smásagnasafn

Aldrei öll sagan sögð

Þórdís Helgadóttir er ungur höfundur sem sendir frá sér smásagnasafnið Keisaramörgæsir. Bókin skiptist í þrjá hluta, kannski eftir ritunartímabilum en það er ekkert víst, fyrsta sagan er alla vega með mestum byrjandabrag og sú síðasta hefur brotist fullþroskuð út úr forminu. Alls eru þetta sextán sögur sem allar bera merki frumleika og fjörugs ímyndunarafls. Þær eru dregnar fáum dráttum, lausar við stað og tíma, hefjast í miðjum klíðum og þeim lýkur skyndilega; enginn aðdragandi, engar málalengingar en hið ósagða þrumir yfir og magnar upp spennu. Söguefnið er margs konar og hversdagsleika slær saman við furður: Tröll hreiðra um sig meðal manna, sjálfur djöfullinn er forstjóri H&M, það er tímavél í bílskúrnum og fjöregg skiptir um eigendur.

Í sumum sögunum hefur veröldin tortímst algjörlega (Bessadýrin, Keisaramörgæsir), í öðrum hafa sambönd fólks tortímst eða eru komin í öngstræti (Út á milli rimlanna, Leg, Lopi). Dýr koma víða við sögu, nútímamenn sjá þau sennilega helst í sjónvarpsþáttum þar sem róandi rödd lýsir atferli dýranna með fáguðum breskum yfirstéttarhreim (146) og í titilsögunni (sem er eins og leikrit) ætla persónurnar einmitt að horfa á hina frægu dýralífsmynd um ferðalag keisaramörgæsanna. Í þeirri sögu þrauka einu eftirlifendurnir í rafmagnsleysi við þröngan kost og framtíðarsýnin er ansi myrk. (meira…)

Krúttlegir smáglæpir

my-new-presenta_23258363_b91f2f37f2b8bfc7569b24af12e81e51d0b5e2baÍslensk smásagnagerð stendur með miklum blóma um þessar mundir. Höfuðskáld eins og Gyrðir Elíasson, Þórarinn Eldjárn, Svava Jakobsdóttir, Jakobína Sigurðardóttir og fleiri hafa með verkum sínum sýnt svo listilega hvers formið er megnugt og nú spreytir sig hver lærisveinninn af öðrum.

Smásagnasafn Björns Halldórssonar (f. 1983), Smáglæpir, hlaut nýræktarstyrk frá Miðstöð íslenskra bókmennta 2016 en kom út nú á dögunum hjá bókaforlaginu Sæmundi. Björn er nýr í bransanum en lofar góðu, í bókinni eru sjö sögur sem allar eru ánægjuleg lesning.

Fyrsta sagan í safninu, Barnalæti, sker sig úr. Þar talar telpa sem er nýflutt í hverfið og býr við þreytandi heimilislíf. Hún er auðveldlega útsett fyrir undarlegu ofbeldi nágrannadrengsins og virðist vera í þann veginn á leggja út á óheillavænlega braut. Þetta er langbesta sagan í bókinni; áhrifamikil og uggvekjandi í einfaldleika sínum. Í hinum sögunum hafa karlar orðið, á ýmsum aldri og í misjöfnum aðstæðum. Í sögunni Ef þið hefðuð hringt er nöturleg spenna milli þess sem Sólmundur gamli hugsar og þess sem hann segir en dregin er upp mynd af harðjaxli sem ætlar ekki að gefa færi á sér eða linast með aldrinum og dæmir sjálfan sig þar með til einsemdar. Rekald fjallar um mann á elliheimili, lítt notað sögusvið sem býður upp á skemmtilegar senur. Endirinn er stíðnislegur og lesandinn fær ekki það sem hann bjóst við. Marglyttur er á yfirborðinu byggð á bernskuminningu um sjóferð sem endar illa en hún er áleitin og snýst ekki síður um sekt og fíkn. Saga sem heitir Eiginmaðurinn og bróðir hans segir frá Bödda sem giftist konu frá Filipseyjum. Hún fer frá honum og Jóhann, bróðir hans, rifjar upp ýmis atvik sem varpa ljósi þá ákvörðun hennar. Sjálfur á Jóhann í frekar brengluðu sambandi við sína eigin fjölskyldu. Það er ýjað að ýmsu og boðið upp á óvænta túlkun undir lokin og ógnin seytlar inn í huga lesandans.

Það er margt gott í Smáglæpum en stíllinn er helsti veikleikinn; stundum myndrænn en oftast raunsær og hversdagslegur; einkennist af talmáli víða og málvillur eru á stangli. Stílinn þarf að æfa og nostra við, fága og pússa til að nálgast fullkomnun lærimeistaranna og varla við slíku að búast í frumraun höfundar.

