vinnukonur

Má maður biðja um meira svona?

Umbúðir skáldsögu Hallgríms Helgasonar, Sextíu kíló af sólskini, vekja strax athygli með leturgerð og káputexta sem bæði gleðja auga og hressa sál. Innihaldið gerir það ekki síður. Með meinfyndnum og grátbroslegum hætti birtast fortíð og örlög þjóðar á 460 blaðsíðum þar sem aldrei er dauð stund. Frá því Hallgrímur skrifaði sig frá fargi kynferðisofbeldis í skáldævisögunni Sjóveikur í Munchen (2015) og orti einlæglega um sorg og missi í Fiski af himni (2017), er hann á fullu stími og veður áfram eins og iðandi síldartorfa.

Sögumaður er yfirmaður með alsjáandi auga, hann er aðkomumaður í tíma og rúmi (Höfundur Íslands?) sem þekkir lúgusjoppur, varalit og fagra gosbrunna sem hinir kunna engin skil á. Rödd hans er gagnrýnin á þjóðskipulag og stéttaskiptingu í samfélagi þar sem öll frávik og framfaraskref eru litin hornauga, enginn á gúmmístígvél og eldspýtur hafa aldrei sést. Sagan gerist undir lok 19. aldar þegar íslensk þjóð hokrar í torfkofum í ánauð löngu afnumins vistarbands og einokunar eins og hún hafði gert í margar aldir þar á undan, étandi úldinn fisk og grasalímsgraut en vegna hjátrúar og fáfræði fúlsar fólk við feitri síldinni sem ólm vill komast ofan í pottana þess. Lífið er þrældómur og strit á akri óvinarins; skinn og lýsi, prjónles, kjöt og kjammi er lagt  inn hjá kaupmanni og nauðsynjavörur teknar út í staðinn. Þetta er hagkerfið og hin íslenska verslunarhefð, peningar sjást aldrei og viðskiptavinirnir eru háðir geðþótta og verðákvörðunum kaupmannsins.

Hallgrímur Helgason
Forlagið

Bóndinn Eilífur í Stundarkoti hafði það af á 20 árum að safna sér fyrir 3 lömbum og einum húsmæni (líkt og kollega hans, Bjartur í Sumarhúsum). Hann hefur verið dæmdur fyrir þjófnað og það er tilhlökkunarefni að fara í tugthús, koma í annan landshluta, fá reglulega að éta og þurfa ekki að strita við annað en sitja af sér dóminn. Hann hefur við upphaf sögu misst allt sem hann á í snjóflóði, nema son sinn á öðru ári en sá er alls staðar sólargeisli og aufúsuGestur. Elífur er að eilífu fastur í stétt fátækra og valdalausra kotbænda og ræður engu um örlög sín. Í dirfskukasti hyggst hann slíta af sér hlekki hugarfarsins og búa sér og syni sínum nýja framtíð en er snarlega brotinn á bak aftur. Þungbært er það þegar draumur Eilífs verður að engu og yfir hann hellist sú ískalda staðreynd að hann er sama sem dauður. Síðast spyrst til hans við frumstæðar og hrollkaldar hákarlaveiðar sem búa til gróða fyrir Kopp kaupmann. En sonurinn, Gestur litli, verður gestur í stétt og húsi kaupmannsins sem hann kallar nú föður sinn.

Gestur er frásagnarmiðjan, draumspakur með glöggt auga og hefur tengingu við allar sögupersónur en þær eru margar og skrautlegar. Snáðinn hefur þolað margt, upplifað missi og höfnun og hryllilegt ofbeldi um borð í franskri skútu, hann er drengur í taugaáfalli, unglingsgrey sem mann langar að taka í fangið, hugga og leiðbeina og helst ættleiða. Þrjá feður eignast hann en sá sem aldrei yfirgefur hann er kjarnaskáldið góða, hinn laghenti og bragfíkni Lási á Ytri-Skriðu sem fann upp hjólið alltof snemma. Hjartaskerandi er frásögn af Gesti í 28. kafla, einmana smala í þoku sem saknar fóstru sinnar, og enn átakanlegri er frásögn af því þegar hann fær bréf frá henni: „Vol hans var einn lágstemmdur og ámátlegur tónn, hinn hreini íslenski tónn í upphafi aldar, upplýstur af einu kerti í fjárhúsi fullu af myrkri“ (306).

