Bókmenntir

Að standa sig á vígvellinum

Steinunn Þ. Guðmundsdóttir fæddist aldamótaárið 1900 og lést 85 árum síðar. Á efri árum samdi hún og gaf út sjálf á eigin kostnað bæði skáldsögu, smásagnasafn og ljóðabók. Líklega teiknaði hún einnig bókarkápurnar en þess er þó ekki getið.

Skýr skilaboð

Skáldsagan Í svölum skugga frá 1976 segir frá togstreitu milli vaxandi borgar og hnignandi sveitamenningar, frá djúpu kynslóðabili, áhrifum hernámsins og ýmsum ástarmálum. Vond stjúpa tekur glys og glaum fram yfir sveitalífið, óðalsbóndinn verður utanveltu, veikluleg stjúpdóttir lætur allt yfir sig ganga, ungar stúlkur glepjast af hermönnum og skyndigróði er ekki happadrjúgur.

Skilaboðin eru skýr og frekar íhaldssöm: í sveitinni er best að vera, ekki níðast á minnimáttar, þeim sem bíður mun hlotnast, konur eiga réttindi en hafa jafnframt skyldum að gegna og her á ekki að vera á Íslandi.

Niður fljótsins (1979) inniheldur allnokkrar smásögur og eru margar þeirra ágætar. Ljóst er að Steinunn hefur haft metnað til að vanda til þeirra, fágað formið og dregið upp myndir af stöðu fólks og dýra sem eiga undir högg að sækja.

Frumleik skortir

Um ljóðasafn Steinunnar sem út kom að henni látinni segir bókmenntagagnrýnandinn Jóhann Hjálmarsson í Mbl.:

„Kostir ljóða Steinunnar Þ. Guðmundsdóttur eru einkum þeir að hún vandar málfar sitt og gætir hófs, stefnir að samræmi. Gallarnir aftur á móti þeir að frumleik skortir, ljóð hennar eru mjög slétt og felld, en vekja ekki lesandann til umhugsunar með óvæntri mynd eða sjálfstæðum tökum á yrkisefni. Vissulega geta frumleikakröfur verið strangar og ósanngjarnar, en sviplítill skáldskapur verður ekki eftirminnilegur. Rímuðu Ijóðin í bókinni eru verst. Í þeim koma fram ýmsir helstu gallar slíkra ljóða, m.a. það að lýsa í staðinn fyrir að draga upp mynd, samanber: „Þú ert blómið bjarta og yndisfagra / í blæsins létta mjúka sólskinsdansi“. Barnslegur túlkunarmáti gæðir sum ljóðanna vissu lífi og rómantíkin þótt gamaldags sé á sér eðlilegar forsendur… „

Væri gaman að kanna hvort skáldskapur Steinunnar er virkilega ófrumlegri, meira gamaldags eða verri en annarra skálda á þessum tíma. Einkum var menntuðum körlum á þessum tímum uppsigað við óskólagengnar kerlingar sem sendu í sífellu frá sér bækur sem nutu almennra vinsælda, sbr. kerlingabókamálið mikla þar sem Guðrún frá Lundi var m.a. til umfjöllunar.

Verður kölluð kerlingarbók

Þann 3. desember 1972 birtist viðtal við Steinunni í Þjóðviljanum. Þar sagði hún m.a.:

„— Ef einhver spyrði hvort það væri erfitt að fara út á þessa braut og birta sína fyrstu sögu, þá myndi ég hiklaust svara því játandi. Það væri æskilegt að höfundar þyrftu ekki að ganga á milli útgefenda heldur væru einhverjir aðrir, t.d. samtök rithöfunda, sem byðu fram verkin. Höfundar eins og ég vitum svo lítið um kjör á hverjum tíma.

— Kvíðirðu þvi, að þetta verði kölluð kerlingabók?

— Ég er alveg hárviss um að hún verður kölluð það!… En það er um leið dálítil ögrun. Kerling og karl eru gömul og góð íslenzk heiti, og þá ættu alveg eins að vera til karlabækur!… Það er þá um að gera að standa sig á vigvellinum!“

Birtist 31. júní 2021 á skáld.is

„Minnisvarði um eitthvað sem eitt sinn var“

Guð leitar að Salóme en Salóme leitar að kettinum sínum og skrifar bréf til Helgu en tíu ár er liðin síðan ástarsambandi þeirra lauk með látum. Síðan hafa þær ekki sést. Loksins herðir Salóme sig upp í að krota fortíð sína, sem hún hefur byrgt inni, á kisubréfsefni og senda Helgu eitt bréf á dag, frá 1.-24. desember árið 2010. Þetta er umgjörð frumlegrar bréfaskáldsögu Júlíu Margrétar Einarsdóttur, ástar- og raunasögu úr rammíslenskum aldamótaveruleika, í fjólubláu bandi prýdd grænum glugga með mynd af rúllustiga.

