heimildaþættir

18. öldin með Pétri Gunnarssyni

Loksins er verið að fjalla um brot úr Íslandssögunni í vönduðum heimildaþáttum í sjónvarpi allra landsmanna. Þættir Péturs Gunnarssonar á rúv um 18. öldina eru stórskemmtilegir, fróðlegir og ljóðrænir en líka beittir. Þetta timabil er svo mergjað og fullt af efni til. Á þessum tíma geysa Móðuharðindin, sjúkdómar, fátækt og neyð hrjá landsmenn auk spillingar og einokunar. Myndefni er af skornum skammti frá þessum tíma en í þáttunum er veruleg hugmyndaauðgi hvað það varðar. Handrit og efnistök eru til fyrirmyndar og mjög skemmtilega staðfært til samtímans. Pétur hikar ekki við að taka upp þráðinn frá hinum frægu sjónvarpsþáttum Baldurs Hermannssonar um Þjóð í hlekkjum hugarfarsins (1993) þar sem kvarnaðist verulega úr hetjulegri ímynd íslenskra stórbænda sem héldu vinnufólki sínu og leiguliðum í ánauð. Pétur dregur ekki fjöður yfir hvernig auðmannablokkir átjándu aldar koma ár sinni fyrir borð og fjallar raunsæislega um spillingu og hagsmunapot embættismanna og landeigenda. Það væri auðvitað snilld að gera þætti um t.d. 16., 17. og 19. öld sem eru líka stórmerkileg tímabil. Pétur er þægilegur sagnamaður eins og við er að búast og ást hans á viðfangsefninu er smitandi. Hann tekur sig einstaklega vel út í flíspeysunni, hvort sem hann er staddur í dimmum torfkofa eða í sölum glæstra halla í Köbenhavn.