samtímabókmenntir

Í regnskóginum

Tristes tropique eða Regnskógabeltið raunamædda (1955, á íslensku 2011) er einkennileg blanda af ferðasögu, sjálfsævisögu, mannfræðirannsókn og heimspekipælingum. Hinn frægi og goðsagnakenndi Claude Leví-Strauss starfað um hríð sem háskólakennari í Sao Paulo, stórborg í Brasilíu, og ferðaðist um frumskóga Amasón undir lok fjórða áratugar síðustu aldar.

Regnskógabeltið fjallar um ferðalög, landkönnuði og túrista, mannfræði og heimspeki, vestræna menningu andspænis suðrænni, mann og náttúru, um nýlendukúgun og arðrán, landnám Evrópubúa og þjóðarmorð. Það er skrifað í mjög myndrænum og útspekúleruðum (strúktúralískum) stíl og svarthvítar ljósmyndir höfundar úr regnskóginum prýða bókina.

Leví-Strauss lést 2009 rúmlega aldar gamall en þá voru allir hinir frægu, frönsku heimspekipoppararnir dauðir. Hann sjálfur var orðinn fótsár af ævinnar eyðimörk og hafði dregið sig í hlé frá skarkala heimsins fyrir löngu. Pétur Gunnarsson vann að þýðingu bókarinnar úr frummálinu í hjáverkum um 17 ára skeið, listavel eins og hans er von og vísa. Áður hefur komið út eftir Leví-Strauss á íslensku ritgerðin Formgerð goðsagna (Sporin, 1991), sem ég las í háskólanum hjá Matthíasi Viðari á sínum tíma og var sannarlega hugvekja.

Það var áhugavert að rifja þessa bók upp í námskeiði um Travel Studies við Univerzita Karlova í Prag á dögunum. Einkum vegna þess að einn nemandinn er frá Mexíkó og hafði sterkar skoðanir á sýn höfundar á frumbyggjana og benti á dæmi þess að Leví-Strauss væri sjálfur ekki alveg laus við þann hroka og yfirgang sem hann gagnrýnir í bók sinni.

A-PROPOS-DE-TRISTES-TROPIQUES-PR_medium

Úr Tristes Tropique, zaradoc.com

Síðustu fjörkippir kerlingar

Er gamalt fólk ekki mestmegnis til óþurftar í samfélaginu? Úrelt og afdankað? Hætt á vinnumarkaði og komið á stofnanir þar sem það  hangir á horriminni vælandi um hærri ellistyrk. Það hefur gegnt sínu hlutverki, ætti það ekki bara að vera til friðs? Og ef það fer að hlaupa út undan sér, eyða arfinum eða verða ástfangið, þá er illt í efni.

12493764_682634515213193_3080483639432154021_oStutt skáldsaga, Tvöfalt gler eftir Halldóru K. Thoroddsen, hlaut nýlega Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna 2015. Sagan birtist fyrst í tímaritaröðinni 1005 en kemur nú út hjá bókaútgáfunni Sæmundi.

Halldóra er enginn nýliði þótt ekki sé hún afkastamikil, frá 1990 sent hún sent frá sér þrjár ljóðabækur og tvö smásagnasöfn í knöppum og íronískum stíl. Orðheppin er hún með afbrigðum og ætti að fá aukaverðlaun fyrir að nota svo hnyttilega orðasambandið að selja blíðu sína um áratuga starf við umönnun og barnakennslu. Hún vakti verulega athygli með eitursnjöllum örsögum, 90 sýni úr minni mínu (2002) þar sem hún sagði stórar sögur með fáum orðum. Í Aukaverkunum sem komu út 2007 tekur hún sér stöðu annálaritara eða þjóðsagnasafnara með gagnrýna sýn á nútímann en Halldóra hefur sterkar skoðanir á þjóðfélagsmálum. Ljóð hennar eru sömuleiðis beitt og bæði meitluð og myndvís.

Gamlingjar og geldingaást

Hingað til hefur Guðbergur Bergsson aðallega róið á gamlingjamiðin í íslenskum bókmenntum og dregið upp gróteskar myndir sem sýna einsemd, firringu og margrætt eðli mannsins. Í Tvöföldu gleri er fjallað um ellina og stigvaxandi hrörnun líkama og hugar á nærfærnari hátt, um það að hafa ekkert hlutverk í öllum hamaganginum, horfa á samfélagið utan frá, bíða dauðans og taka síðustu fjörkippina.

78 ára gömul kona þreyr þorrann í lítilli íbúð á Lindargötunni. Hún er þokkalega ern og sýslar við sitt, prjónar og hlustar á útvarpið, hittir vini sína sem brátt tína tölunni og fylgist með lífinu fyrir utan gluggann. Óforvarendis kynnist hún manni og tekur upp sambúð við hann, öllum til hrellingar. Kerling þarf reyndar að hugsa sig vel um áður en hún stígur inn í ástina á ný og breytir svona hressilega til í lífinu. Hún óttast að sprengja upp einmanalega veröld sína en vill heldur ekki verða doðanum að bráð (32). Hún hefur hingað til varast sársauka og hikað, alltaf staðið sína plikt og er „siðprútt gamalmenni“ (44).

Ástir eldra fólks eru tabú, einhvers konar geld ást sem stangast á við lífseigar hugmyndir okkar um norm í samfélaginu:

„Sjálft ímyndunarafllið verður feimið við hugmyndina um krumpuð og þurr gamalmenni að riðlast hvort á öðru með aðstoð sleipiefna“ (52).

Ansi svæsin mynd en í sögunni er þetta bæði  fallegt og sjálfsagt.

Kynslóðabil og hið vélræna líf

Í kyrrstæðu bændasamfélagi á öldum áður skipti aldur engu máli. Fólk lifði og starfaði eins og geta þess og heilsa leyfðu uns það lagðist í kör eða dó. Kynslóðir bjuggu saman og unnu að velferð heildarinnar. Þegar ellin og dauðinn færðust frá heimilinu til stofnana myndaðist rof í samhengið. Í sögunni er kynslóðabilið til gagnrýninnar umfjöllunar, ádeilan er grímulaus og beinist einnig að vélrænu lífi þræls gróðaaflanna:

„Hún fæddist inn í iðnbyltinguna sem seint og um síðir barst inn í íslenskar miðaldir og þá loksins gat þetta sker brauðfætt ættbálkinn. Hennar tími var heimskur þurs sem þurfti þó að fá sinn þroska. Það var í upplýsingunni, já, hún man það, sem við fórum að rífa allt í sundur til að skoða innviðina. Upp úr því grúski iðnvæddum við félagið og hólfuðum það niður í núverandi bása. Vinnuna í sérstakt hólf, þar sem hún smám saman hrökk í sjálfstýringu og snýst nú aðallega um eigin vöxt. Rányrkja dugnaðarforkanna eirir engu. Hver kynslóð ratar í sín hólf, bernsku og elli skipað í einangrun. Við hrópum í helli okkar og nemum aðeins eigið bergmál“ (17-18).

Harðsoðin og ljóðræn

Sagan er fallega skrifuð, harðsoðin og ljóðræn í senn, hvert orð er valið af kostgæfni. Myndmálið rímar fullkomlega við efni og þema; konan „hrærir næturkvíðanum út í dimmt kaffið“ (25) og það er „Hem á pollum, ósnertur dagur undir kristal“ (28). Glerið hefur margvíslegt tákngildi, það bæði einangrar og veitir útsýni og birtu, verndar um leið og það er brotgjarnt og skeinuhætt. Skáletruð (gler)brot með þönkum konunnar fleyga textann og þau síðustu bera feigðina í sér; sprungin pera, lekur eldhúskrani, nornagrátt hár og grimmt skammdegismyrkur, minnisleysi og einsemd taka völdin.