En hverjir eru smáglæpirnir sem verkið dregur nafn sitt af? Þeir felast í hikinu, hugleysinu, lygunum og ofbeldinu í lífi okkar; glæpum sem við höfum öll gerst sek um gagnvart hvert öðru og sjálfum okkur.

Bókaforlagið Sæmundur 2017

Smáglæpir, 142 bls.

 

Birt í Kvennablaðinu, 7. júlí 2017

 

 

Fokkið ykkur öll

Smásagnasafn Steinars Braga, Allt fer, er hnausþykkt og efnismikið og inniheldur nítján langar og fullburða sögur. Þær eru hvorki fallegar né meinlausar og ekki allar nýjar, þær eru margar og misgóðar en það er í þeim miskunnarlaus kraftur. Ef Steinar Bragi fær ekki bókmenntaverðlaunin, af þeim sem tilnefndir eru 2016, eru þau bara prump.

418lzlyrfslHvergi verður maðurinn eins lítill og ófrjáls, svo augljóslega roðhundur og þræll, eins og í fríhöfninni, þeim óskáldlega stað þar sem „meira að segja skórnir voru tortryggðir“ (11). Þar gengst fólk undir lög, vald og skrifræði af fúsum og frjálsum vilja, „Hver einasti fermetri verðlagður og öryggisvottaður oft á dag“ (11) og sætir sjálfviljugt rannsókn á persónulegum farangri, jafnvel eigin líkama. Glansandi fríhöfnin er sögusvið fyrstu sögunnar í safninu, „Reykjavík er að vakna“ þar sem firring vestrænnar menningar er undirtónninn, þar sem hjarðhegðunin nær hámarki. Engin tilviljun að þetta er fyrsta sagan í safninu, hún er þrusugóð.

Karnívalísk útrás

Myndir úr fleiri sögum safnsins sitja fastar á heilaberkinum að loknum lestri. Í „Kaiser Report“ hittast tveir kunningjar sem báðir eru búnir að mála sig út í horn. Kyrkislanga og kettlingar koma við sögu og atburðarásin er svo hrollvekjandi að ráðsettur lesandi unir ekki lengur undir leslampanum heldur hrökklast fram á bað til að skvetta framan í sig köldu vatni. „Páfastóllinn“ er sprenghlægileg, um par sem glímir við ófrjósemi, og karnivalísk útrásin nær hámarki í órum rúnksenu á læknastofu í Smáralind; verulega kröftugt atriði. „Kristalsgíraffinn“ er nútímalegt ævintýri um að selja sál sína djöflinum, það er sígilt þema sem vísar ekki síst til nútímamannsins sem gín yfir öllu. Sama þema er  á ferð í „Sögunni af þriðjudegi“. Báðar nöturlegar frásagnir af mannlegri eymd.

„Hvíti geldingurinn“ vekur upp þanka um tilvist mannsins. Hvað verður um mann sem ekki aðeins glatar frelsi sínu heldur er kynhvötin líka frá honum tekin? Hvað drífur þann áfram sem er án löngunar, án ástar? Sagan er ofbeldisfull og grimmdarleg en með sérkennilegu seiðmagni, ein af myndrænustu sögunum í safninu. Í „Ósýnileikanum“ nýtir kona sér að geta horfið sjónum annarra, hún njósnar um fólk og hnýsist í sjálfan dauðann, rýfur friðhelgi á viðkvæmum tímum þegar vanmáttur og óreiða ríkir, hún mætir í jarðarfarir og erfidrykkjur og sest við banabeð:

_Fyrstu tvær jarðarfarirnar sat ég úti í sal með hinum, svo færði ég mig upp á altarið til prestsins, ekki til að vanvirða neinn, en ég er forvitin, mig langaði að sjá andlit allra í kirkjunni, horfa í andlit sorgarinnar. Úti í kirkjuskipinu sér maður aldrei nema út eftir sætaröðinni, inn í hnakkann á fólkinu fyrir framan og það er ókurteist að teygja fram hausinn og glápa. Af hverju sitjum við ekki í hring í kirkjum – þær eru formaðar fasískt og við horfum aldrei nema í andlit prestsins og það er andstætt öllu sem munnurinn á honum segir um bræðralag og kærleika!“ (312).

Allt í rassgati

Titill smásagnasafnins Allt fer vísar í ýmsar áttir; til forgengileika, missis og hrörnunar sem er kannski klisja, hver segir sosum að allt þurfi alltaf að halda áfram (296) en líka til þess að allt fer einhvern veginn, tíminn líður og hugsjónir og draumar fjara út, fólk þroskast saman eða í sundur, dofið af dópi eða vana í bullandi sjálfhverfu. Hverjum er það að kenna þegar flosnar upp úr sambandi sögumanns og Jennýjar í raðhúsahverfinu inni í rassgatinu á Sigmundi Davíð?

