„Vottar Jehóva trúa því að meginreglur Biblíunnar gagnist fólki enn í dag. (Jesaja 48:17, 18) Þess vegna fylgjum við meginreglum hennar í hvívetna. Sem dæmi varar Biblían okkur við því að stunda nokkuð sem saurgar huga okkar og líkama. Við reykjum því hvorki né neytum eiturlyfja. (2. Korintubréf 7:1) Við forðumst einnig það sem Biblían fordæmir sérstaklega svo sem ofdrykkju, kynferðislegt siðleysi og þjófnað. – 1. Korintubréf 6:9-11.“
(Varðturninn, nóvember 2015, bls 5)
Bók Mikaels Torfasonar, Týnd í Paradís, er tileinkuð Guðmundi Bjarnasyni, barnaskurðlækni, sem tókst naumlega að bjarga honum sem ungabarni frá bráðum bana en foreldrar hans hefðu bannað nauðsynlega blóðgjöf vegna trúarskoðana.
Bernska Mikaels einkenndist því af langvarandi veikindum, spítalavist, sprautum og stólpípum. Hann gat ekki kúkað og nærðist ekki, var bundinn niður í sjúkrarúm og þjáðist mjög. Þegar hann stálpaðist og fór að átta sig á aðstæðum sínum varð hann reiður ungur maður.
Skrautlegt lið
Bókin er „númer eitt“ í ritröð um uppvöxt Mikaels Torfasonar. Hann er ekki nema fjögurra ára þegar bókinni lýkur en forfeðrum hans eru gerð góð skil enda skrautlegt lið. Hjá flestum gerist það í lífinu að sátt skapast og hægt er að fyrirgefa feilsporin, bæði sjálfum sér og öðrum. Sögumaður er um síðir kominn á þann stað: „Nú vil ég ekki lengur að reiðin byrgi mér sýn. Ég er kominn yfir fertugt…Það er kominn tími til að ég horfist í augu við æsku mína í Vottum Jehóva og dvölina á Barnaspítala Hringsins“ (65).
Það er af nógu að taka í ættarsögu Mikaels. Hann er kominn af fátæku fólki sem hokraði á örreytiskotum eins og flestir Íslendingar. Bullandi alkóhólismi einkennir fjölskyldulífið ásamt óuppgerðri og sársaukafullri fortíð.
Settur í tossabekk
Móðir Mikaels, Hulda Fríða, horfði upp á föður sinn drekka sig í hel, hann var snarbilaður kvíðasjúklingur og fíkill sem hélt fjölskyldunni í helgreipum. Besta setning bókarinnar er um hann: „Örlagadísirnar höguðu því svo að það var óttinn við dauðann sem drap hann að lokum“ (38).Torfi, faðir Mikaels, er alkóhólisti, harður nagli sem kemur úr braggahverfinu, angandi af basli og fúkkalykt. Ekki bætir stórlega brenglað skólakerfi úr skák. Í Miðbæjarskólanum í Reykjavík voru nemendur brennimerktir til lífstíðar með því að raða þeim í tossabekki. Sagan af námsferli Torfa er hreinlega hjartaskerandi.
Engin Paradísarheimt
Foreldrar Mikaels eru ungir og áttavilltir í lífinu, blankir og beygðir og koma frá brotnum heimilum. Torfi er stefnulaus vingull og djammari og verður heltekinn af hugmyndafræði Votta Jehóva. Þegar hann gengur til liðs við þá hættir hann öllu fylleríi og kvennafari en tekur að ráðskast með fjölskyldu sína eins og versti einræðisherra, harðbannar jólahald og afmælisveislur og er tilbúinn til að fórna lífi sonar síns svo litla fjölskyldan geti öll lifað saman í Paradís eilíflega. Hulda Fríða sveiflast í örvæntingu á milli fýlu- og æðiskasta og hefur enga styrk til að rísa gegn innblásnum trúarhita manns síns sem stefnir á frama innan samtakanna. Þau undu allengi við ógnarstjórn Vottanna en trúin dofnaði nokkuð þegar Paradísarheimtin átti sér ekki stað árið 1975 eins og spáð hafði verið.
Ekki skáldsaga?
