JPV

Bölsýnn lambaleggur

iceland-poet338x450

Kristín Ómarsdóttir, mynd: http://www.ralphmag.org/GW/reindeer-woods.html

Er að böggla saman ritdómi fyrir rúv um ljóðabók Kristínar Ómarsdóttur, Kóngulær í sýningarglugga. Þetta er kvöld númer þrjú sem ég sit við að skrifa, helaum í öxlinni og að auki hrollkalt þar sem ofnarnir eru í ólagi í húsinu. Mig vantar bara berkla og óendurgoldna ást til að uppfylla staðalmyndina. Það er nógur efniviður í amk 20 síðna ritgerð um Kóngulærnar. Er stórhrifin af þessu til dæmis:

hönd hvílir á diski

glös standa vörð við sorgardúk

einnig logarnir sem með hraði eldast, gestirnir kveðja

 

höndin á diskinum minnir bölsýnan á lambalegg

höndin á diskinum minnir bölsýnina á lambalegg

 

svo fagurt snerti hún snitturnar – bleiku kökurnar

svo fagurt snerti hún snitturnar – bleikar kökur

 

sósan teiknar varir á dúkinn

 

ég gaf hönd mína fyrir málsverð

hugsar skuggavera klædd döprum fötum

kápufóðrið: grátmúrinn

 

hve langa stund það tekur því að kveðja

hugsar fylgdarkonan og stingur augunum í vasann, brýtur saman eyrun

notar varirnar í kossa á mjúkar kinnar úr hörðnuðu regni

 

skuggarnir, eins og farartækin úti, sameinast regninu

 

ekki skilja mig eftir

hvíslar höndin væri hún ekki stödd hér heldur í ljóði

(45)

 

 

 

Einsemdin er hið nýja krabbamein

Allt_i_himnalagi_Oliphant_72-600x942

Skáldsagan Allt í himnalagi hjá Eleanor Oliphant, sem er frumraun skoska rithöfundarins Gail Honeyman, hefur aldeilis slegið í gegn. Reyndar er nákvæmlega ekkert í himnalagi hjá Eleanor en hún hreiðrar strax um sig í hjarta lesandans; svo átakanlega einmana og tragísk en líka ansi skarpskyggn og hreinskiptin. Frásögnin af hremmingum hennar í samskiptum við annað fólk og skuggalegri fortíð er meinfyndin og stílinn skemmtilega kaldhamraður, í vel heppnaðri þýðingu Ólafar Pétursdóttur.

Í þrjátíu ár hefur Eleanor Oliphant hálfvegis verið hælismatur, utangarðs og umkomulaus, með margvíslega þráhyggju og fælni. Hún ólst upp hjá illgjarnri og geðveikri móður og hraktist síðan milli stofnana og misgóðra fósturheimila. Sjálfsmyndin er í molum, hún er í ömurlegri vinnu, hefur enga stjórn á lífi sínu og liggur í kojufylleríi allar helgar. Einsemd hefur alltaf verið hennar hlutskipti og vaninn hennar varnarháttur.

Nú er einsemdin nýtt krabbamein, skammarlegt og vandræðalegt fyrirbæri sem maður kallar yfir sig með dularfullum hætti. Hryllilegt og ólæknandi mein, svo viðurstyggilegt að ekki er hægt að nefna það. Aðrir vilja ekki heyra það nefnt upphátt af ótta við að verða fyrir áhrifum þess, eða að það freisti örlaganna til þess að kalla áþekkan hrylling yfir þá sjálfa (288).

Sjónarhornið í sögunni er frumlegt að því leyti að margt það sem venjulegt fólk telur til sjálfsagðra hluta, kemur Eleanor spánskt fyrir sjónir. Til dæmis að fara í klippingu, dansa, sýna tilfinningar eða eignast vini: „Það kom á daginn að þegar maður hittir sömu manneskjuna nokkuð reglulega verða samræðurnar strax ánægjulegar og óþvingaðar – maður getur eiginlega haldið áfram þar sem frá var horfið og þarf ekki að byrja upp á nýtt í hvert skipti“ (313-14). Þegar hún bregður út af vananum og stígur út fyrir þægindahringinn, verður hún alltaf jafn hissa á því hvað lífið hefur upp á að bjóða.

„Hvað á þetta að vera?“ sagði ég. „Er þetta… er þetta ostur?“ Ég hafði aldrei fengið helíumblöðru að gjöf, síst af öllu svona sérkennilega.

