JPV forlag

Torrek Eggharðs

villimadurheader-688x451
„…hlógum brjálæðislega
hlógum dauðann til okkarföðmuðum hann
því við höfðum skilað pundi
dal, krónu, franka
þrjátíu bókum og tveimur sonum

hlógum líf okkar
í sátt

elskan mín
ég þarf ekki að sjá þig eldast
og þú ekki mig
það er svo gott

þú ætíð ungur
ég þér alltaf ung
okkar band
eilíft sumar…“
(14)

 

Í þessu broti úr ljóðinu Panþeon í nýrri ljóðabók Þórunnar J. Valdimarsdóttur tengjast ást, sorg og söknuður á hárfínan og fallegan hátt. Ljóðabókin, sem ber heitið Villimaður í París, er tileinkuð eiginmanni Þórunnar, Eggerti Þór Bernharðssyni. Hann lést sviplega á gamlársdag 2014, „síðasta virka dag árs og lífs“. Hér er því á ferð eins konar torrek „Eggharðs“, þar sem skáldið yrkir sig í þá sátt sem möguleg er, líkt og önnur höfuðskáld forðum eins og frægt er orðið.

Minnisbók og myndavél

Ljóðin tengjast sumardvöl þeirra hjóna í París vorið 2013 þar sem þau rölta grunlaus um götur með minnisbók og myndavél, skoða söfn og sögustaði og virða fyrir sér fjölbreytilegt mannlíf. Ljósmyndir Eggerts prýða ljóðabókina og þær eru einlægar; hvorki fegraðar né fótósjoppaðar. Einnig eru í bókinni kraftmiklar pennatússteikningar eftir Þórunni sjálfa sem byggja á hringformum og fuglsmyndum.

Aldrei staðnað orð

Þórunn hefur margsinnis sýnt að hún hefur tungumálið fullkomlega á valdi sínu. Það sannast enn í þessari bók, í myndmáli, orðaleikjum og frumlegu rími. Ljóðin fjalla ekki bara um sorg og söknuð, sum eru um íslensku sem er „helgust tungna,“ það dugar ekki að hringla með hálflærðar tungur í munninum (37) og varðveita ber íslenskuna sem getur svo auðveldlega dáið út. Ljóðið …í mánaskinibirtir þessa afstöðu skýrt en það hljóðar svo: „yndi að heyra / litla leyniklúbbnum til / íslenskunni / teygi mig djúpt inn í blámann / bak við prentsvertuna / holdtekjur bregða á leik / í bragðasekk lífsins / allt skilur eftir far/ slíttu bara ekki / grunntaugina“ (41).

Dýpt og gáski

Í meðförum Þórunnar fá orðin dýpri merkingu og gáskafullt samhengi, hún þvær „útskitin eðalorð“ (50), skolar af þeim gróm aldanna. Dæmin eru ótal mörg en vert að nefna nokkur sem skína: að skilja eftir hóffar í hundaskít (55), ástin er ljósfluga og sæhestur (51), þokkaskötur og góðhveli (32), mannsamlokur (22) og glös melrósanna (19). Meðan tungumálið er dustað svona hressilega þarf kannski ekki að óttast framtíð þess.

Hestafl sorgar

Eitt af síðustu ljóðum bókarinnar er Hestafl sorgar, gullfallegt og persónulegt og svo sárt að nístir í merg og bein. Sá sem les það þurreygur hefur steinhjarta.

„tólf hestar
frá Breiðabólstöðum
steinbæ Þórunnar ömmu
héldu til heljar rétt fyrir jól
um ístjörn Bessastaðatólf ára systir Snorra á Húsafelli
tekin af Furhmann amtmanni
drukknaði í sömu tjörn
á átjándu öld

„boðar ófögnuð“
sagði ég við Eggharð
sem sat í prestastól
að greiða sítt hár sitt
blautt grásprengt slegið
kvöldið áður en hjartað sprakk

síðasta virka dag árs og lífs

bað um hárblásara
fyrsta og eina sinn
honum var kalt

fagur í kistunni
höfðinginn minn
hefur tólf með til Valhallar
óminnisdjúpið þangað
sannlega dó hann
á vígvelli pennans

sama draumsæi sér
hvernig hann rotnar
við hvítblátt sængurlín
franskar liljur

sorgin sá svarti fnykur
kom úr Faxaflóa
hvítu hryssanna
að sturla mig

Sleipnir
hentist með mig
heim í hjarta lífs
sem er sterkara
en dauðinn“
(75-6)

Hver er villimaður?