Sjálfsagt voru þetta ekki bestu árin til að vera kona á Íslandi, segir á einum stað (197). Vinnukonur, ráðskonur og húsfreyjur eru flestar bognar og skældar af erfiðisvinnu og hafa aðrar eins sögupersónur ekki sést síðan Laxness sérhæfði sig í kvenlýsingum. Nægir að nefna hina hrjúfu Lárensíu sem rétt bregður fyrir með gráar forkristilegar rabbínafléttur og stækt ofnæmi fyrir börnum eftir að hafa eignast átján stykki og Hugljúfu í Hvammi sem enn mátti sjá í gegnum stritslikju lífsins að hafði verið snotur en var nú með samanherptar varir og kalnagaða vanga (369). Andstæður þeirra eru óslitnar en vofulegar prestsekkjurnar í Maddömuhúsi og hin fagra og „stofukæra“ kaupmannsdóttir Vigdís, kona Árna prests, tónskálds og þjóðlagasafnara (sem á sér raunverulega fyrirmynd). Þá er ónefnd Grandvör gamla Guðmannsdóttir frá Útdölum út sem leynir á sér, talar hrafl í frönsku og lumar á kveri í rúmbotni eins og stallsystir hennar í annarri frægri skáldsögu. Lýsing á henni á blaðsíðu 213 er snilld. Hún er ekki bara prjónandi húsdýr (190) heldur lifandi goðsögn og hetja. Af henni er löng saga (208-213) sem hefst svo:

„Í Útdölum út hafði eldur logað á hlóðum frá því um landnám, í rúm níu hundruð ár, sami eldur í sömu stó, og þannig var það á hverjum bæ um land allt, því elds er þörf á ísalandi. Um allar sveitir brunnu þessir ólympíueldar íslenskrar alþýðu og aldrei máttu þeir slökkvast. Á kvöldin var loginn svæfður til að vera vakinn að morgni. Var það kvennalist mikil sem gengið hafði kynslóða á milli, og varð aðeins með höndum numin, því engin þeirra formæðra gat útskýrt í orðum hvernig fela ætti eld. Einstaka sinnum kom það svo reyndar fyrir að eldurinn dó í stónni og var þá illt í efni, því sjálfvirku bensínkveikjararnir sátu enn í biðstofu sögunnar og flettu gömlum eldsneytistímaritum“ (209).

Fjörugur stíll og frumlegt myndmál ganga í gegnum söguna, kröftug nýsköpun sem sprengir upp tíma og rúm og opnar tungumálið með húmor, lifandi myndum og vísunum í hálfdauðan bókmenntaarfinn. Dæmin eru ótalmörg og aðeins nokkur tínd til:

„…honum virtust skjáturnar vera af dvergakyni og brynnti þeim líkt og músum“ (60).

„Að týna  barni var vont. Að týna annarra barni var verra. Að týna týndra manna barni verst“ (151).

„…fram á varir hennar kom svo ógnarblítt bros að sjá mátti að það hafði velkst um í sál hennar áratugum saman eins og bjórkútur í hafi…“ (191).

Frumleikinn yljar lesanda sem gleðst við nýsmíði eins og „harmslengd, píanófingraður, stritbrúnn og brimskeggjaður“, setningarnar sprikla af krafti og andríki. Má maður biðja um meira svona í íslenskum bókmenntum?

Persónurnar eru vandlega byggðar og hafa hver um sig boðskap að færa í skáldverkinu, segja hver sína sögu og sögu þjóðarinnar, saman settar af miskunnarlausu innsæi. Bara eitt dæmi: Rögnvaldur Sólskinsson flakkari, fulltrúi þessa þögla þjóðarbrots, kannski eini eftirlifandi þeirra þúsunda barna sem borin voru út og veinað höfðu í gilskorningum og gjótum Íslands. Málfar hans, þjóðfélagsstaða og hugmyndafræði passa hvergi en hann hefur þó þau áhrif að vekja Gest til umhugsunar og breytir lífi Árna prests.