„Þetta er hann Svampur, Eleanor,“ sagði hann og talaði mjög hægt og skýrt eins og ég væri einhver bjáni. „Svampur Sveinsson.“

Hálfmennskur baðsvampur með útstæðar framtennur! Til sölu eins og ekkert væri! Aðrir hafa alltaf sagt um mig að ég sé skrítin, en þegar ég sé eitthvað þessu líkt rennur upp fyrir mér að ég er tiltölulega eðlileg (300).

Framan af sögu eltist Eleanor við draumkennda ást sína á „Tónlistarmanninum“ með spaugilegum tllburðum. Til þess að ganga í augun á honum þarf hún að breyta hirðuleysislegu útliti sínu og hallærislegum klæðaburði. Það er lumman langlífa, frá örófi til vorra daga, að kona heldur að hún þurfi að falla að staðalmyndum til að ná athygli karlmannsins. Þegar augu hennar opnast, sér hún að ástin er nær en hana grunaði – eins og lesandinn er fyrir löngu búinn að átta sig á. Síðasti þriðjungur bókarinnar snýst um hvernig Eleanor reynir að losna undan fortíðinni, þar á meðal meinfýsinni mömmu sinni sem er ekki átakalaust. En ungfrú Oliphant er ekki fisjað saman, hún bræðir alla með skarpri sýn á samferðamenn sína og kaldhæðnum húmor fyrir sjálfri sér.

JPV, 2017

Allt í himnalagi hjá Eleanor Oliphant

405 bls

Þýðandi: Ólöf Pétursdóttir

 

 

Birt í Kvennablaðinu, 4. ágúst 2017

 

 

Svartholið sem gleypti æskuna

Kalt er á toppnum. Það sannast á Guðmundi Óskarssyni sem sló óvænt í gegn þegar hann samdi hrunsöguna Bankster á hárréttum tíma og hreppti íslensku bókmenntaverðlaunin 2009. Núna kemur önnur bók hans út, Villisumar, stutt skáldsaga eða nóvella (125 bls) þar sem horft er inná við, drengurinn Dagbjartur þroskast og kemst að ýmsu um sjálfan sig, fortíð sína og föður þar sem þeir dvelja saman sumarlangt.

villisumar_72Faðirinn er drykkfelldur og dyntóttur listmálari sem hefur haft lítið saman við son sinn að sælda. Eitt sumar fær Dagbjartur að fara með honum til Frakklands sem aðstoðarmaður. Vinnustofan er kuldaleg og hriplek, í niðurníddu iðnaðarhverfi, og gengur á ýmsu í sambúð feðganna. Löngu síðar fær Dagbjartur boð frá mennta-og menningaryfirvöldum þar í landi en til stendur að halda yfirlitssýningu til minningar um föður hans og á leiðinni þangað rifjast upp villisumarið mikla. Frásögnin er því öll í endurliti, endurminningum er varpað á tjald (6) og einskorðast við sjónarhorn unglingsins.

Vantar kenginn

Allan tímann sem Dagbjartur býr með föður sínum á lesandi von á því að ógæfan dynji yfir enda ýmis teikn á lofti, s.s. óregla, drykkjutúrar, svaðalegur sólbruni og skapofsaköst. Það getur varla verið hollt fyrir ungling að búa með þessum maníska karli sem er ýmist trylltur af gleði eða liggur í þunglyndi í bælinu. Samvistir við hann eru svartholið sem gleypti æskuna og færði drengnum fullorðinsárin (96). Karlinn getur kannski verið sjarmerandi, það er alltaf eitthvað heillandi við þá sem hugsa út fyrir kassann, en hann segir fátt og það vantar meiri keng og kraft í karakterinn.

Dul og fáguð

Frásagnarháttur og stíll láta lítið uppi en gefa margt til kynna, farið er með söguna fram og aftur í tíma en sjónarhorn er agað og bundið við eina persónu sem í ofanálag horfir með skelfingu til villisumarsins. Dramatísk fjölskyldusaga er dregin fáum dráttum, ævisaga rúmast í málsgrein, örlög í einni setningu. Sagan er ekki alveg aðgengileg í fyrstu atrennu, svona dul og fáguð. Viðfangsefnið er gamalkunnugt, samband feðga, alkóhólismi, skapandi sjálfeyðing listamannsins o.s.frv. Ýmislegt er frumlegt í máli og myndrænum stíl: hrollgrófar hreyfingar (12), skuggagæf tré (46) og að vera ástfangi (52). Bókarkápan er úr striga með ámáluðum lit og engin bók eins, sem er skemmtileg pæling. Í hnotskurn er Villisumar saga um sjúkt samband feðga, list og sekt; ljóðræn og tregafull með óvæntu tvisti í lokin.

