Yfir Hvíldardögum, fyrstu skáldsögu Braga Ólafssonar, hvílir einstök yfirvegun og undraverð rósemi. Á tæpum tvö hundruð blaðsíðum er lýst rúmri viku í lífi þrjátíu og fimm ára gamals manns sem býr einn í Reykjavík og hefur verið skikkaður í sumarfrí í þrjá mánuði. Sögumanni, sem allan tímann er nafnlaus, gefst nú nægur tími til að gera nákvæmlega það sem honum sýnist. Framundan eru tímamót, endurfundir gagnfræðaskólaárgangsins, og drjúgur tími fer í að undirbúa sig fyrir það. Hann íhugar að nota frídagana m.a. til að skreppa upp í Heiðmörk með nesti og njóta náttúrufegurðarinnar þar. Bíllinn bilar, síminn hringir og allt í einu hefur hann svo mikið að gera að hann veit ekkert hvernig hann á að haga sér.
Líf þessa manns hefur hingað til einkennst af vana, einveru og sjúklegri öryggisþörf. Strax í byrjun bókar er gefið í skyn að líf hans muni taka breytingum. Honum finnst sjálfum eins og margt sé að losna eða liðast í sundur í kringum hann, eitthvað sem ekki sé hægt að tjasla saman aftur (bls. 93). Sögumaðurinn er einfari og nörd. Honum gengur frekar illa að eiga samskipti við aðra, orð og tillit trufla hann. Líf hans er eins og kvikmynd sem er sýnd hægt, smávægilegustu ákvarðanir vefjast fyrir honum eða þeim er skotið endalaust á frest. Í huga hans kvikna allskonar myndir af minnsta tilefni, ímyndunaraflið leikur lausum hala og gamlar minningar streyma fram. Hann veltir fyrir sér undarlegustu hlutum, s.s. merkingu tímans, að fólk sé aldrei óhult, hvernig komið verði að manni dauðum o. s. frv. Honum finnst hann vera einn í heiminum og að hann sé stundum ekki raunverulegur, einkum ef hann er innan um annað fólk (58). Ósköp er hann vinafár, á sunnudögum klukkan tvö heimsækir hann alltaf kunningja sinn Hall en samband þeirra er ekki náið og samræðurnar ganga stirðlega. Stundum heimsækir hann Dóru frænku sína og les blöðin hjá henni. Móður sína og systur kærir hann sig ekki um að heimsækja og vill heldur ekki að þær heimsæki hann. Hann er nægjusamur í einsemd sinni en þegar hann lítur yfir farinn veg rennur upp fyrir honum að hann hefur ekki afrekað neitt, ekki skilið neitt eftir sig, ekki skapað sér nafn og aldrei sigrast á neinu. Til að finna hvort hann sé yfrleitt til hugleiðir hann að láta sig hverfa.
Yrkisefni Hvíldardaga eru einsemd og öryggisleysi vorra tíma. Sögumaðurinn nær undarlegum tökum á manni, hann er vinalegur og brjóstumkennanlegur, einangraður í þröngum heimi sem er að hruni kominn. Hvíldardagar er ótrúlega mögnuð og seiðandi bók. Bygging sögunnar er þaulhugsuð, kyrrð og fegurð ríkja yfir stíl, orðavali og efnistökum í þessari frábæru skáldsögu.
„Ég hef aldrei þekkt manneskju sem ég veit að er einmana“ segir sögumaður (57)með ísmeygilegri íroníu. Allar persónurnar eru einmana, búa einar og umgangast fáa. Erindi höfundar við lesendur er tímabært, á dögum sífellt meiri hraða og tækni eykst fjarlægð milli fólks og viðkvæmir hugsuðir, nördar og furðufuglar eins og sögumaður Hvíldardaga verða utanveltu. Lík þeirra finnst kannski seint og síðar meir í Heiðmörk.
