18. öld

Herjans tussa á kletti

Látra-Björg (1716-1784) var hörkukelling sem sótti sjó og tók á móti börnum, orti fleygar vísur og lagðist í flakk. Hún er ein af fáum konum frá 18. öld sem urðu nafnkunnar en margt það sem konur ortu þá og rituðu hefur glatast. Björg kemur við sögu í nokkrum nýlegum skáldverkum og heimildamynd er í smíðum um hana. Hermann Stefánsson gerir Björgu að aðalpersónu í nýrri skáldsögu sinni, Bjargræði, og segir frá hinstu kaupstaðarferð hennar.

15046235_10154722000288390_442348561_n-png

Sagan af Björgu gerist í nútímanum, á kaffihúsi í miðbæ Reykjavíkur sem hún kallar„rass veraldar“ (12). Þangað hefur Tómas, tuttugustu aldar líkkistusmiður, dregið Björgu nauðuga til að fá hjá henni ráð. Hún lætur gamminn geisa yfir kaffinu um klerka og hrokafulla valdsmenn, duglausar ríkisstjórnir, homma og túrista; tengslaleysi, ástleysi og áhugaleysi í nútímanum og hvernig fólk hefur tapað tengingunni við náttúruna; orðhvöss og napuryrt sem fyrr. Já, það stendur út úr henni blábunan, eins og hún segir iðulega í bókinni.

Mergjaðir tímar

Björg fæddist fyrir réttum þrjú hundruð árum, ólst upp hjá vandalausum á Látrum við sult og seyru og fór ung til sjós. Hún var harðdugleg og fékk sama hlut aflans og karlar, sem þótti tíðindum sæta. Oft var illt orð lagt til hennar, hún jafnvel þjófkennd og grunuð um galdra. Hún lagðist í flakk og fann á eigin skinni að það er „óbrigðult mæliker á hvert samfélag hvernig komið er fram við umrenninga“ (51).  Björg var uppi á mergjuðum tímum í Íslandssögunni þegar djöfullinn sat um sálina, huldufólk bjó í steinum, orðin höfðu magn og jurtir lækningamátt. Og hún var barn síns tíma: „ég er orðanna, ekki skilgreininganna, galdursins og ekki vísindanna“ (29).

Hofmóðugir gikkir

Magnús Stephensen, embættismaður og ríkisbubbi á átjándu öld, sem hataðist við alþýðukveðskap, er jafnan talinn helsti boðberi fræðslustefnu sem kallast upplýsing hér á landi. Efst á stefnuskránni var að bægja burt myrkri hjátrúar og fáfræði með ljós skynseminnar að vopni. Viðhorf almúgans til framfarabröltsins í forsprökkum upplýsingarinnar birtist vel hjá Björgu. Hún getur ekki fallist á að hafa fálmað í myrkri alla sína tíð og að lausnina við öllum vanda sé að finna í endalausum umbótum og hofmóðugri upplýsingu – hún er jafn svöng og fátæk fyrir því. Það eina sem hún fær að kenna á er hroki, valdníðsla og lygi (151-152). Björg rís gegn valdinu og gengur hnakkakert móti straumnum í  samfélaginu ef því er að skipta:

Þó að gæfan sé mér mót
og mig í saurinn þrykki
get ég ekki heiðrað hót
hofmóðuga gikki

(239)

„Hvílíkt þvaður“

Sjónarhorn sögunnar er frumlega útfært. Björg masar allan tímann en Tómas kemst aldrei að. Hún hefur yfirsýnina, alla þræði í hendi sér, þekkir fortíð og framtíð, allar hugsanir og þrár. Þetta er einræða þar sem talað er við 2. persónu, erfiður frásagnarháttur sem er örsjaldan notaður og því sérlega gaman þegar svo vel tekst til eins og í þessu verki.

Orðræða Bjargar einkennist af innibyrgðri sorg og reiði.  Hún verið rægð, útilokuð og hrakin allt sitt líf. Ekki er hún sátt við skrif Tómasar Guðmundssonar, skálds, um sig í Konum og kraftaskáldum, þar sem segir að hún hafi mótast af ástarsorg: „hvílíkt þvaður, melódrama úr froðusnakki, hvílíkur hroki gagnvart liðinni tíð“ (30). Og aðrir fræðimenn sem um hana hafa fjallað fá einnig makið um bakið. Hún getur þó ekki verið annað en ánægð með Hermann Stefánsson sem dregur hér upp fádæma skemmtilega mynd af henni.

