Matthías Viðar Sæmundsson

Í regnskóginum

Tristes tropique eða Regnskógabeltið raunamædda (1955, á íslensku 2011) er einkennileg blanda af ferðasögu, sjálfsævisögu, mannfræðirannsókn og heimspekipælingum. Hinn frægi og goðsagnakenndi Claude Leví-Strauss starfað um hríð sem háskólakennari í Sao Paulo, stórborg í Brasilíu, og ferðaðist um frumskóga Amasón undir lok fjórða áratugar síðustu aldar.

Regnskógabeltið fjallar um ferðalög, landkönnuði og túrista, mannfræði og heimspeki, vestræna menningu andspænis suðrænni, mann og náttúru, um nýlendukúgun og arðrán, landnám Evrópubúa og þjóðarmorð. Það er skrifað í mjög myndrænum og útspekúleruðum (strúktúralískum) stíl og svarthvítar ljósmyndir höfundar úr regnskóginum prýða bókina.

Leví-Strauss lést 2009 rúmlega aldar gamall en þá voru allir hinir frægu, frönsku heimspekipoppararnir dauðir. Hann sjálfur var orðinn fótsár af ævinnar eyðimörk og hafði dregið sig í hlé frá skarkala heimsins fyrir löngu. Pétur Gunnarsson vann að þýðingu bókarinnar úr frummálinu í hjáverkum um 17 ára skeið, listavel eins og hans er von og vísa. Áður hefur komið út eftir Leví-Strauss á íslensku ritgerðin Formgerð goðsagna (Sporin, 1991), sem ég las í háskólanum hjá Matthíasi Viðari á sínum tíma og var sannarlega hugvekja.

Það var áhugavert að rifja þessa bók upp í námskeiði um Travel Studies við Univerzita Karlova í Prag á dögunum. Einkum vegna þess að einn nemandinn er frá Mexíkó og hafði sterkar skoðanir á sýn höfundar á frumbyggjana og benti á dæmi þess að Leví-Strauss væri sjálfur ekki alveg laus við þann hroka og yfirgang sem hann gagnrýnir í bók sinni.

A-PROPOS-DE-TRISTES-TROPIQUES-PR_medium

Úr Tristes Tropique, zaradoc.com

Svarti engillinn

GCU9N3GMUm helgina var haldið málþing til að heiðra minningu Matthíasar Viðars Sæmundssonar (1954-2004), fræðimanns og kennara í íslenskum bókmenntum við Hí. Matthías var eftirminnilegur karakter, ávallt var hann svartklæddur og dulúðugur, kennslustundirnar voru uppljómun, hann brýndi nemendur sína óspart og og skrifaði viðstöðulaust á töfluna í kennslunni. Afköst hans í fræðunum voru gríðarleg og sýn hans á bókmenntir skörp og djúp. Áhrifa hans gætir víða og ómögulegt að segja hverju hann hefði áorkað frekar hefði hann ekki látist um aldur fram. Í tilefni af málþinginu grúskaði ég í gulnuðum glósum úr HÍ og rifjaði upp gamla daga. Fyrir tuttugu árum, á vormisseri 1994, kenndi Matthías námskeið á M.A stigi sem hét Bókmenntir í lausu máli 1550-1800. Það var metnaðarfullt og krefjandi námskeið eins og allir kúrsar sem hann kenndi og svona lagði hann það upp:
„Á þessu námskeiði verður öðru fremur fjallað um bókmenntir og menningu tímabilsins frá 1750 og fram á öndverða 19. öld. Hugað verður að uppkomu „nútímalegs“ frásagnarskáldskapar með lestri og túlkun prentaðra og óprentaðra texta frá þessum tíma. Í því samhengi verður fengist við hugmyndir M. Bakhtins um „skáldsagnagervingu“ og samband epísks skáldskapar, rómönsu og skáldsðgu, með sérstöku tilliti til íslenskra aðstæðna. Jafnframt þessu verður fjallað um „sjálfsmyndun“ í ævisögum 18. aldar, uppkomu þeirra og tengsl við alþjóðlega ævisagnaritun. Í því samhengi verður hugað að tilurð og upplausn „kristinnar“ sjálfsmyndar með hliðsjón af verkum Foucaults, heilags Ágústínusar og G.G. Harpham. Námskeiðinu verður skipt í þrjá hluta:
1. Fyrirlestrar um bókmennta- og menningarsögu (6 vikur)
2. Sjálfsmyndunarfræði. Heimspekileg og táknfræðileg umfjöllun (4 vikur)
3. Verkefni og fyrirlestrar nemenda (3 vikur)…“

Er óhætt að segja að námskeiðið breytti fálmkenndri menntunarstefnu minni og fræðimennsku, ég smitaðist af eldmóði Matthíasar og lagði í framhaldi stund á 18. aldar fræði, tók síðan fleiri kúrsa hjá honum, skrifaði lokaritgerð undir hans leiðsögn um ferðasögur Íslendinga frá upphafi til 1835 og hef grúskað í þeim fræðum síðan.

