Bless árið 2020!

Ég get ekki annað sagt en bless árið 2020 og takk fyrir allt! Þetta var frábært ár sem hófst á því að ég fékk nýja vinnu, sem skólameistari Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi. Ég var í góðu starfi hjá KÍ/FF frá 2016 með frábæru samstarfsfólki þar sem góðir hlutir gerast, ég vann í þágu félagsmanna og var með mörg spennandi verkefni. En mig langaði að komast í betri aðstöðu til að láta meira til mín taka. Ég fann í hjarta mínu að í FVA væri þörf fyrir mig og ég gæti gert gagn. Ég þakka auðsýnt traust af öllu hjarta.

Verkefnin streymdu að í nýja starfinu og ég hafði í nógu að snúast á árinu. Ég keyrði á milli Kóp og FVA í mínum hundtrygga Yaris, nema vindhviðurnar á Kjalarnesinu færu yfir 30 m/sek. Margt kunni ég og þekkti úr skólastjórnun og -starfi frá fyrri árum í MK en annað var mér nýtt í byrjun, ss ábyrgð á heimavist, samstarf við sveitarfélög, barnaverndarmál og framkvæmdir vegna rakaskemmda svo dæmi séu tekin. Og eftir aðeins nokkrar vikur í embætti skall á samkomubann í framhaldsskólum sem kunnugt er vegna hættu á útbreiðslu kórónuveiru. Vægast sagt óraunverulegt að slík staða kæmi upp en blákaldur veruleiki engu að síður. Það hvarflaði ekki að mér að allt árið yrði undirlagt af þessu ástandi. Við tók fjarkennsla og síðan fjarvinna, fjarfundir og endalaust samráð og aðlögun að breyttum reglugerðum fram á vor. Stjórnendateyminu skipti ég upp og var sjálf á staðnum í þrjá daga í viku og vann heima hina tvo dagana. Það var ágætt fyrirkomulag að mörgu leyti, margt komst í verk því tíminn sem annars hefði farið í akstur milli Kóp. og FVA nýttist betur og oft var bara notalegt að vinna heima við eldhúsborðið á náttbuxunum með útvarpið á rólegum nótum og malandi kaffivélina innan seilingar.

Á ýmsu gekk sem reyndi á verulega á þolgæði, útsjónarsemi og aðlögunarhæfni míns frábæra starfsfólks. Á haustönn voru gefnar út átta reglugerðir um skólastarf sem þurfti að bregðast við á ýmsa vegu. Brautskráning um vorið var lengi í óvissu en tókst vel á endanum því þá máttu 200 manns koma saman. Ég var mjög spennt yfir athöfninni, 26. maí 2020, fyrstu útskriftinni minni, en það er ólýsanlega gefandi og gaman að fá að útskrifa unga fólkið og leggja því lífsreglur áður en það reynir vængina sína fyrir alvöru. Svo var frábært að geta haft veglegt starfsmannapartý í Golfskálanum á Akranesi áður en allir héldu út í sumarið.

Bjartsýn var ég í byrjun haustannar eins og ég er í eðli mínu, en haustönnin reyndist svipuð, því kórónuveiran var enn á sveimi og öflugri ef eitthvað var. Haustið leið hratt með margs konar áskorunum og ótal verkefnum og allt tókst ótrúlega vel í skólastarfinu enda einstaklega gott fólk að vinna í FVA og nemendur gerðu sitt besta undir þessum erfiðu kringumstæðum. Um jólin voru aðstæður ekki eins góðar fyrir brautskráningu og verið höfðu um vorið, ekki máttu fleiri en 25 vera í sama rými svo útskrifað var í tveimur hópum. Það tókst þó vel að mínu viti og í minni embættistíð hafa samtals 112 nemendur útskrifast frá FVA.

Það sem út úr þessu öllu kom hjá okkur í FVA var m.a. þetta: Allir eru tilbúnir til að leggja hart að sér þegar á reynir. Fundir eru nú styttri og árangursríkari. Mikilvægi góðs samstarfsfólks og vinnufélaga er orðið augljósara. Ýmsar reglur voru endurskoðaðar. Nýtt sjónarhorn á vinnu kom fram, unnið er með frumkvæði og lausnir. Upplýsingaflæði er greiðara. Samstaða myndast þrátt fyrir einangrun og fjarvinnu. Bjartsýni og jákvæðni ríkja þrátt fyrir allt.

