Kristín Helga Gunnarsdóttir

Skyldulesning fyrir allar manneskjur

Veistu, elsku Sigga, segir Noor á sinni hljómfögru arabísku og klappar Siggu á handarbakið. Veistu, að Sýrlendingar fundu upp brauðið, piparinn, silkið og líka ljóðin og siðmenninguna. Til hvers ætti ég að læra svona pínulítið tungumál? Hver skilur mig ef ég fer út fyrir þennan klett í hafinu? Þrjú hundruð og fjörutíu þúsund manns tala krílamálið þitt. Hún bandar vísifingri framan í Siggu til að leggja áherslu á orð sín. Þrjú hundruð og fjörutíu þúsund! Það eru jafnmargir og búið er að myrða í stríðinu í Sýrlandi
(114).

Kallið mig Ishmael

Það sem helst brennur á öllum hugsandi manneskjum nú á dögum er að 66 milljónir manna eru á flótta frá heimilum sínum. Meira en helmingur þessa fólks er yngri en 18 ára.

Í nýrri bók Kristínar Helgu Gunnarsdóttur, Vertu ósýnilegur, er sagt frá Ishmael, 15 ára strák sem er á flótta frá Sýrlandi ásamt afa sínum en þeir eru einir eftirlifandi úr fjölskyldunni. Hann er barn, þótt hann sé búinn að gleyma því og fær martraðir á hverri nóttu (221). Samtímis vindur fram frásögn af sýrlenskri fjölskyldu sem er nýlega sest að í Kópavogi eftir að hafa hrökklast frá Aleppo, farið fótgangandi mörg þúsund kólómetra, gist hjá ættingjum og gengið á milli skrifstofa, staðið í röðum, fyllt út umsóknir og talað við ráðþrota skrifstofufólk og sjálfboðaliða (179).

Salí (eða Selma) er á svipuðu reki og Ishmael, hún er að fóta sig í nýrri tilveru á Íslandi, bræða saman erfiða lífsreynslu af stríði og dauða, sýrlenskt uppeldi og siði hins nýja vestræna samfélags. Sjónarhornið er til skiptis hjá þessum persónum sem kljást við ólíka hluti í lífinu. Hver kafli er merktur tilvitnun í Mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðannasem fellur eins og flís að efninu og minnir okkur á hvað mannkærleikur er, t.d. „Allir eru bornir frjálsir og jafnir öðrum að virðingu og réttindum“ og „Allir eiga rétt til lífs, frelsis og mannhelgi“.

Í götóttum björgunarvestum

Í ljóði sem Salí/Selma laumast til að yrkja, birtast skýrar andstæður sem varpa nöturlega skýru ljósi á misskiptingu láns og grimman veruleika:

Allir glaðir í glerkúlunni

fjölskylda leikur sér við bjálkahús

með gluggahlerum og rauðum hjörtum.

Blár fugl, héri og snjókarl í skógi

glerkúlan hristist

glitflögur falla

kona brosir

karl veifar

drengur með snjóbolta

stúlka á sleða.

Og glitflögur falla

þær þyrlast um í vatninu

glerkúlan brestur

hjúpurinn springur

vatn seytlar út

fuglinn gránar

plastflögur liggja.

Fjölskyldan flýr inni í húsið

hurð er læst

gluggahlerar skella aftur

húsið marar í hálfu kafi.

Í mórauðu plastflöguvatni

fljóta lífvana börn upp að tröppum

í götóttum björgunarvestum.

Inni er hækkað í tónlistinni og poppað

(232)

Skyldulesning fyrir alla

Kristín Helga Gunnarsdóttir er einn af okkar ástsælustu rithöfundum og hefur hlotið margvísleg verðlaun fyrir bækur sínar sem hún skrifar fyrir börn og unglinga. Nú í ár eru tveir áratugir frá því að fyrsta bók hennar kom út og allir þekkja þær stöllur Binnu, Fíusól og Strandanornir; hressar stelpur með frumkvæði og sjálfstæðar skoðanir. Ishmael og Salí/Selma munu líka hitta lesendur í hjartastað. Og hafi einhvern tímann verið mikilvægt að skrifa bækur fyrir ungan lesendahóp þá er það núna þegar „krílamálið“ íslenska á í vök að verjast og hnignar með degi hverjum.

Ég leyfi mér að segja að þessi bók Kristínar Helgu sé skyldulesning fyrir allar manneskjur. Að baki henni liggur þó nokkur rannsóknarvinna sem skilar sér í trúverðugum efnistökum, hún er á þjálu og lipru máli, einkennist af samhug og mannskilningi og fjallar um brýnt mál sem varðar heimsbyggðina alla – þar sem við Íslendingar getum svo sannarlega lagt af mörkum.

 

Birt í Kvennablaðinu, 6. desember 2017

Erum við bara ánægð með lífið? Dauflegt bókmenntaár

screen-shot-2018-01-01-at-12-06-04

Árið 2017 var heldur dauflegt í bókmenntunum. Engin teljandi stórmerki eða furður áttu sér stað og harla lítið var um nýbreytni eða frumleika, allavega í þeim íslensku skáldsögum sem ég komst yfir að lesa á árinu. Það var miklu meira stuð í ljóðagerðinni og algjör flugeldasýning á þýðingahimninum.