Villimaður í París er yndislesning, heildstæð og harmræn blanda af sársauka og sátt. En hver er villimaðurinn? Er það Íslendingurinn sem villist milli fornfrægra kastala og konungshalla sem hvergi er að finna á eyjunni hans? Býr hann í frumeðli mannsins og stingur í stúf í háborg siðmenningarinnar? Eða er sá villimaður sem veit ekki að dauðinn er skammt undan?

Kvennablaðið, 14. júní 2018

 

Týpan sem konur falla fyrir?

Hús geta verið býsna ógnvekjandi fyrirbæri, eins og dæmin sanna bæði úr skáldskap og kvikmyndum. Ekki aðeins þau sem eru gömul og niðurnídd með ískrandi hjörum, brakandi stigaþrepum og dimmum kjallara, heldur ekki síður glansandi og stílhreinar nýbyggingar með öllum hugsanlegum þægindum. Slíkt hús er umgjörð ógnþrunginnar spennusögu, Stúlkan á undan (The Girl Before) eftir höfund sem skrifar undir ýmsum nöfnum, að þessu sinni dulnefninu JP Delaney.

Stelpan_a_undan_72Glæsihús í Lundúnum sem hinn vellríki og bráðmyndarlegi ekkill Edward Monkford hannaði og byggði er til leigu. Til að gerast leigjandi þarf viðkomandi að gangast undir ítarlegt persónuleikapróf þar sem spurt er samviskuspurninga á borð við: „Myndirðu fórna þér til þess að bjarga tíu saklausum, ókunnum manneskjum?“ (35). Leigjandinn þarf líka að uppfylla ströng skilyrði um umgengni og svara formlega matsspurningum í hverjum mánuði en leigan er fáránlega lág. Emma og Simon eru par á fallanda fæti og hvorugt þar sem þau eru séð. Þeim tekst að fá leigusamning hjá Monkford en brátt fer húsnæðið að hafa áhrif á líf þeirra og ekki síður arkitektinn, siðblindur og hættulega heillandi. Næsti leigjandi á eftir þeim, hin sakleysislega Jane Cavendish, er að jafna sig eftir erfiða lífsreynslu og fer ekki heldur varhluta af áhrifum hússins, saga  hennar fléttast saman við örlög fyrri leigjenda og brátt er um líf og dauða að tefla. Það verður að segjast að söguþráðurinn er hrikalega spennandi og hrollvekjandi og engin leið að hætta fyrr en sagan er öll.

Hönnun hússins er ætlað að breyta lífi leigjendanna til hins betra og búa þeim fullkomið líf í skjóli frá skarkala umheimsins. Í húsinu eru engar hurðir, engar myndir, engar mottur, engin perustæði. Allt sem þarf er innfellt, sérsmíðað og tölvustýrt.  Hönnunin minnir á dystópíu sem í rauninni er orðin að veruleika í nútímalegri byggingalist. Með úthugsuðum þægindum og nýjustu tækni, sjálfvirkni og sínálægu eftirliti er lífi leigjendanna stjórnað á flauelsmjúkan hátt:

Daglega leggur Húsráðandi til hvaða fötum ég ætti að klæðast með tilliti til veðurs, minnir á stefnumót og fundi og sýnir mér stöðuna á óhreina þvottinum. Ef ég ætla að borða heima sýnir Húsráðandi  mér hvað er til í ísskápnum, bendir á eldurnarmöguleika og upplýsir um hitaeiningafjölda. „Leita“ sér hinsvegar um að sía burt auglýsingar, skotglugga sem bjóða mér upp á flatari kvið, truflandi fréttir, vinsældalista, slúður um smástjörnur, ruslpóst og vafrakökur. Það eru engin bókamerki, engin vafrasaga, engar geymdar upplýsingar. Allt er þurrkað út um leið og ég slekk á skjánum. Það er undarlega frelsandi… (72).

