Loksins barst niðurstaða

Á degi 5 kl 13.15 var hin langþráða sýnataka á Suðurlandsbraut. Urðu þar fagnaðarfundir því þeir sem voru í boðinu alræmda voru boðaðir á svipuðum tíma. Allan daginn var ég að bíða eftir svari en undir kvöld höfðu flestir fengið neikvætt svar. En ekki ég. Verð að viðurkenna að ég sveiflaðist á milli vonar og ótta þótt ég hefði engin einkenni. Hvað ef ég er með covid? Kæmist ekki til vinnu dögum saman, lægi í bælinu og gæti enga björg mér veitt og yrði jafnvel marga mánuði að jafna mig? Ég mátti ekki til þess hugsa. Vá hvað ég ætlaði að gæta mín framvegis varðandi sóttvarnir. Það varð alveg skýrt í mínum huga hvað ég er í raun heppin en líf hvers manns er brothætt og góðir dagar hverfulir. Í raun þarf ótrúlega litið til að allt fari á hvolf í tilverunni: atvinnumissir, ástvinamissir, vinir fjarlægjast, heilsubrestur, skilnaður, eignatjón, ofbeldi… enginn er undir þetta búinn en þetta er blákaldur veruleiki. Því skyldi hvern dag að kveldi lofa, þakka fyrir það sem er til staðar, fylla sjálfan sig og aðra af kærleika og umburðarlyndi, horfa á stóru myndina en festa sig ekki í nöldri, píslarvætti og smámunum. Leita skýringar á vanlíðan eins og höfnun og ástleysi, vanmætti, uppgjöf, pirringi og reiði; takast á við og vinna úr þeim tilfinningum sem skolast yfir á hverjum degi án ásökunar eða örvæntingar. Iðka æðruleysi og sleppa tökum. Með þessi fögru fyrirheit að leiðarljósi bjó ég mig til svefns þetta sunnudagskvöld. Þegar ég lagðist á koddann barst sms: þú ert ekki með covid.

Ein athugasemd

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s