Nú er 1. maí og skrásetjari fyrir löngu búinn að missa yfirsýnina og tímaskortur hefur komið í veg fyrir að sagan sé sögð dag frá degi. Málari hefur lokið störfum og rukkað fyrir, meira en búist var við. Áttuðum okkur ekki á að akstur og tæki bættust við reikninginn. Í raun eru svona framkvæmdir glæfraspil fyrir kaupandann. Enginn veit hvað vinnan mun kosta þótt giskað sé og áætlað og neytandi er í ansi vondri stöðu þegar búið er að inna verk af hendi og reikningur kemur með ýmsum útgjaldaliðum sem aldrei komu til tals en eru sjálfsagðir í huga iðnaðarmanna. Þá er eins gott að halda tímum til haga, skrá hvenær þeir koma og fara svo amk sé hægt að hafa hemil á þeim kostnaðarlið. Ljóst er að verkefnið mun fara fram úr öllum kostnaðaráætlunum. Við höfum þó stillt okkur um að kaupa nýjan dyrasíma (100þús) og helluborð með viftu (720þús)…
Ferlið er á víxl að bíða eftir iðnaðarmönnum og hafa stjórn á þeim þegar þeir mæta. Sumir hafa bara engan sans fyrir hvar tenglar eiga að vera á vegg eða hvernig flísar ættu að snúa og í stað þess að bíða eða spyrjast fyrir er bara kýlt á þetta. Og engan sans heldur fyrir því að nota ferðina. Koma í smá snatt á hverjum degi í stað þess að nýta ferðina (þetta á ekki við um málarann sem notaði alltaf allan daginn). Nú eru flísalögn lokið og búið að hleypa hita á gólfið með miklum eftirgangsmunum. Rafvirki byrjaður að setja ljós í loftið og setja upp tengla en hann kemur samt ekki að klára þetta fyrr en eftir fjóra daga. Einn laugardag mætti yfirsmiður með leiser ofl og stillti upp innréttingunni og þá fór að komast mynd á þetta.
Hér má sjá stöðuna eins og hún var fyrir nokkrum dögum. Innrétting raðast inn, stofan á hvolfi og uppþvottaaðstaðan ófagra eru meðal myndefnis en það er ekkert rómantískt lengur að vaska upp í höndunum (uppþvottavél kemur til landsins eftir 4-6 vikur skv. nýjustu upplýsingum).
elskurnar 🙂 það þarf að halda fast í iðnaðarmannaspottann, annars raknar buddan upp! en þetta verður æði!!!