
Hallgrímur Helgason mynd: Librarius
Í skáldverki eftir Hallgrím Helgason býst maður alltaf við miklu stuði. Von er á orðaleikjum sem hann er meistari í, þær systur tvíræðni og kaldhæðni eru mættar, óvæntu sjónarhorni er beitt t á hvunndaginn, húmorinn er bullandi, ádeilan sjóðandi, nýyrði og níðyrði hvert um annað þvert og allt þetta leysir úr læðingi góðan fíling. Í nýju ljóðabókinni, Fiskur af himni, má finna þetta allt á sínum stað, auk nýmetis.
Laus undan fargi
Skáldævisaga Hallgríms Sjóveikur í Munchen, sem út kom 2015 og fjallaði um fortíð, minni og tilurð skálds, olli fjaðrafoki m.a. vegna þess að þar segir hann frá því þegar honum var nauðgað sem „Ungum Manni“. Kauði komst að því að heimurinn var ekki bara gelgjuraunir, bólur og bömmer; hann var beinlínis hættulegur. Hallgrímur skilaði skömminni með látum þrjátíu og fimm árum síðar, þá var gríman felld, sár reynsla afhjúpuð og töffaraskapurinn laut í lægra haldi. Um leið birtust ný svipbrigði hjá skáldinu, mildari rödd og hreinni tónn sem þegar tók að klingja í síðustu ljóðabók, Lukku, sem Hallgrímur orti óbundið eins og laus undan þungu fargi.
Í sjávarháska
Nýja bókin, Fiskur af himni, 03.11.2014-03.11.2015, samanstendur af ljóðum ortum á þessu tiltekna tímabili, í tímaröð og án titils en merkt dögunum sem þau verða til á. Hér er róið á dýpri og persónulegri mið en nokkurn tímann áður í verkum Hallgríms en „úthafshljóð“ trillan lendir í miklum sjávarháska. Framan af er þó hversdagsleg ró yfir ljóðunum, árstíðir koma og fara, góðar fréttir berast og lífið gengur sinn vanagang. Í ljóðinu frá 28.11.14 má sjá dæmi um kunnuglega, póstmóderníska nýyrðasmíði Hallgíms og smellnar myndir, s.s. „verkþögul amma, að feta kynslóðann, grjótþunguð hlíð, hamrablár frændgarður, frá tólgartíð, hríðarhali, stríðniguðir…“ Ljóðin eru einföld og skýr, myndræn og sposk.
07.07.15
Strandarefur skýst upp úr fjörunni
og skoppar upp urðina
brúnn með hvítan hala
Einmitt þannig dröttumst við
með veturinn í eftirdragi
alltof langt inni í sumarið
(63)
01.01.15
Á nýársdagsmorgun í nýföllnum snjó
geng ég fram á huggulegt lítið flugslys
svartrjúkandi brunaþúst
í bómullarmjöllinni miðri
Rek síðan augun
í yfirsnjóuð fótsporin í kring
og man að einmitt hér
er brotlendingarstaður hins liðna
Hé koma eyjarskeggjar saman
til að fylgjast með árunum farast
ég greini rjúkandi kolin
af ap jún sept nóv
(37)
Frá sorg til sáttar
En þann 26.9.15 skipast veður í lofti. Áfall dynur yfir, lítið barn deyr og skáldið þarf að leita á náðir ljóðsins til að lægja öldurnar í huga sér. Yrkja sig frá reiði og sorg til sáttar. Ljóðin miðla þessum sterku tilfinningum af djúpri einlægni hins sorgmædda manns, „dauðinn er svo lélegur / í líkindareikningi / Svo ömurlega lélegur“ (85) og með orðsnilli skáldsins: „Við setjum undir okkur hausinn / og látum gömul húskarlagen / vísa okkur veginn / yfir Áfallaheiðina“ (88). Það er litla barnið; andvana fætt og varalitað af óvini lífsins (90), sem er eins og fiskur af himni, kaldur og heimtur úr hafi. Fiskum hefur rignt af himni í raunveruleikanum, kvikmyndum og skáldskap, það hefur hugsanlega óljósa, táknræna eða yfirnáttúrulega merkingu en er fyrst og fremst ógnvekjandi atburður og tilgangslaus sóun.
Tíminn og ljóðið
Í næstsíðasta ljóði bókarinnar hefur skáldið ort í átt að hægum bata. Sálarró og viska þess sem hefur reynt margt birtist í ljóðlínum eins og „Bernskan er blóm / sem blómgast í skugga / og þolir verst þá birtu / sem bjó hana til“ (11) „Listin er líf okkar / með augum annarra“ (12), „Allir foreldrar eru hálfvitar / þeir halda að börn séu börn“ (57) og „Því lengst það lifir / sem lítið deyr“ (97). En að lokum er vitnað í fleyg orð Vilborgar Dagbjartsdóttur sem eiga einkar vel við:
Lífið er stærra en dauðinn
og dregur sig aðeins í hlé
rétt á meðan hann athafnar sig
en flæðir síðan
þeim mun kröftugar fram
í allri sinni miskunnarlausu
ofanjarðargleði
En það að vera harmþrunginn
eða sorgbitinn
er ekki það sama
og að vera óhamingjusamur
(101)
Fyrir réttum tuttugu árum sló Hallgrímur um sig í hinu skammlífa tímariti Fjölni með frasanum fræga: „ljóðið er halt og gengur með hæku.“ Hann er sjálfur kominn ansi nálægt hefðbundnu yrkisefni og sígildu ljóðmáli, hallur undir einfaldleika og formleysi, en þó aldrei „geðleysi“. Í Fiski af himni birtist persónuleg, yfirveguð og notaleg hlið á Hallgrími. Í einlægum ljóðum segir frá hvunndagslífi sem skyndilega fer á hvolf, þema sem allir geta tengt sig við. Og eru nokkur meðul betri við sorg en tíminn og ljóðið?
Birt í Kvennablaðinu, 15 nóv 2017