Þóra Jónsdóttir

Til heiðurs Þóru skáldkonu

Þóra Jónsdóttir skáldkona er nýorðin 96 ára. Hún fæddist 17. janúar 1925 á Bessastöðum á Álftanesi en fluttist þriggja ára með fjölskyldunni að Laxamýri í Þingeyjarsýslu þar sem hún ólst upp á mannmörgu heimili við hefðbundin sveitastörf. Skólagangan var stopul – farskóli frá tíu ára aldri – en hún lærði ung að lesa og féll ekki bók úr hendi upp frá því. Einkum vöktu ljóð áhuga hjá henni.

Þóra fór í Héraðsskólann að Laugum í Reykjadal og þaðan í Menntaskólann á Akureyri og lauk stúdentsprófi. Hún kenndi í Flensborgarskóla í Hafnarfirði einn vetur áður en hún hélt til Kaupmannahafnar ásamt eiginmanni sínum, Páli Flygenring ráðuneytisstjóra. Þar las hún tvo vetur bókmenntir við Kaupmannhafnarháskóla. Eftir að heim kom sinnti hún manni og þremur börnum næstu árin eins og þá tíðkaðist en lauk einnig vetrarnámi í Kennaraskóla íslands. Hún vann um árabil á Borgarbókasafni Reykjavíkur.

Ritstörf hóf hún seint eins og svo margar skáldkonur fyrri tíma, eða ekki fyrr en börn hennar voru komin á legg. Fyrsta bók hennar, Leit að tjaldstæði, kom út árið 1973 og fékk afar góða dóma. Alls hafa komið út eftir hana 16 bækur: ljóð, örsögur og ljóðaþýðingar, nú síðast örsagnasafnið Sólardansinn (2019). Hún hefur hlotið rithöfundarverðlaun Ríkisútvarpsins og viðurkenningu dómnefndar um verðlaun Tómasar Guðmundssonar árið 2000 fyrir handrit að ljóðabókinni Far eftir hugsun. Ljóð eftir hana hafa verið þýdd á ensku, norsku, finnsku og japönsku. Safnrit með ljóðum hennar kom út hjá bókaforlaginu Sölku 2005 og ber titilinn Landið í brjóstinu.

Þóra hefur verið sílesandi ljóð alla ævi og er afar vel að sér í íslenskum og norrænum kveðskap. Á miðjum aldri hóf hún að mála bæði með vatnslitum og olíu og leitaði sér tilsagnar á því sviði, m.a. í Myndlistaskólanum í Reykjavík. Hún er enn að lesa og mála þrátt fyrir sjóndepru sem hefur ágerst með aldrinum. Þóra er dóttir Elínar Vigfúsdóttur (1891-1986), kennara, ljóðskálds og húsmóður á Laxamýri (Mbl. 17. janúar 2020 Árnað heilla. Þóra Jónsdóttir ljóðskáld 95 ára).

Vinnubrögðum sínum við skáldskapinn lýsti Þóra í viðtali við Mbl., 5. desember 2019:

Þóra tekur daginn snemma og segir að sér verði mest úr verki við skáldskapinn á morgnana. „Ég er best upplögð um miðjan morgun, það finnst mér besti tíminn.“ Þegar andinn komi yfir hana sé hún fljót að koma hugsunum sínum á blað og sitji því ekki lengi við hverju sinni. „Þetta er allt saman svo stutt,“ segir hún og leggur áherslu að hún sé ekki sérstaklega vel skipulögð við skriftirnar, en það komi ekki að sök. „Ég verð 95 ára í janúar og sennilega læt ég ekki meira ritað mál frá mér.“

Umfjöllun um verk Þóru má sjá m.a. í nýjasta Skírni og hér. Ilmur Dögg Gísladóttir fjallaði ítarlega um ástarljóð Þóru í Lesbók Morgunblaðsins 2005 og Soffía Auður Birgisdóttir fjallaði um verk hennar í grein sinni Uppskerutími sem birtist á skáld.is í árslok 2019 og sagði m.a. um stöðu Þóru í íslenskri samtímaljóðagerð: „Ef allt hefði verið með felldu í bókmenntamati á síðari hluta tuttugustu aldar ætti ljóðskáldið Þóra Jónsdóttir öruggan sess meðal íslenskra módernista“. Um bók hennar Hversdagsgæfu (2010) sem inniheldur örsögur, segir Úlfhildur Dagsdóttir m.a.:

