Tilfinningalegt samband foreldra og barna getur verið mjög flókið og um það hafa ótal skáldsögur verið skrifaðar. Klassískt dæmi er óheilbrigt samband Sölku Völku við móður sína þar sem dóttirin var bæði sterkari og sjálfstæðari en móðirin, og frægir eru komplexarnir sem þjáðu Franz Kafka vegna ástleysis föður hans. Hér er svo sannarlega óþrjótandi efniviður.
Anne B. Ragde er kunnur norskur rithöfundur sem hefur skrifað dramatískar og grípandi sögur um tilfinningasambönd í fjölskyldum, einkum út frá femínísku sjónarhorni. Amma hennar hefur orðið drjúgt söguefni en hún var þversagnakennd, illskeytt og eigingjörn kona sem gerði dóttur sinni lífið leitt. Atlætið skilar sér áfram til næstu kynslóðar og Ragde þurfti að þola margt í samskiptum við móður sína sem bjó fráskilin með tvær dætur í Þrándheimi um miðja síðustu öld. Í nýrri bók, Ég á teppi í þúsund litum, fjallar Ragde um lífsbaráttu hennar en um leið kynnist hún sjálfri sér, skoðar uppeldi sitt og fjölskyldusögu og sér bernskuminningar sínar í nýju ljósi. Þetta er persónuleg og sjálfsævisöguleg bók, tilfinningarík og sár á köflum en umfram allt falleg og sáttfús.
Sennilega geta allar mæður gert langan lista yfir allt sem þær hafa sópað undir teppið eða viljað að betur mætti fara í uppeldi barna sinna. Móðir Ragde er hörkukelling, dugnaðarforkur og snilldarkokkur og þrælfyndin í sérvisku sinni. Faðirinn yfirgaf þær mægður sem bjuggu við þröngan kost og áttu stundum ekki fyrir mat en aldrei gafst hún upp heldur var eins og klettur í hafinu. En hún átti afar erfitt með að sýna dætrum sínum ástríki. Allt sitt líf fann hún fyrir „óræðri þrá“ sem hún aldrei fékk uppfyllta, hún þráði að komast burt og eiga annað líf, byrja upp á nýtt (239). Af því varð aldrei, vinnan í plastpokaverksmiðjunni beið hennar ásamt þvottum og matseld. Dregin er upp mynd af sterkri konu sem hafði góðar gáfur og marga hæfileika sem ekki fengu að njóta sín.
Einn þráður bókarinnar snýst um elli og veikindi móðurinnar og þær tilfinningar sem vakna þegar líkaminn fer að gefa sig, minnið verður gloppótt og fólk verður óttaslegið, einmana og hjálparvana. Og þegar kerfið bregst, þegar mamma er ekki lengur manneskja heldur sjúklingur, hluti af kerfi, „eins konar ekki-manneskja“ (134). Þess má geta að Ragde og systir hennar ollu fjölmiðlafári í Noregi þegar þær í blaðagrein afhjúpuðu vanrækslu og vondan aðbúnað aldraðrar móður sinnar á undirmönnuðu hjúkrunarheimili í Ósló.
Silja Aðalsteinsdóttir þýðir bókina afbragðsvel, hlýja, húmor og viðkvæmni frumtextans skila sér algjörlega til lesandans. Titill bókarinnar, Ég á teppi í þúsund litum, á rætur að rekja til ummæla móður Ragde undir það síðasta, en hún ímyndaði sér teppi sem hún gæti sveipað um sig og horfið þannig frá þjáningum sínum. Ævi hennar og örlög minna okkur á þær fórnir sem formæður okkar færðu og hvað við eigum þeim mikið að þakka.