
Skáldsagan Allt í himnalagi hjá Eleanor Oliphant, sem er frumraun skoska rithöfundarins Gail Honeyman, hefur aldeilis slegið í gegn. Reyndar er nákvæmlega ekkert í himnalagi hjá Eleanor en hún hreiðrar strax um sig í hjarta lesandans; svo átakanlega einmana og tragísk en líka ansi skarpskyggn og hreinskiptin. Frásögnin af hremmingum hennar í samskiptum við annað fólk og skuggalegri fortíð er meinfyndin og stílinn skemmtilega kaldhamraður, í vel heppnaðri þýðingu Ólafar Pétursdóttur.
Í þrjátíu ár hefur Eleanor Oliphant hálfvegis verið hælismatur, utangarðs og umkomulaus, með margvíslega þráhyggju og fælni. Hún ólst upp hjá illgjarnri og geðveikri móður og hraktist síðan milli stofnana og misgóðra fósturheimila. Sjálfsmyndin er í molum, hún er í ömurlegri vinnu, hefur enga stjórn á lífi sínu og liggur í kojufylleríi allar helgar. Einsemd hefur alltaf verið hennar hlutskipti og vaninn hennar varnarháttur.
Nú er einsemdin nýtt krabbamein, skammarlegt og vandræðalegt fyrirbæri sem maður kallar yfir sig með dularfullum hætti. Hryllilegt og ólæknandi mein, svo viðurstyggilegt að ekki er hægt að nefna það. Aðrir vilja ekki heyra það nefnt upphátt af ótta við að verða fyrir áhrifum þess, eða að það freisti örlaganna til þess að kalla áþekkan hrylling yfir þá sjálfa (288).
Sjónarhornið í sögunni er frumlegt að því leyti að margt það sem venjulegt fólk telur til sjálfsagðra hluta, kemur Eleanor spánskt fyrir sjónir. Til dæmis að fara í klippingu, dansa, sýna tilfinningar eða eignast vini: „Það kom á daginn að þegar maður hittir sömu manneskjuna nokkuð reglulega verða samræðurnar strax ánægjulegar og óþvingaðar – maður getur eiginlega haldið áfram þar sem frá var horfið og þarf ekki að byrja upp á nýtt í hvert skipti“ (313-14). Þegar hún bregður út af vananum og stígur út fyrir þægindahringinn, verður hún alltaf jafn hissa á því hvað lífið hefur upp á að bjóða.
„Hvað á þetta að vera?“ sagði ég. „Er þetta… er þetta ostur?“ Ég hafði aldrei fengið helíumblöðru að gjöf, síst af öllu svona sérkennilega.
„Þetta er hann Svampur, Eleanor,“ sagði hann og talaði mjög hægt og skýrt eins og ég væri einhver bjáni. „Svampur Sveinsson.“
Hálfmennskur baðsvampur með útstæðar framtennur! Til sölu eins og ekkert væri! Aðrir hafa alltaf sagt um mig að ég sé skrítin, en þegar ég sé eitthvað þessu líkt rennur upp fyrir mér að ég er tiltölulega eðlileg (300).
Framan af sögu eltist Eleanor við draumkennda ást sína á „Tónlistarmanninum“ með spaugilegum tllburðum. Til þess að ganga í augun á honum þarf hún að breyta hirðuleysislegu útliti sínu og hallærislegum klæðaburði. Það er lumman langlífa, frá örófi til vorra daga, að kona heldur að hún þurfi að falla að staðalmyndum til að ná athygli karlmannsins. Þegar augu hennar opnast, sér hún að ástin er nær en hana grunaði – eins og lesandinn er fyrir löngu búinn að átta sig á. Síðasti þriðjungur bókarinnar snýst um hvernig Eleanor reynir að losna undan fortíðinni, þar á meðal meinfýsinni mömmu sinni sem er ekki átakalaust. En ungfrú Oliphant er ekki fisjað saman, hún bræðir alla með skarpri sýn á samferðamenn sína og kaldhæðnum húmor fyrir sjálfri sér.
JPV, 2017
Allt í himnalagi hjá Eleanor Oliphant
405 bls
Þýðandi: Ólöf Pétursdóttir