Halldóra hefur sýnt að hún er jafnvíg á örsögur og breiðari verk. Það er af ótal mörgu að taka í þessari sögu þótt stutt sé, hún fjallar um tilvist og tilgang, líf og dauða; þrungin speki, lífsreynslu og ríkri réttlætiskennd; tær og hvöss eins og titill hennar ber augljóslega með sér.

Bókaútgáfan Sæmundur, 2015. 75 bls

Birt í Kvennablaðinu, 14. 02. 2016

 

Uppgjör ársins

Nú koma bækur út nokkurn veginn jafnt og þétt allt árið hér á landi þótt skriðþunginn sé mestur í jólabókaflóðinu. Aldrei hafa fleiri bækur komið út á Íslandi eins og á þessu ári, rúmlega 500 titla er að finna í Bókatíðindum. Sumar hafa ratað í ritdóm í Kvennablaðinu, aðrar ekki. Það sem ræður því vali er sínagandi bókahungur og lestrarástríða, brennandi áhugi á miðlun og menningu og auðvitað stuðið á gagnrýnandanum hverju sinni. Það er engin pressa á mínum bæ að skrifa um ákveðnar bækur, sumar hreinlega kalla á meiri athygli bókaormsins og vega þyngra í lestrarreynslunni.

Karla- og kvennabókmenntir

Ójöfn staða kynjanna í bókmenntum kom oft upp í umræðunni á árinu, s.s. við úthlutun listamannalauna og verðlaunaveitingar. Spurningin er hvort konur fá sömu athygli og umfjöllun og karlar um bækur sínar. Er gengið fram hjá konum og þær jaðarsettar í bókmenntaumræðunni? Er það ómeðvitað jafnvel? Hvað með status eins og þennan á facebook-síðu Kiljunnar (17. nóv.) þar sem bækur karlanna fá gildishlaðin lýsingarorð?

„Við fjöllum um einstæða bók Guðmundar Andra um föður sinn Thor, bók Iðunnar Steinsdóttur um sveitarómagann afa sinn, ljóðin hennar Ásdísar Óladóttur og svo stórbrotna sögu stríðsáranna á Íslandi, skráða af Páli Baldvini Baldvinssyni.“

Auður Styrkársdóttir hefur bent á að 12. nóvember hafi verið rætt við, fjallað um eða minnst á 45 karla í Kiljunni en aðeins 11 konur. Er það ásættanlegt?

Afmælisárið

Á metsölulista visir.is eru 50 söluhæstu bækurnar 2015, þar af 17 eftir konur.

Samt var þetta merka afmælisár kosningaréttar kvenna gjöfult að mörgu leyti. T.d. kom út bók um kvenréttindakonur fyrri tíma, Þær ruddu brautina, eftir Kolbrúnu S. Ingólfsdóttur með æviágripum nokkurra merkiskvenna sem hófu frelsisbaráttuna  og úrval ljóða Guðrúnar Stefánsdóttur frá Fagraskógi sem stofnaði Nýtt kvennablað árið 1940. Það komu út ömmusögur (Örlög ráðast heima hljótt eftir Hildi Hauksdóttur), og ævisögur ógiftra vinnukvenna (Ljóð og líf Helgu Pálsdóttur á Grjótá) hjá litlum forlögum sem annars hefðu kannski legið áfram í skúffu en báðar þessar bækur drukknuðu þó í bókaflóðinu. Kristín Helga Gunnarsdóttir skrifaði sögu tíu kvenna sem er aldeilis vel við hæfi á þessu ári, undir þeim væmna titli Litlar byltingar, draumar um betri daga og hún náði ekki flugi.

Uppgangur ævisögunnar

Krimmarnir streymdu á markaðinn að venju og seldust eins og loðnar lundadúkkur. Enginn skilur af hverju Arnaldur, sem seldist best, fær misjafna dóma þegar bækur hans eru allar eins. Yrsa, sem seldist næstbest, og Stefán Máni eru við sama heygarðshornið en fer þó frekar fram en aftur ef marka má sölutölur. En krimminn er líklega orðinn svolítið þreyttur eftir mikinn uppgang síðustu ár, nú vilja menn safaríkar ævisögur og skandala.

Það var sem við manninn mælt, ævisögurnar risu úr öskustó, þrungnar nostalgíu og margvíslegum listrænum töktum. Æska og uppeldi, minningar og veröld sem var, gamlar syndir og tabú, allt leitar þetta á ráðsetta og miðaldra rithöfunda sem sakna hugsjónanna, undranna og baráttunnar úr lífi sínu. Menn tókust á um hvað væri satt og logið í þessum bókum eins og með Íslendingasögurnar forðum en hverjum er ekki sama? Skiptir það nokkru máli ef sagan er góð?

Ljóðaárið mikla

Ljóðið var með hressasta móti þetta árið en engin ljóðabók rataði samt í tilnefningar íslensku bókmenntaverðlaunanna. Tvö merk og góð ljóðasöfn eftir konur komu út á árinu, þeirraVilborgar Dagbjartsdóttur og Ingunnar Snædal. Linda Vilhjálms sætti mestum tíðindum í ár með kaldhömruðum ádrepum í Frelsi ásamt Sjón sem er á goðsögulegu sýrutrippi í langþráðri ljóðabók, báðar öndvegisbækur. Flippaðasta bókin var frá Ragnari Ólafssyni sem skaut upp á stjörnuhimininn í gegnum Tómasarverðlaunin. Ný rödd Eydísar Blöndal vakti vonir um að ungskáld séu enn til þótt þau hangi á horriminni. Lítið og metnaðarfullt forlag, Meðgönguljóð, hefur staðið sig með sóma í að koma unga fólkinu á kortið. Bubbi Morthens kom mest á óvart með ljóðabókinni Öskraðu gat á myrkrið, þó það ætti ekki að koma neinum á óvart að hann gæti sett saman ljóð.

Umdeild verðlaun

Miklar umræður eru jafnan um íslensku bókmenntaverðlaunin og sýnist sitt hverjum. Þau hafa nú verið við lýði í 25 ár. Bókaforlögin velja hvaða bækur fara í slaginn um tilnefningar og borga 25.000 kr fyrir hverja bók sem lögð er fram, fyrir lítil forlög getur þetta verið stór biti. Síðan velur dómnefnd fimm bækur og tilnefnir þær.  Allnokkrar umræður urðu á árinu um það hvort breyta eigi þessu fyrirkomulagi og endurskoða gildismat og breyta skipan manna í nefndina,  jafnvel var ýjað að hagsmunatengslum og hlutdrægni. Engin niðurstaða fékkst.

En fleiri verðlaun eru veitt árlega fyrir bókmenntir en verðlaun bókaútgefenda, s.s. lesendaverðlaun, bóksalaverðlaun og menningarverðlaun DV og Rúv. Fyrirkomulag Fjöruverðlaunanna er til fyrirmyndar, það eru bókmenntaverðlaun sem ætluð eru til að styrkja og hvetja konur til dáða á ritvellinum og hefur vaxið fiskur um hrygg með ári hverju. Forleggjarar þurfa ekki að leggja peninga fram með þeim bókum sem þeir senda þangað inn. Sama gildir um bækur sem lagðar eru fram til Þýðingarverðlaunanna en seint er sú vísa of oft kveðin að þrotlaust starf þýðenda skiptir sköpum fyrir íslenskt bókmennta- og menningarlíf.

Það var leitt að sjá að bækur Þórunnar Jörlu Valdimarsdóttur, Stúlka með höfuð, og Bergsveins Birgissonar, Geirmundar saga heljarskinns, voru ekki tilnefndar, enda báðar miklar merkisbækur. Bæði Þórunn og Bergsveinn takast á við tungumál og stíl af óvenjulegri djörfung og dug. Bók Þórunnar er heillandi og einlæg, skrifuð í ljóðrænum og skapandi stíl. Bók Bergsveins (sem sjálfur er kominn af Geirmundi heljarskinni í þrítugasta  lið) er á fornu máli og var tilnefnd til Brageprisen í Noregi 2014. Hún er tímamótaverk í íslenskum bókmenntum, ný Íslendingasaga sem á brýnt erindi við samtímann, með nútímalegum töktum og meinfyndnum formála, neðanmálsgreinum og orðskýringum. Póstómódernismi og metafiksjón af bestu gerð.