Með mér á þessu námskeiði forðum daga voru m.a. Eirikur Gudmundsson, Steinunn Haraldsdóttir, Sigríður Þórðardóttir, Jón Özur Snorrason, Þröstur Helgason, Eva Hauksdottir, Halldóra Thoroddsen, Laufey Einarsdóttir, Guðlaug Gísladóttir, Svanhildur Gunnarsdóttir, Þ. Kári Bjarnason og Hermann Stefánsson, allt hörkulið og áhugasamir nemendur sem síðan hafa látið að sér kveða á ýmsum sviðum menningarinnar. Á þinginu héldu tveir nemendur sem voru á námskeiðinu áhugaverð erindi, þeir Hermann og Þröstur. Því miður náði ég að aðeins 1/3 af þinginu vegna anna í félagslífinu en hugga mig við að rúv var á staðnum. Ég bý enn að því sem Matthías kenndi um rof og samhengi, þekkingu, vald og skynsemi, ofbeldi, sársauka, dauða og geðveiki í bókmenntum fyrri alda. Minningin lifir um merkismanninn og engilinn svarta, Matthías Viðar Sæmundsson.

Hagir kvenna á 18. og 19. öld

Það var troðið út úr dyrum hjá Félagi um 18. aldar fræði í gær. Á málþingi voru  fjögur erindi um hagi kvenna á 18. og 19. öld. Fyrsta erindið flutti Guðný Hallgrímsdóttir um kokkapíuna Guðbjörgu Ketilsdóttur sem átti í ástarsamböndum við ríka kaupmenn á Akureyri og víðar. Hún er systir Guðrúnar sem líklega skrifaði fyrstu sjálfsævisögu íslenskra kvenna og Guðný hefur fjallað um, sjá hér. Þá sagði Eggert Þór Bernharðsson frá dæmdum konum í Natansmálum en það er eitt svæsnasta morðmál sögunnar. Margrét Gunnarsdóttir lýsti æruverðugri hófsemi heldri kvenna á þessum tímum. Handiðnir þóttu til vitnis um dyggðasamt líferni og nefndi hún m.a. þá Magnús Stephensen ogTómas Sæmundsson í því samhengi en hvorugur var þó þekktur fyrir bróderingar. Þá sýndi Margrét skemmtilegar myndir af prússneskum fyrirmyndarfjölskyldum og af hannyrðum Ingibjargar Einarsdóttur, konu Jóns Sigurðssonar. Skemmtilegasta og skáldlegasta erindið flutti Ragnhildur Bragadóttir,  „Sigurlaug, ástkona auðmanns“. Þar fjallaði hún með lifandi sviðsetningum á gullaldarmáli með leiftrandi húmor um stöðu vinnukvenna á þessum tímum og velti m.a. upp þeirri spurningu hvort konur hafi verið undirokaðar, kúgaðar og ófrjálsar manneskjur. Voru þær nauðugar hjásvæfur? Gátu þær ráðið örlögum sínum, valið sér verndara í líki elskhuga? Notfært sér fegurð sína, kynþokka  og greind til að lifa af í harðneskjulegu karlasamfélagi þannig að líf þeirra yrði bærilegt, jafnvel gott? Það gerði Sigurlaug Sæmundsdóttir (1810-1901) sem var ástkona Kristjáns Jónssonar (1799-1866)  landsþekkts og vellauðugs óðalsbónda norðanlands. Saman áttu þau börn þótt bæði væru gift og samband þeirra stóð í 20 ár. Nánar má lesa um þetta allt saman á Vefni, vefriti félagsins, vonandi fljótlega.

Félag um 18. aldar fræði verður 20 ára á þessu ári. Ég var á stofnfundi félagsins sællar minningar og sat í stjórn þessu fyrstu árin, m.a. með Matthíasi Viðari Sæmundssyni, Inga Sigurðssyni og téðri Ragnhildi Bragadóttur. Það var skemmtilegur og lærdómsríkur tími fyrir fáfróðan MA-nema. Ég mun sökkva mér frekar í fortíðina á næstu vikum því í fundarhléinu keypti ég mér bók eftir Jón Ólafsson úr Grunnavík, Ævisögur ypparlegra merkismanna, sem ég hlakka mikið til að lesa.