„Hún er eitt þeirra skálda sem ekki ber mikið á, og ekki mun þessi bók líkleg til að vekja á henni frekari athygli, en útgáfan er í alla staði hljóðlát, bókin lítil um sig og prósarnir fjarri öllum æsingi. Það þýðir þó ekki að bókin sé hljóðlát að gæðum, en sem fyrr búa texta Þóru yfir einkennilega heillandi yfirbragði, í raun öllu því sem gera ljóð góð (svo ég haldi mig við mína eigin bókaflokkun). Á margan hátt minna prósarnir í Hversdagsgæfu á þulukennd ljóð í einni af fyrri bókum höfundar, Línur í lófa (1991), en sú bók er nokkuð ólík öðrum verkum hennar. Ljóðin eru frásagnarkenndari og byggja á minningum úr æsku skáldkonunnar. Hér er einnig á ferð einhverskonar upprifjun, þó ekki sé endilega ljóst hvað sé skáldskapur eða hvað minningar (enda skiptir það engu máli).

Hversdagurinn er helsta viðfangsefnið með öllum sínum undrum, meðal annars hanska sem sögukona finnur og tyllir í gluggakistu, bara til að hitta þar stuttu síðar fyrir konu sem er ægiglöð yfir að hafa fundið hanskann sinn: „Ég samgleðst því að blár kvenhanski, nöturlegt tákn einsemdar og reiðileysis, hefur raðast snögglega á réttan stað í almyndina. Þetta örstykki í púsluspili tilverunnar.” Og þannig er bók Þóru, örstykki í púsluspili skáldskaparins, einmitt eitt þeirra stykkja sem heldur myndinni saman.“

Eitt ljóða Þóru dregur upp mynd af hlutskipti margra genginna skáldkvenna sem ekki er að finna á skald.is:

„Hún dó úr tæringu í baðstofu / frá manni og ungum börnum / mælti svo fyrir að ljóð sín yrðu brennd / Engin ljósmynd er til af henni / að eigin ákvörðun / Hún var talin skilningsgóð / á fagurfræðilega hluti / Hryggir trúðu henni fyrir sorgum“

(Lesnætur, 1995)

Að lokum er hér ljóð eftir Þóru úr bók hennar Leiðin heim (1975):

Ég, sem held um þetta stýri,

bið þig að stjórna vegferð minni.

Lát mig muna til þeirra

sem ferðast fótgangandi

og virða allra rétt.

Forða mér frá gálausum akstri annarra.

Lát ljós mín lýsa

án þess að blinda.

Megi ég velja rétta akrein á hringtorgum

og rata nýjar leiðir.

Gef oss

grænt ljós yfir gatnamót

og vísan áfangastað.

Birt á skáld.is, 9. febrúar 2021

„Ekkert kann ég fyrir mér nema krossmarkið“

Þóra Jónsdóttir frá Laxamýri hefur sent frá sér samtals níu ljóðabækur auk ljóðaþýðinga og einnar ævisögu. Fyrsta ljóðabók Þóru kom út 1973, Leit að tjaldstæði, og fékk góða dóma gagnrýnenda og ljóðaunnenda. Ekki hefur samt mikið farið fyrir Þóru eða verkum hennar í bókmenntaumræðunni, hvernig sem á því stendur. Víst er og margtalað að skáldkonur njóta ekki allar sannmælis og athygli á við karlskáld burtséð frá hæfileikum og afköstum og á það örugglega við um Þóru.

Bók hennar, Hversdagsgæfa (2010), er allrar athygli verð. Henni er skipt upp í sex hluta sem kenndir eru við viðfangsefni hvers þeirra: Sveitin, Naflastrengurinn, Borgin, Hringferð, Manneskjur og Undur; kunnugleg yrkisefni úr fyrri bókum höfundar. Hér eru á ferð mislöng minningabrot eða ljóðrænar örsögur; beinar hversdagsmyndir og skýrt myndmál um náttúru, hlutskipti kvenna, tímann og tilveruna.

