Vík

Sveinn Pálsson, læknir

Ég var að ljúka við grein um Svein Pálsson (1762-1840), lækni og náttúrufræðing í Vík sem byggð á fyrirlestri mínum á degi umhverfisins 2012 (frétt og mynd hér). Þar sem ég var að blaða í Blöndu, 5. bindi (úr bókasafni afa og ömmu), rakst ég á frásögn af Sveini og Páli prófasti í Hörgsdal. Séra Páll var á leið í afmælisfagnað Magnúsar sýslumanns á Höfðabrekku þegar hestur hans hrasaði í myrkri og hríðarbyl með þeim afleiðingum að vinstri fótur prófasts mölbrotnaði um hné. .“…var þá þegar sent til Sveins læknis Pálssonar í Vík, og kom sendimaður þangað í vökulok. Var það lán Páls prófasts í óláni, að slys þetta vildi til svo nærri lækni, því að þá var strjált um lækna hér á landi, og ekki nema einn læknir alt frá Reykjavík og í Austfjörðu; hittist svo á að þessi eini læknir var aðeins röskar tvær bæjarleiðir frá Höfðabrekku. Lá Páll prófastur síðan þar, hjá Magnúsi sýslumanni alt fram í miðjan maí í meiðslum þessum undir aðgerðum Sveins læknis. Þá var Sveinn freklega sjötugur og leið mjög örðug á vetrardag og opt snjóþungi milli Víkur og Höfðabrekku, en 35 sinnum vitjaði hann prófasts í legunni, ósjaldan fótgangandi í byljum og ófærð, var oft hjá prófasti dægrum saman“ (308-309). Í Blöndu er svo vitnað í dagbók Sveins frá 10. jan.-15.maí þar sem læknisvitjanirnar 35 eru tíundaðar. Fótbrot Páls var svo slæmt að Sveinn taldi „að ekki yrði hann græddur öðruvísi en að örkumlamanni, og yrði annað hvort að taka fótinn af um hnéð eða hann fengi liðamótalausan fótinn um hnjáliðinn, ef freistað væri að  halda honum og græða svo. Kaus prófastur að halda fætinum, og hafði hann staurfót upp þaðan og varð að ganga við hækjur æ síðan til dauðadags. Þoldi hann furðanlega ferðalög og sat undravel hesta, þótt fjörugir væru, en fylgdarmannslaus fór hann aldrei neitt eptir þetta“ (312).