Skíta-Grænlendingur segir frá

KimLeine

Kalak eftir Kim Leine (f. 1961) er afar óvenjuleg bók. Kannski er þetta skáldsaga eða þroskasaga að einhverju leyti en miklu líklegar þó (skáld)ævisaga eða endurminningar, ef marka má það sem höfundurinn segir sjálfur. Í það minnsta er Kalak bersögul og afdráttarlaus saga þar sem lestir og brestir sögumanns eru dregnir fram af sjaldséðu miskunnarleysi. En það sem heillar mest eru framandi staðhættir sögunnar sem gerist að mestu leyti á Grænlandi. Kynþáttafordómar og nýlendukomplexar krauma meðan leiftrum bregður fyrir af grandalausri þjóð sem undir merkjum kristni og skandinavískrar velferðar var varpað úr hlýjum snjóhúsum inn í gráar og kaldar steinsteypublokkir meðan auðlindir hennar voru mjólkaðar.

Norður-Grænland liggur í dimmum skugga vetrar. Sólarupprás rennur saman við sólsetur án þess að nokkur dagur hafi orðið. En þegar sólin nálgast sjóndeildarhringinn byrjar hafið að ljóma og suðurhiminninn deilist upp í mörg lög af litum. Rautt, appelsínugult, grænt, gult, dimmblátt. Hér er kalt, tólf stiga frost og fer kólnandi, en mér er hætt að vera kalt. Kuldanum fylgja hæðarsvæði og norðurljós. Sum kvöld eru þau grafkyrr eins og ljóskeilur frá frá tröllauknum kösturum, önnur skipti flökta þau, bylgjast, bregða lit í grænt, blátt, hvítt. Það heitir „boltaleikur“. Það er þegar dána fólkið fer í boltaleik með hauskúpu af rostungi (172).

Söguhetjan Kim starfar sem hjúkrunarfræðingur á Grænlandi og heillast af villtri náttúru og frumstæðri þjóð. Hann hefur djöfla að draga, faðir hans beitti hann kynferðisofbeldi á unglingsaldri, hann þjáist af lyfjafíkn, glímir við gamla heift og flóknar sálarkrísur og hrekst eirðarlaus milli gírugra ástkvenna. Fjölskylduna hefur hann skilið eftir í Danmörku og brátt trosnar sambandið við börnin hans tvö og óspennandi eiginkonu. Allt stefnir í átt að uppgjöri við hataðan föður, sem er sjálfhverfur hommi og Vottur Jehóva og sennilega enn meira einmana en Kim, ef það er hægt.

Kalak* þýðir „skíta-Grænlendingur“ (93) sem Kim segir sjálfur að lýsi honum best. Hann er ofurseldur einmanaleika og skömm en innst inni þráir hann auðvitað sátt og frið eins og við öll. Stemningin í sögunni er engu lík, köld og hrá. Frásögnin er bæði grimm og grípandi, textinn er þunglyndislegur; einhvern veginn hljómlaus og einkennist af sambandsleysi við annað fólk: „…einsemd mín, eða kaldlyndi, er nokkuð sem ekki verður ráðin bót á. Hún er eitthvað sem ég þarf að læra að lifa með“ (127). Bláköld hreinskilnin og átakanlegt varnarleysið í verkinu setjast í huga lesandans og láta hann ekki í friði.

Í starfi sínu gifsar Kim brotin bein, saumar saman skurði, fæst við voðaskot og sjálfsmorð, fæðingar og botnlangabólgu en er sjálfur í lamasessi; með taugaendana galvaníseraða af 400 mg af klópoxíði (261). Hann deyfir sársaukann vegna sifjaspellsins með lyfjum og kynlífi og færist sífellt nær glötun. En hann getur ekki snúið aftur til fyrra lífs í Danmörku „Því útlínur fjallsins hafa rist sig á sjónhimnur mínar og eru í æpandi andstöðu við þessa plægðu akra“ (165).

Þýðing Jóns Halls Stefánssonar er mjög fín víðast hvar en hugsanlega er Kalak ennþá magnaðri á frummálinu (dönsku) vegna flókinna tengsla Dana og Grænlendinga. Kim Leine hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2013 fyrir Spámennina í Botnleysufirði, frábæra bók sem líka gerist á Grænlandi – hjá nágrannaþjóð okkar sem við Íslendingar hefðum svo sannarlega getað reynst betur í gegnum árin.


Kalak eftir Kim Leine.

Sæmundur, 2017

319 bls.


*Kalak er líka nafn á vinafélagi Grænlands og Íslands. Ég mæli með þessari grein á heimasíðu félagsins: https://kalak.is/hryllilegt-hvernig-folkid-er-rifid-upp-med-rotum/


Ljósmyndina tók höfundur af Leine þegar hann las upp úr bókinni í Eymundsson á dögunum.

 

Birt í Kvennablaðinu, 22.11.2017

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s