Fótbrotinn köttur

Málfar Bjargar er kröftugt, myndrænt, meinfyndið og fyrnt, stuðlað og taktfast, heimspekilegt (hávaxið fólk stendur nær himinum, 35); ljóðrænt (sinugult sumartungl, 42); og fyndið („þar sem var svo þýft að eitt sinn fótbrotnaði þar köttur,“ 43). Það er hrein unun að lesa þennan texta. Og það lýstur einhverju fallegu saman í huga lesandans þegar notuð eru 18. aldar orð og hugtök til að lýsa nútímanum; bera t.d. saman kaffihús og baðstofu og stöðu útigangsmanna fyrr og nú. Orðfærið er dillandi gamaldags, greinilega grafið upp úr gulnuðum skjölum: „Þannegin, óekkí, læknirnarnir, einnegin, spesímen og dokúment…“.  Björg tekur fyrir helstu búsvæði nútímamanna (200) með aðferðum sem minna á Ferðabók Eggerts og Bjarna þar sem íbúar hvers landshluta fá lyndiseinkunn; stórskemmtilegt er t.d. hvernig helstu hverfin í Reykjavík koma Björgu fyrir sjónir og vei þeim bjálfum sem búa í Kópavogi eða Garðabæ!

Langanes er ljótur tangi

Björg var þjóðþekkt fyrir að yrkja beinskeytt kvæði um bæi sem hún kom á þegar hún var á flakki og fékk misjafnar viðtökur, s.s. vísuna landsfrægu: „Langanes er ljótur tangi…“. Víða eru kunn kvæði Bjargar felld smekklega inn í söguna og einnig er ort í anda hennar:

Hér eru menn með flírugt fas
firrtir dagsins striti
vaða elg með argaþras
engu þó af viti
ráfa í svefni um rótlaust líf
rata hvergi en dorma
iðka mont og kvart og kíf
klína sig við storma
í vatnsglösum og vælið þý
væmna kyrjar sálma
um blýþungt fiður, fiðrað blý
en fúlir hundar mjálma…

(50-51)

Listilega gert

„Sannleikurinn er mín íþrótt, kúgandi valdið fjandmaðurinn, stuðlarnir mitt lífsmagn og rímið mitt skjól (37), segir Björg borubrött. Bjargræði er skáldsaga um skáldkonu og skáldskap og hún fjallar líka um vald og ást og pólitík; helstu drifkrafta mannlegrar tilveru á öllum tímum. Nútíminn er skoðaður í spegli fortíðar og það hallar verulega á „nútíðarmennin“ sem þvælast dekruð og þýlynd með sjálfustöng í þunnildislegu borgartildri og vita hvorki í þennan heim né annan.

Og á meðan bunan stendur út úr Björgu, fer einnig fram sögu af ástarraunum Tómasar. Þannig tala aldir og kyn saman um ástina, hið sígilda yrkisefni, sem breytist lítið í tímans rás. Björg vandar honum ekki kveðjurnar þegar hann klúðrar sínum ástamálum hrapallega:

„Tómas, þú ert helvítis taðsekkur, herjans tussa á kletti, galapín og gorvambarhaus, ég hef megnustu skömm á þér, guddilon, hérvillingur, hémóna og geðluðrunnar guddilon og vesalingur og bjálfi“ (141).

Það kemur í ljós undir lok sögunnar að Látra-Björg hvílir ekki í friði því hún á erindi við Tómas, líkt og fortíðin á alltaf erindi við nútímann. Bjargræði er listilega skrifað hjá Hermanni Stefánssyni, sama hvar gripið er niður.

Bókaútgáfan Sæmundur, 2016

307 bls með eftirmála

 

Birt í Kvennablaðinu, 29. nóv. 2016

Napóleon norðursins. Um Íslands eina kóng

Átjánda öldin hefur löngum verið talin eitt mesta hörmungatímabil í sögu Íslands. Náttúruhamfarir, farsóttir, einokun og stéttskipt samfélag einkenndu tímabilið og mesta furða að landsmenn skuli ekki barasta hafa geispað golunni, allir með tölu. En þeir þrjóskuðust við, þá eins og nú, og hjörðu áfram í sárri fátækt, eymd og volæði. En þrátt fyrir allt gerðist það á þessum tíma að hugmyndir um sögulegan samtíma og einstaklingsvitund brutust fram og róttækar breytingar urðu á efni og formi bókmenntanna.