Þetta er ekki skáldsaga heldur þroskasaga eða endurminningar og uppgjör við fortíðina, „sönn“ saga soðin upp úr bernskuminningum, læknaskýrslum, viðtölum og skálduðum senum sem hljóta að vera byggðar á upplýsingum frá foreldrum höfundar og fleirum.
Stíllinn er talmálskenndur og þrunginn gamalli reiði og heitum sannfæringarkrafti. Sannleikurinn skal dreginn fram með góðu eða illu og hann er einlægur, hrár og umbúðalaus. Þeir sem óska eftir stílgaldri, dulúð, tvíræðni, orðheppni og ljóðrænu leita annað. Það virkar frekar ankannalegt að nota ekki eiginnöfn afa og ömmu og foreldranna: „Mömmu leið illa þegar hún kyssti pabba fyrst og hann fálmaði eftir líkama hennar“ (43). Sjónarhorn barnsins rekst á sjónarhorn þroskaðs sögumanns, það passar ekki alls staðar og gengur t.d. illa upp að súmma með þessum hætti inn á einkalíf unga parsins.
Varasamir Vottar
Saga fjölskyldunnar tengist náið hugmyndafræði Vottanna „sem allt viti borið fólk á Íslandi fyrirleit.“ Þeir sem þekkja þar til hljóta að kannast við ýmsar persónur, t.d. Georg Fjölni, Örn Svavarsson og séra Sigurbjörn biskup sem var ekki par hrifinn af brölti Vottanna. Sögu og starfsemi samtakanna er lýst ítarlega í bókinni og þar er dregið fram það versta í þeirra boðskap, s.s. íhaldssamt viðhorf þeirra til kvenna, ofdrykkju og siðleysis ásamt óskhyggju um þúsund ára ríki.
Þótt söfnuðurinn sé ekki sérlega stór á Íslandi sker hann sig úr öðrum trúfélögum, m.a. vegna áherslu á trúboð og afar strangra reglna um framferði og trúariðkun. Safnaðarmeðlimir eru reknir brott ef þeir brjóta af sér og eru þá útilokaðir frá margboðuðu fyrirmyndarríki. Þannig er fólki haldið niðri með ógn og hótunum um brottrekstur úr Paradís. Mikael er harður á því að Vottarnir séu stórhættuleg samtök, ekki síst fyrir ungt fólk og áhrifagjarnt.
Ekkert væl
Eftir ótal erfiðleika hefur nú skapast sátt í fjölskyldunni. Miðaldra sögumaður horfir yfir farinn veg, sér hluti í nýju ljósi, finnur skýringar og sér orsakasamhengi sem hann áður kom ekki auga á. Reynslan hefur mótað hann og þroskað en reiðin stjórnar ekki lengur lífi hans.
Að lestri loknum situr eftir hversu auðvelt er að ánetjast trúarhópum sem gína yfir ungu fólki með bókstafstrú, skýrar reglur, reglufasta virðingarröð og framavon og fórna fyrir það öllu, lífi barna sinna og sínu eigin. Boðskapur um að vera útvalinn og eignast nýtt líf í trúnni skýtur fljótt rótum í frjóum huga ungs fólks sem á sér enga von um betri framtíð. Nákvæmlega það hefur verið að gerast í heiminum öllum undanfarin ár með uppgangi margs konar öfgafullra trúar- og þjóðernishópa sem svífast einskis.
Engin miskunn
Það situr líka eftir hvað Mikael er vægðarlaus við foreldra sína í bókinni, þeir eru algerlega afhjúpaðir og koma naktir fram með alla sína bresti. En það er gert af skilningi og samúð, uppeldi og samfélag eru dregin til ábyrgðar. Týnd í Paradís er bók sem er hressilega laus við tilfinningaklám, fordóma og vælutón. Þetta er hreinskilnisleg frásögn af píslum og upprisu höfuðengilsins Mikaels sem Jehóva sendi forðum til jarðarinnar og varð síðar mannkynslausnari. Sagan er nærgöngul og kröftug, hún fjallar um samfélag sem bregst sínu fólki, um trúna sem akkeri og helsi í senn og um ást, fíkn og fyrirgefningu á öllum tímum.
Endurminningar
Sögur, 2015
258 bls.
Birt í Kvennablaðinu, 27. nóv. 2015