Sumarfríið okkar 2020 var með öðru sniði en venjulega. Húsbíllinn mátti bíða heima í hlaði nánast allt sumarið því við skötuhjú höfum nú áhuga á meiri fjallamennsku en hann býður upp á. Tjaldbox var fest á þak jeppans og með það þeystum við vestur á firði í byrjun júlí. Einfalt líf, minni matseld og meira frelsi. Við dvöldum m.a. í Breiðuvík, að mestu alein á tjaldstæðinu, sem var dásamlegt. Við erum enn að læra á þennan nýja sið sem hefur kosti og galla umfram húsbílalífið sem við höfum stundað síðan 2005 og notið þægindanna sem það býður upp á. Það er td ekki auðvelt að finna tappatogarann í skottinu á Landcruiser en hann er á vísum stað í húsbílnum. Uppblásið hústjald prófuðum við einnig í sumar og náðum þannig einni reisu með okkar góða vinafólki á Akureyri. Það var algjör lúxus, beddum stillt upp með náttborði á milli og veislumatur eldaður í öll mál. Yndislegt var t.d. í Ásbyrgi þar sem við vorum í tæpa viku og sólin skein allan tímann. Minna varð um hjólreiðar á þessu ári en 2019. Sjósund prófaði ég í fyrsta sinn í haust og líkaði vel. Kannski ofrausn að kalla það sund, frekar dýfu. Fjallgöngur voru nokkrar á árinu, hæst ber auðvitað gangan á Akrafjall með Þuru systur, á Löðmund með Gunnu systur og Gullu frænku og á Glym með samstarfsfólki í FVA.

Við fetuðum nýjar slóðir í útivistinni á árinu. Í Veiðivötn hef ég aldrei viljað fara en lét til leiðast í sumar. Þar gátum við jeppast út um allt (aldrei þó utan vegar) og fórum m.a.s. í Jökulheima sem var stórkostlegt. Einnig kom ég í Sauðlauksdal í fyrsta sinn, á Landeyjasand og í Álftavatn. Við fórum þó ekki eins oft og víða í sumar eins og jafnan áður, m.a. tóku annir viðkomandi vinnunni tíma frá sumarleyfinu. Ég vann líka um sumarið að grein um Oddnýju skáldkonu frá Hóli sem birtist í Andvara í byrjun desember en ég er þó ekki laus við þá góðu konu úr huganum, það er meira sem ég vil gera með sögu hennar. Brynjar missti vinnuna sem photoguide um leið og dró úr ferðamannastraumi til landsins og vann því mikið heima að markaðssetningu ljósmynda sinna í Ameríku og myndvinnslu og þurfti að halda vel á spöðunum. Ekki fórum við út fyrir landsteinana frekar en aðrir þetta árið en planið hafði verið að fara til Perú snemma á vormánuðum. Það bíður betri tíma. En auðvitað fór ég til Þórshafnar eins og á hverju ári, með Sossu minni og áttum við þar góða daga eins og alltaf. Þar bý ég að frændsemi og vináttu til æviloka.

Í ágúst missteig ég mig í berjamó. Hægri fóturinn fór illa út úr þessu, ég var sárkvalin vikum saman og er ekki enn orðin góð. Myndatökur leiddu ekkert í ljós en kírópraktorinn minn bjargað því sem bjargað varð. Af þessu lærði ég að meta þau lífsgæði að geta gengið og hlaupið að vild og sofið án verkja.

Áfram held ég ásamt stallsystrum í ritnefnd að pota inn efni á vefinn skáld.is sem er gagnagrunnur um íslenskar skáldkonur. Einkum hef ég áhuga á þeim sem hafa fallið í gleymsku eða verið hunsaðar af feðraveldinu. Það á kannski einmitt við um mig sjálfa líka, ég komst nefnilega að því á árinu að öndvegis meistararitgerð mín frá 1996 má ekki vera aðgengileg í Skemmunni heldur verður að halda áfram að safna ryki í hillu í Bókhlöðunni, engum til gagns. Og eftir að hafa fjallað um bókmenntir og skrifað ritdóma sleitulaust í tvo áratugi í dagblöð, tímarit, á vef og fyrir útvarp hef ég lagt pennann til hliðar í bili og ég sé ekki að nokkur einasti maður hafi orðið var við það eða sakni þess að lesa mína vönduðu og ígrunduðu ritdóma eða mitt faglegt mat á stöðu íslenskra bókmennta fyrr og nú. Það er skellur, verð ég að viðurkenna!