Saga Salóme er samofin sögu formæðra hennar á Akranesi, ömmunnar blíðu sem missti ung manninn sinn, gleðipinnann Pétur, sjómann og tásuskrýmsli sem endalaust nennti að leika við rauðhærðar tvíburadætur sínar, Stellu, móður Salóme, og Láru. Sviplegur dauði hans og meint heimsókn hans framliðins um nótt varð til þess að samband tvíburasystranna rofnaði harkalega og þær héldu hvor í sína áttina. Stella hitti síðan sæta organistann, og Salóme ólst upp við rifrildi, reiðiköst og alkóhólisma sem setja mark sitt á hana, auk eineltis í skóla. Bæði hún og Pétur bróðir hennar eru sködduð eftir meðvirkt uppeldi og trúarinnrætingu föðurins.

Salóme er brotin, hirðulaus „ljósmyndastelpa“ og lúði af Skaganum, eins og hún lýsir sér sjálf, í íþróttagalla og rifinni kápu. Þegar hún flytur að heiman og fær vinnu í búð í Kringlunni kemur „klikkhausinn“ Helga inn í líf hennar og frelsar hana frá einsemdinni. Salóme tekur upp nýtt nafn til að lappa upp á sjálfsmyndina og hefja betra líf í búðinni Betra líf. Í kringum Helgu er djamm, uppátæki og leikir en líka geðsveiflur og sorgardrungi. Þessar týndu sálir sameinast í heitri ást sem heillar Salóme en skömmin er alltaf skammt undan. Samkynhneigð er ekki samþykkt. Og áfram heldur dramað á Skaga, eineltið hættir ekki, systrasambandið lagast ekki og hræðilegur atburður frá því Salóme var 11 ára gleymist ekki.

„Mér fannst svolítið eins og við þræddum í gegnum óraunverulegar minningar, eins og Akranes væri kvikmyndasett um nótt þegar búið væri að slökkva á myndavélinni og allir farnir heim. Minnisvarði um eitthvað sem eitt sinn var, væri ekki lengur raunverulegt, og yrði vonandi aldrei aftur“ (304).

Guð leitar að Salóme er margslungin saga um sársauka og skömm, örlög og erfið samskipti. Sögutíminn er heillandi, um aldamótin síðustu voru samfestingar í tísku, geisladiskar seldir í Skífunni, Myndbönd mánaðarins komu út, stuðið var á Astró, Kóklestin brunaði og BT músin brá á leik. Sögusviðið er sömuleiðis heillandi, þorpið með slúðri og smásálum. Júlía Margrét hefur þetta allt á valdi sínu.

Ástin á sér margar birtingarmyndir en andstæðan við hana er skeytingarleysi (366), það sem ógnar öllu mannlífi. Salóme ætlar að taka af skarið þegar síðasta bréfið hefur verið skrifað, þegar áratugur hefur liðið frá því ástin hvarf úr lífi hennar. Lesendur verða að finna út hvort það er orðið of seint.

Birt á skáld.is, 21. nóvember 2021

Magnað og kjarngott

Ísland eftir ca. 20 ár: Samkenndarprófið er í boði til að mæla hvort fólk hafi nægan siðferðisstyrk og meðlíðan með öðrum. Standist fólk prófið býðst því að merkja sig í Kladdann og þar með er rétt siðferði tryggt.

Merktir fá að búa í fínum hverfum innan varnargarðs út gleri, með beinum, hvítum strætum og klassískum byggingum, fá góða atvinnu og er almennt treystandi. Viljir þú ekki taka prófið, eða það sem verra er, fallir á því, snarfækkar möguleikum á mannsæmandi lífi.

Til stendur að gera merkinguna að skyldu með kosningum en um það er hart deilt, merking býður upp á kerfislæga mismunun að sumra mati. Samfélagið er klofið í tvær hugmyndafræðilegar fylkingar um réttmæti merkingarinnar, SÁL og KALL. Og síðan eru þeir sem þegja og hlusta og þora ekki að taka afstöðu og eru þannig hálfu verri en hinir.