„Húsráðandi“ er app sem fylgir leigusamningnum og auðvelt er að ánetjast þar sem það er bæði hentugt og hagkvæmt. En um leið verður leigjandinn að vera tilbúinn til að breyta lífi sínu, aðlagast húsnæðinu og uppfylla kröfur leigusalans.

Edward hugsar sig um. „Við þurfum að vera agaðri í því að ganga frá snyrtivörunum. Í morgun, til dæmis, sá ég að þú hafðir skilið sjampóið þitt eftir.“

„Ég veit. Ég gleymdi því.“

„Jæja, ekki rífa þig niður. Það krefst sjálfsaga að lifa svona. En ég held að þú sért þegar farin að sjá að umbunin er þess virði.“  (207)

Það er algengt trix í reyfurum sem þessum að skipta sjónarhorni og tíma milli persóna til að skapa spennu. Formúlan  svínvirkar í þessari bók, Emma (fortíð) og Jane (nútíð) hafa orðið til skiptis og lesanda er sannarlega haldið í helgreipum. Engin persóna er þó sérlega geðfelld í þessari sögu. Það er að auki truflandi hversu viljalaus verkfæri kvenpersónurnar eru í höndum Monkfords sem minnir óhugnanlega á sjarmör Fimmtíu grárra skugga; glæsilegur og metnaðarfullur, eins og „afslappaður kennari með mikla kyntöfra“ (58) en undir yfirborðinu er hann einmana, sjúkur og þjáður. Er það týpan sem höfðar til allra kvenna? Líklega, því bókin hefur þotið upp metsölulista í þrjátíu og fimm löndum og endar væntanlega á hvíta tjaldinu.

Ísak Harðarson, hið magnaða skáld, þýðir á íslensku, víðast ágætlega en sums staðar er fljótaskrift á þýðingunni. Titillinn Stúlkan á undan er bein þýðing úr ensku og velta má fyrir sér hvort þýðandi hefði ekki mátt leyfa sér smá skáldaleyfi hér á ylhýrri íslensku. Hvað sem því líður er sagan óhemju spennandi; sjóðheit sumarlesning þar sem maður fær allt fyrir peninginn.

Stúlkan á undan

JPV útgáfa, Forlagið 2017

414 bls.

Þýðandi: Ísak Harðarson

 

Birt í Kvennablaðinu, 21. júlí 2017

Glæpur og refsing

JPVMorgunninn færir mönnunum enga birtu aðra en þá sem þeir hafa hver af öðrum. Vindar æða glefsandi um völl og dauðinn vitjar um net sín, aflasæl eftir þrautir næturinnar. Myrkraverur líða eftir götunum – konur vafðar í svört sjöl að færa hver annarri brauðbita, dánarfregn og ljós í lófa; karlar á leið til að afplána enn eitt tilverustigið án þess að það næsta sé í sjónmáli – með hríðina í fangið… (67).

Söguleg skáldsaga Guðmundar Andra Thorssonar, Sæmd, gerist í Reykjavík í desember 1882. Höfuðstaðurinn undir lok 19. aldar er lítill bær í harðbýlu landi, kúrir við sjóinn, vindbarinn og kaldur, fátækur og undir stjórn Dana. Þar búa og streða sögufrægar persónur:  Benedikt Gröndal (1826-1907) er kennari við Lærða skólann, skáld og listamaður sem fræðir nemendur sína um listina, ástina og fegurðina, Hann er fátækur og drykkfelldur, þunglyndur, sorgmæddur og einmana. Björn M. Ólsen (1850-1919).er yfirkennari skólans sem trúir því að agi, eftirlit og refsingar geri afbragðs menn úr skólapiltum og að beita skuli valdi til að forða þeim og samfélaginu öllu frá glötun. Báðir þessir menn eru háskólagengnir, miklir íslenskumenn og bókmenntafræðingar en hafa gjörólíka afstöðu til allra hluta. Þegar upp kemur þjófnaðarmál í skólanum lendir þeim saman, Björn er í fullri vissu um að grimmasta refsing sé nauðsynleg, Gröndal telur að mildi sé rétta leiðin.    

