Einar Kristjánsson frá Hermundarfelli

Jakobína og afi

Var að blaða í tímaritinu Melkorku, tímariti kvenna, frá 1959. Afi minn, Einar Kristjánsson, fjallar þar um Jakobínu Sigurðardóttir á fundi hjá Menningar- og friðarsamtökum kvenna á Akureyri og segir m.a. :

„Hennar þáttur í baráttu fólksins gegn hernaðarviðurstyggðinni, hefur verið henni til mikillar sæmdar og íslenzkar konur mega vera stoltar af því að eiga hana í sínum hópi.“

Kafli úr erindi afa birtist í Melkorku, sjá tímarit.is

Tvö ljóð

Dagar mínir

 

Í dapurlegum skugga verða dagar mínir taldir,

það dregur senn að skapadægri því, sem koma skal.

Og ég mun liggja fúnandi um næstu ár og aldir

og engan varðar framar um daga minna tal.

 

– Ég átti hér í veröldinni aðeins fáa daga

við örðugleika, hamingju, söng og gleði og vín,

sem allt í hljóðum hverfleik verður aðeins horfin saga,

hið eina varanlega er kannski beinin mín.

 

(Einar Kristjánsson, Góðra vina fundur 1985)

 

Haustljóð

 

Nú haustblærinn næðir um húmdökknuð fjöll

og hlynur og björk fella laufin sín öll,

og víðir og lyngið og blágresið bliknar,

svo bleik verður grundin

og brimar við fjörðinn og sundin

 

Og haustskýjadansinn í dimmunni hefst

og drunginn og treginn að hjartanu vefst.

Og væri ekki sælast, er sumarið kveður,

með söngfuglaróminn,

að sofna eins og trén og blómin.

 

Þó enn verði lífið að greiða sitt gjald

og geigvænt og dapurt sé haustkvíðans vald,

í hjartanu leyna sér vonir sem vakna

með vermandi hlýju –

– það vorar og sumrar að nýju.

 

(Einar Kristjánsson, Góðra vina fundur 1985)

Guðrún Borgfjörð

Guðrún Borgfjörð

Guðrún Borgfjörð

Þessa dagana er ég að lesa Minningar Guðrúnar Borgfjörð (1856-1930). Bókin er úr safni afa míns, Einars Kristjánssonar frá Hermundarfelli. en hann hefur fjallað um Guðrúnu í útvarpsþætti sínum, Mér eru fornu minnin kær. Guðrún var elst barna Jóns Borgfirðings sem kunnur var fyrir fræðistörf sín og Önnu Guðrúnar Eiríksdóttur. Guðrún Borgfjörð var vel gefin og víðlesin en átti þess ekki kost frekar en aðrar fátækar alþýðustúlkur á þessum tíma að ganga í skóla en fjórir bræður hennar komust í lærða skólann, einn þeirra var Finnur, dróttkvæða- og málfræðingur í Kaupmannahöfn. Hún giftist aldrei en hélt lengi heimili fyrir bróður sinn, Klemens, sýslumann og landritara. Hún hóf á sjötugsaldri að skrifa endurminningar sínar og ná þær til ársins 1888. Verkið var því aðeins tæplega. hálfnað þegar Guðrún varð að leggja það frá sér og er vissulega skaði að henni skyldi ekki endast heilsa til að halda áfram. Minni hennar er traust og frásögn hennar merk heimild um tíðaranda, samferðamenn og aldarfar á Íslandi á 19. öld. Aldrei hafði Guðrún samt hugsað sér að saga hennar yrði prentuð. Í eftirmála segir að Árni Böðvarsson hafi skrifað upp handrit Guðrúnar og útgefandinn, Agnar Kl. Jónsson, segist hafa „lagfært efnið“ eftir því sem honum þótti og fellt burtu kafla, mannanöfn og endurtekningar, Vonandi hefur hann ekki spillt sögunni, honum var í mun að láta „stílbæ töntu minnar haldast“ (180).

Hér er brot úr Minningum Guðrúnar, um kynni hennar af Sigurði málara.