Reiður fíkill

Svona er staðan í Merkingu, skáldsögu Fríðu Ísberg sem gerist í náinni framtíð. Sköpuð er tæknivædd normalíseruð stemning sem gengur ljúflega upp: fólk tengir sig við appið Zoé sem fylgist með hjartslætti og öndun og svarar öllum spurningum og það er hægt að hafa kveikt á Samfylgd sem er verndarapp í úrinu, fólk sendir skilaboð sem kallast gramm út og suður, notar heilógrímur til að dyljast, bílar eru sjálfkeyrandi og andlitsskanni sér um að útiloka ómerkta úr húsum, verslunum og fyrirtækjum.

Sálfræðingar hafa gríðarleg áhrif og völd í þessu samfélagi, hvort sem þeir eru af holdi og blóði eða gervigreind. Til þeirra leita allir sem verða undir, nauðugir viljugir. Ungir karlmenn fara verst út úr þessu, staðan hjá Tristan Mána er t.d. arfaslæm, hann á engan sjens í þessu samfélagi; reiður fíkill með alllangan glæpaferil sem tilkominn er vegna höfnunar og mótþróa. Sjónarhorn Tristans er „fucking“ frábærlega vel stílað, og ekki annað hægt en sogast hratt inn í slangrandi hugarheim hans og hrakfallasögu.

Kennari á kvíðalyfjum

Vetur heitir kennari á kvíðalyfjum sem er tvístígandi í afstöðu sinni, hún hefur rannsakað siðferðislegan þátt fjölmiðla varðandi birtingu niðurstaðna á samkenndarprófinu en þorir ekki að taka af skarið, sjálf brennd af ofbeldi fyrrum elskhuga. Er það kannski versta afstaðan, að gera ekki neitt? Innsta eðli Vetrar / manneskjunnar birtist skýrt í samtali hennar við Alexandriu: hún sér sjálfa sig í ömurlegum aðstæðum hennar og fyrirlítur hana fyrir það.

Ólafur Tandri er í framboði fyrir SÁL og trúir því öðrum þræði að öflugt heilbrigðiskerfi sé lausnin, að merking sé forvörn en getur þó ekki varist efa þegar Sólveig kona hans þrætir við hann og setur honum skýr mörk. Hann veit innst inni að glæpamenn geta verið fullir samkenndar og að siðblindir geta verið saklausir en köld rök og tölur tala sínu máli í hans huga, glæpatíðni er hærri hjá hinum ómerktu. Skólakerfið tekur gagnrýnislaust þátt í þessu öllu, beinir unglingunum í prófið og til sálfræðinganna ef þeir ná ekki tilgreindu lágmarksviðmiði.

Gott fólk

Í Merkingu Fríðu Ísberg er búin til mynd af samfélaginu eins og það gæti svo auðveldlega orðið og er kannski þegar orðið. Dregið er fram hvernig sannleikanum er hagrætt og fjölmiðlar mata fólk á þeim veruleika sem hentar hverju sinni. Og hvernig tungumálið er notað til að ná sínu fram, hvort er verið að útskúfa eða innlima, merkja til góðs eða ills, alls konar heilaþvottur er í gangi fram að kosningunum um hvort aflið fær að ráða í samfélaginu. Kappræður fara fram (233-34) og stríðandi aðilar ætla báðir að breyta heiminum til hins betra, þetta er gott fólk í góðri trú á að verið sé að byggja upp öruggt og réttlátt velferðarsamfélag án ofbeldis.

Hafþór fucking Laxness

Í hverjum kafla er sjónarhornið hjá einni persónu sem hefur sitt málsnið og lífsskoðun, sagan er margradda og lesandinn þarf sjálfur að hugsa og velja sér skoðun eða afstöðu. Vinkonurnar Laíla og Tea, sem eru vel menntaðar og hafa tungumálið á valdi sínu, eru ekki persónur í sögunni, en skjóta inn bréfum milli kaflanna og gera það ekki einfaldara fyrir lesandann að marka sér stöðu.

Í sögunni tekst Fríða ekki aðeins á við tilvistarlegar spurningar um vald og siðferði af innsæi og visku heldur glímir líka við tungumál og stíl af miklum og heillandi þrótti. Hver persóna hefur sína lífsreynslu og afstöðu sem birtist úthugsuð og útpæld í málfari og orðavali. Ruglingslegur hugarheimur framakonunnar Eyju endurvarpast t.d. í brotakenndum textanum hennar. Og þegar kommentin byrja að flæða eru þau eins raunveruleg og hugsast getur. Rödd Tristans er einstaklega trúverðug, kröftug og hressandi: „Þegar hann sest niður man hann nafnið á rithöfundinum: Hafþór fucking Laxness“ (47). Og sögukaflinn þar sem Alexandria lætur dæluna ganga er hreinlega stórkostlega skrifaður.

