Silja Aðalsteinsdóttir

Fram þjáðir menn í lekum bússum

Hreistur_kapa_prent.inddEf nefna ætti einhvern sem hefur gert íslenskum farandverkamanni almennileg skil í ljóði og myndum, kemur Bubbi Morthens auðvitað fyrst upp í hugann. Töffarinn sem birtist í sjávarþorpinu troðfullur af dópi og hassi og þrælaði sólarhringum saman í akkorði við fiskvinnu. Hann tilheyrði rótlausum verkalýð sem fór pláss úr plássi þegar vantaði fólk í uppgripavinnu í frystihúsum, loðnubræðslum, á togurum eða dagróðrabátum; ílentist hvergi, passaði hvergi. Þetta var áður en fiskveiðikvótinn varð eign sægreifanna með þeim afleiðingum sem allir þekkja.

Farandverkamaðurinn og minningar úr sögu þjóðar eru efniviður ljóðabókar Bubba sem nefnist Hreistur. Bókin sem er tileinkuð fóstru hans og helsta bókmenntapáfa landsins, Silju (Aðalsteinsdóttur) inniheldur 69 nafnlaus og númeruð ljóð og umgjörð þeirra er sjö vökunætur þar sem fortíð vitjar mælandans sem „flæktur í vetrarkvíða“ (1) „fangar ljósfælin botndýr hugans“ (35).

Já, frystihúsið, færibandið og farandverkamaðurinn, allt er það nú gott og blessað en höfum við ekki heyrt þetta allt áður hjá höfundinum? Jú, hrognin eru að koma og ef ég drukkna, drukkna í nótt skjóta upp kolli í Hreistri, þetta þema hefur fylgt Bubba frá upphafi ferils hans seint á síðustu öld og er vörumerki hans. En einhvern veginn hefur hann alltaf lag á að endurnýja sig, koma ferskur inn. Og þetta er harðvítugt efni sem er ekki tæmt, bitur reynsla sem enn á eftir að vinna úr. Vísanir í fyrri verk búa til stemninguna, lesandinn setur sig í stellingar, kominn aftur í tímann, mættur upp á verbúð eftir langa vakt í hvítum stuttermabol með hlandvolgt vokda í kók.

Fiskverkafólkið hírist í fjórtán köldum og subbulegum herbergjum á verbúðinni sem „lykta af fiski, brundi, slori, rakspíra“ (1). Þetta er munaðarlaust, menntunarlaust og skeytingarlaust fólk (3) sem vekur hálfgerðan óhug meðal þorpsbúanna. Sjávarplássin eru í uppgangi á þessum tíma, símstöðin og kaupfélagið á sínum stað, það er næg atvinna og útgerðin blómstrar og það er ball í landlegum. En afturhvarf til hreistraðrar fortíðar er hvorki nostalgískt né fegrað. Þetta er harður heimur sem einkennist m.a. af ofbeldi og vímuefnaneyslu, eins og sjá má í ljóði sem dregur upp mynd af hópnauðgun á verbúðinni; atvik sem brenndi sig í minni ljóðmælandans. Heyrum skáldið fara með ljóð nr 27.

Bubbi les ljóðið 11.23-13.02        http://www.ruv.is/frett/eg-vard-vitni-ad-brutal-naudgun

Ljóðið er grípandi og áhrifamikið. Bubbi hefur sjálfur valið það til upplestrar víða enda smellpassar það inn í þá vaxandi umræðu um kynferðisofbeldi fyrr og nú sem á sér stað í samfélaginu. Í ljóðinu er lýst hinum sundurleita hópi fólks sem dvelur á verbúðinni; krúttlegur prófessor og kona sem segir sögur við „varðeld fiskanna“ en skrýmsli liggur í leyni; ofbeldi á sér stað, eins og „fjólublátt armband“ ber vott um; það er glæpur í gangi og það að hafa ekkert aðhafst hvílir á samviskunni árum saman.

Myndmálið úr mal Bubba samanstendur oftlega af kunnuglegum eignarfallssamsetningum, eins og „ískaldir fingur vetrarins“ og „langir armar myrkursins“. En í Hreistri eru líka ljóðmyndir sem ganga vel upp og eru nýmeti, hressilega jarðtengt og alveg séríslenskt. Ég tíni hér til nokkrar slitrur:

„langir fölgrænir veggir með / blóðblettum vínblettum leifum af uppköstum / voru okkar kjarval (1)

stelpurnar / allar þessar sölkur / með hníf í hendi og hárið frjálst (15)

í þúsund fokkera fjarlægð

var borgin sem við höfðum flúið

(40)

ríkistónlistin barst frá hátalara sem hékk niður úr loftinu

torfbæjarraddir fluttu dánartilkynningar

og jarðarförin var fyrr en varði komin inn til okkar

(40)

fram þjáðir menn í lekum bússum

(53)

sjóveikt viðundur

í óráðinu ljómaði hafið í sökkvandi raunveruleika

spýjan skall á gólfið

hálfmeltar hugmyndir um sjómennskuna

skoluðust eftir þilfari fyrir borð

(62)

Ljóð nr 16 finnst mér gott, líka nr 40, 44, 55. Og að lesa nr 65 er eins og að koma í heimahöfn, það er framlenging á frægasta lagi Bubba sem gaulað er í öllum betri partýum. Hreistur boðar ekki nýjungar í skáldskap, það eru engin átök við form eða efni en vel er farið með. Hreistur er heldur ekki pólitísk bók, það er engin reiði eða ádeila á ferð í þessu uppgjöri heldur stafar einlægni af ljóðunum og jafnvel örlar á viðkvæmni. Hörkuleg ímynd töffarans með stálið og hnífinn hefur dignað og velkst af boðaföllum í lífsins ólgusjó.

