spennusaga

Týpan sem konur falla fyrir?

Hús geta verið býsna ógnvekjandi fyrirbæri, eins og dæmin sanna bæði úr skáldskap og kvikmyndum. Ekki aðeins þau sem eru gömul og niðurnídd með ískrandi hjörum, brakandi stigaþrepum og dimmum kjallara, heldur ekki síður glansandi og stílhreinar nýbyggingar með öllum hugsanlegum þægindum. Slíkt hús er umgjörð ógnþrunginnar spennusögu, Stúlkan á undan (The Girl Before) eftir höfund sem skrifar undir ýmsum nöfnum, að þessu sinni dulnefninu JP Delaney.

Stelpan_a_undan_72Glæsihús í Lundúnum sem hinn vellríki og bráðmyndarlegi ekkill Edward Monkford hannaði og byggði er til leigu. Til að gerast leigjandi þarf viðkomandi að gangast undir ítarlegt persónuleikapróf þar sem spurt er samviskuspurninga á borð við: „Myndirðu fórna þér til þess að bjarga tíu saklausum, ókunnum manneskjum?“ (35). Leigjandinn þarf líka að uppfylla ströng skilyrði um umgengni og svara formlega matsspurningum í hverjum mánuði en leigan er fáránlega lág. Emma og Simon eru par á fallanda fæti og hvorugt þar sem þau eru séð. Þeim tekst að fá leigusamning hjá Monkford en brátt fer húsnæðið að hafa áhrif á líf þeirra og ekki síður arkitektinn, siðblindur og hættulega heillandi. Næsti leigjandi á eftir þeim, hin sakleysislega Jane Cavendish, er að jafna sig eftir erfiða lífsreynslu og fer ekki heldur varhluta af áhrifum hússins, saga  hennar fléttast saman við örlög fyrri leigjenda og brátt er um líf og dauða að tefla. Það verður að segjast að söguþráðurinn er hrikalega spennandi og hrollvekjandi og engin leið að hætta fyrr en sagan er öll.

Hönnun hússins er ætlað að breyta lífi leigjendanna til hins betra og búa þeim fullkomið líf í skjóli frá skarkala umheimsins. Í húsinu eru engar hurðir, engar myndir, engar mottur, engin perustæði. Allt sem þarf er innfellt, sérsmíðað og tölvustýrt.  Hönnunin minnir á dystópíu sem í rauninni er orðin að veruleika í nútímalegri byggingalist. Með úthugsuðum þægindum og nýjustu tækni, sjálfvirkni og sínálægu eftirliti er lífi leigjendanna stjórnað á flauelsmjúkan hátt:

Daglega leggur Húsráðandi til hvaða fötum ég ætti að klæðast með tilliti til veðurs, minnir á stefnumót og fundi og sýnir mér stöðuna á óhreina þvottinum. Ef ég ætla að borða heima sýnir Húsráðandi  mér hvað er til í ísskápnum, bendir á eldurnarmöguleika og upplýsir um hitaeiningafjölda. „Leita“ sér hinsvegar um að sía burt auglýsingar, skotglugga sem bjóða mér upp á flatari kvið, truflandi fréttir, vinsældalista, slúður um smástjörnur, ruslpóst og vafrakökur. Það eru engin bókamerki, engin vafrasaga, engar geymdar upplýsingar. Allt er þurrkað út um leið og ég slekk á skjánum. Það er undarlega frelsandi… (72).

„Húsráðandi“ er app sem fylgir leigusamningnum og auðvelt er að ánetjast þar sem það er bæði hentugt og hagkvæmt. En um leið verður leigjandinn að vera tilbúinn til að breyta lífi sínu, aðlagast húsnæðinu og uppfylla kröfur leigusalans.

Edward hugsar sig um. „Við þurfum að vera agaðri í því að ganga frá snyrtivörunum. Í morgun, til dæmis, sá ég að þú hafðir skilið sjampóið þitt eftir.“

„Ég veit. Ég gleymdi því.“

„Jæja, ekki rífa þig niður. Það krefst sjálfsaga að lifa svona. En ég held að þú sért þegar farin að sjá að umbunin er þess virði.“  (207)

Það er algengt trix í reyfurum sem þessum að skipta sjónarhorni og tíma milli persóna til að skapa spennu. Formúlan  svínvirkar í þessari bók, Emma (fortíð) og Jane (nútíð) hafa orðið til skiptis og lesanda er sannarlega haldið í helgreipum. Engin persóna er þó sérlega geðfelld í þessari sögu. Það er að auki truflandi hversu viljalaus verkfæri kvenpersónurnar eru í höndum Monkfords sem minnir óhugnanlega á sjarmör Fimmtíu grárra skugga; glæsilegur og metnaðarfullur, eins og „afslappaður kennari með mikla kyntöfra“ (58) en undir yfirborðinu er hann einmana, sjúkur og þjáður. Er það týpan sem höfðar til allra kvenna? Líklega, því bókin hefur þotið upp metsölulista í þrjátíu og fimm löndum og endar væntanlega á hvíta tjaldinu.