Það er orðið langt síðan ég hef lesið nokkuð svona merkilegt. Magnað og kjarngott.

Birt fyrst á skáld.is, 23. okt. 2021

„Að búa við farsæld og kynlíf í standard lofthæð“

Óhætt er að segja að bókmenntaumræðan sé fjörug í fjölmiðlunum um þessar mundir. Bergsveinn Birgisson sakar nú Ásgeir Jónsson um ritstuld og Guðmundur Andri er ekki hrifinn af hugmynd Braga Páls um að drepa Arnald Indriðason í samnefndri bók. Einnig spunnust umræður um Systu megin eftir Steinunni Sigurðardóttur sem fjallað var um í Kiljunni nýverið. Þeir Árni Óskarsson og Þorleifur Hauksson skrifuðu grein í Fréttablaðið um að umfjöllunin hefði verið villandi í þættinum, sem Þorgeir Tryggvason svaraði síðan á facebook-síðu sinni. Það er gaman að sjá að enn ólgar blóð í bókmenntaþjóðinni og að fólk nenni að hafa skoðun á skáldskap.

Dolludrós

Umrædd og umdeild bók Steinunnar, Systu megin, fjallar um konu rétt skriðna yfir þrítugt sem lifir undir fátæktarmörkum og utan bótakerfis í ömurlegri kjallaraholu í Reykjavík (mynd á bókarkápu). Hún dregur fram lífið með dósasöfnun og ruslatunnuróti og þarf að velta fyrir sér hverri krónu. Sagan gerist um jól, á einum af þeim tímapunktum ársins þar sem fólk finnur sárast til fátæktar sinnar. Systa man betri daga með gleðilegum jólum á Fjólugötunni og sveitasælu í Fljótshlíð sem gerir hlutskipti hennar síst betra þótt hún orni sér við minningarnar. Ljóst er af þeim hugrenningum að ferlíkið móðir hennar hefur líklega átt við andlega erfiðleika að glíma, kannski afleiðingar skorts í bernsku, og faðirinn var oft fjarverandi á sjónum en sinnti Systu og litla bróður af alúð þegar hann var í landi uns hann féll frá þegar Systa var 14 ára. Eftir það gekk hún Brósa sínum í foreldrastað; „en hver gekk mér í hvaða stað?“ spyr hún sjálfa sig í allsleysi sínu og einstæðingsskap (63).

„Þegar ég velti Mömmu fyrir mér, sem ég geri nú helst sem minnst af, þá verður ekki hjá þeim sannleika komist að þetta er nískasta manneskja sem uppi hefur verið í samanlagðri heimskristninni. Leið hann Faðir minn sálugi mjög fyrir það, sérstaklega að Mamma sparaði ekki bara við okkur alsystkinin í mat heldur líka í klæðnaði. Áttum við Brósi bró tæpast til skiptanna á köflum.“

Af hrakningum sínum í lífinu hefur Systa fengið þá hugmynd að hún eigi sér tæplega tilverurétt; „einstaklingur eins og ég“, „dolludrós“ og „dósasysturafmán“ sem „á auðvitað ekki að sjást.“ Löngum hefur verið horft í aðra átt þegar rætt er um fátækt á Íslandi og helst viljum við sem minnst af henni vita en hún er sannarlega skammarblettur á okkar ríka samfélagi. Systa lítur svo á að tilveran sé takmörkuð, „Mín tilvera auðvitað alveg sérstaklega, sem kemur til af mínum eigin takmörkunum“ (87). Hana langar í barn, hana langar til að vera snert en hvorugt hlotnast henni. Vitað er að fátækt brýtur sjálfsvirðinguna niður og það má glöggt sjá af reynslu, aðstæðum og sjálfsmynd Systu. En saga hennar er sögð án biturðar, án reiði, án fordæmingar.

Aðlögunarhæfni er það sem hefur skilað mannkyninu áfram í lífinu og sannarlega hefur Systa allar klær úti til að afla sér lífsbjargar. Dregin er upp sérlega íronísk mynd af útsjónar- og nægjusemi Systu. Hún sér tækifæri í óborguðu kaffi, almenningssalerni, bóklestri á bókasafninu og ábót á súpuna, hún áttar sig á mikilvæginu sem felst í „orkugjöf sykurmolans“ og happinu í að komast yfir „torfengnar hitaeiningar.“ Dapurlegt og meinfyndið í senn.

