Benedikt S Gröndal

Merkilegur pinni sem alkunnur var um allt land

Dægradvöl. ForlagiðBenedikt Gröndal Sveinbjarnarson (1826-1907) var fræðimaður og skáld, snillingur á mörgum sviðum en gekk illa að nýta hæfileika sína af ýmsum ástæðum. Hann ritaði sjálfsævisögu, Dægradvöl, sem prentuð var löngu eftir hans dag og Mál og menning gaf út nýlega í kilju í flokknum „íslensk klassík“ með skýringum og athugasemdum Ingvars Stefánssonar úr útgáfunni frá 1965. Dægradvöl er eitt af lykilverkum íslenskrar bókmenntasögu. Hún skipar sérstakan sess meðal sjálfsævisagna, m.a. vegna þess að Gröndal hlífir engum í frásögninni, allra síst sjálfum sér, og vegna þeirra áhrifa sem hún hefur haft á íslenskrar bókmenntir, t.d. á skrif Þórbergs Þórðarsonar. Nú síðast varð lítið atvik sem minnst er á í verkinu kveikja að skáldsögunni Sæmd eftir Guðmund Andra Thorsson (355-6). Dægradvöl hefur varðveist í handriti í Landsbókasafni, bæði í styttra uppkasti og sem rúmlega 500 blaðsíðna endurgerð með fíngerðri og fallegri rithönd Gröndals. Textinn er innblásinn, andríkur og meinfyndinn, með neðanmálsgreinum, útstrikunum og innskotum, hann flæðir viðstöðulaust fram og mörgu ægir saman: minningum, skáldskaparpælingum, samfélagsgagnrýni, mannlýsingum og  vonbrigðarausi; og allt á gullaldarmáli.

Sögunni er skipt í kafla eftir tímaröð.  Æskuárunum er lýst  í skipulegum texta, sem morar af margs konar staðar- , náttúru- og mannlýsingum. Í gegnum þær glittir í lítinn strák, sílesandi og teiknandi, sem þráir ást og viðurkenningu og særist í samskiptum sínum við annað fólk  enda „ekki vanur að vera með mönnum“ eins og mamma hans sagði (98). Skemmtilegar eru lýsingar hans á skólalífinu á Bessastöðum, bæði á hrekkjum piltanna, kennurunum og kennsluháttum.  Sjálfur segist hann vera latur meðalsluksari og þegar hann útskrifast er hann stefnulaus og óráðinn um framtíðina og foreldrar hans láta hann sjálfráða: „en hefði nokkur maður þurft leiðbeiningar eða áminningar, þá var það ég; lífið var fyrir mér eins og fagur draumur, ég vissi ekkert, hvað ég vildi, ég hafði enga hugmynd um embættislestur, og mér datt ekki í hug, að maður þyrfti að vinna fyrir sér; allt sem ég gerði, það gerði ég út í bláinn, tilgangslaust, einungis mér til gamans eða einhverrar ánægju“ (155). Eins og glópur fór hann í háskólann í Kaupmannahöfn,  var áhugalaus við námið  enda stundaði hann það án nokkurs takmarks eða tilgangs.  Gröndal segir þegar hann horfir um öxl að Hafnardvölin hafi  haft slæm áhrif á sálarlíf hans, valdið „alvöru hans undir niðri“ þótt hann væri „glaður ofan á og haft gaman af lífsnautn og fyndni“ (185). Rúmlega þrítugur hefur hann ekki lokið neinu háskólaprófi, slarkað og sukkað, eitthvað ort og skrifað en ekkert af viti,  „sundurtættur af sorg og eymd“. Um hríð dvaldi hann í klaustri án þess þó að fá nokkra sáluhjálp en náði að einbeita sér að skáldskap. Loks lauk hann prófi í norrænum fræðum, fyrstur Íslendinga, náði sér í konu og gerðist kennari í Reykjavík en missti konuna, hraktist svo frá kennarastarfinu vegna þunglyndis og drykkjuskapar, og harkaði ýmislegt upp frá því, skrifaði, orti og teiknaði, einmana og fátækur. Allt þótti honum sér andsnúið og enginn vildi neitt hafa að gera með „þennan merkilega pinna sem alkunnur var um allt land“ (365). Undir lok sögunnar er tímaskynið farið að riðlast og tíminn hleypur frá honum. Hann reynir að skapa heild úr smáatriðum, minnisleiftrum og gloppóttum brotum en hrekst alltaf út í óreiðu og stefnuleysi í skrifunum sem enda síðan snögglega, á dæmigerðum bituryrðum um „hvernig ég var flekaður, með refjum og lygum og yfirgangi…“ (392).

