Glæpur og refsing

JPVMorgunninn færir mönnunum enga birtu aðra en þá sem þeir hafa hver af öðrum. Vindar æða glefsandi um völl og dauðinn vitjar um net sín, aflasæl eftir þrautir næturinnar. Myrkraverur líða eftir götunum – konur vafðar í svört sjöl að færa hver annarri brauðbita, dánarfregn og ljós í lófa; karlar á leið til að afplána enn eitt tilverustigið án þess að það næsta sé í sjónmáli – með hríðina í fangið… (67).

Söguleg skáldsaga Guðmundar Andra Thorssonar, Sæmd, gerist í Reykjavík í desember 1882. Höfuðstaðurinn undir lok 19. aldar er lítill bær í harðbýlu landi, kúrir við sjóinn, vindbarinn og kaldur, fátækur og undir stjórn Dana. Þar búa og streða sögufrægar persónur:  Benedikt Gröndal (1826-1907) er kennari við Lærða skólann, skáld og listamaður sem fræðir nemendur sína um listina, ástina og fegurðina, Hann er fátækur og drykkfelldur, þunglyndur, sorgmæddur og einmana. Björn M. Ólsen (1850-1919).er yfirkennari skólans sem trúir því að agi, eftirlit og refsingar geri afbragðs menn úr skólapiltum og að beita skuli valdi til að forða þeim og samfélaginu öllu frá glötun. Báðir þessir menn eru háskólagengnir, miklir íslenskumenn og bókmenntafræðingar en hafa gjörólíka afstöðu til allra hluta. Þegar upp kemur þjófnaðarmál í skólanum lendir þeim saman, Björn er í fullri vissu um að grimmasta refsing sé nauðsynleg, Gröndal telur að mildi sé rétta leiðin.    

Benedikt er afar áhugaverð og litrík persóna, lífshlaup hans var merkilegt og þess virði að ítarlegri ævisögu hans verði lokið hið snarasta. Hann hafði afar fjölbreytta hæfileika sem nýttust honum lítt, m.a. vegna þunglyndis og óeirðar sem plöguðu hann sífellt auk drykkju og ístöðuleysis. Faðir hans og afi voru merk skáld og stóð hann ávallt í skugga þeirra. Hann ber sig líka sifellt saman við samtímaskáldin Steingrím og Matthías og finnst sjálfum sá samanburður ansi hagstæður. Sjálfsævisöguna Dægradvöl ritaði hann þar sem hann kvartar mjög yfir sínu hlutskipti og finnst hann stórlega vanmetinn og alls staðar sniðgenginn. Hann skrifaði einnig hina stórskemmtilegu grein Reykjavík um aldamótin 1900 sem gefur góða mynd af bæjarlífinu á þeim tíma.  Í bók Guðmundar Andra dvelur skáldið við dægrin sín, undirbýr kennslu, sýslar ýmislegt, s.s. að yrkja erfiljóð, skrautrita og sinna dóttur sinni Túllu. Dregin er upp falleg mynd af margbrotnum Gröndal, vanmetnu skáldi, mannvini og viðkvæmum listamanni, kennara  með ríka köllun til að fræða og mennta nemendur sína á húmanískan hátt, á jafningjagrundvelli en stendur í endalausu andstreymi;  slúður þorpsins og baknag, andstaða kolleganna, fátækt og umkomuleysi. Björn hins vegar er virtur og vel stæður og hans bíða æðri embætti og vegtyllur þótt hann sé þurs með undarlegar kenndir, hann fylgist með piltunum sofandi og másar yfir þeim. Hann hefur átt í útistöðum við nemendur sem vilja ekki lúta ægivaldi hans en hann beitir því miskunnarlaust og slakar hvergi á klónni. Hann er þjóðernissinni sem nærist á ímynd um forna landsnámsmenn með hreint blóð í æðum sem flúðu ofríki smákónga, hann misbeitir valdi sínu, níðist á minni máttar, hefnigjarn og grimmur í þeirri einbeittu trú sinni að hlutverk hans sé að halda uppi aga og réttu siðferði.

Guðmundur Andri dregur  upp afar lifandi mynd af þessum mönnum og sögutímanum með frábærum persónulýsingum og fögrum stíl. Þetta er ekki byltingarkennd mynd  eða óvenjuleg en hún er skýr og djúp. Spennan er byggð upp hægt og markvisst og í sögumanni speglast vel hversu tæpt það stóð hvort ungmenni á þessum tíma áttu kost á námi og bjartri framtíð með tryggri tilveru og ljóst að vald yfir því er í höndum embættismanna sem standa vörð um eigin hag, eigin stétt og forréttindi, eigið valdakerfi. Þetta er saga um vald, kúgun og yfirgang sem því miður heyrir ekki fortíðinni til en endurtekur sig í sífellu. Sagan er ekki síður um spillingu, eins og Gröndal segir um Dani: „Það er einmitt vegna þessa viðrinissambands sem við erum alltaf á rassinum og frá þessu sambandi er sprottið mikið af því ósamlyndi sem ríkir alltaf hjá okkur því að stjórnin mútar mönnum með laununum og embættunum til að setja sig upp á móti öllu því sem kann að verða til framfara – ja, herra Guð, bara að við gætum brotist út úr þessu skítasambandi“ (87-88).

Báðir þrá þeir sæmd, Björn, Gröndal og sögumaður, hvor með sínum hætti, að fá að sitja í sóma sínum og heiðri eins og þeim sæmir. En mannanna láni er misskipt og það er listin, réttlætið og andinn sem fara halloka fyrir valdinu, kúgararnir og rassasleikjurnar fá sitt fram. Sæmd er gullfalleg, rómantísk saga, minnisvarði og myndræn aldarfarslýsing með margræðri vísun til samtímans.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s