Fjárfest í kjötsúpu

Fornlegur stíll og einstakur húmor skapa í sögunni spennuþrungið tvítog, nístandi íroníu sem Steinunn hefur svo gott vald á. Orð eins og samastaðarígildi, plús, markaðsverð, á ársgrundvelli, þvottaefnisútgjöld, skortur á loftgæðum, fjárfesting í kjötsúpu, vítamínstatus og næringar- og stoðkerfisástand sem Systa notar til að lýsa aðstæðum sínum hljóma eins og úr munni hagfræðings eða stjórnmálamanns sem talar í frösum í fjölmiðlum. Kafli sem ber heitið Næringarkerfið lýsir því hvað Systa borðar allan ársins hring og er í senn meinhæðinn og sárgrætilegur, uppsettur eins og næringarfræðileg matardagbók sem þó inniheldur alltof lítið af mat og bætiefnum.

„Alla daga, hafragrautur. Á laugardögum með eplabitum úr hálfu epli, þegar markaðsverð er hagstætt. Á sunnudögum með hinum helmingnum af eplinu. Grautur soðinn með kanil, ef birgðastaða á kanil leyfir.“

Særð systkini

Undirtitill sögunnar er leiksaga, formið er brotið upp með leikþáttum og persónur bresta jafnvel í söng. Brotin eru í anda absúrdisma og þar sér lesandinn aðstæður Systu í mun grimmdarlegra ljósi en í sögunni. Þar koma m.a. fram hið hrokafulla og loðpelsaklædda jólafólk sem er skeytingarlaust um aðbúnað annarra og þrælahaldarinn Ketill sem ásælist starfskrafta og frelsi Systu. Önnur absúrd sögupersóna er einfætta hárgreiðslukonan Lóló sem „stendur höllum fæti í sömu sporum“ (47); útigangskona sem hefur misst allt og er enn verr sett en Systa. Styttan af Mömmu birtist af og til með miklar skoðanir framtíðaráformum Systu. Þar er líka samtal „særðra systkina“ (132), þar sem draumar eru byggðir upp og rifnir jafnóðum niður svo sker í hjartað.

„Ég veit að margt er það í lífi venjulegs fólks sem ég ber ekki skynbragð á, svosem það að búa við velsæld og kynlíf í standard lofthæð, en það er líka margt sem almenningur mundi ekki átta sig á í mínu lífi“ (121) segir Systa. Fátæktin er söm við sig, hvort sem hún stafar af nísku, andlegri og líkamlegri, eða misskiptingu auðsins sem skapast í þjóðfélaginu. Systa og Brósi voru vanrækt sem börn, svelt og neitað um ást og snertingu. Það hefur sínar afleiðingar, Systa er skorturinn uppmálaður, Brósi lætur allt yfir sig ganga fyrir ástina. Það versta sem til er hjá mannkyni er níska og skeytingarleysi.

„Ef ég ætti peninga held ég að ég mundi reyna að gera öðrum gott og gauka að lítilmagna eins og sjálfri mér“ (155) segir Systa og er gott að hafa þetta í huga í allsnægtunum.

Birt fyrst á skáld.is, 11. des. 2021

Ég held ég hafi stundum fallið í trans

Viðtal við Höllu Kjartansdóttur, 17. okt. 2021

Steinunn Inga átti spjall við Höllu Kjartansdóttur um bókmenntir, kennslu og þolinmæðisverk þýðandans. Halla hefur þýtt úr sænsku, norsku, dönsku og ítölsku, m.a. bækur eftir stórstjörnur eins og Stieg Larson og Elenu Ferrante.

Við komum okkur fyrir í garðstólum í 101 síðla sumars. Þetta er einn af þessum örfáu sólardögum, kaffið rýkur í rósóttum bollum, notaleg borgarstemning liggur í loftinu. Steinunn Inga lætur spurningarnar dynja og ekki stendur á svörum hjá Höllu. Hún er kvik og fjörug og stutt í smitandi hlátur.

Hver er Halla, hvaðan kemur hún? Og hvert stefnir hún? Hverjar eru áherslur þínar í lífinu? Hvað hefur á daga þína drifið sl tvö ár?

