hamborgurum, amerískum pönnukökum með berjum og súkkulaði, fersku salati með spínati ofl, falafel, grænmetissúpu, brokkólibuffum og laxi en í kvöld var bara snarl og egg enda takmörk fyrir því hvað ein kona nennir að elda á tveimur hellum og vaska allt upp í höndunum.

Hér má sjá sléttan vegginn (set betri mynd síðar), grindina í eldhúsloftinu áður en gipsplöturnar voru settar á, rörin upp úr gólfinu sem biðu píparans, flísalögn sem er langt komin en þurfti að bíða eftir píparanum og loks fína hólfið þar sem stillingin verður fyrir gólfhitann. Liturinn á veggjunum virðist vera grár á daginn en brúnn á kvöldin. Dásemd!

Dagur 10

Annar í páskum

Málari mættur. Allur dagurinn fór í að pússa, skera rönd meðfram loftplötum í stofu eftir subb sem síðasti málari skildi eftir sig…, grunna, blettaspartla og búa gluggana undir málningu. Á morgun verða ofnar sprautaðir og stóri nýspartlaði fyrrum hraunaði veggurinn málaður. Von er á rafvirkja og pípara, spennandi að sjá hvort það stenst.

Á myndunum sést langi veggurinn sem áður var hrufóttur og sprunginn en er nú sléttur eins og vatnsflötur í logni, eldhúsið nýblettað og grunnað og svo kokkaði verkstjórinn lax í gær í flóttamannabúðunum og þá var auðvitað tekin mynd.

Dagur 9

11. apríl

Málari mætir árla og gengur hratt undan honum. Búinn að mála niður stigann og vegginn með stóra málverkinu eftir hinn kunna listmann, Eirík Arnar. Við munum hengja það listaverk upp á morgun, páskadag, ásamt því að þrífa gólf og gera glugga tilbúna fyrir lökkun. Stofan verður tilbúin löngu á undan eldhúsinu því rafvirkinn er ekki til taks fyrr en á þriðjudag sem tefur alla vinnuna við loftið…

Ég sat við fræðistörf fram að hádegi, tók þá fram mitt glæsta reiðhjól og þeysti inn í Hafnarfjörð og til baka. Erfitt en hressandi. Svo ritstörf til kl 17. Veðrið var svo gott að nú eru garðhúsgögnin komin út á pall og sumarið má koma.

Dagur 8

Málari mætti kl 8 eins og um var talað og hófst strax handa. Yfirsmiður kom og eftir 5 kaffibolla og 5 sígarettur var byrjað að smíða grind fyrir niðurtekna loftið. Það er þrælavinna sem tók allan daginn. Svo var ekki hægt að halda áfram því rafvirkinn á eftir að leggja fyrir ljósunum og hann er í fríi fram á þriðjudag. Þetta er víst algengt í bransanum, að bíða eftir næsta iðnaðarmanni dögum saman. En málarinn heldur áfram að spartla (búinn úr þremur 15 l fötum), mála meðfram og undirbúa, hann er með tvo hitablásara á fullu til að þurrka. Algjör meistari.

Ég stakk af frá fræðistörfum mínum í steypurykinu um stund og gekk á Úlfarsfellið í fyrsta sinn á ævinni. 2 m fjarlægðin virt í traffíkinni þar, greinilega fleiri sem fengu þessa hugmynd í samkomubanninu.

Hér er allt á hvolfi, ekkert páskaskraut, engin páskaegg, engir túlípanar. En messan á sínum stað í útvarpinu.

 

92741153_679987819440585_6732766389334966272_n

Hörkukallar, laghentir og laglegir

92934587_885523665264984_6669483589576425472_n

Nýi liturinn, hvaða blettur er þarna í loftinu? Aldrei séð hann fyrr…

Dagur 7

Nú gengur þetta loksins aðeins hraðar. Málari mætti kl 11 á miðvikudegi, eins og hann hafði sagst gera, og var að til kl 19. Eldhúsið var heilspartlað en þar eru veggirnir með létthraunaðri áferð og stofan undirbúin en þar er einskonar marengs á heilum vegg. Við verkstjórinn vorum búin að fara í Sorpu með gömlu kerruna hans pabba sem hefur heldur betur komið að góðum notum í þessum framkvæmdum. Við vorum búin að taka niður gardínur, þjappa öllum mublum saman á einn stað í stofunni og breiða plast yfir. Sömuleiðis var plasti tjaldað yfir bókahilluna enda óþarfi að mála á bak við hana, skilst mér. Keyptar voru sjö hnausþykkar og blýþungar gipsplötur og spýtur í loftgrindina skv. fyrirmælum yfirsmiðsins. Það er nóg af handtökum og snatti þótt ekki séu iðnaðarmennirnir alltaf á staðnum. Málarinn mætti með málninguna, 60 lítra af gullfallegum lit sem Sæja stakk upp á. Hann er grábrúnn, hlýr og dökkur. Mér kom sosum ekki á óvart að hann fékk 0 atkvæði í könnun meðal smekkmanna á Snapchat en ég valdi hann samt. Honum fylgir örugglega góð tilbreyting og nýjar áskoranir fyrir alls konar smartheit.