Sjóveikur í Munchen

Yfir Áfallaheiðina

lox_hallgrim_16-03-_732349y

Hallgrímur Helgason mynd: Librarius

Í skáldverki eftir Hallgrím Helgason býst maður alltaf við miklu stuði. Von er á orðaleikjum sem hann er meistari í, þær systur tvíræðni og kaldhæðni eru mættar, óvæntu sjónarhorni er beitt t á hvunndaginn, húmorinn er bullandi, ádeilan sjóðandi, nýyrði og níðyrði hvert um annað þvert og allt þetta leysir úr læðingi góðan fíling. Í nýju ljóðabókinni, Fiskur af himni, má finna þetta allt á sínum stað, auk nýmetis.

Laus undan fargi

Skáldævisaga Hallgríms Sjóveikur í Munchen, sem út kom 2015 og fjallaði um fortíð, minni og tilurð skálds, olli fjaðrafoki m.a. vegna þess að þar segir hann frá því þegar honum var nauðgað sem „Ungum Manni“. Kauði komst að því að heimurinn var ekki bara gelgjuraunir, bólur og bömmer; hann var beinlínis hættulegur. Hallgrímur skilaði skömminni með látum þrjátíu og fimm árum síðar, þá var gríman felld, sár reynsla afhjúpuð og töffaraskapurinn laut í lægra haldi. Um leið birtust ný svipbrigði hjá skáldinu, mildari rödd og hreinni tónn sem þegar tók að klingja í síðustu ljóðabók, Lukku, sem Hallgrímur orti óbundið eins og laus undan þungu fargi.

Í sjávarháska

Nýja bókin, Fiskur af himni, 03.11.2014-03.11.2015, samanstendur af ljóðum ortum á þessu tiltekna tímabili, í tímaröð og án titils en merkt dögunum sem þau verða til á. Hér er róið á dýpri og persónulegri mið en nokkurn tímann áður í verkum Hallgríms en „úthafshljóð“ trillan lendir í miklum sjávarháska. Framan af er þó hversdagsleg ró yfir ljóðunum, árstíðir koma og fara, góðar fréttir berast og lífið gengur sinn vanagang. Í ljóðinu frá 28.11.14 má sjá dæmi um kunnuglega, póstmóderníska nýyrðasmíði Hallgíms og smellnar myndir, s.s. „verkþögul amma, að feta kynslóðann, grjótþunguð hlíð, hamrablár frændgarður, frá tólgartíð, hríðarhali, stríðniguðir…“ Ljóðin eru einföld og skýr, myndræn og sposk.

07.07.15

Strandarefur skýst upp úr fjörunni

og skoppar upp urðina

brúnn með hvítan hala

Einmitt þannig dröttumst við

með veturinn í eftirdragi

alltof langt inni í sumarið

(63)

01.01.15

Á nýársdagsmorgun í nýföllnum snjó

geng ég fram á huggulegt lítið flugslys

svartrjúkandi brunaþúst

í bómullarmjöllinni miðri

Rek síðan augun

í yfirsnjóuð fótsporin í kring

og man að einmitt hér

er brotlendingarstaður hins liðna

Hé koma eyjarskeggjar saman

til að fylgjast með árunum farast

ég greini rjúkandi kolin

af ap jún sept nóv

(37)

Frá sorg til sáttar

En þann 26.9.15 skipast veður í lofti. Áfall dynur yfir, lítið barn deyr og skáldið þarf að leita á náðir ljóðsins til að lægja öldurnar í huga sér. Yrkja sig frá reiði og sorg til sáttar. Ljóðin miðla þessum sterku tilfinningum af djúpri einlægni hins sorgmædda manns, „dauðinn er svo lélegur / í líkindareikningi / Svo ömurlega lélegur“ (85) og með orðsnilli skáldsins: „Við setjum undir okkur hausinn / og látum gömul húskarlagen / vísa okkur veginn / yfir Áfallaheiðina“ (88). Það er litla barnið; andvana fætt og varalitað af óvini lífsins (90), sem er eins og fiskur af himni, kaldur og heimtur úr hafi. Fiskum hefur rignt af himni í raunveruleikanum, kvikmyndum og skáldskap, það hefur hugsanlega óljósa, táknræna eða yfirnáttúrulega merkingu en er fyrst og fremst ógnvekjandi atburður og tilgangslaus sóun.