Benedikt er afar áhugaverð og litrík persóna, lífshlaup hans var merkilegt og þess virði að ítarlegri ævisögu hans verði lokið hið snarasta. Hann hafði afar fjölbreytta hæfileika sem nýttust honum lítt, m.a. vegna þunglyndis og óeirðar sem plöguðu hann sífellt auk drykkju og ístöðuleysis. Faðir hans og afi voru merk skáld og stóð hann ávallt í skugga þeirra. Hann ber sig líka sifellt saman við samtímaskáldin Steingrím og Matthías og finnst sjálfum sá samanburður ansi hagstæður. Sjálfsævisöguna Dægradvöl ritaði hann þar sem hann kvartar mjög yfir sínu hlutskipti og finnst hann stórlega vanmetinn og alls staðar sniðgenginn. Hann skrifaði einnig hina stórskemmtilegu grein Reykjavík um aldamótin 1900 sem gefur góða mynd af bæjarlífinu á þeim tíma.  Í bók Guðmundar Andra dvelur skáldið við dægrin sín, undirbýr kennslu, sýslar ýmislegt, s.s. að yrkja erfiljóð, skrautrita og sinna dóttur sinni Túllu. Dregin er upp falleg mynd af margbrotnum Gröndal, vanmetnu skáldi, mannvini og viðkvæmum listamanni, kennara  með ríka köllun til að fræða og mennta nemendur sína á húmanískan hátt, á jafningjagrundvelli en stendur í endalausu andstreymi;  slúður þorpsins og baknag, andstaða kolleganna, fátækt og umkomuleysi. Björn hins vegar er virtur og vel stæður og hans bíða æðri embætti og vegtyllur þótt hann sé þurs með undarlegar kenndir, hann fylgist með piltunum sofandi og másar yfir þeim. Hann hefur átt í útistöðum við nemendur sem vilja ekki lúta ægivaldi hans en hann beitir því miskunnarlaust og slakar hvergi á klónni. Hann er þjóðernissinni sem nærist á ímynd um forna landsnámsmenn með hreint blóð í æðum sem flúðu ofríki smákónga, hann misbeitir valdi sínu, níðist á minni máttar, hefnigjarn og grimmur í þeirri einbeittu trú sinni að hlutverk hans sé að halda uppi aga og réttu siðferði.

Guðmundur Andri dregur  upp afar lifandi mynd af þessum mönnum og sögutímanum með frábærum persónulýsingum og fögrum stíl. Þetta er ekki byltingarkennd mynd  eða óvenjuleg en hún er skýr og djúp. Spennan er byggð upp hægt og markvisst og í sögumanni speglast vel hversu tæpt það stóð hvort ungmenni á þessum tíma áttu kost á námi og bjartri framtíð með tryggri tilveru og ljóst að vald yfir því er í höndum embættismanna sem standa vörð um eigin hag, eigin stétt og forréttindi, eigið valdakerfi. Þetta er saga um vald, kúgun og yfirgang sem því miður heyrir ekki fortíðinni til en endurtekur sig í sífellu. Sagan er ekki síður um spillingu, eins og Gröndal segir um Dani: „Það er einmitt vegna þessa viðrinissambands sem við erum alltaf á rassinum og frá þessu sambandi er sprottið mikið af því ósamlyndi sem ríkir alltaf hjá okkur því að stjórnin mútar mönnum með laununum og embættunum til að setja sig upp á móti öllu því sem kann að verða til framfara – ja, herra Guð, bara að við gætum brotist út úr þessu skítasambandi“ (87-88).

Báðir þrá þeir sæmd, Björn, Gröndal og sögumaður, hvor með sínum hætti, að fá að sitja í sóma sínum og heiðri eins og þeim sæmir. En mannanna láni er misskipt og það er listin, réttlætið og andinn sem fara halloka fyrir valdinu, kúgararnir og rassasleikjurnar fá sitt fram. Sæmd er gullfalleg, rómantísk saga, minnisvarði og myndræn aldarfarslýsing með margræðri vísun til samtímans.