hendingskast

Rola verður að manni

Titill fyrstu skáldsögu Sigurjóns Bergþórs Daðasonar, Hendingskast, er grípandi og lofar góðu.  Hér segir frá ungu fólki í hvunndagskrísum í Reykjavík samtímans. Aðalsöguhetjan, ungur nafnlaus maður (kannski hver sem er) stendur á krossgötum. Íbúðin í Þingholtunum sem hann býr í með kærustunni er í eigu foreldra hans og lokaritgerðin er það eina sem eftir er af háskólanáminu. En það sem virtist örugg og friðsæl tilvera fer skyndilega á flot, honum er ýtt út úr hreiðrinu og stendur uppi atvinnu- og húsnæðislaus, einhleypur og í þann veginn að klúðra skólanum. Nú þarf að taka á honum stóra sínum.

Þroskasaga

Hugmynd og þema bókarinnar snýst um tilviljunina (hendingu) sem niðurrifsafl  og heppnina sem er bæði gleðigjafi og böl. Einnig um það æviskeið þegar maður er hvorki ungur né gamall, veit ekki hvert skal stefna og er undir pressu frá foreldrunum, þráir sjálfstæði en er latur, háður öðrum og kemst aldrei út úr sjálfhverfunni. Þetta er þroskasaga, frá því að fljóta að feigðarósi til þess að róa í land; frá því að vera sveimandi stefnulaust um loftin blá til þess að verða hluti af heiminum og heimurinn hluti af manni.

En ef netið dettur út?

Persónurnar lifa auðveldu og þægilegu lífi við allsnægtir en þola þó tæplega nokkurt hnjask eins og kemur í ljós þegar netið dettur út og pirringur hleypur í kærustuparið: „við þurfum að komast inn á heimabankann auk þess sem við höfum ekkert að gera í kvöld ef við getum ekki streymt sjónvarpsseríunni sem við erum að horfa á … (39). Það er enginn háski yfirvofandi í þessari sögu né stórkostleg glötun eða tortíming á næsta leiti en sjálfsköpuð ógæfa svífur yfir vötnum, eitthvert úrræðaleysi, frestunarárátta og rolugangur.

Öfund og græðgi

Broddur sögunnar beinist að fjölskyldu, kynslóðabili, agaleysi, snobbi og græðgishyggju. Í vinahópnum eru týpur sem tengjast hugmyndafræði sögunnar. Símon vinnur milljónir í Lottóinu en þær eru fljótar að fara í græjur, sukk og bruðl. Hann hættir í námi, tekur lífinu létt og fær allt upp í hendurnar. Anton hefur brotist til mennta, fetað fyrirfram ákveðna og hefðbundna braut í lífinu: að ljúka hagnýtu námi, fá góða vinnu og kaupa íbúð. Samt er hann ósáttur við sinn hlut. „Það er skrítið að hann finni fyrir öfund þegar svona margt gengur honum í hag en kannski er það einmitt öfugt. Hann hefur eignast þetta allt af því að hann er öfundsjúkur. Það er driffjöður í samkeppnisssamfélagi að vilja líka eignast þá hluti sem aðrir eiga“ (114).

Borða, sofa, skíta

Kærastan, Katrín, er óspennandi og dregin daufum dráttum, aðrar kvenpersónur sömuleiðis. Loks er  Guðmundur, skólabróðir og einfari, sem vegna óframfærni verður af happafengnum. Hann á margt sameiginlegt með sögumanni sem sjálfur segist vera skýjaglópur og íhugull athugandi:

„Mig langar ekki að vera fyrir neinum en hvað get ég gert? Sú einfalda staðreynd að einhvers staðar þarf maður að vera virðist meiri háttar vandamál. Ég á í mestu vandræðum með þennan líkama sem þarf að borða, sofa og skíta, svo ég tali ekki um allar tilfinningarnar sem ég held í skefjum því enginn vill  sjá þær. Það væri best að geta horfið algjörlega og svifið um loftið eins og draugur“ (115).

Það er eitthvað

Þótt Hendingskast sé enn ein mjúk og átakalítil Reykjavíkursaga um krísu nútíma(karl)mannsins sem ristir ekki djúpt er eitthvað við hana. Hún er ágætlega skrifuð, stíll og málfar hægfljótandi og tiltölulega hnökralaust.  Samtöl eru að miklu leyti óbein sem undirstrikar einhvers konar fjarlægð frá persónunum sem fellur vel að hugmynd og boðskap sögunnar um að rífa sig upp úr roluganginum til að finna sína eigin leið í lífinu. Það er viðbúið að þessi ungi höfundur á eftir að láta frekar að sér kveða.

Bjartur og Veröld 2015

191 bls.

Birt í Kvennablaðinu, 12. okt 2015