Alexandra Buhl annaðist hönnun og umbrot Hreisturs sem er alltof fíngert og nostursamlegt og í hróplegu ósamræmi við hrátt og blautt innihaldið. Og ég verð að segja, sem fyrrum frystihúsgella, að ég hef á tilfinningunni að hreisturgrafíkin sem prýðir bæði bókakápu og blaðsíðurnar snúi öfugt.

 

Víðsjá, 7. sept 2017: http://www.ruv.is/frett/adeilunni-skipt-ut-fyrir-einlaega-vidkvaemni

 

 

Fórnir formæðranna

Tilfinningalegt samband foreldra og barna getur verið mjög flókið og um það hafa ótal skáldsögur verið skrifaðar. Klassískt dæmi er óheilbrigt samband Sölku Völku við móður sína þar sem dóttirin var bæði sterkari og sjálfstæðari en móðirin, og frægir eru komplexarnir sem þjáðu Franz Kafka vegna ástleysis föður hans. Hér er svo sannarlega óþrjótandi efniviður.

Eg_a_teppi_i_thusundlitum-175x275

Anne B. Ragde er kunnur norskur rithöfundur sem hefur skrifað dramatískar og grípandi sögur um tilfinningasambönd í fjölskyldum, einkum út frá femínísku sjónarhorni. Amma hennar hefur orðið drjúgt söguefni en hún var þversagnakennd, illskeytt og eigingjörn kona sem gerði dóttur sinni lífið leitt. Atlætið skilar sér áfram til næstu kynslóðar og Ragde þurfti að þola margt í samskiptum við móður sína sem bjó fráskilin með tvær dætur í Þrándheimi um miðja síðustu öld. Í nýrri bók, Ég á teppi í þúsund litum, fjallar Ragde um lífsbaráttu hennar en um leið kynnist hún sjálfri sér, skoðar uppeldi sitt og fjölskyldusögu og sér bernskuminningar sínar í nýju ljósi. Þetta er persónuleg og sjálfsævisöguleg bók, tilfinningarík og sár á köflum en umfram allt falleg og sáttfús.

Sennilega geta allar mæður gert langan lista yfir allt sem þær hafa sópað undir teppið eða viljað að betur mætti fara í uppeldi barna sinna. Móðir Ragde er hörkukelling, dugnaðarforkur og snilldarkokkur og þrælfyndin í sérvisku sinni. Faðirinn yfirgaf þær mægður sem bjuggu við þröngan kost og áttu stundum ekki fyrir mat en aldrei gafst hún upp heldur var eins og klettur í hafinu. En hún átti afar erfitt með að sýna dætrum sínum ástríki. Allt sitt líf fann hún fyrir „óræðri þrá“ sem hún aldrei fékk uppfyllta, hún þráði að komast burt og eiga annað líf, byrja upp á nýtt (239). Af því varð aldrei, vinnan í plastpokaverksmiðjunni beið hennar ásamt þvottum og matseld. Dregin er upp mynd af sterkri konu sem hafði góðar gáfur og marga hæfileika sem ekki fengu að njóta sín.

Einn þráður bókarinnar snýst um elli og veikindi móðurinnar og þær tilfinningar sem vakna þegar líkaminn fer að gefa sig, minnið verður gloppótt og fólk verður óttaslegið, einmana og hjálparvana. Og þegar kerfið bregst, þegar mamma er ekki lengur manneskja heldur sjúklingur, hluti af kerfi, „eins konar ekki-manneskja“ (134). Þess má geta að Ragde og systir hennar ollu fjölmiðlafári í Noregi þegar þær í blaðagrein afhjúpuðu vanrækslu og vondan aðbúnað aldraðrar móður sinnar á undirmönnuðu hjúkrunarheimili í Ósló.

Silja Aðalsteinsdóttir þýðir bókina afbragðsvel, hlýja, húmor og viðkvæmni frumtextans skila sér algjörlega til lesandans. Titill bókarinnar, Ég á teppi í þúsund litum, á rætur að rekja til ummæla móður Ragde undir það síðasta, en hún ímyndaði sér teppi sem hún gæti sveipað um sig og horfið þannig frá þjáningum sínum. Ævi hennar og örlög minna okkur á þær fórnir sem formæður okkar færðu og hvað við eigum þeim mikið að þakka.

Birt í Kvennablaðinu, 15. ágúst 2015