Fiskur af himni

Erum við bara ánægð með lífið? Dauflegt bókmenntaár

screen-shot-2018-01-01-at-12-06-04

Árið 2017 var heldur dauflegt í bókmenntunum. Engin teljandi stórmerki eða furður áttu sér stað og harla lítið var um nýbreytni eða frumleika, allavega í þeim íslensku skáldsögum sem ég komst yfir að lesa á árinu. Það var miklu meira stuð í ljóðagerðinni og algjör flugeldasýning á þýðingahimninum.

 Einhver fortíðarþrá einkennir margar íslenskar skáldsögur nú um stundir. Langdregið uppgjör hefur átt sér stað við bernsku og æskuár, um það að verða skáld, um veröld sem er horfin. En skáldsögurnar Aftur og afturMillilending og Perlan fjalla um tíðarandann núna, samfélagsmiðlana, firringu og tilgangsleysi; þar er verið að glíma við það hver maður er á þessum síðustu og verstu tímum. Ég er ekki búin að lesa Sögu Ástu né Elínu Ýmislegt sem eru áhugaverðar. Ég hafði eiginlega mest gaman að tveimur bókum 2017 sem hvorug er skáldsaga:

Í Stofuhita eftir Berg Ebba er einhver kraftur. Þar er tíðarandinn speglaður, hugmyndir viðraðar, samfélagsmiðlar rannsakaðir og sitthvað fleira í einhvers konar sjálfsmyndar- og þjóðfélagsstúdíu um kjöraðstæður manneskjunnar í flóknum og hættulegum heimi. Tvennir tímar​, endurminningar Hólmfríðar Hjaltason skráðar af Elínborgu Lárusdóttur, þótti mér skemmtileg. Saga alþýðukonu sem bjó við sáran skort og vinnuþrælkun hjá vandalausum um miðja síðustu öld. Minnir okkur á upprunann, við erum flest komin af niðursetningum og sauðaþjófum.

Svo er ég í stuði fyrir torræðar og dularfullar ljóðabækur þessa dagana, svo Kóngulær í sýningargluggum eftir Kristínu Ómarsdóttur kemur strax upp í hugann. Þar er fjallað um samtíma, samhengi og samfélag; ljóðin eru myndræn, táknþrungin og brjóta upp hið viðtekna. Þau falla ekki að hefðbundnum væntingum um samband orða og hluta, eru torskilin og áleitin og ofan í kaupið fáránlega fögur og seiðandi. Boðskapur, myndmál og hugmyndafræði smella inn í umræðuna núna þegar verið er að draga valdið í efa og rýna í skrifræði og vélræn kerfi.

Fleiri góðar ljóðabækur mætti nefna, Flórída eftir Bergþóru Snæbjörnsdóttur sem er ansi hreint mögnuð og Ég er hér eftir Soffíu Bjarnadóttur. Ég hlakka til að lesa nýjustu bók Elísabetar Jökulsdóttur sem mér skilst að sé óður til móður hennar.

Óratorrek eftir Eirík Örn Norðdahl fannst mér flugbeitt. Frasar og tuggur sem umlykja okkur og hafa gríðarleg áhrif á skoðanir okkar og lífsviðhorf á degi hverjum eru afbyggð og sett fram í samhengi sem hlýtur að vekja sofandi þjóð. Skapandi endurtekningar, íronía, leikur að hugmyndum, stigmögnun og taktur sem hrífur lesandann í djöfladans. Heildstætt og ögrandi verk, sem við þurfum á að halda til að takast á við samfélag sem er allt í rugli.

Ljóðabók Hallgríms Helgasonar, Fiskur af himni, er bæði falleg og ljúf. Þar birtist persónuleg, yfirveguð og notaleg hlið á skáldinu. Í einlægum ljóðum segir frá hvunndagslífi sem skyndilega fer á hvolf, þema sem allir geta tengt við. Fallegt þegar kaldhæðni og töffaraskapur lætur undan síga fyrir einlægni og heiðarleika.