Þegar Jörgen Jörgensen, nefndur Jörundur hundadagakonungur, kom til Íslands sumarið 1809 í viðskiptaerindum, var hér heldur dauflegt um að litast. Í Reykjavík bjuggu um 400 manns og var heldur lágt á þeim risið. Íslendingar þorðu ekki að eiga vöruskipti við Jörund og félaga hans vegna einokunar Dana, svo hann hreinlega hrifsaði völdin af stiftamtmanni og lýsti því yfir að dönsk yfirráð væru fallin úr gildi.

Í tvo mánuði ríkti hann yfir landinu, gaf út tilskipanir á báða bóga, veitti föngum sakaruppgift og strikaði út skuldir eins og enginn væri morgundagurinn. Þessu stutta blómaskeiði lauk þegar hann var snautlega settur af og þar réðu gróðasjónarmið einnig för ásamt undirliggjandi ótta valdhafa við almenna uppreisn og frekari byltingu.

Ekki ber öllum saman um að þessi maður sé Jörgen Jörgensen. Önnur mynd og óhuggulegri var til á Þjóðminjasafni Íslands (Þjms. 18974 / MMS 18974) en hefur ekki sést lengi.

Einar Már Guðmundsson fjallar um Jörund  í nýjustu skáldsögu sinni, Hundadögum, sem einnig kemur út á dönsku þessa dagana í þýðingu hins eitursnjalla Eriks Skyum Nielsen. Lífshlaup Jörundar er sannarlega skrautlegt og gjöfult viðfangsefni. Einar Már er þó ekki fyrstur til þess  að sækja í þennan frjóa efnivið og sennilega ekki síðastur. Áður hafa m.a. bæði Ragnar Arnalds (Eldhuginn, 2005) og Sarah Blakewell (2015) skrifað skáldsögur um skrautlegan feril Jörundar.  Og leikrit Jónasar Árnasonar, Þið munið  hann Jörund, sem fyrst var sett upp í Iðnó 1970 smaug beint inn í hjörtu þjóðarinnar á sínum tíma. Það hefur margoft verið sett á fjalirnar síðan, síðast 2014 í leikgerð Eddu Þórarinsdóttur, og rataði ísjónvarp 1994. Auk þess skrifaði Jörundur sjálfur ævisögu sína í nokkrum útgáfum eftir því hvernig lá á honum. Svo það hlýtur að vera tímaspursmál hvenær gerð verður stórmynd um stormasama ævi og örlög þessa margbrotna manns.

Hundadagar-175x268Efnistök Einars Más eru af öðrum toga en fyrirrennara hans; þau eru frumlegri, fjölskrúðugri, skáldlegri og meira skapandi en áður hefur sést. Jörundur er breysk persóna, hann er myndarlegur, vel greindur en ógæfusamur ævintýramaður sem hrekst í ólgusjó fíknar og metorðagirndar en á sér líka betri hliðar.

Ástæðurnar fyrir byltingunni á Íslandi eru í raun viðskiptahagsmunir, það er engin rómantíseruð frelsishugmynd þar að baki. Einar Már tengir byltingu Jörgens við búsáhaldabyltinguna 200 árum síðar, þegar óheiðarleg viðskipti með sýndarmilljarða urðu efnahag þjóðarinnar að fjörtjóni til frambúðar og forsætisráðherra kallaði almenning skríl, líkt og enski skipherrann sem setur sig á háan hest gagnvart þegnum Jörundar, og leggur út af þeim samanburði um eðli manns, sögu og skáldskapar.

Sögumaðurinn er alls staðar nálægur á notalegum spjallnótum. Hann er kammó og kærulaus og slær um sig með orðum eins og díll, djobb og gaur . Hann er ýmist „við“ eða „ég“ og hefur yfirsýn yfir orsök og afleiðingu, liðna tíma og núið. Hann fer á flug í pælingum um skáldskap og veruleika, sögu og túlkun. Persónurnar anda og lifa í gegnum hann, ætli það séu nema tvö bein samtöl í allri bókinni?

