20. júní, fjórum mánuðum eftir að framkvæmdir hófust…
Uppþvottavélin kom loksins til lands þrátt fyrir gjaldeyrishöft, brælu og covid. Vænkaðist hagur okkar verulega við það og óhætt að segja að hún sé besti vinur mannsins. Þó þýðir það að sumt er þvegið í vaskinum í þvottahúsinu og hitt fer í vélina og vatnsglas þarf að sækja á baðið. Svo er ég byrjuð að raða í skúffur og skápa í innréttingunni og þá kemur oft upp sú staða að potturinn er í eldhúsinu, hafragrjónin í Inguherbergi og vatnið á baðinu. Og þegar ég sest með grautinn minn og lýsið er skeiðin í skúffu í eldhúsinu. En borðplatan sem allt veltur á er væntanleg 29. júní svo brátt tekur þetta böl nú enda.
Ofninn nýi frá AEG/Ormsson rokkar þvílíkt! Hann verður heitur á örskotsstundu og hitar allt jafnt og vel. Hef bakað pizzur og eina köku í honum og hún lukkaðist stórvel. Mitt landsfræga lasagna lukkaðist sömuleiðis frábærlega. Hér hafa sko verið haldin fámenn en fjörleg matar- og kaffiboð þrátt fyrir frumstæð skilyrði. Ofninum fylgdu leiðbeiningar á 12 tungumálum en engar á ensku. Einn bæklingur var á dönsku en allar stillingar á ofninum eru á ensku. Svo það er bara húsmóðurhjartað sem finnur hvernig er best að gera þetta, ég hef enga þolinmæði í að horfa á skýringarmyndbönd á youtube, það læt ég Binna mínum eftir.
Veggljós í eldhús bíður uppsetningar, loftljós keypti ég af Sæju arkitekt, sem hefur tekið að sér að hanna forstofu og þvottahús í haust… svo ekki erum við af baki dottin.
Þetta lítur mjög vel út þótt ég segi sjálf frá, sérstaklega þegar límmiðarnir verða teknir af
Sandblástursfilmuna plokkaði ég af með blóði, svita og tárum. Hún hefur verið á síðan 2005 og búin að þjóna sínu hlutverki
Uppþvottavélin bjargaði málunum
Súkkulaðikakan góða úr nýja ofninum
Dásemd ❤ guð blessi allar uppþvottavélar heimsins!