Hið lummulega 1989

Rúnturinn á Akureyri, í lok níunda áratugarins, herðapúðar og Lindubuff, hversu óskáldlegt er það?! Og skyndikynni sem bera óvæntan ávöxt, hann er skáld og fyllibytta og hún er verksmiðjustelpa, við bætast síðan drumbslegur kærasti og ráðrík amma… Það sem hefði getað orðið hversdagsleg og leiðigjörn ástar- og vandamálasaga frá 1989 verður að sprettharðri og fjörugri skáldsögu hjá Orra Harðarsyni. Hann hefur áður sent frá sér Alkasamfélagið en Stundarfró heitir hans fyrsta skáldsaga og lofar góðu.

Orri tekur efnið föstum tökum og mikil frásagnargleði einkennir söguna. Hann leggur alúð við allar persónur sínar, sem hver og ein glímir við sína fortíðardrauga, og sýnir þeim skilning í hremmingunum sem þær lenda í. Amman á bestu replikkurnar, hún er hörkutól sem hefur reynt margt án þess að fleipra nokkuð um það og stjórnar öllu með harðri hendi. Dísa er töffari og rómantíker, vinnur í súkkulaðiverksmiðjunni og sötrar pepsi meðan hún bíður eftir að grái skífusíminn hringi. Hún er auðveld bráð fyrir Arinbjörn Hvalfjörð, ungskáldið sem sló í gegn og miklar vonir eru bundnar við en hann er hjartaknúsari í gamalli merkingu þess orðs, þaulsætinn á öldurhúsum, rótlaus og forfallinn alki  sem flækist æ meir í eigin lyfavef. Í sjúkum huga hans fara fram rökræður milli meirihlutastjórnar og stjórnarandstöðu; „Máli beggja talaði hann samviskusamlega en gætti þess þó jafnan að stjórnin hefði andstöðuna undir. Sú síðarnefnda var einatt rödd skynseminnar. Það var sjaldnast heillandi að halda með henni“ (32-3). Þannig hrekst hann um í lífsins ólgusjó og sekkur sífellt dýpra. Lýsingar á hugrenningum hans, sem snúast um fíkn, flótta og fráhvörf, eru afskaplega trúverðugar:

„Hann kallaði það háskerpustigið, þetta hárfína ölvunarástand á milli núllstillingar og algleymis. Á því stigi varð  hann framúrskarandi skýr í hugsun og fær í flestan sjó. Ekkert óx honum í augum. Í stað óbærilegs kvíða og miðpunktsfóbíu varð hann miðpunktur alls. Í huganum hafði sitjandi stjórn fengið endurnýjað umboð og í raun unnið stórkostlegan kosningasigur. Tilfinningin var guðdómleg“ (41).

Stíllinn er kjarngóður og kraftmikill, hraður og fyndinn enda stólpagrín gert að persónunum sem þó eru afar ólánssamar. Senurnar eru margar nostalgískar og dæmigerðar fyrir tíðarandann, t.d. situr amman í eldhúsinu með kaffifantinn sinn, svælir sígarettu og hlustar á óskalög sjómanna. Tónlist af grammófóni, kassettum og útvarpi skipar stóran sess í sögunni, látlaust er vitnað í textabrot og snillinga eins og Dylan, Cohen og einnig kunna djassara. Það er bara gaman að því. Málfarið er oft gamaldags en hressilegt og frumleg stílbrögð og myndmál víða. Lausn sögunnar, sem ekki verður upplýst hér, er svolítið út í hött og hreinlega til óþurftar, lesendum er löngu orðið ljóst að þeim Arinbirni og Dísu er ekki skapað nema að skilja. Hvað sem því líður er Stundarfró vel  byggð og skemmtileg saga um sígilt efni, allir  eru jú í leit að einhvers konar stundarfró, hvort sem hún felst í ást, fíkn eða viðurkenningu.

Ein athugasemd

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s