Ida Pfeiffer

„Ef ég ætti að segja frá öllum viðbjóðnum…“

Ferðasögur eru ævaforn og vinsæl bókmenntagrein, eldri en skáldsagan enda stundum nefnd formóðir bæði hennar og sjálfsævisögunnar sem bókmenntaforms.

Upphaf ferðasagna á Íslandi eins og þær eru jafnan skilgreindar má tímasetja á seinni hluta 12. aldar með stuttri leiðarlýsingu Nikulásar ábóta og ferðabók Gizurar Hallssonar en hún hefur því miður týnst. Engar íslenskar ferðasögur hafa varðveist heilar frá 15. og 16. öld en til eru glefsur úr reisubók Björns Jórsalafara og snubbóttar minnisgreinar Gizurar biskups Einarssonar um ferðalög sín. Á sautjándu öld voru ritaðar fjórar ferðasögur sem varðveist hafa en vitað er um amk fimm texta til viðbótar sem nefndir eru í öðrum heimildum en hafa glatast. Ritun fræðilegra ferðabóka hófst síðan í kjölfar upplýsingarinnar á átjándu öld og þá voru líka skrifaðar nokkrar ferðasögur sem greina frá utanferðum einstaklinga og halda nafni þeirra á lofti. Á nítjándu öld er fjöldi ferðasagna orðinn gríðarlegur og hefur vaxið ört síðan. Ekki er mér kunnugt um ferðasögu eftir konu fyrir miðja nítjándu öld (sjá nánar í MA-ritgerð um íslenskar ferðasögur hér).

EIns og gefur að skilja voru það einkum karlar sem skrifuðu ferðasögur í gegnum aldirnar, þ.e. karlar sem höfðu fjárráð og ferða- og athafnafrelsi öndvert við konur.

En það eru til ferðasögur eftir konur, fjölbreyttar að gerð og efni en eiga það margar sameiginlegt að höfundur brýst undan hefðbundnu kynhlutverki samtíma síns. Þá er þess að vænta að konur sem stíga þetta skref í lífinu hafi annað sjónarhorn á hlutina en ríkir karlar en þó er ekki auðvelt að komast undan forréttindum sínum eins og glöggt má sjá í tilviki Idu Pfeiffer sem kom til Íslands sumarið 1845 og ritaði ferðasögu þar um. Íslandsferð Idu Pfeiffer 1845 er brot úr stærra verki um ferðalög Idu um Norðurlönd og hefur nú loksins verið þýdd og útgefin hjá bókaforlaginu Uglu. Guðmundur J. Guðmundsson þýddi og ritaði fróðlegan inngang. 

Ida (1797-1858) var frá Austurríki, kunnur landkönnuður og ferðasagnahöfundur og ein víðförlasta kona sinnar samtíðar. Hún lagðist í ferðalög eftir að hún varð ekkja og átti tvo uppkomna syni. Hún fór í tvær heimsreisur sem stóðu árum saman og fór m.a. til Asíu, Ameríku og Afríku. Fyrsta ferðabók hennar varð metsölubók en höfundar var ekki getið eins og æði oft var raunin þegar um konu var að ræða (10). Alls skrifaði hún fimm ferðabækur og hagnaðinn af bóksölunni notaði hún til að fjármagna reisur sínar, m.a. ferðina til Íslands. 

Ida var forvitin og áhugasöm um þjóðhætti í þeim löndum sem hún heimsótti og lýsti öllu skilmerkilega frá sínum bæjardyrum.  Hún var með myndavél í fórum sínum sem var óvenjulegt á þessum tíma. Ida hafði miklar væntingar til Íslandsfararinnar en óhætt er að segja að hún hafi orðið fyrir miklum vonbrigðum. Þótt náttúran hafi verið heillandi komu landsmenn henni fyrir sjónir sem sóðalegir, latir og drykkfelldir. Hún virðist ekki hafa nokkurn skilning eða samúð með fátækt og umkomuleysi kúgaðrar nýlenduþjóðar. Ekki skildi hún nema stök orð í tungumálinu þrátt fyrir rómaða tungumálahæfileika og ekki gekk henni heldur vel að tala dönsku eða ensku við yfirstéttina sem hún vildi helst hafa samskipti við. Oft talar hún um ógeðsleg híbýlin þar sem hún gat ekki hugsað sér að gista heldur kaus frekar að sofa á hörðum kirkjubekk. 

Íslendingar eru mestu erkisóðar, bókstaflega viðbjóðslegir. Tökum sem dæmi tólf ára stúlku sem færði mér rjóma og vatn. Að mér ásjáandi sleikti hún með tungunni rjómann af tappanum úr rjómaflöskunni og ætlaði síðan að setja hann aftur á flöskuna. Stundum sat hún hjá mér í svo sem eins og hálftíma og þá kom fyrir að óværan sem þreifst í hárinu á henni gerðist full aðgangshörð. Þá þreifaði hún um höfuðið þangað til hún náði lúsinni, horfði á hana svipbrigðalaus og henti henni svo lifandi á jörðina. Skárra er að gera eins og Grænlendingar, þeir éta lýsnar og þá er að minnsta kosti engin hætta á að þær komist yfir á aðra. Yfirhöfuð hafa Íslendingar ekki nokkra tilfinningu eða skilning á almennu velsæmi. Ef ég ætti að segja frá öllum viðbjóðnum sem ég varð vitni að myndi það fylla margar blaðsíður (140).

Bók Idu fékk ekki góðar viðtökur hér á landi enda vandaði höfundur þjóðinni ekki kveðjurnar þótt náttúran væri vissulega heillandi og stórbrotin. Hnjóðuðu nokkrir karlar í hana sem frá er greint í formálanum. Í bókarlok segir Ida frá því sem henni finnst jákvætt í fari Íslendinga en það er fyrst og fremst heiðarleiki því engu var stolið af henni á ferðalaginu; langflestir eru læsir og skrifandi og í hverjum minnsta moldarkofa var alltaf bókargrey að finna. 

Ida fór víða um Suðurland, m.a. til Þingvalla og í Surtshelli, að Geysi og Heklu. Hún segir frá því að hún hafi staðið á Heklutindi og er þá líklegast fyrst kvenna til þess. Hún er fyrsta erlenda konan sem hingað kemur ein síns liðs. Hvað sem segja má um miskunnarlaust álit Idu á eymd og volæði íslensku þjóðarinnar var hún óneitanlega frumkvöðull og hetja, með ríka ferða- og ævintýraþrá og lét ekkert stöðva sig í að láta drauma sína rætast. Bókin er í senn heimild um horfinn tíma og merka konu og að auki stórskemmtileg aflestrar.

Sjá ennfremur: Ida Pfeiffer á Íslandi eftir Ragnhildi Hólmgeirsdóttur og Ég heyrði það í holum rómi samviskunnar…eftir Kristínu I. Valdemarsdóttur og Þetta er ei annað en eins manns sjóferðaskrif, annáll íslenskra reisubóka til 1835 eftir Steinunni Ingu Óttarsdóttur