„Sigurður (Guðmundsson) var áreiðanlega fæddur listamaður, en hann var líka olnbogabarn heimsins og hamingjunnar. Hann var merkilegur maður og skarpvitur, en einkennilegur var hann og ekki mikill fyrir mann að sjá, tæplega meðalmaður á hæð, grannvaxinn með dökkt hár og samlitt skegg, sem náði niður á bringu, gullfalleg augu, en nærsýnn með afbrigðum. Það var næstum óhuggulegt að sjá hann borða með nefið niður í diskinn, en eitthvað var það við hann, sem gjörði það, að maður tók meira eftir honum en öðrum. Sigurður var fáskiptinn um annarra hagi, en gat verið meinyrtur, ef talað var um menn eða málefni, sem ekki féll í hans geð. Fátækur var hann alla ævi. Ég efast um að hann hafi nokkurn tímann átt ytri föt til skipta, en hann var mjög þrifinn (80-81)

Sigurður hafði mikinn áhuga fyrir því, að Íslendingar ætti sjálfir flagg, en það var fálkinn, sem hann vildi hafa. Hann teiknaði því stóran fálka og fékk ungar stúlkur til að sauma hann á afar stóran dúk. Þær, sem saumuðu fyrsta flaggið, voru þær Hólmfríður Björnsdóttir, Guðrún Hjálmarsen, Þóra, dóttir Péturs biskups, og Jarþrúður, dóttir Jóns Péturssonar háyfirdómara. Ég man ekki hvenær þetta flagg var fyrst brúkað eða hver það átti eða hvort það er til ræfill af því eða ekki. Oft talaði Sigurður um, hvað það mætti gera Reykjavíkurbæ laglegan, ef vel væri að farið. Ég hlustaði oft hugfangin á hann, þegar hann var að lýsa því, hvernig þetta mætti verða. Hann vildi t.d. láta gjöra veg í kringum Tjörnina og planta trjám í það minnsta öðru megin við hana. Hann vildi líka láta setja tré í kringum Austurvöll og margt fleira. En seinast, en ekki sízt, var áhugi hans fyrir Forngripasafninu. Þar var hann allur. Ég veit vel, að það var ekki Sigurður, sem safnaði fyrstu gripunum. Það var síra Helgi, en Sigurður hélt vel áfram, og það voru ekki fáir gripir, sem hann náði í.Hann var vakinn og sofinn yfir þessum gripum. Húsnæðið var ekki merkilegt, sem honum var látið í té, hálfdimmt pláss efsti uppi í dómkirkjuturninum. Flest allt varð að vera í kössum. Lítð  var hægt að hafa uppi við fyrir plássleysi, og þar á ofan bættist, að þakið hriplak. Þarna var Sigurður að grúska í þessum munum og hagræða þeim og sýna, ef einhver kom til að skoða þá. Oft hef ég setið þar uppi sem krakki og hlustað á, þegar hann var að segja fólki frá, hvernig þetta og hitt hefði verið notað í gamla daga…

Ég veit ekki, hvað Sigurður fékk í laun fyrir starf sitt, en lítið þakklæti fékk hann. Sagt er, að Kristján IX. hafi átt að spyrja Hilmar landshöfðingja Finsen, þegar hann var búinn að skoða safnið, hver þessi maður væri, sem hefði safnað gripunum og hugsað svo vel um þá, og hafi þá Finsen átt að segja: „Nej, det er en doven hund.“ Hvort þetta er satt, veit ég ekki. Það er ótrúlegt, að Finsen hafi brúkað svo dónaleg orð við  hans hátign, en nokkuð er það, að enginn sómi var honum (Sigurði) sýndur. – Sigurður var lasinn allt sumarið 1874, fór á spítalann eftir hátíðina, en lá aldrei og skreið til Jóns Guðmundssonar hvern dag. Einn dag um haustið kom hann að vanda. Ég var þar þann dag, en svo var hann aumur, að frúin þorði ekki að láta hann fara einan, og var þó ekki langt að fara. Spítalinn var þar, sem Frelsisherinn er nú. Ég fór með honum, og urðum við að stanza í öðru hverju spori. Svo var mæðin mikil. – Hann dó daginn eftir.

Þegar hann var jarðaður, fylgdu honum nokkrar konur í hátíðarbúningi og höfðu svartar slæður. Það var sú eina virðing, sem honum var sýnd“ (83).