 Einhver fortíðarþrá einkennir margar íslenskar skáldsögur nú um stundir. Langdregið uppgjör hefur átt sér stað við bernsku og æskuár, um það að verða skáld, um veröld sem er horfin. En skáldsögurnar Aftur og afturMillilending og Perlan fjalla um tíðarandann núna, samfélagsmiðlana, firringu og tilgangsleysi; þar er verið að glíma við það hver maður er á þessum síðustu og verstu tímum. Ég er ekki búin að lesa Sögu Ástu né Elínu Ýmislegt sem eru áhugaverðar. Ég hafði eiginlega mest gaman að tveimur bókum 2017 sem hvorug er skáldsaga:

Í Stofuhita eftir Berg Ebba er einhver kraftur. Þar er tíðarandinn speglaður, hugmyndir viðraðar, samfélagsmiðlar rannsakaðir og sitthvað fleira í einhvers konar sjálfsmyndar- og þjóðfélagsstúdíu um kjöraðstæður manneskjunnar í flóknum og hættulegum heimi. Tvennir tímar​, endurminningar Hólmfríðar Hjaltason skráðar af Elínborgu Lárusdóttur, þótti mér skemmtileg. Saga alþýðukonu sem bjó við sáran skort og vinnuþrælkun hjá vandalausum um miðja síðustu öld. Minnir okkur á upprunann, við erum flest komin af niðursetningum og sauðaþjófum.

Svo er ég í stuði fyrir torræðar og dularfullar ljóðabækur þessa dagana, svo Kóngulær í sýningargluggum eftir Kristínu Ómarsdóttur kemur strax upp í hugann. Þar er fjallað um samtíma, samhengi og samfélag; ljóðin eru myndræn, táknþrungin og brjóta upp hið viðtekna. Þau falla ekki að hefðbundnum væntingum um samband orða og hluta, eru torskilin og áleitin og ofan í kaupið fáránlega fögur og seiðandi. Boðskapur, myndmál og hugmyndafræði smella inn í umræðuna núna þegar verið er að draga valdið í efa og rýna í skrifræði og vélræn kerfi.

Fleiri góðar ljóðabækur mætti nefna, Flórída eftir Bergþóru Snæbjörnsdóttur sem er ansi hreint mögnuð og Ég er hér eftir Soffíu Bjarnadóttur. Ég hlakka til að lesa nýjustu bók Elísabetar Jökulsdóttur sem mér skilst að sé óður til móður hennar.

Óratorrek eftir Eirík Örn Norðdahl fannst mér flugbeitt. Frasar og tuggur sem umlykja okkur og hafa gríðarleg áhrif á skoðanir okkar og lífsviðhorf á degi hverjum eru afbyggð og sett fram í samhengi sem hlýtur að vekja sofandi þjóð. Skapandi endurtekningar, íronía, leikur að hugmyndum, stigmögnun og taktur sem hrífur lesandann í djöfladans. Heildstætt og ögrandi verk, sem við þurfum á að halda til að takast á við samfélag sem er allt í rugli.

Ljóðabók Hallgríms Helgasonar, Fiskur af himni, er bæði falleg og ljúf. Þar birtist persónuleg, yfirveguð og notaleg hlið á skáldinu. Í einlægum ljóðum segir frá hvunndagslífi sem skyndilega fer á hvolf, þema sem allir geta tengt við. Fallegt þegar kaldhæðni og töffaraskapur lætur undan síga fyrir einlægni og heiðarleika.

Barna- og unglingabókmenntir döfnuðu vel á árinu, það komu út öndvegisbækur eins og eftir Kristín Helgu GunnardótturÆvar vísindamannGunnar HelgasonBrynhildi Þórarinsdóttur, svo dæmi séu tekin. Gerður Kristný sendi frá sér unglingabók, held ég. Bók Haraldar F. Gíslasonar, Bieber og Botnrössu, fylgdi lag á youtube og hún rokseldist. Það er bara óendanlega mikilvægt nú sem aldrei fyrr að unga fólkið lesi svo þessar fínu bækur.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að þýðingar eru hressandi blóðgjöf fyrir íslenskar bókmenntir. Ég hlakka til að lesa Konu frá öðru landi eftir rússneskan höfund í þýðingu Áslaugar Agnarsdóttur. Heimsbókmenntir eftir Virginiu Woolf kom út á árinu, Orlando í þýðingu Soffíu Auðar Birgisdóttir og Mrs Dalloway í nýrri þýðingu Atla Magnússonar. Lísa í Undralandi kom líka í þjálli þýðingu Þórarins Eldjárn með frábærum myndum. Velkomin til Ameríku eftir Lindu Boström Knausgard (Þórdís Gísladóttir þýddi) ætti að ýta við öllum lesendum og Einu sinni var í austri, er átakanleg uppvaxtarsaga í þrekmikilli þýðingu Ingunnar Snædal. Mannsævi er stutt skáldsaga sem leynir verulega á sér og segir svo miklu meira en virðist við fyrstu sýn, í frábærri þýðingu Elísu Bjargar Þorsteinsdóttur. Neonbiblían er svo sannarlega heimsbókmenntir eftir „undrabarn í bandarísku bókmenntalífi“ eins og Uggi Jónsson segir í eftirmála öndvegisþýðingar sinnar. Höfundurinn var aðeins 16 ára gamall þegar hann skrifaði bókina. Í sögunni segir frá David sem elst upp með fjarhuga föður, ruglaðri móður og brjóstgóðri frænku í afskekktum dal í Suðurríkjunum um miðja síðustu öld. Og til að ljúka upptalningunni verð ég að nefna bókmenntaviðburði eins og þýðingar á Walden, Lífið í skóginum og Loftslagi eftir Max Frisch.

Í stuttu máli, ekkert stórvægilegt en margt gott að meðaltali. Örlar á makindalegum vana, hiki og íhaldssemi í bókmenntum góðærisins? Erum við bara ánægð með lífið?

Ég vil helst fá meira fjör 2018, meira blóð á tennurnar.

Birt 1. janúar 2018 í Kvennablaðinu