Umdeild listamannalaun

Þá urðu heitar umræður á sl. ári um listamannalaun, bæði meðal listamanna og almennings, um árlegar niðurstöður úthlutunarnefndar launasjóðs rithöfunda, m.a. um hlut ungskálda í þeim potti. Rithöfundasambandið tilnefnir þrjá nefndarmenn til eins árs í senn sem starfa eftir reglugerð um starfslaun listamanna, einkum tilmælum um faglegt mat á umsóknum í 5. grein reglugerðarinnar:

„Í auglýsingu skal óska eftir upplýsingum um feril umsækjenda, listrænt gildi verkefnisins og rökstudda tímaáætlun. Umsókn skal fylgja hnitmiðuð greinargerð um verkefni það sem liggur til grundvallar og hve langan starfstíma er sótt um. Einnig skulu fylgja upp­lýsingar um náms- og starfsferil svo og verðlaun og viðurkenningar. Þessir þættir skulu að jafnaði liggja til grundvallar ákvörðun um úthlutun starfslauna“.

Ungskáld eiga vissulega ekki mikla möguleika þegar horft er til kröfu 5. gr. um starfsferil umsækjanda og verðlaun og viðurkenningar. En það getur  varla talist ósanngjarnt að ætlast til þess að höfundar hafi sannað sig áður en þeir hljóta opinberan styrk til listsköpunar. Til þess að breyta fyrirkomulagi úthlutunar úr rithöfundasjóði þyrfti lagabreytingu, jafnvel hallarbyltingu sem kannski verður nú með nýrri stjórn listamannalauna.

Ég veit af reynslu að nefndarstarfið er mjög krefjandi og valið oft erfitt, það er ekki öfundsvert að hafa úr 555 mánaðarlaunum að spila þegar sótt er um á þriðja þúsund. Það er alveg skýrt að nefndarmenn svara ekki fyrir einstakar úthlutanir, þá ábyrgð ber stjórnin ein.

Og fleira

Ýmislegt fleira kemur upp í hugann sem tengist bókmenntum og var í umræðunni á árinu en er kannski ekki sérlega fræðilegt eða faglegt. Það sætti tíðindum að Borgarbókasafniðhafnaði hluta af safni hinsegin bóka sem voru á vergangi og var gefinn safninu þegar Samtökin 78 skiptu um húsnæði. Það kom flestum í opna skjöldu að á því góða safni væri einshvers konar siðferðisleg forsjárhyggja og ritskoðun í gangi.

Dulnefni Evu Magnúsdóttur og viðtal við hana í plati var algjört flopp, kaldhæðni Guðbergs Bergssonar í garð fjölmiðla og auglýsingamennsku var túlkuð sem ofsóknir í garð Hallgríms Helgasonar og vakti mikla reiði og hópnauðgun í bók Jóns Gnarr olli úlfaþyt. Það er hins vegar ánægjuefni að svo ótrúlega margt gott er ort, samið og þýtt hér á landi árið um kring að það er lyginni líkast og rústar öllum höfðatölukenningum. Hér í ófærðinni og myrkrinu, verðbólgunni, ruglinu og þenslunni lifa bókmenntir enn furðu góðu lífi. Og það sem mest er um vert: það er ennþá til fólk sem les þær.

Dýrið gengur laust

 

Stefán Máni heldur sig við glæpi úr undirheimum Reykjavíkur í nýrri bók sem nefnist Nautið. Titillinn tengist m.a. Chicago Bulls-fána, gróteskri senu þar sem saklausu nauti er slátrað og örlögum mesta illmennisins í sögunni auk þess sem karlpersónurnar yfirleitt eru ansi tuddalegar. Sagan gerist að stórum hluta á landsbyggðinni og þar eru sömuleiðis framdir glæpir, s.s. sifjaspell, hópnauðgun og sálarmorð.

Obeldið er alls staðar í sögunni og margar persónur eru hressilega stangaðar, s.s. smákrimminn Ríkharður, Hanna sem þarf að þola hroðalegri meðferð en lengi hefur sést í íslenskum bókmenntum og Óskar, léttvangefinn  strákur, sem býr við illt atlæti á afskekktum sveitabæ.

Það er ekki vert að gefa of mikið upp um söguþráðinn en sagan er krassandi og hreinlega hrollvekjandi allan tímann. Styrkur hennar liggur í hraðri frásögn, tíðum senuskiptingum í tíma og rúmi og trúverðugum persónum sem allar hafa sinn djöful að draga.

Persónurnar eru allar ógeðfelldar, ýmist fíklar eða vondar manneskjur eða hvort tveggja. Óskar er óvenjuleg persóna sem hefði getað þegið örlítið meiri alúð af hendi höfundar. Hann er algjör steríótýpa, góður risi sem óvart drepur köttinn, og minnir aðeins of mikið á Lenny úr skáldsögu Steinbecks, Músum og mönnum. Karlarnir eru allir ofbeldisseggir og kvenpersónurnar eru fórnarlömb sem þola ofbeldið af fálæti eða varnarleysi.

Í frásögninni miðar allt  í átt að meiri ógæfu og spennan er gífurleg. Fyrirboði um ógn og dauða er undirstrikaður með óreglulegu og feitletruðu „tikk takki“ – sem er kannski fulldramatískt. Ítarlegar og raunsæislegar lýsingar á umhverfi skapa andrúmsloft  þar sem eitthvað illt er sífellt í aðsigi og voðinn gefinn í skyn, eins og í stofunni sem hér er lýst en þar mætir ein sögupersónan grimmum örlögum:

„Stofan er lítil og ofhlaðin húsgögnum, skrautmunum og grænum plöntum sem allar eru ofvaxnar, teygja sig  til allra átta og varpa kræklóttum skuggum á ljósgula veggina – engu líkara  en herbergið sé fullt af lappalöngum risakóngulóm sem grafkyrrar bíða þess að hann loki augunum, þá stökkva þær af stað og spýta í hann eitri. Húsgögnin eru gömul og lúin, úr tekki og lökkuðum viði, heklaðir dúkar á borðunum, slitið flauelsáklæði á stólunum og sófanum. Á veggjunum eru plattar, myndir og alls konar drasl sem klifurjurtirnar skríða eftir og hanga á. Þykkt teppi á gólfinu, lykt af ryki og tekkolíu í loftinu (117-118)

Stefán Máni er á kunnuglegum slóðum í þessari bók, hægt er að ganga að honum vísum með vel byggða og óhugnanlega sögu þar sem smákrimmar og steratröll rífa kjaft, allt veður í dópi og druslum og dýrið gengur laust. Nýjustu fréttir eru þær að sjónvarpsþáttaröð sé í bígerð eftir sögunni. En það er langt í það, lesið bókina fyrst.

Spennusaga

Sögur, 2015

234 bls

 

Birt í Kvennablaðinu, 21. des. 2015

Að brenna húsið til að sjá mánann

„Maður man og á í höfði sínu dýrindis upptökur og bara kveikir á og fer þangað“, segir Þórunn Jarla Valdimarsdóttir, sagnfræðingur og rithöfundur, í sjálfsævisögu sinni, Stúlka með höfuð. Sagan er smiðshöggið í ættarsöguþríleik en formæður hennar voru stúlkur með fingur og maga.