Í sveitaljóðum Þóru er ekki að greina beinlínis söknuð eftir horfnu samfélagi eða fornum búskaparháttum, heldur ber mest á stritinu. Þar segir m.a. af vinnukonu sem í 30 ár hafði m.a. „þann starfa að fela eldinn að kvöldi og taka hann upp fyrir allar aldir. Smávaxin, lotin kona með fortíð sem hún ræddi ekki og lést á bænum frá hlutskipti sínu“ (8). Sagt er frá dúntekju á mjög ljóðrænan hátt, ásamt veiðiskap og hröktu heyi á köldu sumri.

Í kaflanum Naflastrengur er fjallað um fjölskyldubönd, ungbörn og átthagafjötra með nokkrum trega. Ferð er áberandi þema úr fyrri bókum Þóru og hér eru einnig nokkrar stuttar ferðasögur sem tengjast „minningum sem eru styggar og láta sig hverfa jafn ótt og þær birtast“ (47). Sögurnar einkennast af óvæntum atburðum og frelsisþrá.

Í borgarmyndum Þóru er einsemd og reiðuleysi, stakur hanski fýkur á gangstétt, „helmingur af pari, báðir glataðir ef þeir skiljast að“ (31). Þar eru góðar konur sem hengja upp þvott, hjúkra eða keyra strætisvagna og afbrýðisamar konur sem gruna jafnvel hjálpsama vinkonu um græsku. Og hverfulleikinn gerir vart við sig, fólk kemur og fer og tíminn líður: „Ég tek að hugleiða bústaðaskipti. Það sem heldur fastast í mig er litla herbergið í kjallaranum sem birtan leikur um. Birta eitt sinn skilin eftir sem gjöf“ (38).

Í kaflanum Manneskjur gerast óvæntir atburðir, það er t.d. bankað upp á einn daginn og lífið verður aldrei samt aftur. Ástarsambönd, krossgötur og hlutskipti kvenna eru yrkisefni Þóru í þessum bókarhluta og á þeim er tekið af yfirvegun og æðruleysi. Síðasti hluti bókarinnar, Undur, er myndrænni og frjálslegri en hinir og þar er m.a. lausleg tenging við ævintýri og þjóðsögur. Í lokaljóði bókarinnar ríkir einsemd og sú tilfinning að eiga hvergi heima, álfkonan sem vildi búa meðal manna situr alein í eldhúsi sínu og tilheyrir hvorki mannheimi né náttúru álfa lengur (81).

Ágengt þema bókarinnar í heild er hlutskipti kvenna og rödd sögumanns einkennist einnig af samkennd með þeim sem minna mega sín, þeim sem draga ávallt stysta stráið (29). Í Hverdagsgæfu eru kvennasögur, um mæður, eiginkonur og vinkonur. Ekki baráttutextar eða brýningar heldur minningabrot og myndir þar sem konur eru aðalpersónur. Bestu sögurnar eru í bókarlok þar sem losað er um jarðtenginguna, þegar draumar og fantasía taka völdin af hversdagsleikanum:

Hús með meiru

Aldrei hefði leið mín legið á þessar slóðir ef í húsinu

byggi ekki fólk sem mér er hjartfólgið. Grimma

varðhundana þeirra hef ég vingast við. Þjakandi hitann,

svo og krákurnar sem hafa drauma manns í flimtingum

í morgunsárið, hlýt ég að sætta mig við. Sama gildir um

hrottafenginn hlátur þrumunnar og merkjamál

eldinganna fyrir skýfallið. Aðvörun um hvirfilvinda er

vert að taka mark á. Mýflugan suðar um leið og hún

stingur þar sem maður situr í forsælu af tré. Eitt finnst mér

ekki með felldu. Ég vaki allar nætur milli tvö og

fimm, hversu þreytt sem ég er. Í nótt dreymdi mig

nokkuð sem kom mér í uppnám. Mig grunar að

slæðingur sé í húsinu. Ekkert kann ég fyrir mér nema

krossmarkið.

(80)

Birt á skáld.is, 27 júlí 2021