Fiskarnir hafa enga fætur

Fiskarnir-hafa-enga-fætur-175x275Í bókinni segir Jón Kalman Stefánsson sögu nokkurra kynslóða á Íslandi, í senn sögu tíma og þjóðar. Þetta eru dramatískar sögur, um minningar, gleymsku og bælingu, æsku og elli, ást, harm og dauða með áþekku ljóðrænu og heimspekilegu ívafi og í þríleiknum sínum mikla, með heillandi frásögn, djúpum þönkum, frábærum mannlýsingum og hápólitískum boðskap. Verkið er eins og fögur tónlist, kaflarnir hefjast á alls konar pælingum, um hamingjuna, ástina, karlmennsku tungumálsins og kúgun konunnar, endalokin, sem leiða svo lesandann til persónanna og örlaga þeirra.Svo fallega skrifað þótt endurtekningar séu margar og t.d. orðið dökknandi sé höfundi mjög tamt á tungu.  Keflavík er svartasti staður landsins, kvótinn farinn, herinn farinn, búið að dæma bæinn úr leik. Á Norðfirði eru erfiðir tímar, þung barátta, líf í sjávarplássi er basl og strit og hráslagi, þreyta og svefnleysi taka sinn toll, ástríðan glatast, neistinn slokknar og kona breytist í lifandi múmíu. Sjálfsmynd þjóðarinnar er byggð á blekkingum, hún er þjökuð af minnimáttarkennd, fyrirlítur fortíð sína, torfkofana og fiskihjallana, sjávarútvegurinn stendur undir íslensku efnahagslífi en samt mega hjallarnir ekki sjást frá veginum að nýju flugstöðinni.Kaninn og kvótinn eru svartir blettir á sögu þjóðarinnar, fortíðin rímar ekki við glæstan samtímann, hvað eigum við að gera við hana? (332) Græðgin er svarthol mannsins, okkur er innprentað að við þurfum alltaf meira og meira, óseðjandi fíklar sem er stjórnað af einhverjum hagsmunaöflum sem græða á því að forheimska okkur, halda okkur við efnið. Og við svíkjum þá sem við elskum, svíkjum okkur sjálf og svíkjum uppruna okkar. Það er beittur tónn í þessu frábæra verki Jóns Kalmans í bland við ljóðrænuna, fagran stílinn og harmsöguna.

„Því er þá þannig háttað að öll atvik fortíðar, þau smáu sem stóru, skítlegu sem fallegu, hlátur og snerting handa, allt saman er fyrr eða síðar flautað út af, dæmt til að gleymast, dæmt til dauða, útþurrkunar, en þó einvörðungu vegna þess að enginn man lengur eftir því, hugsar aldrei um það, eða heldur ekki til haga, og þar með verður allt sem við lifðum smám saman að engu, ekki einu sinni lofti, sem er svo sárt, mikil sóun, og ýtir okkur í átt að tilgangsleysinu. Líf mannsins er verður í mesta lagi stakir tónar án lags, tilviljunarkennd hljóð en engin tónlist – er þarna komin ástæðan fyrir því að við ávörpum þig með þessari sögu kynslóða og hundrað ára, þessari sögu, eða plánetu, halastjörnu, þessu dægurlagi, þessum vinsældalista á heimsenda, vegna þess að við viljum að þú vitir að Margrét var einu sinni nakin undir ameríska kjólnum, brjóstin smá, hvelfd, langir, grannvaxnir en sterkir fótleggirnir læstust skömmu síðar utan um Odd, svo þú vitir og gleymir helst aldrei að einu sinni voru allir ungir, svo þú áttir þig á því að öll verðum við einhverntíma að brenna, brenna af ástríðu, hamingju, gleði, réttlæti, þrá, því það er sá eldur sem lýsir upp myrkrið , sem heldur úlfum gleymskunnar fjarri, eldurinn sem hitar upp lífið, svo þú gleymir ekki að finna til, svo þú breytist ekki í mynd á vegg, stól í stofunni, mublu fyrir framan sjónvarpið, í það sem horfir á tölvuskjáinn, í það sem ekki hreyfist, svo þú verðir ekki að því sem tekur tæpast eftir neinu, svo þú dofnir ekki upp og verðir að leiksoppi valdsins, hagsmunaafla, verðir ekki að því sem skiptir litlu máli, dofinn, í besta falli smurning í dularfullu tannhjóli. Brenna, svo eldurinn dofni ekki, hjaðni, kulni, svo veröldin verði ekki að köldum stað, bakhlið mánans“ (300-301).

2 athugasemdir

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s