Sóttkví, dagur eitt

Það eru aldeilis dramatískir tímar þessa dagana. Eldgos hófst um síðustu helgi á Reykjanesskaga og í dag var gripið til hertra sóttvarnaraðgerða gegn kórónuveirunni. Öll starfsemi í þjóðfélaginu er meira og minna lömuð og allir nemendur grunn- og framhaldsskóla voru sendir heim í fjarkennslu. Til lánsins eru bara tveir dagar þart til páskafríið hefst.

Ég sjálf fór í örlítið fjölskylduboð sl. sunnudag en þar var lítill frændi sem reyndist kominn með smit tveimur dögum síðar. Allir í boðinu fóru í sóttkví. Gestgjafinn var niðurbrotinn. En svona getur alltaf gerst þegar veira geisar, enginn er alveg óhultur.

Í dag er fyrsti dagur í sóttkví hjá mér. Ég svaf ekki sérlega vel í nótt og dreymdi skýran stressdraum um hús og innrás og ofbeldi. En var vöknuð snemma að vanda. Vann að margvíslegum verkefnum sem nóg er af í mínu starfi og vinnudegi lauk rétt fyrir kl 18 á fundi með skólameisturum og mennta-og menningarmálaráðherra.

Brynjar sem alltaf er æðrulaus og mun aldrei fá covid að eigin sögn fór í dag að gosstöðvunum til að taka ódauðlegar myndir. Ég hef ekki enn farið á svæðið og kemst ekki núna fyrr en eftir sóttkví.

Heyrði aðeins í Gunnu systur sem líka var í boðinu og er þess vegna í sóttkví en hún sat aðalfund Rarik og málaði svefnherbergi í dag. Ef ég veikist ekki ætla ég að taka fataskápinn minn í gegn um helgina, hef ekki alveg staðið mig í að halda reglu sem ég setti mér fyrir rúmu ári: ein ný flík inn, tvær gamlar út. Mikilvægt er að setja sér reglur og enn mikilvægara að fara eftir þeim.

Fleira er á döfinni, ég bíð eftir boði í segulómun á hægra hné. Eymsli þar hafa verið að angra mig síðustu mánuði, og ráð heimilislæknis um að bryðja ibufen dugði skammt. Verst var ég í hnénu á gönguskíðanámskeiðinu sem við Brynjar skelltum okkur á í byrjun þessa mánaðar – eins og hálf þjóðin. Átti námskeiðið að vera fimm skipti en snjóleysi, jarðskjálftar og eldgos bundu enda á glæstan feril þegar tvö skipti voru eftir. Ég fékk ægilega byltu í síðasta tímanum, skall með hnakkann og rassinn í hjarnið og er rétt að jafna mig núna. Þetta tók verulega á festingar framan á hálsinum og enn er ég aum í rófunni þegar ég fer upp stiga.

Planið okkar Brynjars um að fara norður um páskana að heimsækja vini og vandamenn er í uppnámi. Sennilega verðum við að ferðast innanhúss um páskana og reyna að gera gott úr því. Það væsir ekki um okkur í fína húsinu okkar þar sem er nóg að bíta og brenna og alls konar við að vera. Heilu dagana situr Brynjar við tölvuna inni í sínum helli með headphone og vinnur þar og ég flögra um stofu og eldhús með útvarpið í botni, glamra á gítarinn, geng frá þvotti, vökva blóm, ét úr ísskápnum, fæ mér gönguferð, legg kapal í símanum, dorma og les. Nr eitt er að sleppa við veiruna og halda heilsu, andlegri og líkamlegri.

2 athugasemdir

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s