Ég heyrði skemmtilega samlíkingu hjá snillingnum Hjörleifi Hjartarsyni frá Tjörn í Svarfaðardal en hann var var í þætti Sirrýjar sl. laugardagsmorgun á rás 2. Hjörleifur benti á að íslenska þjóðin á margt sameiginlegt með íslenskum fjárhundi og það er alveg laukrétt. Hann er alltaf með eyrun sperrt og hringaða rófuna, glaður og stoltur af sjálfum sér og afrekum sínum, fallegur á feldinn og hreinræktaður. Hann er geltandi og gjammandi í tíma og ótíma og hleypur flaðrandi upp um húsbændur sína sem sparka í hann hvenær sem þeir geta. Hann er gjörsamlega gagnslaust húsdýr og vonlaus smalahundur: þegar menn eru búnir með þolinmæði og þrautseigju að koma safninu á einn stað, tvístrar hann því á augabragði og kemur svo á sprettinum til húsbóndans og býst við verðlaunum.