Stórgóður þáttur í Víðsjá, tileinkaður afmælisbarninu: Elvis Presley sem hefði orðið 75 ára í dag. Sagt var frá áhrifum hans á tónlistarsöguna en hann nýtti sér takta úr negrasálmum og tónlist þeldökkra sem þá var bönnuð. Frægð hans var gríðarlega mikil en líkt og Michael Jackson varð hann fórnarlamb hennar, innilokaður á heimili sínu og stútfullur af læknadópi. Hann var líka útpískaður karlgreyið, árið 1972 hélt hann t.d. að meðaltali 10 tónleika í mánuði með miklu stuði og mjaðmahnykkjum, þar sem trylltir aðdáendur hylltu hann og tónlist hans. Bros hans er ómótstæðilegt, göngulagið og hreyfingarnar ótrúlega kynþokkafullar. Hann lést haustið 1977, óumdeilanlega eini konungurinn sem Ameríkanar hafa átt. Þegar ég var ca 15 fékk ég Elvis-æði, við Elva Guðna, elsku vinkona mín heitin, lágum fyrir framan grammófóninn í stofunni með Elvis í botni, skrifuðum upp textana og horfðum djúpt í augu hans á plötuumslaginu. Sjáið bara hvað hann er rosalega heitur í þessu lagi:
Elvis hefur yfirgefið bygginguna en hann lifir:
Bowie átti líka afmæli í gær en ekki merkis…
Þrátt fyrir fegurð sína og sjarma, kynþokka, heimsfrægð og auðævi er eitthvað sorglegt við Elvis, einhver tragedía og viðkvæmni. Hann er mér ákaflega hugleikinn þessa dagana. Ég held að umboðsmaðurinn hafi brugðist honum (hugsaði bara um að græða en ekki um að gefa Elvisi svigrúm til að þróa hæfileika sína) og stílistinn líka (sbr. semalíugallana sem voru alveg úti á túni undir það síðasta). Aðdáendurnir ætluðu að éta hann lifandi og fjölmiðlar sátu um hann allan sólarhringinn til að rífa hann í sig. Örlög hans eru dapurleg og ættu að vera víti til varnaðar.