Einlæg og nærgöngul

Stulkamedhofud-175x261Í sjálfsævisögum  ganga höfundar misjafnlega nærri sjálfum sér enda markmið og tilgangur þeirra margvíslegur. Sjónarhornið ræður miklu og áhugavert að skoða hvað ratar í ævisögu og hverju er sleppt til að búa til ímynd eða sjálfsmynd úr brotakenndum minningum. Aðferðirnar eru mismunandi, margir fegra og göfga sögu sína, fæstir afhjúpa lífshlaup sitt grímulaust en fela heldur og bæla það sem ekki kemur þeim vel í heildarmyndinni, loks er sumu hreinlega stungið undir stól. En skemmst er frá því að segja að einlæg og nærgöngul sjálfsævisaga eins og Þórunnar er sjaldséð og mikill happafengur.

Tíminn er ekki lína

Sagan hefst í föðurhúsum, Tóta litla elst upp meðal sjö systkina, pabbinn er flugkappi, móðirin einkabarn og stúdent. Farið er yfir skólaárin, samband  foreldranna sem endar með sársaukafullum skilnaði, sumarstörfin, sveitadvölina og fiskvinnuna, vinkonurnar, sjensana og menntaskólann. Þá er heimdraganum hleypt, utanlandsferðir, námsárin og svo hjónalíf og barneign. Lífshlaupið er dæmigert (a.m.k. framan af) fyrir manneskju sem fædd er á Íslandi um miðja síðustu öld og sett í skáldlegt og þroskað samhengi, líkt og hjá fleiri höfundum af 68-kynslóð sem skrifa nú í óða önn minningabækur sínar.

Mesta áherslan er á æskuna og fram yfir tvítugt, einkum á það tráma sem skilnaður foreldranna var. Þegar hún kemst til vits og ára tekur bóhemlífið við með ýmsum tilfæringum og skemmtilegum tilraunum. Sagan er ekki alveg í krónískri röð heldur kvikna hugrenningar hver af annarri og tengjast á ýmsa vegu. Tíminn er heldur ekki lína, „Þetta eru tvenn ímynduð lönd, fortíðin og framtíðin. Hrygglengjan er föst í núinu, vængirnir dreyma sig burt. Hvor í sína átt“ (315).

Skrýtin gimbur

Þórunn hefur mikinn húmor fyrir sjálfri sér og kallar sig skrýtna gimbur, galning og lukkugæs. Hún hefur líka húmor fyrir lífinu og kokkar enga sorgarsúpu eins og hún orðar það þrátt fyrir erfiðleika og skakkaföll og vill ekki að skrifa ljótt um samferðafólk sitt. Hér eru engir skandalar, ekkert slúður eða illmælgi. Allir eru yndislegir, fagrir og góðir á sinn hátt í minningunni. Það er hins vegar galli að alltof margir  eru nefndir til sögunnar í svip og hér hefði mátt skerpa línur, sérstaklega í kaflanum um menntaskólaárin.

Foreldrarnir fá skilning og samúð þrátt fyrir brotalamir sínar, því frá þeim kemur sitthvað sem gerir mann að því sem maður er. Þórunn segir að sér hafi í gegnum árin tekist að stilla saman ólíka heima foreldra sinna og þannig vanist mótsögnum í sjálfri sér og  lífinu (162). Það er stórt skref í lífi og þroska sérhverrar manneskju.

„Gangandi taugaþúfa“

Einlægnin í sögunni er einstök, það nennir enginn að lesa prakkaralegar drengjabækur, glansmyndakenndar frægðarsögur eða karlagrobb eftir að hafa lesið Stúlku með höfuð. Og höfuðið er stórt, það er „gangandi taugaþúfa“, fullt af alls konar hugsunum og minningum; um Reykjavík síðustu aldar, laugardagsbaðið og sveskjugraut í vömbinni, uppeldisaðferðir og atlæti kynslóðar sem hafði lifað heimstyrjöld – um veröld sem  var.

Það er svo margt sem hefur áhrif á þroskann og sjálfsmyndina, margs konar áföll og sigrar, álit annarra, tíska og hippamenning, hass og sýra, vinátta, kynlíf og ástarsambönd en á endanum kemst stúlkuhausinn furðu heill frá þessu öllu. Sjálfsmyndin hefur breyst frá bólóttum og viðkvæmum gleraugnaglámi sem er skrýtinn að innan og ömurlegur í leikfimi yfir í fallega og lífsreynda konu sem er þakklát fyrir gjafir lífsins.

Frábær stílisti

Stíllinn er ljóðrænn, fyndinn og tregafullur, fullur af dásamlegu trúnaðartrausti. Orðfærið er mjög skemmtilegt, forneskjulegt og frumlegt í senn, enda Þórunn frábær stílisti. Sem dæmi mætti nefna að taka trú dýrúðar (gerast grænmetisæta), mánatíðir (blæðingar), eiga flugpabba, að landlasta o.m.fl.

Bókina prýða bæði ljósmyndir (af sparihliðunum) og teikningar Þórunnar sjálfrar sem gefa sögunni enn frekar yfirbragð nándar og trausts .Víða er stuðst við gömul bréf og jafnvel gægst í facebook til að athuga hvað orðið hefur um gamla kærasta. Og öllu brasinu slegið upp í grín: „Hvað er maður alltaf að reyna að útskýra allt. Böl sagnfræðinámsins. Böl mannlífsins“ (259).

Líkaminn og kynhvötin

Saga Þórunnar er mjög líkamleg, hún er öðrum þræði um ástarsambönd, kynþroska og hormóna, blæðingar, afmeyjun og fullnægingar. Allt það sem þvælist endalaust fyrir stúlku með kristilegt uppeldi,  sem hefur lesið rómantískar ástarsögur og er alin upp við borgaralegt siðferði.

Líkaminn og kynhvötin eru alls staðar í textanum og húmor og viska alltumlykjandi: „Ég man pissandi píkurnar á kúnum, svo líkar manns eigin sem kona getur aldrei séð gera slíkt hið sama. Víst eru til speglar en á þá pissar maður ei“ (147).

Erfðasyndin

Syndin er lævís og lipur og leggst af þunga á stelpuskjátuna, hún ætlar að stela pening fyrir sælgæti, þorir ekki að lúra hjá svölum Eyjapeyja því þá er hún svo mikil hóra og svo kremur hún hjörtu aðdáenda sinna. Og nú nagar hún sig í handarbökin yfir að hafa sleppt mörgum góðum sjens vegna misskilinnar tryggðar og niðurdrepandi sektarkenndar.

Langan tíma tekur að losna undan uppeldi og samfélagi þar sem bæling er alls ráðandi og dyggð barnsins felst í að láta lítið fyrir sér fara, ekki biðja um neitt, vera ekki fyrir. Strangleiki föðurins býr til endalausar sjálfsásakanir, ástarsorg móðurinnar býr til fælni við náin kynni og hvort tveggja fylgir alla ævi.

Útlínur minnisins

Sorgin knýr dyra eins og gengur og setið er í ekkjudómi eftir góðan mann sem lést sviplega og var öllum harmdauði. Fram kemur að hann vildi ekki vera í bókinni svo sagan endar þar sem hann kemur til skjalanna. Sagan er drifin áfram í sorg eftir hann og fjarvera hans er kvika sem sífellt minnir á sig, þannig er lesanda aftur og aftur kippt inn í nútíðina. Það er auðséð að sögumaður er enn að fóta sig í nýrri tilveru eftir missinn, reyna að leggja drög að nýrri framtíð og takast á við ný verkefni með sátt og fyrirgefningu í farteskinu.

Þórunn Jarla hefur lært hvað það er að elska, missa, gráta og sakna og að gleðjast um leið yfir öllu því fallega og góða sem lífið hefur upp á að bjóða:

„…því ég er orðin gangandi æðruleysi. Þegar Eggert dó hætti allt að skipta máli. Líka hvort ég lifi eða dey eða þjáist. Þið getið ekki klipið mig með glóandi töngum, ég flýg burt, er úr eter og hverf sem skuggi fyrir sólu. Stundum þarf að brenna húsið til að sjá mánann“ (194).

