Bragi Ólafsson

Gamlir ritdómar

Ég rakst á ritdóma frá 1999 í iðrum tölvunnar, m.a. fyrsta ritdóminn sem ég skrifaði. Silja Aðalsteinsdóttir var þá ritstjóri menningarblaðs DV, eldklár og frábær kona, hún gaf mér tækifæri og kom mér á kortið. Dómarnir eru undir Bókmenntagagnrýni hér á síðunni.

Arto Paasilinna – Ár hérans1

Páll Pálsson – Burðargjald greitt

Björn Th. Björnsson – Hlaðhamar

Bragi Ólafsson – Hvíldardagar

Hrafn Jökulsson – Miklu meira en mest

Eysteinn Björnsson – Í skugga heimsins

Páll Hersteinsson – Línur

Ernest Hemingway – Satt við fyrstu sýn

Árni Bergmann – Sægreifi deyr

Elín Ebba Guðmundsdóttir – Ysta brún

Fjarveran

Forlagið

Forlagið

Nördaþríleiknum hans Braga Ólafssonar lýkur nú með Fjarverunni (2012) að talið er. Aðalpersónan Ármann Valur tengist Gæludýrunum  frá 2001 og kannast við fólkið úr Sendiherranum (2006) og Handritinu (2010). Ármann V er prófarkarlesari og fær próförk að sögu þar sem sagt er frá atburðum sem gerðust í Gæludýrunum og honum er þar sjálfum lýst af gestgjafanum sem var reyndar fjarverandi. Sjálfur er hann svo að skrifa bók undir dulnefni. Hann stendur í stappi við íbúana í stigaganginum, hittir vini sína og kunningja en reynir líka að forðast þá því helst vill hann vera í friði. Hann klúðrar sambandi við dóttur sína, skreppur til Akureyrar, fantaserar um heillandi konu en kemur sér ekki að verki, gruflar í gömlu sakamáli o.fl. Skáldsagnavefur Braga er með þræði í ýmsar áttir, í algerum hægagangi líður lífið áfram í sérstöku raunsæi sínu, engin stórátök verða nema þegar einhver deyr eða dettur í það. Stíllinn er ljúfur og fallegur og fyndinn, sagan þokast áfram, persónurnar spjalla, fá sér brauðsneið, koma séri í klípu og neyðarlegar aðstæður eða skrifa bréf í rólegheitum. Bragi hefur löngum glímt við tímann í verkum sínum og svo er einnig hér. Tíminn fer í hringi, sögumaður tínir til ýmsar upplýsingar sem munu koma fram síðar og tengir sig við tíma sem hann hefur alvald á. Sérstakt er að sögupersónurnar eru komnar af léttasta skeiði eða á sjötugsaldur en ekki er úr þeim allur kraftur því sjálfur segir höfundurinn í Víðsjá að hann sé ekki alveg búinn að segja skilið við þær. Hann er þó búinn að drepa nokkrar og er dauðinn í sögunni illa lyktandi, einmanalegur og pínlegur. Það hlýtur að vera yndislegt að skrifa svona bók, nostra við hana, vefa hana úr gömlu og nýju efni, tengja og pæla og láta fólk hrekjast og mæta hversdagslegum örlögum sínum. Og mér fannst yndislegt að lesa þessa bók þótt örlög Ármanns og Estherar séu býsna nöturleg en svona er lífið – og dauðinn.