Barna- og unglingabókmenntir döfnuðu vel á árinu, það komu út öndvegisbækur eins og eftir Kristín Helgu GunnardótturÆvar vísindamannGunnar HelgasonBrynhildi Þórarinsdóttur, svo dæmi séu tekin. Gerður Kristný sendi frá sér unglingabók, held ég. Bók Haraldar F. Gíslasonar, Bieber og Botnrössu, fylgdi lag á youtube og hún rokseldist. Það er bara óendanlega mikilvægt nú sem aldrei fyrr að unga fólkið lesi svo þessar fínu bækur.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að þýðingar eru hressandi blóðgjöf fyrir íslenskar bókmenntir. Ég hlakka til að lesa Konu frá öðru landi eftir rússneskan höfund í þýðingu Áslaugar Agnarsdóttur. Heimsbókmenntir eftir Virginiu Woolf kom út á árinu, Orlando í þýðingu Soffíu Auðar Birgisdóttir og Mrs Dalloway í nýrri þýðingu Atla Magnússonar. Lísa í Undralandi kom líka í þjálli þýðingu Þórarins Eldjárn með frábærum myndum. Velkomin til Ameríku eftir Lindu Boström Knausgard (Þórdís Gísladóttir þýddi) ætti að ýta við öllum lesendum og Einu sinni var í austri, er átakanleg uppvaxtarsaga í þrekmikilli þýðingu Ingunnar Snædal. Mannsævi er stutt skáldsaga sem leynir verulega á sér og segir svo miklu meira en virðist við fyrstu sýn, í frábærri þýðingu Elísu Bjargar Þorsteinsdóttur. Neonbiblían er svo sannarlega heimsbókmenntir eftir „undrabarn í bandarísku bókmenntalífi“ eins og Uggi Jónsson segir í eftirmála öndvegisþýðingar sinnar. Höfundurinn var aðeins 16 ára gamall þegar hann skrifaði bókina. Í sögunni segir frá David sem elst upp með fjarhuga föður, ruglaðri móður og brjóstgóðri frænku í afskekktum dal í Suðurríkjunum um miðja síðustu öld. Og til að ljúka upptalningunni verð ég að nefna bókmenntaviðburði eins og þýðingar á Walden, Lífið í skóginum og Loftslagi eftir Max Frisch.

Í stuttu máli, ekkert stórvægilegt en margt gott að meðaltali. Örlar á makindalegum vana, hiki og íhaldssemi í bókmenntum góðærisins? Erum við bara ánægð með lífið?

Ég vil helst fá meira fjör 2018, meira blóð á tennurnar.

Birt 1. janúar 2018 í Kvennablaðinu

Yfir Áfallaheiðina

lox_hallgrim_16-03-_732349y

Hallgrímur Helgason mynd: Librarius

Í skáldverki eftir Hallgrím Helgason býst maður alltaf við miklu stuði. Von er á orðaleikjum sem hann er meistari í, þær systur tvíræðni og kaldhæðni eru mættar, óvæntu sjónarhorni er beitt t á hvunndaginn, húmorinn er bullandi, ádeilan sjóðandi, nýyrði og níðyrði hvert um annað þvert og allt þetta leysir úr læðingi góðan fíling. Í nýju ljóðabókinni, Fiskur af himni, má finna þetta allt á sínum stað, auk nýmetis.

Laus undan fargi

Skáldævisaga Hallgríms Sjóveikur í Munchen, sem út kom 2015 og fjallaði um fortíð, minni og tilurð skálds, olli fjaðrafoki m.a. vegna þess að þar segir hann frá því þegar honum var nauðgað sem „Ungum Manni“. Kauði komst að því að heimurinn var ekki bara gelgjuraunir, bólur og bömmer; hann var beinlínis hættulegur. Hallgrímur skilaði skömminni með látum þrjátíu og fimm árum síðar, þá var gríman felld, sár reynsla afhjúpuð og töffaraskapurinn laut í lægra haldi. Um leið birtust ný svipbrigði hjá skáldinu, mildari rödd og hreinni tónn sem þegar tók að klingja í síðustu ljóðabók, Lukku, sem Hallgrímur orti óbundið eins og laus undan þungu fargi.