 

Stúlka með höfuð, sjálfsævisaga

JPV, 2015

321 bls

Birt í Kvennablaðinu, 19 des. 2015

Varasamir Vottar. Um píslir og upprisu Mikaels T

„Vottar Jehóva trúa því að meginreglur Biblíunnar gagnist fólki enn í dag. (Jesaja 48:17, 18) Þess vegna fylgjum við meginreglum hennar í hvívetna. Sem dæmi varar Biblían okkur við því að stunda nokkuð sem saurgar huga okkar og líkama. Við reykjum því hvorki né neytum eiturlyfja. (2. Korintubréf 7:1) Við forðumst einnig það sem Biblían fordæmir sérstaklega svo sem ofdrykkju, kynferðislegt siðleysi og þjófnað. – 1. Korintubréf 6:9-11.“
 
(Varðturninn, nóvember 2015, bls 5)

Bók Mikaels Torfasonar, Týnd í Paradís, er tileinkuð Guðmundi Bjarnasyni, barnaskurðlækni, sem tókst naumlega að bjarga honum sem ungabarni frá bráðum bana en foreldrar hans hefðu bannað nauðsynlega blóðgjöf vegna trúarskoðana.

Bernska Mikaels einkenndist því af langvarandi veikindum, spítalavist, sprautum og stólpípum. Hann gat ekki kúkað og nærðist ekki, var bundinn niður í sjúkrarúm og þjáðist mjög. Þegar hann stálpaðist og fór að átta sig á aðstæðum sínum varð hann reiður ungur maður.

Skrautlegt lið
Bókin er „númer eitt“ í ritröð um uppvöxt Mikaels Torfasonar. Hann er ekki nema fjögurra ára þegar bókinni lýkur en forfeðrum hans eru gerð góð skil enda skrautlegt lið. Hjá flestum gerist það í lífinu að sátt skapast og hægt er að fyrirgefa feilsporin, bæði sjálfum sér og öðrum. Sögumaður er um síðir kominn á þann stað: „Nú vil ég ekki lengur að reiðin byrgi mér sýn. Ég er kominn yfir fertugt…Það er kominn tími til að ég horfist í augu við æsku mína í Vottum Jehóva og dvölina á Barnaspítala Hringsins“ (65).

Það er af nógu að taka í ættarsögu Mikaels. Hann er kominn af fátæku fólki sem hokraði á örreytiskotum eins og flestir Íslendingar. Bullandi alkóhólismi einkennir fjölskyldulífið ásamt óuppgerðri og sársaukafullri fortíð.

Settur í tossabekk
Móðir Mikaels, Hulda Fríða, horfði upp á föður sinn drekka sig í hel, hann var snarbilaður kvíðasjúklingur og fíkill sem hélt fjölskyldunni í helgreipum. Besta setning bókarinnar er um hann: „Örlagadísirnar höguðu því svo að það var óttinn við dauðann sem drap hann að lokum“ (38).Torfi, faðir Mikaels, er alkóhólisti, harður nagli sem kemur úr braggahverfinu, angandi af basli og fúkkalykt. Ekki bætir stórlega brenglað skólakerfi úr skák. Í Miðbæjarskólanum í Reykjavík voru nemendur brennimerktir til lífstíðar með því að raða þeim í tossabekki. Sagan af námsferli Torfa er hreinlega hjartaskerandi.

Engin Paradísarheimt
Foreldrar Mikaels eru ungir og áttavilltir í lífinu, blankir og beygðir og koma frá brotnum heimilum. Torfi er stefnulaus vingull og djammari og verður heltekinn af hugmyndafræði Votta Jehóva. Þegar hann gengur til liðs við þá hættir hann öllu fylleríi og kvennafari en tekur að ráðskast með fjölskyldu sína eins og versti einræðisherra, harðbannar jólahald og afmælisveislur og er tilbúinn til að fórna lífi sonar síns svo litla fjölskyldan geti öll lifað saman í Paradís eilíflega. Hulda Fríða sveiflast í örvæntingu á milli fýlu- og æðiskasta og hefur enga styrk til að rísa gegn innblásnum trúarhita manns síns sem stefnir á frama innan samtakanna. Þau undu allengi við ógnarstjórn Vottanna en trúin dofnaði nokkuð þegar Paradísarheimtin átti sér ekki stað árið 1975 eins og spáð hafði verið.

Ekki skáldsaga?
Þetta er ekki skáldsaga heldur þroskasaga eða endurminningar og uppgjör við fortíðina, „sönn“ saga soðin upp úr bernskuminningum, læknaskýrslum, viðtölum og skálduðum senum sem hljóta að vera byggðar á upplýsingum frá foreldrum höfundar og fleirum.

Stíllinn er talmálskenndur og þrunginn gamalli reiði og heitum sannfæringarkrafti. Sannleikurinn skal dreginn fram með góðu eða illu og hann er einlægur, hrár og umbúðalaus. Þeir sem óska eftir stílgaldri, dulúð, tvíræðni, orðheppni og ljóðrænu leita annað. Það virkar frekar ankannalegt að nota ekki eiginnöfn afa og ömmu og foreldranna: „Mömmu leið illa þegar hún kyssti pabba fyrst og hann fálmaði eftir líkama hennar“ (43). Sjónarhorn barnsins rekst á sjónarhorn þroskaðs sögumanns, það passar ekki alls staðar og gengur t.d. illa upp að súmma með þessum hætti inn á einkalíf unga parsins.

Varasamir Vottar
Saga fjölskyldunnar tengist náið hugmyndafræði Vottanna „sem allt viti borið fólk á Íslandi fyrirleit.“ Þeir sem þekkja þar til hljóta  að kannast við ýmsar persónur, t.d. Georg Fjölni, Örn Svavarsson og séra Sigurbjörn biskup sem var ekki par hrifinn af brölti Vottanna. Sögu og starfsemi samtakanna er lýst ítarlega í bókinni og þar er dregið fram það versta í þeirra boðskap, s.s. íhaldssamt viðhorf þeirra til kvenna, ofdrykkju og siðleysis ásamt óskhyggju um þúsund ára ríki.

Þótt söfnuðurinn sé ekki sérlega stór á Íslandi sker hann sig úr öðrum trúfélögum, m.a. vegna áherslu á trúboð og afar strangra reglna um framferði og trúariðkun. Safnaðarmeðlimir eru reknir brott ef þeir brjóta af sér og eru þá útilokaðir frá margboðuðu fyrirmyndarríki. Þannig er fólki haldið niðri með ógn og hótunum um brottrekstur úr Paradís. Mikael er harður á því að Vottarnir séu stórhættuleg samtök, ekki síst fyrir ungt fólk og áhrifagjarnt.

Ekkert væl
Eftir ótal erfiðleika hefur nú skapast sátt í fjölskyldunni. Miðaldra sögumaður horfir yfir farinn veg, sér hluti í nýju ljósi, finnur skýringar og sér orsakasamhengi sem hann áður kom ekki auga á. Reynslan hefur mótað hann og þroskað en reiðin stjórnar ekki lengur lífi hans.

Að lestri loknum situr eftir hversu auðvelt er að ánetjast trúarhópum sem gína yfir ungu fólki með bókstafstrú, skýrar reglur, reglufasta virðingarröð og framavon og fórna fyrir það öllu, lífi barna sinna og sínu eigin. Boðskapur um að vera útvalinn og eignast nýtt líf í trúnni skýtur fljótt rótum í frjóum huga ungs fólks sem á sér enga von um betri framtíð. Nákvæmlega það hefur verið að gerast í heiminum öllum undanfarin ár með uppgangi margs konar öfgafullra trúar- og þjóðernishópa sem svífast einskis.

