Space

Svartholið sem gleypti æskuna

Kalt er á toppnum. Það sannast á Guðmundi Óskarssyni sem sló óvænt í gegn þegar hann samdi hrunsöguna Bankster á hárréttum tíma og hreppti íslensku bókmenntaverðlaunin 2009. Núna kemur önnur bók hans út, Villisumar, stutt skáldsaga eða nóvella (125 bls) þar sem horft er inná við, drengurinn Dagbjartur þroskast og kemst að ýmsu um sjálfan sig, fortíð sína og föður þar sem þeir dvelja saman sumarlangt.

villisumar_72Faðirinn er drykkfelldur og dyntóttur listmálari sem hefur haft lítið saman við son sinn að sælda. Eitt sumar fær Dagbjartur að fara með honum til Frakklands sem aðstoðarmaður. Vinnustofan er kuldaleg og hriplek, í niðurníddu iðnaðarhverfi, og gengur á ýmsu í sambúð feðganna. Löngu síðar fær Dagbjartur boð frá mennta-og menningaryfirvöldum þar í landi en til stendur að halda yfirlitssýningu til minningar um föður hans og á leiðinni þangað rifjast upp villisumarið mikla. Frásögnin er því öll í endurliti, endurminningum er varpað á tjald (6) og einskorðast við sjónarhorn unglingsins.

Vantar kenginn

Allan tímann sem Dagbjartur býr með föður sínum á lesandi von á því að ógæfan dynji yfir enda ýmis teikn á lofti, s.s. óregla, drykkjutúrar, svaðalegur sólbruni og skapofsaköst. Það getur varla verið hollt fyrir ungling að búa með þessum maníska karli sem er ýmist trylltur af gleði eða liggur í þunglyndi í bælinu. Samvistir við hann eru svartholið sem gleypti æskuna og færði drengnum fullorðinsárin (96). Karlinn getur kannski verið sjarmerandi, það er alltaf eitthvað heillandi við þá sem hugsa út fyrir kassann, en hann segir fátt og það vantar meiri keng og kraft í karakterinn.

Dul og fáguð

Frásagnarháttur og stíll láta lítið uppi en gefa margt til kynna, farið er með söguna fram og aftur í tíma en sjónarhorn er agað og bundið við eina persónu sem í ofanálag horfir með skelfingu til villisumarsins. Dramatísk fjölskyldusaga er dregin fáum dráttum, ævisaga rúmast í málsgrein, örlög í einni setningu. Sagan er ekki alveg aðgengileg í fyrstu atrennu, svona dul og fáguð. Viðfangsefnið er gamalkunnugt, samband feðga, alkóhólismi, skapandi sjálfeyðing listamannsins o.s.frv. Ýmislegt er frumlegt í máli og myndrænum stíl: hrollgrófar hreyfingar (12), skuggagæf tré (46) og að vera ástfangi (52). Bókarkápan er úr striga með ámáluðum lit og engin bók eins, sem er skemmtileg pæling. Í hnotskurn er Villisumar saga um sjúkt samband feðga, list og sekt; ljóðræn og tregafull með óvæntu tvisti í lokin.

 

JPV, útgáfa

Kápuhönnun: Halla Sigga

Birt  í Kvennablaðnu, 30. des 2016

Betri er bók en ríkidæmi

„Þeir fáu ríkismenn sem ég sá um mína daga unnu aldrei neitt, en fátæktin svarf að jafnaði fastast að þeim sem mest þræluðu, og svo býst ég við að það sé í öðrum kaupstöðum. En þekkíngin og sú skemtun sem býr í góðri bók er betra en ríkidæmi, og þessvegna mundi ég í þínum sporum leggja meiri rækt við lestur og skrift. Og það er það sem þeim þykir verst ef þeir vita að þú hefur þekkíngu…“

Eyjólfur í Mararbúð við Sölku Völku

(Halldór Laxness)

Gamlir ritdómar

Ég rakst á ritdóma frá 1999 í iðrum tölvunnar, m.a. fyrsta ritdóminn sem ég skrifaði. Silja Aðalsteinsdóttir var þá ritstjóri menningarblaðs DV, eldklár og frábær kona, hún gaf mér tækifæri og kom mér á kortið. Dómarnir eru undir Bókmenntagagnrýni hér á síðunni.

Arto Paasilinna – Ár hérans1

Páll Pálsson – Burðargjald greitt

Björn Th. Björnsson – Hlaðhamar

Bragi Ólafsson – Hvíldardagar

Hrafn Jökulsson – Miklu meira en mest

Eysteinn Björnsson – Í skugga heimsins

Páll Hersteinsson – Línur

Ernest Hemingway – Satt við fyrstu sýn

Árni Bergmann – Sægreifi deyr

Elín Ebba Guðmundsdóttir – Ysta brún

Geimkonan

Skellti mér á Gravity í gærkveldi. Mjög ögrandi verkefni, einkum fyrir lofthrædda. Sandra Bullock stóð sig eins og hetja í mjög svo þvingandi og óþægilegum búningi og þröngu rými, George Clooney bjargar húmornum (ég var að hugsa um að fara heim og fá endurgreitt í hléinu þegar örlög hans réðust), tölvugrafíkin er frábær og það er aldrei dauð stund í myndinni. Flott leikstjórn, flottar tökur, trúverðug saga. Ég tók andköf og saup hveljur margsinnis, hvernig dettur fólki í hug að þvælast um geiminn og ráða ekki neitt við sig og stóla á stopult Houston-samband? Sandra leikur lítt reyndan geimfara sem missir allt út úr höndunum, kann ekkert á græjurnar, rekur sig í, stynur og æpir, grætur og gefst upp, það er Clooney sem stjórnar og heldur henni við efnið, þaulreyndur, öruggur, fórnfús og fyndinn. Í ár eru akkúrat 50 ár síðan kona fór út í geim í fyrsta sinn, það var sovéski geimfarinn Valentina Tereshkova.

Fyrsta geimkonan