Fánýti, vonbrigði og sársauki gegnsýra ævisöguna og  einmanakenndin er leiðarstef. Gröndal er  útilokaður, beiskur og vonsvikinn,  dægradvölin snýst upp í dægurþras. Brugðið er upp óvægnum myndum af t.d. Jóni Sigurðssyni, Fjölnismönnum, Matthíasi Jochumssyni, Grími Thomsen og fleiri kunnum 19. aldar mönnum sem og alþýðufólki samtímans, og gagnrýnum lýsingum á aldarfari og tíðaranda. Fræg er lýsing hans á rímnaskáldinu Sigurði Breiðfjörð, og örlögum hans: „Sigurður var gildur meðalmaður, ljótur og luralegur, og auðsjáanlega spilltur og tútinn af slarki; hann gekk á grófum kalmúksfrakka og var fullur, þegar hann gat. Hann dó úr sulti á lofti í „Hákonsenshúsi“, Íslendingum til sóma“ (92).

Það kemur skýrt fram í sögunni að Gröndal upplifir sig öðruvísi en aðrir menn. Hann stóð alltaf í skugga föður síns, Sveinbjarnar Egilssonar, skálds og þýðanda, þótt hann nyti góðs af orðstír hans í mörgu. Hann passaði hvergi inn, tilheyrði hvorki menntamannaklíkunni sem skipti með sér embættum og bitlingum í samfélaginu, þjóðskáldunum né alþýðu manna. Í Dægradvöl birtist ráðvilltur og vanmetinn snillingur, viðkvæmur sveimhugi og ídealisti í fjandsamlegu og þröngsýnu samfélagi sem einkennist af stéttaskiptingu, klíkuskap og  kjaftagangi. Alla tíð var Gröndal ósáttur við sinn hlut og það brýst út í sögunni, í kæruleysi, biturri kaldhæðni og sárri öfund yfir velgengni annarra. En hann fegrar ekki mynd sína heldur leyfir sér alltaf að vera hann sjálfur, fúllyndur en fyndinn karl sem á endanum hætti að vonast eftir langþráðri viðurkenningu og grúfði sig yfir hugðarefni sín í litlum kofa út við sjó.

Glæpur og refsing

JPVMorgunninn færir mönnunum enga birtu aðra en þá sem þeir hafa hver af öðrum. Vindar æða glefsandi um völl og dauðinn vitjar um net sín, aflasæl eftir þrautir næturinnar. Myrkraverur líða eftir götunum – konur vafðar í svört sjöl að færa hver annarri brauðbita, dánarfregn og ljós í lófa; karlar á leið til að afplána enn eitt tilverustigið án þess að það næsta sé í sjónmáli – með hríðina í fangið… (67).

Söguleg skáldsaga Guðmundar Andra Thorssonar, Sæmd, gerist í Reykjavík í desember 1882. Höfuðstaðurinn undir lok 19. aldar er lítill bær í harðbýlu landi, kúrir við sjóinn, vindbarinn og kaldur, fátækur og undir stjórn Dana. Þar búa og streða sögufrægar persónur:  Benedikt Gröndal (1826-1907) er kennari við Lærða skólann, skáld og listamaður sem fræðir nemendur sína um listina, ástina og fegurðina, Hann er fátækur og drykkfelldur, þunglyndur, sorgmæddur og einmana. Björn M. Ólsen (1850-1919).er yfirkennari skólans sem trúir því að agi, eftirlit og refsingar geri afbragðs menn úr skólapiltum og að beita skuli valdi til að forða þeim og samfélaginu öllu frá glötun. Báðir þessir menn eru háskólagengnir, miklir íslenskumenn og bókmenntafræðingar en hafa gjörólíka afstöðu til allra hluta. Þegar upp kemur þjófnaðarmál í skólanum lendir þeim saman, Björn er í fullri vissu um að grimmasta refsing sé nauðsynleg, Gröndal telur að mildi sé rétta leiðin.    