Meira ort um Óttar Einarsson

Óttar EinarssonÚr Bændablaðinu 21. febrúar

Þann 7. febrúar sl. lést í Hafnarfirði Óttar Einarsson skólastjóri og rithöfundur, einn ástsælasti hagyrðingur sinnar kynslóðar. Margar af vísum Óttars urðu landfleygar fyrir léttleika sakir og fágætrar kímni sem einkenndi hans eðlisgerð. Vísnahefðin var honum í blóð borin en eins og margir þekkja var Óttar sonur Einars Kristjánssonar frá Hermundarfelli, hins þekkta útvarpsmanns og vísnaskálds, og Guðrúnar Kristjánsdóttur frá Holti í Þistilfirði. Það er því afar viðeigandi að birta lesendum minningarljóð sem Jóhannes Sigfússon bóndi á Gunnarsstöðum orti frænda sínum og vini við hin döpru þáttaskil:

 

Árin stöðugt æða hjá,

eflist tímans hvinur.

Nú er Óttar fallinn frá

frændi minn og vinur.

 

Góður drengur genginn er

og gegn í alla staði.

Finnst mér verði að fylgja þér

ferskeytla úr hlaði.

 

Hennar bjarta stuðla stál

stöðugt þjóðin metur.

Ekki hafa íslenskt mál

aðrir rímað betur.

 

Ræktarsemi öll þín ár,

afar mikils virði.

Á grávíðinum glitra tár

í gamla Þistilfirði.

 

Ég átti fágæt bréfaskipti við Óttar á sl. vetri, sem verða sínu dýrmætari þegar hans nýtur ekki lengur við:

Höndin þó sé hætt að skrifa

háttum bundna stuðlagrein,

vísur þínar lengi lifa

og lýsa upp þinn bautastein.

 

Vísur Óttars einkenndust margar af óvanalegri kímni, og skopaðist hann oft að eigin viti og verðleikum:

Að sumu leyti Óttar er

afar klár og slyngur.

Annars bara eins og hver

annar vitleysingur.

 

Frá skólastjóraárum Óttars við Húsabakkaskóla í Svarfaðardal lifa ótal vísur og bragir.

Hver man ekki erindið sem hann samdi við lagboðann „Love me tender“:

 

Dalvíkin er draumablá

og dýrðleg til að sjá.

Ofar stendur Upsafjall

eins og gamall kall.

:Sólin skín á stein og stekk

og stúlku í fyrsta bekk.

 

Brageyrað sagðist Óttar hafa úr föðurættinni, en glaðværðina frámóður sinni.

Þessum einkennum hélt Óttar til hinsta dags þrátt fyrir erfið veikindi:

 

Óttar vantar aðeins hlíf,

axlar þunga byrði.

Yrkir sig í sátt við líf

sem er einskis virði.

 

Vín er ekkert voða gott,

varla tóbak heldur.

Að vera edrú finnst mér flott

og fínt að vera geldur.

 

Umsjón:

Árni Geirhjörtur Jónsson

kotabyggd1@gmail.com

Afmæli

Pabbi minn, Óttar Einarsson, á 72ja ára afmæli í dag. Af því tilefni bauð hann mömmu, dætrum sínum, tengdasonum og barnabörnum til kjötsúpu og var með ís og niðursoðin jarðarber í eftirrétt. Innilegar hamingjuóskir með daginn! Pabbi er kennari á eftirlaunum og á að baki langa starfsreynslu. Hann er líka skáld og hagyrðingur, ann íslensku máli, fósturjörðinni og fjölskyldunni. Hér má sjá pabba á spjalli við Bjarka í Tónlistarsafninu fyrir ári síðan þegar hann færði safninu plötuna hans afa. 

Einar Kristjánsson frá Hermundarfelli

Í tilefni af því að liðin verða hundrað ár frá fæðingu afa míns, 26. okt. 2011, var í dag haldið samsæti honum til heiðurs. Þar var stutt dagskrá með ræðu og söng síðan var  hulunni svipt af síðu eða bloggi þar sem safnað er saman efni um hann, einarkristjansson.wordpress.com. Afi var rithöfundur, hagyrðingur, útvarpsmaður og afar músikalskur en hann gerði plötu þar sem hann spilaði á tvöfalda harmónku. Han lést 6. júlí 1996. Um 70 manns komu og glöddust saman, rifjuðu upp kynni sín af afa og fjölskyldunni. Sérlegur heiðursgestur var amma sem komin er á tíræðisaldur og lætur engan bilbug á sér finna.