 

JPV, útgáfa

Kápuhönnun: Halla Sigga

Birt  í Kvennablaðnu, 30. des 2016

Sigrún og Friðgeir. Ferðasaga

Sigrún og Friðgeir„Hvernig drukknar maður með börnum sínum?“ Þessi setning úr Ferðasögu Sigrúnar og Friðgeirs (JPV) eftir Sigrúnu Pálsdóttur hefur ómað í höfði mér síðan ég lauk við bókina. Flestar ferðasögur hefjast á brottför að heiman, ævintýrum og sigrum og loks farsælli heimkomu en hér er því ekki að heilsa. Þau hjónakornin fara ung til Bandaríkjanna til náms í læknisfræði í heimstyrjöldinni síðari. Það er ekki auðvelt en allt gengur þeim í haginn enda harðduglegt og metnaðarfullt fólk með brennandi áhuga á að bæta heiminn. En grimm örlög bíða þeirra og það hefur mikil áhrif á mann að vita að þau munu farast ásamt þremur börnum sínum með Goðafossi sem var sökkt af þýskum kafbáti rétt fyrir stríðslok úti fyrir Garðsskaga, þann 10. nóvember 1944. Þvílik sóun og blóðtaka fyrir þjóðina, 24 manneskjur drukknuðu, 19 var bjargað við illan leik. Tónninn fyrir þessi grimmu örlög er sleginn strax á fyrstu blaðsíðum bókarinnar þegar dregin er upp mynd af hollensku farþegaskipi, Voledam, sem varð fyrir kafbátaárás og 77 börn deyja í náttfötunum sínum og björgunarvestum á kaldri haustnóttu, 400 sjómílur vestur af Skotlandi. En engum kom til hugar að slík örlög biðu íslenskra barna þótt ógnin vofði alls staðar yfir.

Þeim hjónum er fylgt eftir í Bandaríkjunum, lýst er fjölskyldulífi þeirra og framgangi við fræga spítala en Friðgeir var fyrsti Íslendingurinn sem lauk doktorsprófi frá Harvard og Sigrún hafði rétt lokið kandídatsári sínu þegar þau sneru heim, ein örfárra kvenkyns lækna á Íslandi. Þau áttu þriggja ára son áður en þau fóru utan, Óla, en Ragnheiður, barnlaus vinkona Sigrúnar, gætti hans meðan þau fóru að leita fyrir sér  um húsnæði og skóla. Það hefur eflaust hefur tekið á þær báðar, Friðgeir fer síðan stutta ferð til  Íslands að sækja Óla og fjölskyldan er sameinuð, Sverrir fæðist og loks Sigrún litla sem er pelabarn í heimferðinni. Sigrún hægir á námi sínu og frama með barneignunum en fjölskyldan er hamingjusöm og allt stefnir í bjarta framtíð.

Stuðst er við margvíslegar heimildir, s.s. hjartaskerandi ljósmyndir og ómetanlega dýrmæt bréfasöfn vina og vandamanna, m.a. bréf milli Sigrúnar og Ragnheiðar, ýmis viðtöl og margvíslegar prentaðar bækur, m.a. greinar um Reykjavík á þessum tíma, framtíðarhorfur íslensku þjóðarinnar, framvindu stríðsins og um innviði Gullfoss til að skapa rétta stemningu og rekja slóð þeirra hjóna. Heimildavinna er hin vandaðasta og er þá sama hvort litið er til tilvísana eða útlegginga af hendi höfundar.Oftast vil ég hafa tilvísanir neðanmáls en í þessu tilviki passa þær aftast. Þar segir m.a. að  lík þeirra Óla og Sverris voru þau einu sem fundust. Saga þeirra Sigrúnar og Friðgeirs er mjög vel skrifuð, hér er ekkert of eða van. Síðasti kaflinn er magnaður, ekkert yfirdrifið, engin væmni, átakanlega sorglegum atburði er lýst eins fallega og hægt er.

„Og myrkrið undir yfirborði sjávar sem verður svartara við hvert orð sem reynir að lýsa því sem þar hefur gerst“ (183).