Aldagamalt ryk er dustað af gulnuðum skjölum, þau eru dregin úr gömlu þurrlegu samhengi og skeytt saman á ný svo úr verður skrautleg, eldfjörug og kostuleg saga sem minnir um margt á svonefndar skálkasögur sem voru vinsælar á bernskudögum  skáldsögunnar.

Sögumaður snýr upp á tímann eins og hann lystir „af því að saga okkar er í aðra röndina andleg  og ekkert er í réttri röð þegar fram líða stundir“ (190). Bítlarnir og Jörundur eru nefndir í sömu andránni og Jón Steingrímsson, hinn magnaði eldklerkur, er sömuleiðis leiddur fram en Jón hafði verið dauður í tuttugu ár þegar Jörundur kom til landsins.

Fleiri nafnkunnir menn koma við sögu, m.a. Magnús Stephensen, konungshollur tækifærissinni og fulltrúi valdastéttarinnar á Íslandi, og Finnur Magnússon, sem fékk skjótan frama sem leyndarskjalavörður Danakonungs, féll svo úr háum sessi og var ekki gæfusamur í einkalífinu, skuldugur og einmana.

Svo er fylgst með Guðrúnu Johnsen, ægifagurri ástkonu Jörundar sem þráir að vera hefðarmær en endar sem betlikona, hrekst milli manna og ræður minnstu um örlög sín sjálf. Sögufrægar persónur eru sýndar í nýju ljósi, t.d. hefur Íslandsvinurinn mikli, hinn kunni SirJoseph Banks, svifið um mannkynssöguna á rómantískri ímynd en reynist svo ekki allur þar sem hann er séður.

Undir öllum kammóheitunum, gáskanum og skapandi heimildaúrvinnslunni lúrir ádeila á nýlendustefnu, kúgun og stéttaskiptingu og hrokann sem hélt ástandinu við og gerir enn.Veislan fræga í Viðey sem Ólafur Stephensen hélt Jörundi og félögum dregur skýrt fram muninn á ríkidæmi valdhafa og kjörum alþýðunnar.

Kort af Íslandi frá 1761

Íslenskir embættismenn höfðu skömm á valdabrölti Jörundar nema þeir sem nutu góðs af eða þorðu ekki annað „af ótta við að hann myndi sigra en urðu þá enn hræddari stuttu síðar þegar ljóst var að hann hafði tapað“ (199). Alþýðan tók þessu eins og hverju öðru hundsbiti, vön því í gegnum aldir að beygja sig undir yfirvaldið mótþróalaust og vera ekki spurð álits á neinu. Einar Már færir listilega saman líkindin með fortíð og nútíma og sýnir að valdapólitíkin er alltaf söm við sig.

Var Jörundur hundadagakonungur fulltrúi nýrra tíma, djarfur ofurhugi, misskilinn snillingur og frelsishetja? Eða gróðapungur, götustrákur og föðurlandssvikari? Hvað sem því líður var yfirlýstur tilgangur hans að bæta ástandið á Íslandi og að tryggja landsbúum frið og hamingju sem þeir hafa lítið haft af að segja til þessa“ (194).

Það er ekki fyrr en í fangelsi sem raunveruleg ásýnd spillingar, kúgunar og einokunar á Íslandi skýrist fyrir Jörundi. Eldheitar ræður hans um frelsi og réttlæti, frjáls viðskipti og jafnan rétt manna streyma skyndilega fram. Þá nær mikilmennskubrjálæðið hámarki, þá er hann Napóleon norðursins, Íslands eini kóngur fyrr og síðar.

Jörundi er fylgt áfram eftir Íslandsævintýrið í útlegð að endimörkum heimsins og til dauðadags. Mynd af honum og konu hans, hinni ungu og drykkfelldu Nóru, er talin steypt í brúarsporð í bænum Ross í Tasmaníu, „útskorin eins og kóngur og drottning á spilum“ (333). Mynd Jörundar lifir væntanlega í skáldskap Einars Más meðan bækur eru enn lesnar á Íslandi.