Benedikt er afar áhugaverð og litrík persóna, lífshlaup hans var merkilegt og þess virði að ítarlegri ævisögu hans verði lokið hið snarasta. Hann hafði afar fjölbreytta hæfileika sem nýttust honum lítt, m.a. vegna þunglyndis og óeirðar sem plöguðu hann sífellt auk drykkju og ístöðuleysis. Faðir hans og afi voru merk skáld og stóð hann ávallt í skugga þeirra. Hann ber sig líka sifellt saman við samtímaskáldin Steingrím og Matthías og finnst sjálfum sá samanburður ansi hagstæður. Sjálfsævisöguna Dægradvöl ritaði hann þar sem hann kvartar mjög yfir sínu hlutskipti og finnst hann stórlega vanmetinn og alls staðar sniðgenginn. Hann skrifaði einnig hina stórskemmtilegu grein Reykjavík um aldamótin 1900 sem gefur góða mynd af bæjarlífinu á þeim tíma.  Í bók Guðmundar Andra dvelur skáldið við dægrin sín, undirbýr kennslu, sýslar ýmislegt, s.s. að yrkja erfiljóð, skrautrita og sinna dóttur sinni Túllu. Dregin er upp falleg mynd af margbrotnum Gröndal, vanmetnu skáldi, mannvini og viðkvæmum listamanni, kennara  með ríka köllun til að fræða og mennta nemendur sína á húmanískan hátt, á jafningjagrundvelli en stendur í endalausu andstreymi;  slúður þorpsins og baknag, andstaða kolleganna, fátækt og umkomuleysi. Björn hins vegar er virtur og vel stæður og hans bíða æðri embætti og vegtyllur þótt hann sé þurs með undarlegar kenndir, hann fylgist með piltunum sofandi og másar yfir þeim. Hann hefur átt í útistöðum við nemendur sem vilja ekki lúta ægivaldi hans en hann beitir því miskunnarlaust og slakar hvergi á klónni. Hann er þjóðernissinni sem nærist á ímynd um forna landsnámsmenn með hreint blóð í æðum sem flúðu ofríki smákónga, hann misbeitir valdi sínu, níðist á minni máttar, hefnigjarn og grimmur í þeirri einbeittu trú sinni að hlutverk hans sé að halda uppi aga og réttu siðferði.

Guðmundur Andri dregur  upp afar lifandi mynd af þessum mönnum og sögutímanum með frábærum persónulýsingum og fögrum stíl. Þetta er ekki byltingarkennd mynd  eða óvenjuleg en hún er skýr og djúp. Spennan er byggð upp hægt og markvisst og í sögumanni speglast vel hversu tæpt það stóð hvort ungmenni á þessum tíma áttu kost á námi og bjartri framtíð með tryggri tilveru og ljóst að vald yfir því er í höndum embættismanna sem standa vörð um eigin hag, eigin stétt og forréttindi, eigið valdakerfi. Þetta er saga um vald, kúgun og yfirgang sem því miður heyrir ekki fortíðinni til en endurtekur sig í sífellu. Sagan er ekki síður um spillingu, eins og Gröndal segir um Dani: „Það er einmitt vegna þessa viðrinissambands sem við erum alltaf á rassinum og frá þessu sambandi er sprottið mikið af því ósamlyndi sem ríkir alltaf hjá okkur því að stjórnin mútar mönnum með laununum og embættunum til að setja sig upp á móti öllu því sem kann að verða til framfara – ja, herra Guð, bara að við gætum brotist út úr þessu skítasambandi“ (87-88).

Báðir þrá þeir sæmd, Björn, Gröndal og sögumaður, hvor með sínum hætti, að fá að sitja í sóma sínum og heiðri eins og þeim sæmir. En mannanna láni er misskipt og það er listin, réttlætið og andinn sem fara halloka fyrir valdinu, kúgararnir og rassasleikjurnar fá sitt fram. Sæmd er gullfalleg, rómantísk saga, minnisvarði og myndræn aldarfarslýsing með margræðri vísun til samtímans.