Það er að mörgu að hyggja í þessari mögnuðu og margradda skáldsögu, í henni er flaumur af myndrænum lýsingum og senum, t.d. þegar Gestur lærir að prjóna en á kotbýlunum urðu allir að prjóna til að geta átt í sig og á til þess að geta haldið áfram að prjóna: „Gestur kom tregur inn í þessa vettlingaverksmiðju og virtist engan veginn vera efni í prjónagamm, það var enn í honum franska duggan, hann dró á eftir sér möru sína hvert sem hann fór og sagði nú sífellt færri orð“ (204). Og senan ægilega sem gerist í Steinkukoti þegar presturinn Árni með sitt snyrtilega yfirskegg vísiterar sigurverk fátæktarinnar, hina íslensku fjósbaðstofu (151-182). Sú sena er yfirgengilega grótesk og grimm, fyndin og sorgleg í senn en verður ekki höfð eftir hér en hlustendur eru hvattir til að lesa, helst við lýsistýru og sem allra fyrst. Ég veit ekki hvers Steinka þessi á að gjalda en hún kemur aftur við sögu í 42. kafla sem ber heitið Fegurðin, fátæktin og er aldeilis óborganleg.

Hvað þráð skal taka hér upp frekar af þeim mörgu sem fléttast saman i hinni sólgulu bók? Forneskjuna og fátæktina hjá þessu ísfólki, stöðnunina og stéttaskiptinguna, þrælslundina eða einokunina? Samanburðinn við Norðmenn eða sálgreininguna á íslensku þjóðinni sem er svo sönn og lýsandi og enn í fullu gildi? Af nógu er að taka.  Í þúsund ár hafði ekkert breyst í samfélaginu, hver dagur var barátta við hungur og kulda en þegar síldin kom í Segulfjörð bankaði framtíðin á dyrnar. Sumarið leið með ati á plani, brakandi seðlum, glampandi sól og mokfiskeríi. En „Að morgni hins sjötta dags septembermánaðar gerði stórgarð af norðri með éljum og hagli. Að draumasumri loknu, fullu af ævintýrum og nýjungum, gnauðaði gamla Ísland í gættum og ljórum“ (449).

Í lok sögu stendur Gestur í alveg sömu sporum og faðir hans í upphafi. Á hann möguleika á mannsæmandi lífi eða heldur vítahringurinn áfram?  Til hvers var svo allt þetta fýrverkerí, allur þessi freyðandi texti og grafísku senur, brýning og háð, ást og ofbeldi, frelsi og ófrelsi? Jú, lesandi er innblásinn og útblásinn eftir lesturinn, hefur notið orðaleiksins, öðlast innsýn og nýja sýn, kímt og viknað, fundið fyrir bullandi samlíðun og von. Það hlýtur jú að vera tilgangur allra góðra skáldverka.

Víðsjá, 15. nóvember 2018

Um kellingar og handrit

Ein áhugaverðasta bókin 2013 sem þó fór hljótt er Sagan af Guðrúnu Ketilsdóttur, einsögurannsókn á ævi 18. aldar vinnukonu. Höfundur bókarinnar, Guðný Hallgrímsdóttir, sagnfræðingur, lýsir því að handrit kvenna hafa verið næsta ósýnileg í gegnum árin, m.a. vegna þess hvernig þau voru skráð í handritaforða Landsbókasafns. Stundum týndust þau í handritapökkum sem merkt voru körlum og stundum voru þau beinlínis ranglega flokkuð og ekki tekin alvarlega. Þannig fór fyrir stuttri sjálfsævisögu Guðrúnar Ketilsdóttur (1759-1842), sem var vinnukona á yfir 30 bæjum í Eyjafjarðarsveit. Til eru nokkur áþekk handrit af sjálfsævisögu Guðrúnar, sem skrifuð var eftir henni þegar hún var um áttrætt, auk uppskriftar Geirs Vigfússonar, sem var skáld og fræðimaður á Akureyri. Geir tekur sér aldeilis bessaleyfi við uppskriftina, bætir í, sleppir og skreytir að vild og uppnefnir Guðrúnu „suðu“ til að gera söguna hlægilega, en algengt var og sjálfsagt þótti að kellingar, fátæklingar og niðursetningar væru hædd og spottuð (20). Þegar sjálfsævisaga Guðrúnar var svo prentuð 1929 í Grímu, safni þjóðlegra fræða, var henni skipað í flokk með gamansögum af heimsku fólki. Jónas Rafnar (d. 1972, sonur Jónasar sem skrifaði Íslenska þjóðhætti), ritaði formála að Grímu og gengur enn lengra en Geir, hann uppdiktar skýringu á uppnefninu á Guðrúnu og segir að hún hafi verið kölluð „Gunna suða“ vegna þess hversu málglöð hún var og mikill rugludallur en það finnst hvergi í öðrum plöggum þar sem Guðrúnar er getið.