Skáldsaga Mál og menning, 2015 341 bls

Gullfalleg bókarkápa: Alexandra Buhl / Forlagið

Birt í Kvennablaðinu, 15. nóv. 2015

Stöðuglegur maður

Hann er maður hærri á vöxt en almennir meðalmenn, nokkuð flatvaxinn og herðabreiður, réttvaxinn og vel vaxinn, lítið toginleitur, bláeygður og stöðugeygður, ígrundunarleg og eftirþankasöm, sem oft eru á lærðum mönnum, og rennir augunum nokkuð skarpt. Hátt enni með höfðinglegum svip. Nef nokkuð langt og slétt og í hærra lagi, nokkuð bólugrafið þar sem það er þykkvast framan í, í meðallagi haka og munnur. Stöðuglegur. Hann er maður snjall í máli og skilinorður, drepur tungunni nokkuð upp við góminn, þá hann talar af alvöru sem syngi nokkuð við. Siðsamur í framgöngu og fasi , vasklegur og karlmannlegur. Svarar oft sem með nokkrum eftirþanka. Hlýðir gjarnan á orð annarra, en hefur þó sína þanka fyrir sig, er ei heldur keppinn eður þrætugjarn.

Um kellingar og handrit

Ein áhugaverðasta bókin 2013 sem þó fór hljótt er Sagan af Guðrúnu Ketilsdóttur, einsögurannsókn á ævi 18. aldar vinnukonu. Höfundur bókarinnar, Guðný Hallgrímsdóttir, sagnfræðingur, lýsir því að handrit kvenna hafa verið næsta ósýnileg í gegnum árin, m.a. vegna þess hvernig þau voru skráð í handritaforða Landsbókasafns. Stundum týndust þau í handritapökkum sem merkt voru körlum og stundum voru þau beinlínis ranglega flokkuð og ekki tekin alvarlega. Þannig fór fyrir stuttri sjálfsævisögu Guðrúnar Ketilsdóttur (1759-1842), sem var vinnukona á yfir 30 bæjum í Eyjafjarðarsveit. Til eru nokkur áþekk handrit af sjálfsævisögu Guðrúnar, sem skrifuð var eftir henni þegar hún var um áttrætt, auk uppskriftar Geirs Vigfússonar, sem var skáld og fræðimaður á Akureyri. Geir tekur sér aldeilis bessaleyfi við uppskriftina, bætir í, sleppir og skreytir að vild og uppnefnir Guðrúnu „suðu“ til að gera söguna hlægilega, en algengt var og sjálfsagt þótti að kellingar, fátæklingar og niðursetningar væru hædd og spottuð (20). Þegar sjálfsævisaga Guðrúnar var svo prentuð 1929 í Grímu, safni þjóðlegra fræða, var henni skipað í flokk með gamansögum af heimsku fólki. Jónas Rafnar (d. 1972, sonur Jónasar sem skrifaði Íslenska þjóðhætti), ritaði formála að Grímu og gengur enn lengra en Geir, hann uppdiktar skýringu á uppnefninu á Guðrúnu og segir að hún hafi verið kölluð „Gunna suða“ vegna þess hversu málglöð hún var og mikill rugludallur en það finnst hvergi í öðrum plöggum þar sem Guðrúnar er getið.

Í bók sinni varpar Guðný Hallgrímsdóttir ljósi á líf og kjör vinnukvenna á Íslandi á seinni hluta átjándu aldar og fram á miðja nítjándu öld út frá sjálfsævisögu Guðrúnar og öðrum heimildum. Vinnufólk áttu ekki margra kosta völ í lífinu, það var lagaleg skylda að vera í vist, fólk var hreinlega ánauðugt og húsbændur voru afar misjafnir. Guðrún var sjálfstæð, hörkudugleg og eftirsótt til vinnu framan af ævi og á tímabili ágætlega sett á þeirra tíma mælilkvarða. Hún átti eins bjarta framtíð fyrir sér og hægt var í hennar aðstæðum uns ástin brá fyrir hana fæti, hún féll fyrir ungum sjómanni  og veður skipaðist skjótt í lofti. Guðrún lýsir honum svo eftir að hún skildi við hann:

