Svarti engillinn

GCU9N3GMUm helgina var haldið málþing til að heiðra minningu Matthíasar Viðars Sæmundssonar (1954-2004), fræðimanns og kennara í íslenskum bókmenntum við Hí. Matthías var eftirminnilegur karakter, ávallt var hann svartklæddur og dulúðugur, kennslustundirnar voru uppljómun, hann brýndi nemendur sína óspart og og skrifaði viðstöðulaust á töfluna í kennslunni. Afköst hans í fræðunum voru gríðarleg og sýn hans á bókmenntir skörp og djúp. Áhrifa hans gætir víða og ómögulegt að segja hverju hann hefði áorkað frekar hefði hann ekki látist um aldur fram. Í tilefni af málþinginu grúskaði ég í gulnuðum glósum úr HÍ og rifjaði upp gamla daga. Fyrir tuttugu árum, á vormisseri 1994, kenndi Matthías námskeið á M.A stigi sem hét Bókmenntir í lausu máli 1550-1800. Það var metnaðarfullt og krefjandi námskeið eins og allir kúrsar sem hann kenndi og svona lagði hann það upp:
„Á þessu námskeiði verður öðru fremur fjallað um bókmenntir og menningu tímabilsins frá 1750 og fram á öndverða 19. öld. Hugað verður að uppkomu „nútímalegs“ frásagnarskáldskapar með lestri og túlkun prentaðra og óprentaðra texta frá þessum tíma. Í því samhengi verður fengist við hugmyndir M. Bakhtins um „skáldsagnagervingu“ og samband epísks skáldskapar, rómönsu og skáldsðgu, með sérstöku tilliti til íslenskra aðstæðna. Jafnframt þessu verður fjallað um „sjálfsmyndun“ í ævisögum 18. aldar, uppkomu þeirra og tengsl við alþjóðlega ævisagnaritun. Í því samhengi verður hugað að tilurð og upplausn „kristinnar“ sjálfsmyndar með hliðsjón af verkum Foucaults, heilags Ágústínusar og G.G. Harpham. Námskeiðinu verður skipt í þrjá hluta:
1. Fyrirlestrar um bókmennta- og menningarsögu (6 vikur)
2. Sjálfsmyndunarfræði. Heimspekileg og táknfræðileg umfjöllun (4 vikur)
3. Verkefni og fyrirlestrar nemenda (3 vikur)…“

Er óhætt að segja að námskeiðið breytti fálmkenndri menntunarstefnu minni og fræðimennsku, ég smitaðist af eldmóði Matthíasar og lagði í framhaldi stund á 18. aldar fræði, tók síðan fleiri kúrsa hjá honum, skrifaði lokaritgerð undir hans leiðsögn um ferðasögur Íslendinga frá upphafi til 1835 og hef grúskað í þeim fræðum síðan.

Með mér á þessu námskeiði forðum daga voru m.a. Eirikur Gudmundsson, Steinunn Haraldsdóttir, Sigríður Þórðardóttir, Jón Özur Snorrason, Þröstur Helgason, Eva Hauksdottir, Halldóra Thoroddsen, Laufey Einarsdóttir, Guðlaug Gísladóttir, Svanhildur Gunnarsdóttir, Þ. Kári Bjarnason og Hermann Stefánsson, allt hörkulið og áhugasamir nemendur sem síðan hafa látið að sér kveða á ýmsum sviðum menningarinnar. Á þinginu héldu tveir nemendur sem voru á námskeiðinu áhugaverð erindi, þeir Hermann og Þröstur. Því miður náði ég að aðeins 1/3 af þinginu vegna anna í félagslífinu en hugga mig við að rúv var á staðnum. Ég bý enn að því sem Matthías kenndi um rof og samhengi, þekkingu, vald og skynsemi, ofbeldi, sársauka, dauða og geðveiki í bókmenntum fyrri alda. Minningin lifir um merkismanninn og engilinn svarta, Matthías Viðar Sæmundsson.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s