Ísak Harðarson, hið magnaða skáld, þýðir á íslensku, víðast ágætlega en sums staðar er fljótaskrift á þýðingunni. Titillinn Stúlkan á undan er bein þýðing úr ensku og velta má fyrir sér hvort þýðandi hefði ekki mátt leyfa sér smá skáldaleyfi hér á ylhýrri íslensku. Hvað sem því líður er sagan óhemju spennandi; sjóðheit sumarlesning þar sem maður fær allt fyrir peninginn.

Stúlkan á undan

JPV útgáfa, Forlagið 2017

414 bls.

Þýðandi: Ísak Harðarson

 

Birt í Kvennablaðinu, 21. júlí 2017

Enginn svefnfriður ef þessi er á náttborðinu

Lars Kepler“ er dulnefni sænskra hjóna sem ákváðu að leggja í púkk og skrifa saman sakamálasögur. Verk þeirra eru mergjuð og hafa enda slegið í gegn, verið þýdd á fjölmörg tungumál og seljast í bílförmum. Parið hefur skrifað svo til eina bók á ári frá 2009 og í haust er væntanleg fimmta bók þeirra, Stalker (Eltihrellir), sem vonandi verður þýdd á íslensku hið snarasta. Sandmaðurinn frá 2012 kom út í  afbragðsgóðri þýðingu Jóns Daníelssonar á síðasta ári og er ómissandi sumarlesning.

Raðmorðinginn ógurlegi, Jurek Walter, hefur setið inni á lokaðri geðdeild í Svíþjóð í 13 ár þegar eitt meintra fórnarlamba hans finnst á lífi. Þrjóskasta lögga í heimi, hinn finnskættaði Joona Linna, tekur málið upp og þar með hefst hrikalega spennandi atburðarás sem lesandinn sogast inn í og endar með ósköpum.  Helstu persónur sögunnar eru listavel smíðaðar. Joona Linna er hörkunagli sem hefur fórnað lífshamingju sinni fyrir öryggi fjölskyldunnar, hann er ráðagóður og einbeittur, eldklár og gefur sig aldrei ef hann telur sig vera kominn á sporið.  Hann þaulþjálfaður í sjálfsvörn og bardaga í návígi að hætti ísraelska hersins  og bregður sér hvorki við sár né bana. Fyrri hluti bókarinnar fer í að rifja upp forsögu Jurekmálsins og það er ekki fyrr en eftir 150 blaðsíður sem Saga, hin aðalpersónan, birtist. Hún er yfirfulltrúi hjá Öryggislögreglunni og ekki minni jaxl en Jooni. Hún er fimur boxari, hárnákvæm skytta og sérmenntuð í yfirheyrslutækni auk þess að vera svo fögur að flestir „sem sjá hana fyllast undarlegum söknuði. “ (150). Hún fær það flókna verkefni að ná til Jureks Walters innan rimlanna og veiða hann í net sitt.

Að vera grafinn lifandi hlýtur að vera ein versta martröð sem til er og það er einmitt aðferðin sem Jurek Walter notar. Hann er stórhættulegur maður, skarpgreindur og snarbrjálaður. Jurek er haldið í algerri einangrun og starfsfólkið á geðdeildinni setur í sig eyrnatappa því  hann býr yfir seyðandi afli sem fær fólk til að skelfast hann og hlýða skipunum hans umyrðalaust. Í sögunni kemur skýrt fram að lög og mannréttindi eru að engu höfð á deildinni, sjúklingar eru beittir valdi og sprautaðir með lyfjum til að auðveldara sé að eiga við þá. Það hindrar Jurek samt ekki í ætlunarverki sínu og grimmd hans virðast engin takmörk sett.

Nokkrum hliðarsögum fer fram um leið og spennan vex og allt er þetta afar vel smíðað. Hinn þjóðsagnakenndi Sandmaður gegnir svipuðu hlutverki og Óli Lokbrá, en það sofnar enginn fyrr en þessi bók er á enda lesin. Langt er síðan ég hef lesið svo magnaðan reyfara og löngu eftir að ég lauk við hann velti ég enn fyrir mér örlögum persónanna. Og sagan er ekki búin,  enn meiri ógn og hryllingur bíða í næstu bók.