Engin miskunn
Það situr líka eftir hvað Mikael er vægðarlaus við foreldra sína í bókinni, þeir eru algerlega afhjúpaðir og koma naktir fram með alla sína bresti. En það er gert af skilningi og samúð, uppeldi og samfélag eru dregin til  ábyrgðar. Týnd í Paradís er bók sem er hressilega laus við tilfinningaklám, fordóma og vælutón. Þetta er hreinskilnisleg frásögn af píslum og upprisu höfuðengilsins Mikaels sem Jehóva sendi forðum til jarðarinnar og varð síðar mannkynslausnari. Sagan er nærgöngul og kröftug, hún fjallar um samfélag sem bregst sínu fólki, um trúna sem akkeri og helsi í senn og um ást, fíkn og fyrirgefningu á öllum tímum.

Endurminningar

Sögur, 2015

258 bls.
Birt í Kvennablaðinu, 27. nóv. 2015

Ástin á snjallsímaöld, #tístogbast

Það er eitthvað lausbeislað og einlægt í ljóðum Eydísar Blöndal (f. 1994). Fyrsta ljóðabók hennar, Tíst og bast, kom út á dögunum hjá „Lús, forlagi sem fær fólk til að klóra sér í hausnum“. Eydís heldur bókinni hressilega á lofti á tístinu, þar kemur m.a. fram að hún hefur verið nefnd í Kiljunni og Rás 2 og ratað á metsölulista Eymundsson.

12270278_10153724748399328_746557452_n

Engir stuðlar skilja mig

Yrkisefni Eydísar er ástin, eða ástleysið öllu heldur, og einkaheimur ungmennisins sem er skítugt herbergi, pítsukassar og 101. Myndmálið er hrátt og einfalt, töffaralegt og slangrað. Lúið, gamalt og stirðnað form eldri höfunda nær ekki yfir veruleikann lengur;  „engin orð ná dýptinni / og engir stuðlar skilja mig“. Rímið er stundum með í för, tilraunakennt og frjálslega farið með, ekkert bindur unga og óstýriláta hugsun niður.

Ljóðin sveiflast milli sælla minninga og sjálfsvorkunnar („ringluð sál og hjarta sem blæðir“) og sjálfshaturs: „mikið djöfulli getur þú verið heimsk“. Þetta er enginn væminn unglingakveðskapur, þarna eru þroskaðar hugmyndir, alvöruinnihald og brennandi andi. Örsnögg mynd segir meira en mörg orð: „ég hálf tóm, þú hálf fullur“. Og það er hárbeittur tónn í ljóði sem ber tvírætt nafn: „amen, nr 4“ og ætti að vera skyldulesning fyrir alla (karla).

Ástin í símanum

Tvö ljóð bera nafnið „Harmleikur á snjallsímaöld“. Það er orðið alltof auðvelt að fylgjast með símtalaskránni og kveljast  yfir að enginn hafi hringt, minnsta mál að senda eldheit eða reiðiþrungin sms og bíða svo í angist eftir svari og  yfirþyrmandi sárt að fylgjast með fyrrverandi á Facebook eða öðrum samfélagsmiðlum. Ástarsorg er gnægtarbrunnur fyrir skáld og rithöfunda eins og dæmin sanna.

Ástarljóðin eru gullfalleg, t.d. Varúð: þetta ljóð er um kynlíf. Og hér er skemmtileg mynd sem gengur vel upp:

„þvottavél

ég hélt ég væri þvottavél

og tróð inn í mig
óhreinustu drullusokkum borgarinnar
í von um að bjarga þeim

trúið mér
það virkar aldrei“

Tilraun framkvæmd

Í bókinni eru tæplega 40 ljóð. Lokakafli bókarinnar ber heitið Ástarsorg. Hverfistregða einsleitrar stúlku. Tilraun framkvæmd þarna um árið. Ljóðin í þessum hluta eru númeruð líkt og í skýrslu, tilraunin endar í kafla „3.4. Sátt“ og lokakafinn er nr. „4. Niðurstöður og úrvinnsla.“ Það er ekkert nýtt að ljóðið sé notað eins og þerapía fyrir hrellda sál en í þessari bók verður að segjast að það er býsna vel gert. Með nákvæmri klínískri tilraun fást svellkaldar og óhagganlegar niðurstöður og það er ein aðferð til að vinna sig í gegnum erfiðar tilfinningar eins og höfnun, reiði og sorg. Tíst og bast er fyrirtaks frumraun ungs höfundar sem á örugglega eftir að gera fleiri tilraunir í lífinu.

Ljóð

Lús, 2015

Ekkert blaðsíðutal

Birt í Kvennablaðinu, 20. nóv. 2015

Napóleon norðursins. Um Íslands eina kóng

Átjánda öldin hefur löngum verið talin eitt mesta hörmungatímabil í sögu Íslands. Náttúruhamfarir, farsóttir, einokun og stéttskipt samfélag einkenndu tímabilið og mesta furða að landsmenn skuli ekki barasta hafa geispað golunni, allir með tölu. En þeir þrjóskuðust við, þá eins og nú, og hjörðu áfram í sárri fátækt, eymd og volæði. En þrátt fyrir allt gerðist það á þessum tíma að hugmyndir um sögulegan samtíma og einstaklingsvitund brutust fram og róttækar breytingar urðu á efni og formi bókmenntanna.

Þegar Jörgen Jörgensen, nefndur Jörundur hundadagakonungur, kom til Íslands sumarið 1809 í viðskiptaerindum, var hér heldur dauflegt um að litast. Í Reykjavík bjuggu um 400 manns og var heldur lágt á þeim risið. Íslendingar þorðu ekki að eiga vöruskipti við Jörund og félaga hans vegna einokunar Dana, svo hann hreinlega hrifsaði völdin af stiftamtmanni og lýsti því yfir að dönsk yfirráð væru fallin úr gildi.

Í tvo mánuði ríkti hann yfir landinu, gaf út tilskipanir á báða bóga, veitti föngum sakaruppgift og strikaði út skuldir eins og enginn væri morgundagurinn. Þessu stutta blómaskeiði lauk þegar hann var snautlega settur af og þar réðu gróðasjónarmið einnig för ásamt undirliggjandi ótta valdhafa við almenna uppreisn og frekari byltingu.

Ekki ber öllum saman um að þessi maður sé Jörgen Jörgensen. Önnur mynd og óhuggulegri var til á Þjóðminjasafni Íslands (Þjms. 18974 / MMS 18974) en hefur ekki sést lengi.

Einar Már Guðmundsson fjallar um Jörund  í nýjustu skáldsögu sinni, Hundadögum, sem einnig kemur út á dönsku þessa dagana í þýðingu hins eitursnjalla Eriks Skyum Nielsen. Lífshlaup Jörundar er sannarlega skrautlegt og gjöfult viðfangsefni. Einar Már er þó ekki fyrstur til þess  að sækja í þennan frjóa efnivið og sennilega ekki síðastur. Áður hafa m.a. bæði Ragnar Arnalds (Eldhuginn, 2005) og Sarah Blakewell (2015) skrifað skáldsögur um skrautlegan feril Jörundar.  Og leikrit Jónasar Árnasonar, Þið munið  hann Jörund, sem fyrst var sett upp í Iðnó 1970 smaug beint inn í hjörtu þjóðarinnar á sínum tíma. Það hefur margoft verið sett á fjalirnar síðan, síðast 2014 í leikgerð Eddu Þórarinsdóttur, og rataði ísjónvarp 1994. Auk þess skrifaði Jörundur sjálfur ævisögu sína í nokkrum útgáfum eftir því hvernig lá á honum. Svo það hlýtur að vera tímaspursmál hvenær gerð verður stórmynd um stormasama ævi og örlög þessa margbrotna manns.

