Heilsan fer hægt batnandi. Nú hef ég þegar misst af tveimur öflugum leikfimitímum í átakinu mikla í Hreyfingu. Í fyrsta tímanum var ég vigtuð og fitumæld og í ljós kom að ég er of feit! Aukaholdið framan á maganum sem hafði smátt og smátt sallast á mig í góðærinu mældist 29 en á að vera 27. Svo nú verður tekið á því með stífum æfingum, stefnt á stinnan maga, í nýju puma-leikfimibuxunum sem eru æðislegar.
Meðan ég hef legið í kvefpestinni safnaði ég saman nokkrum myndum sem Brynjar tók og raðaði þeim inn í ferðasögu sl. sumars sem öllum sem áhuga hafa er velkomið að glugga í (Ferðasögur). Þar segir af sólríkri húsbílareisu um Vestfirði og Snæfellsnes sl. sumar með hund og myndavél.
Þá er húsbíllinn kominn í geymslu og veturinn má halda innreið sína. Þessi mynd var tekin um borð í sumar, ansi hreint huggulegt hjá okkur.
Haustið nálgast og síðasta húsbílareisan í ár er á dagskránni. Svo verður bíllinn góði settur í þurra og hlýja geymslu og bíður þar þangað til við sækjum hann næsta vor, hressan og sprækan, og höldum á vit nýrra ævintýra.

Þar er heit laug sem er sjálfstætt starfandi. Ekkert þrifa- eða klórvesen þar, engar sturtur, búningsherbergi bara útveggir. En voða notalegt að dýfa sér í hana ef ónæmiskerfið er í lagi.
Á Lambeyri við Tálknafjörð er gömul hvalstöð, hlaðin úr múrsteinum, og standa 2-3 útveggir uppi ásamt heljarmiklum strompi. Við gistum þar eina nótt (fengum til þess leyfi landeiganda en í raun er öllum heimil för um annars manns land og að tjalda til einnar nætur, skv. lögum). Brynjar tók þessa mynd af okkur Arwen, á móti sól með flassi. Daginn eftir hittum við Stefán Kristjánsson á Innari-Lambeyri, einsetumann og sérvitring, og áttum við hann fróðlegt spjall. Hann hefur m.a. sett subaruvél í trabant og hækkað hann upp, þessi bíll er vel gangfær en hefur ekkert verið hreyfður í sumar því það er þrastarhreiður í vélinni. Hann smíðaði hús sitt sjálfur og er að gera upp bíla og báta auk þess sem hann dútlar ýmislegt inni við, hugleiðir og spekúlerar. Hann hefur dregið sig í hlé frá skarkala heimsins, séð ljósið, öðlast heimspekilega ró og innri frið. Kannski verður maður sjálfur einhvern tímann svona þroskaður.
Hrafnseyri við Arnarfjörð heitir eftir Hrafni Sveinbjarnarsyni sem oft hefur verið nefndur fyrsti læknir á Íslandi (veginn 1213). Þar er 