Hjarta mannsins

Ég hef dregið það doldið að fjalla hér um Hjarta mannsins. Ástæðan er sú að sagan hefur kraumað í mér, ég hef skammtað mér lesturinn og sparað stóru orðin. Ég hef treint kaflana, lesið setningarnar aftur og aftur, kjamsað á orðunum. Persónurnar í plássinu hafa orðið mér nákomnar, þær lifna í huganum og tengjast fyrri lestrarreynslu og sagnaarfi, Geirþrúður og Andrea eru Salka Valka allra tíma,  fulltrúar hinna sterku kvenna sem samfélagið kúgar og reynir að troða í hefðbundið kynhlutverk, Snorri, Gísli  og Rakel, fátækir bændur og hoknir sjómenn, eru fulltrúar kúgaðrar alþýðu en strákurinn er Ólafur Kárason, svo blíður og skáldlegur í hryssingslegum aðstæðum með einfeldningslega ofurtrú á bækur og þekkingu í hróplegri andstöðu  við allt í kringum hann. Stíllinn er fallegur, blíður og stríður, heimspekilegur og hvunndagslegur í senn, orðaforðinn í takt við tímann, myndmálið áhrifaríkt og oft stórbrotið án þess að verða tuggið eða tilgerðarlegt, örlögin eru dramatísk og átakanleg í grimmum hversdagleikanum. Sjórinn leikur stórt hlutverk, hann er bæði lífsbjörg og voði, líkt og skáldskapurinn. Á sögutímanum er hver dagur glíma við dauðann og barátta fyrir lífinu, við kulda, sult og sjúkdóma.  Ótrúlegur fjöldi fólks drukknaði á ári hverju, kól til skemmda eða bana, varð úti, velktist um í óhamingju og fátækt, náttúruöflin sýndu enga miskunn, stéttaskiptingin var skýr og klár, fátækt og fáfræði gerðu menn grimma og örvæntingarfulla, skólaganga var aðeins á færi örfárra og hamingjan var litin hornauga. Plássið rúmar allan tilfinningaskalann,  öfundina, slúðrið og baknagið í bland við hugsjónir og bókmenntir, von og ást. Valdahlutföllin eru skýr, hlutskipti hinna fátæku er hart og hlutur fátækra kvenna sýnu verstur ef frá er talið hlutskipti  barna þeirra. Jón Kalman nýtir sér sagnfræði og sagnaarf á snilldarlegan hátt, hann endurlífgar gamlar heimildir, býr til nýja veröld úr þeirri sem var, dustar ryk af fornum ferða-og hrakningasögum, annálum, bréfum. Yrkisefnið er sígilt, ástin, örlögin, lífið og dauðinn. Enn situr í mér lýsingin á örlögum Bárðar úr Himnaríki og helvíti, það er langt síðan bókarkafli hefur hreyft svona mikið við mér. Það er óskiljanlegt af hverju Hjarta mannsins var ekki tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna 2011 og ég batt lengi vonir við menningarverðlaun DV sem hafa oft verið óháð og djörf í tilnefningum. Bækur Jóns Kalmans um manninn, englana, sorgina, óblíða náttúruna, skáldskapinn, ástina, lífið og dauðann eru með betri bókum sem ég hef lesið um langa hríð. Þær koma svo sannarlega við hjartað í mér.

5 athugasemdir

  1. þetta er mögnuð lýsing hjá þér gamla vinkona, ég er búin með fyrstu umferð og var í einhvers konar leiðslu milli lestrarlotanna, nú ætla ég að byrja aftur á þríleiknum oglesa hann helst allan fyrir vorið og njóta nú hverrar setningar þegar söguþráðurinn er orðinn nokkuð kunnuglegur, vonandi eigum við von á fleiri svona handsmíðuðum skartgripum frá þessum heilsteypta höfundi eða heilsteipta nei nei

  2. Hefurðu kenningu um það hví Jón Kalmann nær ekki inn í menningarelítuna, er hann of mikið raunverulegt náttúrubarn, en ekki malbiksrotta með stjörnur í augum sem ekki þekkir lífsbaráttu eða raunveruleika hins hrikalega lands okkar??

  3. Á eftir að lesa hana, hlakka ekkert smá til, er búin að bíða eftir framhaldi síðan maður var skilinn eftir í lausu lofti í harmi englanna.. Dásamlegar bækur, á örugglega eftir að lesa þær aftur.
    Handsmíðaðir skartgripir……. svo sannarlega satt!!

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s