Tíminn og ljóðið

Í næstsíðasta ljóði bókarinnar hefur skáldið ort í átt að hægum bata. Sálarró og viska þess sem hefur reynt margt birtist í ljóðlínum eins og „Bernskan er blóm / sem blómgast í skugga / og þolir verst þá birtu / sem bjó hana til“ (11) „Listin er líf okkar / með augum annarra“ (12), „Allir foreldrar eru hálfvitar / þeir halda að börn séu börn“ (57) og „Því lengst það lifir / sem lítið deyr“ (97). En að lokum er vitnað í fleyg orð Vilborgar Dagbjartsdóttur sem eiga einkar vel við:

Lífið er stærra en dauðinn

og dregur sig aðeins í hlé

rétt á meðan hann athafnar sig

en flæðir síðan

þeim mun kröftugar fram

í allri sinni miskunnarlausu

ofanjarðargleði

En það að vera harmþrunginn

eða sorgbitinn

er ekki það sama

og að vera óhamingjusamur

(101)

Fyrir réttum tuttugu árum sló Hallgrímur um sig í hinu skammlífa tímariti Fjölni með frasanum fræga: „ljóðið er halt og gengur með hæku.“ Hann er sjálfur kominn ansi nálægt hefðbundnu yrkisefni og sígildu ljóðmáli, hallur undir einfaldleika og formleysi, en þó aldrei „geðleysi“. Í Fiski af himni birtist persónuleg, yfirveguð og notaleg hlið á Hallgrími. Í einlægum ljóðum segir frá hvunndagslífi sem skyndilega fer á hvolf, þema sem allir geta tengt sig við. Og eru nokkur meðul betri við sorg en tíminn og ljóðið?

 

Birt í Kvennablaðinu, 15 nóv 2017


Ömurlegt að vera ungur

Kvennablaðið

Ein versta mögulega martröð sem hugsast getur er að eitís komi aftur. Að maður verði á ný sveimhuga pípusvælandi gleraugnaglámur í Flóarfrakka sötrandi bjórlíki úr glerlíki á eilífum bömmer yfir kjarnorkuvopnum, með Egó-kasettu eða eitthvað þaðan af verra í vasadiskóinu. Hallgrímur Helgason, einn allra skemmtilegasti, frumlegasti og frjóasti rithöfundur landsins, horfist óhikað í augu við þessa martröð í nýjustu bók sinni, Sjóveikur í München. Hér er á ferð íslenska útgáfan afPortrait of the Artist as a Young Man, sem söguhetjan les í lestarferð á vit örlaga sinna í hinu alvörugefna og reglufasta Þýskalandi. Hér er allt á fullu, fengist við fortíð og minni, tilurð skálds, ást og list, lönd og þjóðir af blússandi krafti.

Menningarlaus mysingsþjóð
Það þarf svo sannarlega kjark og þor til að fást við þetta skelfilega tímabil í mannkynssögunni. Aðalpersónan er unglingstötur sem fyrirlítur samtíð sína og samlanda, tískuna og tónlistina og rís gegn öllu draslinu, hann er „álfur á afajakka“ (83) sem veit ekki sitt rjúkandi ráð, „undarleg blanda af uppreisn og íhaldssemi, Johnny Rotten og Ronald Reagan…ljóshært barn í karlafötum“ (28).

Kalt stríð ríkir milli austurs og vesturs, Berlínarmúrinn hefur staðið í tuttugu ár, tákn um aðskilnað og ofbeldi, og austurhluti Þýskalands er á valdi alræðis kommúnismans í sinni verstu mynd. Þó þrífast þar leikhús og óperur, listakademíur, kaffhús og knæpur. Ísland er sömuleiðis klofið í komma og íhald en þar er eitt kaffihús og þrír matsölustaðir, ein útvarpsrás og ekkert sjónvarp á fimmtudögum, enginn hefur bragðað pasta og helsta kennileiti borgarinnar, himinhár kirkjuturn, hefur verið í smíðum á fjórða áratug. Það er ekki nema von að Íslendingnum finnist hann vera af menningarlausri mysingsþjóð í samanburði við þýska osta (23).

