Sveinn Pálsson

Sveinn Pálsson, læknir og náttúrufræðingur

Á dögunum kom út fyrsta hefti TMM 2013. Þar er greinin mín um Svein Pálsson náttúrufræðing og lækni (1762-1840), hún ber heitið „En til hvers er að dvelja við slíka dagdrauma?“ Fyrst rakst ég á Svein þegar ég var í námi í íslenskum bókmenntum í HÍ sællar  minningar og hann hefur verið mér hugleikinn síðan. Hann skipaði sess í lokaritgerð minni til MA-prófs sem fjallar um ferðasögur fyrra alda. Ég hef tvisvar haldið erindi um Svein, þennan stórmerka mann, og rekst oft á hann í gömlum bókum. Hægt er að lesa greinina hér: Sveinn_TMM2013.

Sveinn Pálsson, læknir

Ég var að ljúka við grein um Svein Pálsson (1762-1840), lækni og náttúrufræðing í Vík sem byggð á fyrirlestri mínum á degi umhverfisins 2012 (frétt og mynd hér). Þar sem ég var að blaða í Blöndu, 5. bindi (úr bókasafni afa og ömmu), rakst ég á frásögn af Sveini og Páli prófasti í Hörgsdal. Séra Páll var á leið í afmælisfagnað Magnúsar sýslumanns á Höfðabrekku þegar hestur hans hrasaði í myrkri og hríðarbyl með þeim afleiðingum að vinstri fótur prófasts mölbrotnaði um hné. .“…var þá þegar sent til Sveins læknis Pálssonar í Vík, og kom sendimaður þangað í vökulok. Var það lán Páls prófasts í óláni, að slys þetta vildi til svo nærri lækni, því að þá var strjált um lækna hér á landi, og ekki nema einn læknir alt frá Reykjavík og í Austfjörðu; hittist svo á að þessi eini læknir var aðeins röskar tvær bæjarleiðir frá Höfðabrekku. Lá Páll prófastur síðan þar, hjá Magnúsi sýslumanni alt fram í miðjan maí í meiðslum þessum undir aðgerðum Sveins læknis. Þá var Sveinn freklega sjötugur og leið mjög örðug á vetrardag og opt snjóþungi milli Víkur og Höfðabrekku, en 35 sinnum vitjaði hann prófasts í legunni, ósjaldan fótgangandi í byljum og ófærð, var oft hjá prófasti dægrum saman“ (308-309). Í Blöndu er svo vitnað í dagbók Sveins frá 10. jan.-15.maí þar sem læknisvitjanirnar 35 eru tíundaðar. Fótbrot Páls var svo slæmt að Sveinn taldi „að ekki yrði hann græddur öðruvísi en að örkumlamanni, og yrði annað hvort að taka fótinn af um hnéð eða hann fengi liðamótalausan fótinn um hnjáliðinn, ef freistað væri að  halda honum og græða svo. Kaus prófastur að halda fætinum, og hafði hann staurfót upp þaðan og varð að ganga við hækjur æ síðan til dauðadags. Þoldi hann furðanlega ferðalög og sat undravel hesta, þótt fjörugir væru, en fylgdarmannslaus fór hann aldrei neitt eptir þetta“ (312).

Sveinn Pálsson (1762-1840)

25. apríl er dagur umhverfisins.Hann er haldinn á fæðingardegi Sveins Pálssynar læknis og náttúrufræðings (1762-1840). Sveinn segist reyndar sjálfur vera fæddur 24. apríl í sjálfsævisögu sinni sem hann ritaði síðasta árið sem hann lifði. Hér má lesa fyrirlestur sem ég flutti um Svein og upplýsingaöldina í Öskju 24. apríl sl. Á 18. öld er svo margt að gerast, ekki bara hörmungar og neyð, einokun og tvöfalt siðgæði, eldgos og pestir heldur er nútíminn að verða til og maðurinn sem sjálfsvera.

Sveinn Pálsson, Anniversaria 1795

Nosologica (sjúkdómar)

Í febrúarmánuði kom til mín gömul kona vestan úr Flóa í Árnessýslu til að leita lækninga á óþægilegu kýli á tannholdi neðra góms. Þegar ég ætlaði að stinga á því með hnífsoddi, fann ég eitthvað hart fyrir egginni, og sem ég hreyfði meira við þessu, datt kýlið af, eins og það lagði sig. Sá ég þá, að þetta var Patella (olbogaskel), og var dýrið lifandi innan í skelinni og mun stærra en títuprjónshaus. Hafði það sogið sig fast við tannholdið og angrað það, svo að sárindi og þroti mynduðust í kring, en skelin sjálf var orðin hulin seigu slími (materia plastica). Við nánari eftirgrennslan varð ég þess vísari, að konan hafði fyrst orðið vör sárinda, eftir að hún hafði etið söl… Fóru þrautirnar vaxandi, án þess að láta sér segjast við blóðtökur, smyrsl né koppasetningu skottulækna, sem til náðist, unz svo var komið, sem áður greinir. Í lautinni ofan við brjóstbeinið hafði konan líka sarcoma (krabbameinsæxli), var orðið gríðarstórt af því, að ýmsu hafði verið troðið inn í það til að halda því opnu (bls. 686-7).