Sóttkví enn

Þriðji dagur í sóttkví. Í gær fórum við Gunna systir, en við erum báðar sóttkvígur, í 7 km gönguferð um Kársnesið sem hressti mig verulega. En annað hvort er ég ímyndunarveik eða covid er að grassera í hausnum á mér í dag. Eitthvað slen í mér og slím í hálsi og svo er ég komin með bumbu af endalausu snarli og kaffiþambi. Tveir Teams vinnufundir í morgun, bréfaskipti og símtöl fram að hádegi, svo hefur verið rólegt hjá mér „í vinnunni“.

Í byrjun apríl er leshringsfundur og efni fundarins er Halla og heiðarbýlið eftir Jón Trausta, sem lést í spænsku veikinni. Í manifesto leshringsins frá síðustu öld segir að meðlimir verði að vera lesnir í heimsbókmenntum og helstu lókal kanónum svo JT hefur lengi legið óbættur hjá garði.

Fyrstu bindin af Höllu og heiðarbýlinu tvö fékk ég hjá Huldu minni og spændi þau í mig . Óttar Har reddaði mér svo síðustu tveimur bindunum af bókasafni þar sem ég má ekki fara neitt, svo ég lagðist í maraþonlestur í kvínni. Laaaangar náttúrulýsingar sem falla að sálarlífi persónanna taka á þolinmæðina, samtöl eru fá, sögumannsröddin er ágeng en persónur lifandi og eru málpípur augljósar og enginn endir á hörmungunum hjá Höllu. Ljóst er að skáldinu svíður stéttaskiptingin, ömurlegur húsakosturinn, hrikaleg fátæktin og örbirgðin. Ræður Péturs á Kroppi og Aðalsteins læknis eru reiðiþrungnar, þær lýsa grimmum örlögum fólksins sem minnst má sín. Þau sem flytja á heiðarbýlin í leit að frelsi og lausn undan arðráni húsbænda sinn strita þar á hungurmörkum, híma í dimmum og köldum kofa allan veturinn, féð sveltur, kýrin er skorin, börnin deyja úr kirtlaveiki og fólkið dregst upp af skyrbjúg. Síðar hafa auðvitað fleiri snillingar eins og Laxness, Guðrún frá Lundi , Oddný Guðm og Hallgrímur Helgason lýst þessu öllu í svipuðum anda.

En ég er viss um að ef JT hefði haldið áfram með söguna hefði Halla óðarar tekið til við að bjarga Þorsteini frá sjálfum sér og fengið jafn litlar þakkir fyrir og þegar hún bjargaði heiðri pokaprestsins unga með því að gifta sig, ekki þeim næstbesta heldur þeim allraversta. Mig blóðlangar að skrifa lokabindið af Höllu og láta hana verða stönduga og virta í kaupstaðnum, koma börnum sínum til náms og mögulega taka saman við Þorgeir verslunarstjóra.

Nú skín sólin og Binni er að drífa sig aftur á gosstöðvarnar. Hann ætlar samt að fara með mér um leið og ég losna. Hlakka til!

Ein athugasemd

  1. Drífðu í að skrifa framhald af Höllu, hún á það skilið og ég veit þú munt skrifa vel ❤ takk fyrir göngutúrana í kvínni, þeir voru mannbætandi 🥰

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s