Er mönnum ekki farið að fatast flugið þegar þeir eru farnir að skrifa endurminningar sínar? Verður það nokkurn tímann annað en sjálfsupphafning og naflakrafl? Pétur Gunnarsson skrifar nú nostalgíska bók um námsár sín erlendis og fyrstu árin sem skáld og kallar Veraldarsögu sína. Pétur er fyrir löngu orðin kanóna í hópi íslenskra rithöfunda en hann kom fram með hvelli á áttunda áratugnum og á að baki glæstan feril. Hann er af ´68-kynslóðinni frægu en mörgum af þeirri kynslóð finnst nú kominn tími á að horfa um öxl, spyrja sig hvar dagar lífsins hafi lit sínum glatað og hvað sitji eftir af gamla, hippalega eldmóðnum. Þetta er skáldævisögulegt verk um ungan mann (og konu hans, Hrafnhildi) á mótunarárum, ofið saman við sögu heimspekinnar sem jafnframt er saga mannsins sem hugsandi veru, útleggingar á pólitískri hugmyndafræði og fræðikenningum, gömul bréf og ljósmyndir saman við sögur af skemmtilegu fólki eins og t.d. Óla Torfa, hringjaranum óstundvísa. Allt skrifað á gullaldaríslensku með tilþrifum, t.d. pastamikil kona, smjattandi sandalar, karlpeningur sem „hafði lítið breyst frá apadögum því frumglæði alls sem hann tók sér fyrir hendur var keppni“, og gömul hjón sem nú eru löngu dáin en „lifa óbrotgjörn í eilífu teboði“. Tíminn í sögunni er flæðandi og skrykkjóttur, eitt atvik rifjar upp annað en allir þræðir koma saman að lokum. Þótt það séu mestmegnis karlar sem koma við þessa sögu, fær kvennabaráttan örlítið rúm, hún hófst um þessar mundir og bæði kynin þurftu að skilgreina sig upp á nýtt:
„Hér var það Kvinde, kend din krop sem allt snerist um. Líkami konunnar. Sem var eins konar nýlenda sem karlaveldið hafði um aldir lagt hald á, skilgreint og dómínerað. Nú hafði landið lýst yfir sjálfstæði og landgæðin voru loks notuð fyrir eigendurna sjálfa. Í ljós kom eitt og annað sem karlar höfðu aldrei tekið með í reikninginn en gat gert konuna sjálfbæra í sælulegu tilliti. Sæðisbankar lánuðu fúslega þetta lítilræði sem karlmaðurinn leggur til, konan var einfær um afganginn. Var ekki táknrænt að eitt helsta karlgoð tímans, John Lennon, var orðinn að eins konar viðhengi þar sem hann hjúfraði sig í fósturstellingu að Yoko sinni Ono“ (83).
Það er gaman að lýsingum á stemningunni á stúdentagörðunum, baráttu námsmanna við skrifræðið í Frans; skrifstofunornir sem krefjast stimplaðra vottorða og staðfestra ljósrita; og úthlutunarreglur LÍN sem voru lítið skárri þá en nú. Hugljúf og rómantísk er frásögnin af sumarputtaferðalagi unga parsins um Evrópu sem innfæddir sýndu bæði traust og ómælda gestrisni. Þar er hippahugsjónin í algleymi, slíkt ferðalag er óhugsandi nú þegar túrisminn tröllríður öllu.
Í Veraldarsögunni skýrist tilurð fyrstu ljóða Péturs sem eru lituð af ádeilu, uppreisnaranda verkalýðsins og ástríðu fyrir betra mannlífi og réttlátara þjóðfélagi. Pælt er í margvíslegri hugmyndafræði, t.d. vinnunni sem kúgunartæki, kenningum Marx, Kants og Jesúsar frá Nasaret, áhrifum Bítlanna, og firringu mannsins frá tímum Grikkja og Rómverja til vorra daga. Og hvernig neyslan sættir alþýðuna við hlutskipti sitt (143) sem er gömul saga og ný, hvernig bækur berast milli manna, hvernig ljóð verða til. Veraldarsaga Péturs er bæði um veröld hans og okkar, þroskasaga pilts og skálds og óður um ástina til Hrafnhildar en það gæti verið gaman að heyra hennar hlið á þessu tímabili í lífi þeirra. Og sagan er líka um það kraftaverk að verða foreldri, bæta enn einu barni í þessa voluðu veröld og þar endar sagan. Eini gallinn á þessari bók er hvað hún er stutt. Sumar bækur eru hæpaðar upp í fjölmiðlum meðan aðrar fara með veggjum. Veraldarsaga Péturs Gunnarssonar fer hljótt í hógværð sinni, vönduð, notaleg og mannbætandi lesning.