Tvö ljóð

Dagar mínir

 

Í dapurlegum skugga verða dagar mínir taldir,

það dregur senn að skapadægri því, sem koma skal.

Og ég mun liggja fúnandi um næstu ár og aldir

og engan varðar framar um daga minna tal.

 

– Ég átti hér í veröldinni aðeins fáa daga

við örðugleika, hamingju, söng og gleði og vín,

sem allt í hljóðum hverfleik verður aðeins horfin saga,

hið eina varanlega er kannski beinin mín.

 

(Einar Kristjánsson, Góðra vina fundur 1985)

 

Haustljóð

 

Nú haustblærinn næðir um húmdökknuð fjöll

og hlynur og björk fella laufin sín öll,

og víðir og lyngið og blágresið bliknar,

svo bleik verður grundin

og brimar við fjörðinn og sundin

 

Og haustskýjadansinn í dimmunni hefst

og drunginn og treginn að hjartanu vefst.

Og væri ekki sælast, er sumarið kveður,

með söngfuglaróminn,

að sofna eins og trén og blómin.

 

Þó enn verði lífið að greiða sitt gjald

og geigvænt og dapurt sé haustkvíðans vald,

í hjartanu leyna sér vonir sem vakna

með vermandi hlýju –

– það vorar og sumrar að nýju.

 

(Einar Kristjánsson, Góðra vina fundur 1985)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s