Svartholið sem gleypti æskuna

Kalt er á toppnum. Það sannast á Guðmundi Óskarssyni sem sló óvænt í gegn þegar hann samdi hrunsöguna Bankster á hárréttum tíma og hreppti íslensku bókmenntaverðlaunin 2009. Núna kemur önnur bók hans út, Villisumar, stutt skáldsaga eða nóvella (125 bls) þar sem horft er inná við, drengurinn Dagbjartur þroskast og kemst að ýmsu um sjálfan sig, fortíð sína og föður þar sem þeir dvelja saman sumarlangt.

villisumar_72Faðirinn er drykkfelldur og dyntóttur listmálari sem hefur haft lítið saman við son sinn að sælda. Eitt sumar fær Dagbjartur að fara með honum til Frakklands sem aðstoðarmaður. Vinnustofan er kuldaleg og hriplek, í niðurníddu iðnaðarhverfi, og gengur á ýmsu í sambúð feðganna. Löngu síðar fær Dagbjartur boð frá mennta-og menningaryfirvöldum þar í landi en til stendur að halda yfirlitssýningu til minningar um föður hans og á leiðinni þangað rifjast upp villisumarið mikla. Frásögnin er því öll í endurliti, endurminningum er varpað á tjald (6) og einskorðast við sjónarhorn unglingsins.

Vantar kenginn

Allan tímann sem Dagbjartur býr með föður sínum á lesandi von á því að ógæfan dynji yfir enda ýmis teikn á lofti, s.s. óregla, drykkjutúrar, svaðalegur sólbruni og skapofsaköst. Það getur varla verið hollt fyrir ungling að búa með þessum maníska karli sem er ýmist trylltur af gleði eða liggur í þunglyndi í bælinu. Samvistir við hann eru svartholið sem gleypti æskuna og færði drengnum fullorðinsárin (96). Karlinn getur kannski verið sjarmerandi, það er alltaf eitthvað heillandi við þá sem hugsa út fyrir kassann, en hann segir fátt og það vantar meiri keng og kraft í karakterinn.

Dul og fáguð

Frásagnarháttur og stíll láta lítið uppi en gefa margt til kynna, farið er með söguna fram og aftur í tíma en sjónarhorn er agað og bundið við eina persónu sem í ofanálag horfir með skelfingu til villisumarsins. Dramatísk fjölskyldusaga er dregin fáum dráttum, ævisaga rúmast í málsgrein, örlög í einni setningu. Sagan er ekki alveg aðgengileg í fyrstu atrennu, svona dul og fáguð. Viðfangsefnið er gamalkunnugt, samband feðga, alkóhólismi, skapandi sjálfeyðing listamannsins o.s.frv. Ýmislegt er frumlegt í máli og myndrænum stíl: hrollgrófar hreyfingar (12), skuggagæf tré (46) og að vera ástfangi (52). Bókarkápan er úr striga með ámáluðum lit og engin bók eins, sem er skemmtileg pæling. Í hnotskurn er Villisumar saga um sjúkt samband feðga, list og sekt; ljóðræn og tregafull með óvæntu tvisti í lokin.

 

JPV, útgáfa

Kápuhönnun: Halla Sigga

Birt  í Kvennablaðnu, 30. des 2016

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s