800px-München_PanoramaAð ganga við höfuðstaf
Heimóttarskapur og nesjamennska fylgja Íslendingnum hvert sem hann fer, þótt hann reyni að bera sig mannalega. Einangrun föðurlandsins, slök þýskukunnátta og dökk fortíð kúgaðrar nýlenduþjóðar takast sífellt á við vandlega innrætt þjóðarstoltið og aldagamla skáldskaparhefð eins og sést þegar Ungur og félagar fylgjast með framgangi fótboltahetjunnar Ásgeirs Sigurvinssonar í stórleik með Bayern München:

Í samanburðinum voru þeir, Íslendingarnir þrír í stúkunni, allir frá sama sveitabænum sem kúrði með átján burstum undir hárri klettahlíð efst á hnettinum. Þeir voru jafnsjaldgæfir og geimverur, töluðu tungu sem enginn skildi, voru frá landi sem enginn þekkti, stokktroðnir af hugmyndum, upplifunum og reynslu sem engin leið var að þýða, eða koma til skila, því nánast enginn jarðarbúi hafði komið til þessa hnattar sem Ísland var. Þeir voru ekki grænir og ekki eineygðir, þeir féllu svosem í fjöldann, en næðist af þeim innrauð mynd mátti glöggt sjá jöklana sem þeir báru á herðum sér, fjármerkt eyrun, óveðrið í augunum og ættartalnaböndin sem ófust um háls þeirra, líkt og væru þeir fornfálegur þjóðflokkur úr Kákasusfjöllum sem gekk við höfuðstaf og blakaði brageyrum, hefðbundnum á höndum og fótum, svo ekki sé minnst á skepnuna sem fylgdi þeim hvert sem þeir fóru, og hvorki var kýr né ær né lamb heldur land, ferfætt land, sem þeir fyrirurðu sig fyrir á kránni og í lestinni…(140-141).

Mállaus í Munkaborg
Ungur Maður (svo heitir aðalpersónan) er í listnámi í Munkaborg á því andstyggilega ári 1981. Einn og mállaus lendir hann í ýmsum svaðilförum, kynnist bæði sjálfum sér og öðru fólki, s.s. öðrum íslenskum námsmönnum (aðallega montrössum úr MR), kafar í listræna áhrifavalda og tekur út andlegar og líkamlegar þjáningar í leit að sjálfum sér. „Einhvern tímann yrði hann eitthvað en núna var hann ekkert. Hann var vofa framtíðar“ (56).

Skemmst er frá því að segja að saga Ungs Manns er stórskemmtileg og söguþráðurinn óborganlegur. Ljóst má vera að verkið er byggt á ævi höfundar en það fellur hvorki undir hefðbundnar endurminningar né sjálfsævisögu, þetta er skáldævisaga sem skipar sér á bekk með dulmögnuðum bernskubókum höfunda á borð við Málfríði Einarsdóttur, Guðberg Bergsson og Sigurð Pálsson en efnistökin eru önnur, ný og skapandi.

KvennablaðiðSviptur sakleysinu
Ungum er hvergi hlíft og engin miskunn sýnd, ekkert er dregið undan af einsemd hans, örvæntingu og niðurlægingu, senurnar eru svo vandræðalegar að sker í hjartað. Og flest er víst meira og minna satt ef marka má nýleg viðtöl við höfundinn sjálfan nema kannski þessi eilífu og dularfullu uppköst sem hrjá Ungan. Þetta eru snöggar ælugusur, prentsvartar og tjörukenndar spýjur sem hann geymir í glasi og laumast með í kápuvasa og tákna fæðingu skálds og listamanns, gróteskar dembur sem ýmist storkna eins og hraun eða kveikja elda og ryðjast fram af knýjandi tjáningarþörf. Hvörf verða í sögunni þegar Ungum er nauðgað á jólanótt, með þeim skelfilega atburði breytist allt, „sakleysis vegna hafði sakleysið verið tekið frá honum“. Þá verður æluglasið, sem geymir skáldskaparmjöðinn, bjargvættur hans og sáluhjálp.