„Við erum bæði ágætis manneskjur  og viljum vel og ég segi það í alvöru: ef helmingur þessara endaloka skrifast á brestina í okkur og allt helvítis kjaftæðið úr æskunni, fullyrði ég að hinn helmingurinn fellur skuldlaust á leigumarkaðinn og  barninginn í öll þessi ár og helvítis pólitíkusa sem hafa gleymt því fyrir hverja þeir vinna, og græðgina í bönkunum og Gísla í Gamma og gamla Quarashi-tillann Sölva viðskiptafræðing, allt þetta lið sem liggur eins og vampírur á hjörtum okkar sem gæðum miðbæinn lífi – fokkið ykkur öll (299-300).

Trump-týpan

Síðasta sagan, „Garðurinn“, er glæsilegur endasprettur á þessu sagnamaraþoni. Stórgrósser á ráðstefnu  vopnasala í sótugri Shanghai er sama týpa og Donald Trump: erkiillmenni, siðblindur, firrtur og lyginn, glúrinn á markaðstækifæri en orðinn mettur á lífinu. Hann hefur reynt allt, keypt allt og fyrir honum er veröldin tóm og grimm flatneskja:

„Í partýi um daginn fékk ég hugmynd sem rifjast upp fyrir mér núna: að reisa verulega há og sparsöm háhýsi með engum gluggum sem þýðir allt önnur lögmál í burðarþoli, en fella skjái í innanverða veggina, alla með sérsniðnu útsýni – allir fengju hornskrifstofur með útsýni af hundruðustu hæð yfir borg að eigin vali, eða breytilegt, með mánudaga á tindi Everest, þriðjudaga úr Alþjóðlegu geimstöðinni. Skjáir eru orðnir ódýrari en gluggar og kostar ekkert að þrífa þá, upplausnin HD í metersfjarlægð, færa sig svo yfir í þrívíddina. Þemadagar á föstudögum með útsýni yfir Kabúl, Raqqua eða Jemen og hádegisfyrirlestur um þær sætu hörmungar, eftir því við hvað fyrirtækin í húsinu eru að díla“ (324-325).

„Garðurinn“ er bæði reiðilestur yfir mannkyni sem skilur eftir sig sviðna jörð en líka elegía um mennskuna sem er á niðurleið, ástina sem er glötuð og ógeðið sem alls staðar viðgengst.

Manneskjan er bara líkami

Smásagnasafn Steinars Braga sker sig bæði að öllu leyti frá hinum óvenju mörgu smásagnasöfnum  sem út komu 2016 og frá öðrum skáldverkum síðustu áratuga.   Það er ekki verið að gæla við tungumálið, stílinn, orðlistina. Ekki verið að daðra við ismana, tala undir rós eða blikka ljóðrænuna. Það eru hugmyndirnar sem ráða ríkjum, þær vella fram, tæpitungulaust. Brýnt erindi og eldmóður einkenna þessar sögur allar, skapandi kraftur og ádeila sem helst minna á skáldskap Guðbergs Bergsson á góðum degi. Hið háleita er einskis vert, manneskjur eru ekkert merkilegar eða dularfullar,  þær eru bara líkamar.  „ – Líkamar að gera eitthvað við sjálfa sig, við aðra líkama eða við hluti… En líklega værum við ekkert án þessara litlu leyndarmála okkar, hvert í sínu horni að pota í holur, skera okkur með naglaþjöl, kasta upp. Hvað veit ég“ (307).

Engin miskunn

Á sagnaslóðum Steinars Braga eru fáir á ferli, hér eru óskáldlegir staðir eins og Eiðistorg, Perlan og Húsasmiðjan, skítugar stórborgir, fráhrindandi persónur, barnagirnd, tabú og töfrar og ógnvekjandi atburðir. Maður er hvergi óhultur, hræðilegir hlutir gerast í sífellu og alls staðar. Og það er enga miskunn að finna, aðeins myrka heimsmynd og dapurlega framtíðarsýn: „Ég er lappalaus fugl, hugsaði ég, líf mitt er sífellt flug úr einum stað í annan og ég get hvergi lent eða fundið hvíld“ (301).

Smásögur eru í senn bæði strangt og róttækt bókmenntaform sem býr yfir sérstökum áhrifamætti. Steinar Bragi hefur fullkomin tök á forminu og sýnir frábæra takta.  Allt smellur.

Mál og menning, 2016

351 bls.

Sérlega smart bókarkápa: Eyþór Páll Eyþórsson

Birt í Kvennablaðinu, 10. janúar 2017