„Þegar ég var þangað komin þá voru þar sjómenn, meðal hverra einn var frá Hrafnagili, sá bölvaður refur og hét Illugi, álitlegur maður en margur hylur úlfinn undir sauðargærunni, svo var um hann. Bauð hann mér alla þjónustu en ókunnugir varningur firrir margan fé. Hann var með bjart hár, í blárri peysu, grænum bol, hatt og góða skó. Þá kom tilhugalífið með okkur Illuga. Ég átti fimm kistur, þar var meira en myrkrið tómt. Í einnu voru rúsínur og laumaði ég í hann af þeim því ég hugsaði að þetta væri maður en ekki djöfull. Svo tældi hann mig í búskap að Kristnesi og átti ég þó súrtunnu um haustið og margt þar niðrí… Þá fór hann í sitt hórurí og fór stelpu af stelpu en ég mátti sluma og þegja og ergist hvur með aldrinum…“ (35-6)

Guðrún lætur engan eiga hjá sér, hún er ómyrk í máli í sögunni og hlífir hvorki manni sínum, húsbændum né samferðamönnum í sjálfsævisögunni. Og hún er ekkert að orðlengja neitt, frásögnin æðir áfram og ekkert dvalið við smámuni. En glöggt má sjá að henni sárnaði oft óréttlætið sem hún varð fyrir. Eftir skilnaðinn missti hún eigur sínar, var á hrakhólum og endaði sem niðursetningur. Það voru grimm örlög en því miður hlutskipti margra sem ekki áttu í nein hús að venda.

í bókinni er sjálfsævisagan birt með nútímastafsetningu og stafrétt auk útgáfu Jónasar í Grímu svo hægt er að bera saman hvernig farið var með sögu Guðrúnar. Guðný fjallar mjög ítarlega um ævi Guðrúnar út frá sjálfsævisögunni og brotakenndum heimildum frá þessum tíma og tekst að draga upp heilsteypta mynd af lífshlaupi hennar. Það er t.d. magnað að lesa um það þegar dánarbú foreldra hennar er gert upp, taldar eru upp fáæklegar reytur þeirra, fatnaður, búsáhöld og bækur, sem lýsa vel aðstæðum fólks á þessum tíma. Bók Guðnýjar er einstaklega aðgengilegt fræðirit og hún gerir sér mikinn mat úr þessu örstutta handriti sem líklega er elsta varðveitta sjálfsævisaga íslenskrar konu, handrit sem með naumindum lifði af þöggun og yfirgang karlveldisins. Það voru menntaðir karlar úr yfirstétt sem skrásettu og röðuðu handritunum á síðustu öld og af afdrifum sjálfævisögu Guðrúnar Ketilsdóttur má glöggt  hvaða álit þeir höfðu á handritum alþýðukellinga.

18. öldin með Pétri Gunnarssyni

Loksins er verið að fjalla um brot úr Íslandssögunni í vönduðum heimildaþáttum í sjónvarpi allra landsmanna. Þættir Péturs Gunnarssonar á rúv um 18. öldina eru stórskemmtilegir, fróðlegir og ljóðrænir en líka beittir. Þetta timabil er svo mergjað og fullt af efni til. Á þessum tíma geysa Móðuharðindin, sjúkdómar, fátækt og neyð hrjá landsmenn auk spillingar og einokunar. Myndefni er af skornum skammti frá þessum tíma en í þáttunum er veruleg hugmyndaauðgi hvað það varðar. Handrit og efnistök eru til fyrirmyndar og mjög skemmtilega staðfært til samtímans. Pétur hikar ekki við að taka upp þráðinn frá hinum frægu sjónvarpsþáttum Baldurs Hermannssonar um Þjóð í hlekkjum hugarfarsins (1993) þar sem kvarnaðist verulega úr hetjulegri ímynd íslenskra stórbænda sem héldu vinnufólki sínu og leiguliðum í ánauð. Pétur dregur ekki fjöður yfir hvernig auðmannablokkir átjándu aldar koma ár sinni fyrir borð og fjallar raunsæislega um spillingu og hagsmunapot embættismanna og landeigenda. Það væri auðvitað snilld að gera þætti um t.d. 16., 17. og 19. öld sem eru líka stórmerkileg tímabil. Pétur er þægilegur sagnamaður eins og við er að búast og ást hans á viðfangsefninu er smitandi. Hann tekur sig einstaklega vel út í flíspeysunni, hvort sem hann er staddur í dimmum torfkofa eða í sölum glæstra halla í Köbenhavn.