HægðaLíf annarra
Það er sama hvar gripið er niður í sögunni, alls staðar er kröftugur stíll, óvæntar og úthugsaðar tengingar og vísanir; taktur, hrynjandi og stuðlasetning og brakandi ferskt myndmál. Frasar eins og miskunnsamur Bæverji, að vera svallþyrstur, kunna háspennulínur eftir Nietzsche eða sinna bólueftirliti gleðja langeygan lesanda. Eftirfarandi brot lýsir vel anda sögunnar, það birtir þýska þjóðarsál í samspili við heimssýn Ungs Manns innan um ískalt háð og lúmska orðaleiki:

Hann opnaði fram og mætti augum klósettvarðarins, steingráum kúlnagötum umkringdum fitugu hári og rauðflekkóttri undirhöku, sem ljómuðu af því sem hann tók fyrir stórþjóðafyrirlitningu en var að líkindum eftirstríðsbiturð. Prjónarnir stóðu kyrrir í höndum hennar uns hann hafði reitt fram hálft mark í tágakörfuna. Til hvers voru þessir klósettverðir? Borgin virtist full af þessum pirruðu eldri konum sem stóðu vaktir um hægðalíf annarra. Var þetta líka hluti af uppgjörinu? Var Þjóðverjum ekki nóg að þurfa að horfast í augu við eigin skít á hverjum degi? Þurftu þeir líka að vita af því að einhver stæði um hann heiðursvörð? Eða var þetta kannski atvinnubótavinna fyrir gamla verði úr fangabúðunum? Að minnsta kosti tókst þeim að hræða úr manni líftóruna í hvert sinn sem maður þurfti á salernið. (30)

Hið sjónræna högg
Ungur er eins og aðrir Frónbúar fjötraður við landsteina sem enginn kemst út fyrir hvernig sem hann reynir, sveitamaður sem er fastur undir jökli að eilífu. Því hvað eru akademíur, óperuhallir og kastalar samanborið við Esjuna og Snæfellsjökul séðan úr fjörunni? „Hann var Íslendingur, hann komst ekki undan því, og eftir heilan vetur á meginlandinu, inn og út úr lestar- og listagöngum, var þetta það sem heltók hann þannig að sál hans víbraði líkt og glansandi bjalla, með skæru gylltu hljóði, eftir hið sjónræna högg“ (312).

Kalt stríð, latir hippar
Hallgrímur er ómyrkur í máli um hið hvimleiða kalda stríð og áhrif þess á íslenska menningu. Hipparnir og 68-kynslóðin sem nú eru orðin að sjálfumglaðri og værukærri elítu og millistétt fá líka að heyra það og anarkistar fá makið um bakið. Sagt er frá oki snilldar Laxness sem er enn í fullu fjöri, hvernig getur nokkur maður skrifað eins og hann? Og hvernig gat nokkur maður málað eins og Munch eða verið djarfur eins og Duchamp? Það er von að Ungum Manni fallist hendur.

En hann býr vel að góðu veganesti út í lífsbaráttuna; heilsteyptum foreldrum, gæðalegri ömmu og meinfyndnum afa er reistur óbrotgjarn minnisvarði um kynslóð með önnur gildi og aðrar minningar. Það eru einmitt minningagreinar, það séríslenska fyrirbæri að kveðja hvern einasta mann sem deyr á síðum dagblaðanna, sem opna skáldæðina hjá Ungum. Þegar hann er búinn að skrifa um afa sinn er hann strax kominn með hugmynd að fleiri minningagreinum. „Það þyrfti bara einhver að deyja fyrst“ (324).

JPV

Flott bókarkápa!

Birt í Kvennablaðinu, 24. október 2015