Í bók sinni varpar Guðný Hallgrímsdóttir ljósi á líf og kjör vinnukvenna á Íslandi á seinni hluta átjándu aldar og fram á miðja nítjándu öld út frá sjálfsævisögu Guðrúnar og öðrum heimildum. Vinnufólk áttu ekki margra kosta völ í lífinu, það var lagaleg skylda að vera í vist, fólk var hreinlega ánauðugt og húsbændur voru afar misjafnir. Guðrún var sjálfstæð, hörkudugleg og eftirsótt til vinnu framan af ævi og á tímabili ágætlega sett á þeirra tíma mælilkvarða. Hún átti eins bjarta framtíð fyrir sér og hægt var í hennar aðstæðum uns ástin brá fyrir hana fæti, hún féll fyrir ungum sjómanni  og veður skipaðist skjótt í lofti. Guðrún lýsir honum svo eftir að hún skildi við hann:

„Þegar ég var þangað komin þá voru þar sjómenn, meðal hverra einn var frá Hrafnagili, sá bölvaður refur og hét Illugi, álitlegur maður en margur hylur úlfinn undir sauðargærunni, svo var um hann. Bauð hann mér alla þjónustu en ókunnugir varningur firrir margan fé. Hann var með bjart hár, í blárri peysu, grænum bol, hatt og góða skó. Þá kom tilhugalífið með okkur Illuga. Ég átti fimm kistur, þar var meira en myrkrið tómt. Í einnu voru rúsínur og laumaði ég í hann af þeim því ég hugsaði að þetta væri maður en ekki djöfull. Svo tældi hann mig í búskap að Kristnesi og átti ég þó súrtunnu um haustið og margt þar niðrí… Þá fór hann í sitt hórurí og fór stelpu af stelpu en ég mátti sluma og þegja og ergist hvur með aldrinum…“ (35-6)

Guðrún lætur engan eiga hjá sér, hún er ómyrk í máli í sögunni og hlífir hvorki manni sínum, húsbændum né samferðamönnum í sjálfsævisögunni. Og hún er ekkert að orðlengja neitt, frásögnin æðir áfram og ekkert dvalið við smámuni. En glöggt má sjá að henni sárnaði oft óréttlætið sem hún varð fyrir. Eftir skilnaðinn missti hún eigur sínar, var á hrakhólum og endaði sem niðursetningur. Það voru grimm örlög en því miður hlutskipti margra sem ekki áttu í nein hús að venda.

í bókinni er sjálfsævisagan birt með nútímastafsetningu og stafrétt auk útgáfu Jónasar í Grímu svo hægt er að bera saman hvernig farið var með sögu Guðrúnar. Guðný fjallar mjög ítarlega um ævi Guðrúnar út frá sjálfsævisögunni og brotakenndum heimildum frá þessum tíma og tekst að draga upp heilsteypta mynd af lífshlaupi hennar. Það er t.d. magnað að lesa um það þegar dánarbú foreldra hennar er gert upp, taldar eru upp fáæklegar reytur þeirra, fatnaður, búsáhöld og bækur, sem lýsa vel aðstæðum fólks á þessum tíma. Bók Guðnýjar er einstaklega aðgengilegt fræðirit og hún gerir sér mikinn mat úr þessu örstutta handriti sem líklega er elsta varðveitta sjálfsævisaga íslenskrar konu, handrit sem með naumindum lifði af þöggun og yfirgang karlveldisins. Það voru menntaðir karlar úr yfirstétt sem skrásettu og röðuðu handritunum á síðustu öld og af afdrifum sjálfævisögu Guðrúnar Ketilsdóttur má glöggt  hvaða álit þeir höfðu á handritum alþýðukellinga.