Þórdís Helgadóttir er ungur höfundur sem sendir frá sér smásagnasafnið Keisaramörgæsir. Bókin skiptist í þrjá hluta, kannski eftir ritunartímabilum en það er ekkert víst, fyrsta sagan er alla vega með mestum byrjandabrag og sú síðasta hefur brotist fullþroskuð út úr forminu. Alls eru þetta sextán sögur sem allar bera merki frumleika og fjörugs ímyndunarafls. Þær eru dregnar fáum dráttum, lausar við stað og tíma, hefjast í miðjum klíðum og þeim lýkur skyndilega; enginn aðdragandi, engar málalengingar en hið ósagða þrumir yfir og magnar upp spennu. Söguefnið er margs konar og hversdagsleika slær saman við furður: Tröll hreiðra um sig meðal manna, sjálfur djöfullinn er forstjóri H&M, það er tímavél í bílskúrnum og fjöregg skiptir um eigendur.

Í sumum sögunum hefur veröldin tortímst algjörlega (Bessadýrin, Keisaramörgæsir), í öðrum hafa sambönd fólks tortímst eða eru komin í öngstræti (Út á milli rimlanna, Leg, Lopi). Dýr koma víða við sögu, nútímamenn sjá þau sennilega helst í sjónvarpsþáttum þar sem róandi rödd lýsir atferli dýranna með fáguðum breskum yfirstéttarhreim (146) og í titilsögunni (sem er eins og leikrit) ætla persónurnar einmitt að horfa á hina frægu dýralífsmynd um ferðalag keisaramörgæsanna. Í þeirri sögu þrauka einu eftirlifendurnir í rafmagnsleysi við þröngan kost og framtíðarsýnin er ansi myrk. (meira…)