Í sjávarháska

Nýja bókin, Fiskur af himni, 03.11.2014-03.11.2015, samanstendur af ljóðum ortum á þessu tiltekna tímabili, í tímaröð og án titils en merkt dögunum sem þau verða til á. Hér er róið á dýpri og persónulegri mið en nokkurn tímann áður í verkum Hallgríms en „úthafshljóð“ trillan lendir í miklum sjávarháska. Framan af er þó hversdagsleg ró yfir ljóðunum, árstíðir koma og fara, góðar fréttir berast og lífið gengur sinn vanagang. Í ljóðinu frá 28.11.14 má sjá dæmi um kunnuglega, póstmóderníska nýyrðasmíði Hallgíms og smellnar myndir, s.s. „verkþögul amma, að feta kynslóðann, grjótþunguð hlíð, hamrablár frændgarður, frá tólgartíð, hríðarhali, stríðniguðir…“ Ljóðin eru einföld og skýr, myndræn og sposk.

07.07.15

Strandarefur skýst upp úr fjörunni

og skoppar upp urðina

brúnn með hvítan hala

Einmitt þannig dröttumst við

með veturinn í eftirdragi

alltof langt inni í sumarið

(63)

01.01.15

Á nýársdagsmorgun í nýföllnum snjó

geng ég fram á huggulegt lítið flugslys

svartrjúkandi brunaþúst

í bómullarmjöllinni miðri

Rek síðan augun

í yfirsnjóuð fótsporin í kring

og man að einmitt hér

er brotlendingarstaður hins liðna

Hé koma eyjarskeggjar saman

til að fylgjast með árunum farast

ég greini rjúkandi kolin

af ap jún sept nóv

(37)

Frá sorg til sáttar

En þann 26.9.15 skipast veður í lofti. Áfall dynur yfir, lítið barn deyr og skáldið þarf að leita á náðir ljóðsins til að lægja öldurnar í huga sér. Yrkja sig frá reiði og sorg til sáttar. Ljóðin miðla þessum sterku tilfinningum af djúpri einlægni hins sorgmædda manns, „dauðinn er svo lélegur / í líkindareikningi / Svo ömurlega lélegur“ (85) og með orðsnilli skáldsins: „Við setjum undir okkur hausinn / og látum gömul húskarlagen / vísa okkur veginn / yfir Áfallaheiðina“ (88). Það er litla barnið; andvana fætt og varalitað af óvini lífsins (90), sem er eins og fiskur af himni, kaldur og heimtur úr hafi. Fiskum hefur rignt af himni í raunveruleikanum, kvikmyndum og skáldskap, það hefur hugsanlega óljósa, táknræna eða yfirnáttúrulega merkingu en er fyrst og fremst ógnvekjandi atburður og tilgangslaus sóun.

Tíminn og ljóðið

Í næstsíðasta ljóði bókarinnar hefur skáldið ort í átt að hægum bata. Sálarró og viska þess sem hefur reynt margt birtist í ljóðlínum eins og „Bernskan er blóm / sem blómgast í skugga / og þolir verst þá birtu / sem bjó hana til“ (11) „Listin er líf okkar / með augum annarra“ (12), „Allir foreldrar eru hálfvitar / þeir halda að börn séu börn“ (57) og „Því lengst það lifir / sem lítið deyr“ (97). En að lokum er vitnað í fleyg orð Vilborgar Dagbjartsdóttur sem eiga einkar vel við:

Lífið er stærra en dauðinn

og dregur sig aðeins í hlé

rétt á meðan hann athafnar sig

en flæðir síðan

þeim mun kröftugar fram

í allri sinni miskunnarlausu

ofanjarðargleði

En það að vera harmþrunginn

eða sorgbitinn

er ekki það sama

og að vera óhamingjusamur

(101)

Fyrir réttum tuttugu árum sló Hallgrímur um sig í hinu skammlífa tímariti Fjölni með frasanum fræga: „ljóðið er halt og gengur með hæku.“ Hann er sjálfur kominn ansi nálægt hefðbundnu yrkisefni og sígildu ljóðmáli, hallur undir einfaldleika og formleysi, en þó aldrei „geðleysi“. Í Fiski af himni birtist persónuleg, yfirveguð og notaleg hlið á Hallgrími. Í einlægum ljóðum segir frá hvunndagslífi sem skyndilega fer á hvolf, þema sem allir geta tengt sig við. Og eru nokkur meðul betri við sorg en tíminn og ljóðið?

 

Birt í Kvennablaðinu, 15 nóv 2017