Hundadagar-175x268Efnistök Einars Más eru af öðrum toga en fyrirrennara hans; þau eru frumlegri, fjölskrúðugri, skáldlegri og meira skapandi en áður hefur sést. Jörundur er breysk persóna, hann er myndarlegur, vel greindur en ógæfusamur ævintýramaður sem hrekst í ólgusjó fíknar og metorðagirndar en á sér líka betri hliðar.

Ástæðurnar fyrir byltingunni á Íslandi eru í raun viðskiptahagsmunir, það er engin rómantíseruð frelsishugmynd þar að baki. Einar Már tengir byltingu Jörgens við búsáhaldabyltinguna 200 árum síðar, þegar óheiðarleg viðskipti með sýndarmilljarða urðu efnahag þjóðarinnar að fjörtjóni til frambúðar og forsætisráðherra kallaði almenning skríl, líkt og enski skipherrann sem setur sig á háan hest gagnvart þegnum Jörundar, og leggur út af þeim samanburði um eðli manns, sögu og skáldskapar.

Sögumaðurinn er alls staðar nálægur á notalegum spjallnótum. Hann er kammó og kærulaus og slær um sig með orðum eins og díll, djobb og gaur . Hann er ýmist „við“ eða „ég“ og hefur yfirsýn yfir orsök og afleiðingu, liðna tíma og núið. Hann fer á flug í pælingum um skáldskap og veruleika, sögu og túlkun. Persónurnar anda og lifa í gegnum hann, ætli það séu nema tvö bein samtöl í allri bókinni?

Aldagamalt ryk er dustað af gulnuðum skjölum, þau eru dregin úr gömlu þurrlegu samhengi og skeytt saman á ný svo úr verður skrautleg, eldfjörug og kostuleg saga sem minnir um margt á svonefndar skálkasögur sem voru vinsælar á bernskudögum  skáldsögunnar.

Sögumaður snýr upp á tímann eins og hann lystir „af því að saga okkar er í aðra röndina andleg  og ekkert er í réttri röð þegar fram líða stundir“ (190). Bítlarnir og Jörundur eru nefndir í sömu andránni og Jón Steingrímsson, hinn magnaði eldklerkur, er sömuleiðis leiddur fram en Jón hafði verið dauður í tuttugu ár þegar Jörundur kom til landsins.

Fleiri nafnkunnir menn koma við sögu, m.a. Magnús Stephensen, konungshollur tækifærissinni og fulltrúi valdastéttarinnar á Íslandi, og Finnur Magnússon, sem fékk skjótan frama sem leyndarskjalavörður Danakonungs, féll svo úr háum sessi og var ekki gæfusamur í einkalífinu, skuldugur og einmana.

Svo er fylgst með Guðrúnu Johnsen, ægifagurri ástkonu Jörundar sem þráir að vera hefðarmær en endar sem betlikona, hrekst milli manna og ræður minnstu um örlög sín sjálf. Sögufrægar persónur eru sýndar í nýju ljósi, t.d. hefur Íslandsvinurinn mikli, hinn kunni SirJoseph Banks, svifið um mannkynssöguna á rómantískri ímynd en reynist svo ekki allur þar sem hann er séður.

Undir öllum kammóheitunum, gáskanum og skapandi heimildaúrvinnslunni lúrir ádeila á nýlendustefnu, kúgun og stéttaskiptingu og hrokann sem hélt ástandinu við og gerir enn.Veislan fræga í Viðey sem Ólafur Stephensen hélt Jörundi og félögum dregur skýrt fram muninn á ríkidæmi valdhafa og kjörum alþýðunnar.

Kort af Íslandi frá 1761

Íslenskir embættismenn höfðu skömm á valdabrölti Jörundar nema þeir sem nutu góðs af eða þorðu ekki annað „af ótta við að hann myndi sigra en urðu þá enn hræddari stuttu síðar þegar ljóst var að hann hafði tapað“ (199). Alþýðan tók þessu eins og hverju öðru hundsbiti, vön því í gegnum aldir að beygja sig undir yfirvaldið mótþróalaust og vera ekki spurð álits á neinu. Einar Már færir listilega saman líkindin með fortíð og nútíma og sýnir að valdapólitíkin er alltaf söm við sig.

Var Jörundur hundadagakonungur fulltrúi nýrra tíma, djarfur ofurhugi, misskilinn snillingur og frelsishetja? Eða gróðapungur, götustrákur og föðurlandssvikari? Hvað sem því líður var yfirlýstur tilgangur hans að bæta ástandið á Íslandi og að tryggja landsbúum frið og hamingju sem þeir hafa lítið haft af að segja til þessa“ (194).

Það er ekki fyrr en í fangelsi sem raunveruleg ásýnd spillingar, kúgunar og einokunar á Íslandi skýrist fyrir Jörundi. Eldheitar ræður hans um frelsi og réttlæti, frjáls viðskipti og jafnan rétt manna streyma skyndilega fram. Þá nær mikilmennskubrjálæðið hámarki, þá er hann Napóleon norðursins, Íslands eini kóngur fyrr og síðar.

Jörundi er fylgt áfram eftir Íslandsævintýrið í útlegð að endimörkum heimsins og til dauðadags. Mynd af honum og konu hans, hinni ungu og drykkfelldu Nóru, er talin steypt í brúarsporð í bænum Ross í Tasmaníu, „útskorin eins og kóngur og drottning á spilum“ (333). Mynd Jörundar lifir væntanlega í skáldskap Einars Más meðan bækur eru enn lesnar á Íslandi.

Skáldsaga Mál og menning, 2015 341 bls

Gullfalleg bókarkápa: Alexandra Buhl / Forlagið

Birt í Kvennablaðinu, 15. nóv. 2015

Ömurlegt að vera ungur

Kvennablaðið

Ein versta mögulega martröð sem hugsast getur er að eitís komi aftur. Að maður verði á ný sveimhuga pípusvælandi gleraugnaglámur í Flóarfrakka sötrandi bjórlíki úr glerlíki á eilífum bömmer yfir kjarnorkuvopnum, með Egó-kasettu eða eitthvað þaðan af verra í vasadiskóinu. Hallgrímur Helgason, einn allra skemmtilegasti, frumlegasti og frjóasti rithöfundur landsins, horfist óhikað í augu við þessa martröð í nýjustu bók sinni, Sjóveikur í München. Hér er á ferð íslenska útgáfan afPortrait of the Artist as a Young Man, sem söguhetjan les í lestarferð á vit örlaga sinna í hinu alvörugefna og reglufasta Þýskalandi. Hér er allt á fullu, fengist við fortíð og minni, tilurð skálds, ást og list, lönd og þjóðir af blússandi krafti.

Menningarlaus mysingsþjóð
Það þarf svo sannarlega kjark og þor til að fást við þetta skelfilega tímabil í mannkynssögunni. Aðalpersónan er unglingstötur sem fyrirlítur samtíð sína og samlanda, tískuna og tónlistina og rís gegn öllu draslinu, hann er „álfur á afajakka“ (83) sem veit ekki sitt rjúkandi ráð, „undarleg blanda af uppreisn og íhaldssemi, Johnny Rotten og Ronald Reagan…ljóshært barn í karlafötum“ (28).

Kalt stríð ríkir milli austurs og vesturs, Berlínarmúrinn hefur staðið í tuttugu ár, tákn um aðskilnað og ofbeldi, og austurhluti Þýskalands er á valdi alræðis kommúnismans í sinni verstu mynd. Þó þrífast þar leikhús og óperur, listakademíur, kaffhús og knæpur. Ísland er sömuleiðis klofið í komma og íhald en þar er eitt kaffihús og þrír matsölustaðir, ein útvarpsrás og ekkert sjónvarp á fimmtudögum, enginn hefur bragðað pasta og helsta kennileiti borgarinnar, himinhár kirkjuturn, hefur verið í smíðum á fjórða áratug. Það er ekki nema von að Íslendingnum finnist hann vera af menningarlausri mysingsþjóð í samanburði við þýska osta (23).