Framkvæmdir í húsinu settu svip sinn á árið. Staðið hafði til lengi að skipta um eldhúsinnréttingu sem var farin að láta verulega á sjá eftir ca fjörutíu ára dygga þjónustu. Hún var rifin niður í mars og er skemmst frá því að segja að í ágúst var verkinu enn ekki fyllilega lokið. Ísskápur kom ekki til landsins fyrr en í september svo áfram var hokrað í bráðabirgðaeldhúsi. En í desember var aðeins eftir að setja upp aðfellu fyrir ofan skápa og fá hluta af borðplötunni en annað tilbúið. Útkoman er einstaklega fagurt eldhús með þægilegri aðstöðu í hvívetna til margs konar matargerðar. Mikinn lærdóm hef ég dregið af þessu brölti sem nýtist mér í næstu framkvæmdir sem fara vonandi fljótlega í gang!

Inga mín stofnaði eigið heimili með Gesti sínum í Vesturbænum snemma árs 2020 og lauk meistaranámi sínu. Óttar minn hefur blómstrað sl tvö ár, hann býr í Norðurbænum, fer eigin leiðir og hefur kennt mér svo margt. Það besta í heiminum eru börnin manns! Sandra Dögg Brynjarsdóttir flutti til okkar í lok árs og verður hjá okkur um tíma og það er frábært að geta lagt henni lið. Arnþór bróðir hennar býr í Svíþjóð með sinni fjölskyldu og þar vaxa og dafna yndislegu afastrákarnir okkar, Emil Freyr og Kristján Þór.

Það var leitt að geta ekki haft eins mikil samskipti við vini og ættingja og vanalega. Gestrisinn 2020, stúdentsveisla Jóhönnu Sigrúnar systurdóttur minnar, tónleikar Sæunnar Þorsteinsdóttur frænku minnar í Gljúfrasteini og fimmtugsafmæli Ármanns eru viðburðir sem ég náði þó að taka þátt í. Fyrirhugað niðjamót Ásgarðssystkina féll niður, árlegur frænkuhittingur líka, aðventuboðið með systkinabörnum í föðurætt breyttist í zoom-fund. Leshringur sem ég hef verið í árum saman var að mestu óstarfhæfur. Ástvinir kvöddu á árinu, Unnur frænka mín fór alltof snemma. Skúli móðurbróðir minn, Árni Helgason og Angantýr föðurbróðir minn eru nú komnir í aðrar víddir ásamt Hönnu í Hvammi, þeirri gæðakonu og ömmu Óttars.

En tíminn líður hratt og sjaldan er mikið svigrúm til að pæla mikið í hlutunum. Ég gef mér þó alltaf tíma til að íhuga aðeins og þakka fyrir það sem ég hef. Ég er endalaust þakklát fyrir börnin mín og fjölskylduna, umhyggjusömu systur mínar sem eru dásamlegar og þeirra makar og börn, og mögnuðu móður mína sem er eldhress og hraust á 75. aldursári. Og fyrir Brynjar minn sem er mín stoð og stytta í einu og öllu. Og fyrir tækifærin sem ég fæ í lífinu til að láta gott af mér leiða.

Nýtt ár verður áreiðanlega betra en það liðna. Ég er með fullt af verkefnum og hugmyndum sem ég vil sinna og kvíði engu. Takk og bless!

Í Breiðuvík
Í Veiðivötnum
Gestrisinn 2020
Plássið
Vinkonur í áratugi
Á Brekknaheiðinni
Nýja uppáhaldsplássið mitt!
Í bráðabirgðaeldhúsinu
Afkvæmin
Kristján Þór
Emil Freyr
Liðið!

Ein athugasemd

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s