800px-München_PanoramaAð ganga við höfuðstaf
Heimóttarskapur og nesjamennska fylgja Íslendingnum hvert sem hann fer, þótt hann reyni að bera sig mannalega. Einangrun föðurlandsins, slök þýskukunnátta og dökk fortíð kúgaðrar nýlenduþjóðar takast sífellt á við vandlega innrætt þjóðarstoltið og aldagamla skáldskaparhefð eins og sést þegar Ungur og félagar fylgjast með framgangi fótboltahetjunnar Ásgeirs Sigurvinssonar í stórleik með Bayern München:

Í samanburðinum voru þeir, Íslendingarnir þrír í stúkunni, allir frá sama sveitabænum sem kúrði með átján burstum undir hárri klettahlíð efst á hnettinum. Þeir voru jafnsjaldgæfir og geimverur, töluðu tungu sem enginn skildi, voru frá landi sem enginn þekkti, stokktroðnir af hugmyndum, upplifunum og reynslu sem engin leið var að þýða, eða koma til skila, því nánast enginn jarðarbúi hafði komið til þessa hnattar sem Ísland var. Þeir voru ekki grænir og ekki eineygðir, þeir féllu svosem í fjöldann, en næðist af þeim innrauð mynd mátti glöggt sjá jöklana sem þeir báru á herðum sér, fjármerkt eyrun, óveðrið í augunum og ættartalnaböndin sem ófust um háls þeirra, líkt og væru þeir fornfálegur þjóðflokkur úr Kákasusfjöllum sem gekk við höfuðstaf og blakaði brageyrum, hefðbundnum á höndum og fótum, svo ekki sé minnst á skepnuna sem fylgdi þeim hvert sem þeir fóru, og hvorki var kýr né ær né lamb heldur land, ferfætt land, sem þeir fyrirurðu sig fyrir á kránni og í lestinni…(140-141).

Mállaus í Munkaborg
Ungur Maður (svo heitir aðalpersónan) er í listnámi í Munkaborg á því andstyggilega ári 1981. Einn og mállaus lendir hann í ýmsum svaðilförum, kynnist bæði sjálfum sér og öðru fólki, s.s. öðrum íslenskum námsmönnum (aðallega montrössum úr MR), kafar í listræna áhrifavalda og tekur út andlegar og líkamlegar þjáningar í leit að sjálfum sér. „Einhvern tímann yrði hann eitthvað en núna var hann ekkert. Hann var vofa framtíðar“ (56).

Skemmst er frá því að segja að saga Ungs Manns er stórskemmtileg og söguþráðurinn óborganlegur. Ljóst má vera að verkið er byggt á ævi höfundar en það fellur hvorki undir hefðbundnar endurminningar né sjálfsævisögu, þetta er skáldævisaga sem skipar sér á bekk með dulmögnuðum bernskubókum höfunda á borð við Málfríði Einarsdóttur, Guðberg Bergsson og Sigurð Pálsson en efnistökin eru önnur, ný og skapandi.

KvennablaðiðSviptur sakleysinu
Ungum er hvergi hlíft og engin miskunn sýnd, ekkert er dregið undan af einsemd hans, örvæntingu og niðurlægingu, senurnar eru svo vandræðalegar að sker í hjartað. Og flest er víst meira og minna satt ef marka má nýleg viðtöl við höfundinn sjálfan nema kannski þessi eilífu og dularfullu uppköst sem hrjá Ungan. Þetta eru snöggar ælugusur, prentsvartar og tjörukenndar spýjur sem hann geymir í glasi og laumast með í kápuvasa og tákna fæðingu skálds og listamanns, gróteskar dembur sem ýmist storkna eins og hraun eða kveikja elda og ryðjast fram af knýjandi tjáningarþörf. Hvörf verða í sögunni þegar Ungum er nauðgað á jólanótt, með þeim skelfilega atburði breytist allt, „sakleysis vegna hafði sakleysið verið tekið frá honum“. Þá verður æluglasið, sem geymir skáldskaparmjöðinn, bjargvættur hans og sáluhjálp.

HægðaLíf annarra
Það er sama hvar gripið er niður í sögunni, alls staðar er kröftugur stíll, óvæntar og úthugsaðar tengingar og vísanir; taktur, hrynjandi og stuðlasetning og brakandi ferskt myndmál. Frasar eins og miskunnsamur Bæverji, að vera svallþyrstur, kunna háspennulínur eftir Nietzsche eða sinna bólueftirliti gleðja langeygan lesanda. Eftirfarandi brot lýsir vel anda sögunnar, það birtir þýska þjóðarsál í samspili við heimssýn Ungs Manns innan um ískalt háð og lúmska orðaleiki:

Hann opnaði fram og mætti augum klósettvarðarins, steingráum kúlnagötum umkringdum fitugu hári og rauðflekkóttri undirhöku, sem ljómuðu af því sem hann tók fyrir stórþjóðafyrirlitningu en var að líkindum eftirstríðsbiturð. Prjónarnir stóðu kyrrir í höndum hennar uns hann hafði reitt fram hálft mark í tágakörfuna. Til hvers voru þessir klósettverðir? Borgin virtist full af þessum pirruðu eldri konum sem stóðu vaktir um hægðalíf annarra. Var þetta líka hluti af uppgjörinu? Var Þjóðverjum ekki nóg að þurfa að horfast í augu við eigin skít á hverjum degi? Þurftu þeir líka að vita af því að einhver stæði um hann heiðursvörð? Eða var þetta kannski atvinnubótavinna fyrir gamla verði úr fangabúðunum? Að minnsta kosti tókst þeim að hræða úr manni líftóruna í hvert sinn sem maður þurfti á salernið. (30)

Hið sjónræna högg
Ungur er eins og aðrir Frónbúar fjötraður við landsteina sem enginn kemst út fyrir hvernig sem hann reynir, sveitamaður sem er fastur undir jökli að eilífu. Því hvað eru akademíur, óperuhallir og kastalar samanborið við Esjuna og Snæfellsjökul séðan úr fjörunni? „Hann var Íslendingur, hann komst ekki undan því, og eftir heilan vetur á meginlandinu, inn og út úr lestar- og listagöngum, var þetta það sem heltók hann þannig að sál hans víbraði líkt og glansandi bjalla, með skæru gylltu hljóði, eftir hið sjónræna högg“ (312).

Kalt stríð, latir hippar
Hallgrímur er ómyrkur í máli um hið hvimleiða kalda stríð og áhrif þess á íslenska menningu. Hipparnir og 68-kynslóðin sem nú eru orðin að sjálfumglaðri og værukærri elítu og millistétt fá líka að heyra það og anarkistar fá makið um bakið. Sagt er frá oki snilldar Laxness sem er enn í fullu fjöri, hvernig getur nokkur maður skrifað eins og hann? Og hvernig gat nokkur maður málað eins og Munch eða verið djarfur eins og Duchamp? Það er von að Ungum Manni fallist hendur.

En hann býr vel að góðu veganesti út í lífsbaráttuna; heilsteyptum foreldrum, gæðalegri ömmu og meinfyndnum afa er reistur óbrotgjarn minnisvarði um kynslóð með önnur gildi og aðrar minningar. Það eru einmitt minningagreinar, það séríslenska fyrirbæri að kveðja hvern einasta mann sem deyr á síðum dagblaðanna, sem opna skáldæðina hjá Ungum. Þegar hann er búinn að skrifa um afa sinn er hann strax kominn með hugmynd að fleiri minningagreinum. „Það þyrfti bara einhver að deyja fyrst“ (324).

JPV

Flott bókarkápa!

Birt í Kvennablaðinu, 24. október 2015