Ég er fædd og uppalin í Reykjavík og ólst upp fyrst á Freyjugötu og síðan í Álfheimum. Gekk í Vogaskóla, síðan í MS og svo Í HÍ. Er með meistaragráðu í íslenskum bókmenntum. Ég er önnur í röð fimm systra, alin upp á menningarheimili þar sem bækur voru upp um alla veggi, einn vefstóll, ein prjónavél og eitt píanó og hannyrðir mömmu flæðandi um borð, bekki og gólf. Foreldrar mínir eru Gíslrún Sigurbjörnsdóttir fyrrum handavinnukennari og Kjartan Ólafsson fyrrum ritstjóri Þjóðviljans, þingmaður og sagnfræðingur, bæði komin vel á níræðisaldur í dag.

Mig dreymdi um að verða leikkona sem barn en niðurstaðan varð kennarastarfið og svo bættist þýðendastarfið við, svolítill leikari leynist í hvorutveggja ef að er gáð, túlkun, miðlun, sviðssetning og endalaus vinna með texta, og svo blundar í mér skúffuskáld… Ég hef þó alltaf glímt við lágt sjálfsmat. Eftir fimmtugt fór ég að sækja í mig veðrið með það. Ég stefni almennt að auknum þroska sem manneskja og að ná sátt við sjálfa mig og stóra samhengið sem lífið er. Markmið mín eru að ná betra jafnvægi milli vinnu og einkalífs og muna að gleðiefnin í lífinu eru litlu hlutirnir eins og kaffibollinn á morgnana og brosið í augum barnabarnanna. Þau störf sem ég hef unnið hafa haft tilhneigingu til að verða frekari til fjörsins en ég sjálf, ég get ekki verið hversdagsmanneskja, læt verkefnin gleypa mig og kann ekki að verja mig fyrir álagi. Síðastliðin tvö ár hafa verið afskaplega frek í þeim skilningi og verkefni á færibandi drifið á daga mína.

Ég vinn ekki eingöngu við þýðingar þótt ég hafi átt mér þann draum þegar ég sagði upp fastri stöðu við íslenskukennslu í framhaldsskóla fyrir sex árum síðan eftir nærri 25 ára farsælan starfsferil. Ég vinn núna svolítið við íslenskukennslu og svolítið á bókasafni í Myndlistaskólanum í Reykjavík, mátulega lítið þó til að geta unnið við þýðingar þegar verkefni bjóðast þar. Nægjusemin kemur sér vel þegar maður er einn á frílansbáti en frekjuleysið síður.

Hvað er heillandi við kennarastarfið / þýðandastarfið?

Ertu frílans?

Það sem heillar mig við kennarastarfið er sköpunin í sjálfri kennslunni, töfrarnir sem verða í kennslustofunni, hugmyndirnar sem vakna, samskiptin sem geta verið svo frjó og skapandi þegar nemendur uppgötva nýja hluti eða þora að fara óvenjulegar leiðir í náminu, að geta hjálpað þeim áleiðis og hvatt þau. Ég ber mikla virðingu fyrir nemendum mínum og finnst þau oft kenna mér meira en ég þeim, ég reyni að hlúa að þeim, nálgast þau meira á einstaklingsgrunni núorðið og gef þeim meira frelsi, af því að ég kenni svo litlum hópi. Ég átti val á sínum tíma um að verða fræðimaður eða kennari. Ég valdi hið síðara af því að útopnan í kennslu átti betur við mig þegar ég var yngri en grúskið í holu minni á betur við mig núna. Ætli þýðendastarfið sé ekki einhver millivegur fyrir mig.

Ertu fræðikona líka?

Áhugasvið mitt í háskólanum var á tímabili þjóðfræði en svo leiddist ég út í að skrifa meistararitgerð um Gunnar Gunnarsson og tengsl hans við trú í víðum skilningi þess orðs. Sú ritgerð kom út í ritröðinni Studia Islandica fyrir 25 árum en þar með lauk líka fræðaferli mínum, sjálfsefinn var verri í fræðasamhenginu en á öðrum sviðum lífsins – leyfði menntaskólakennslunni að gleypa mig með húð og hári.

Það er mikil dulúð yfir starfi þýðandans. Hvernig ber hann sig að? Hvernig er venjulegur vinnudagur hjá þér?

Öll dulúð verður að vera óskilgreind svo ég reyni ekki að lýsa henni, ég skil stundum ekki sjálf hvernig ég fór að þegar ég horfi á bækurnar sem ég hef þýtt og ég get varla opnað þær eftir að þær eru komnar út. Ég held ég hafi stundum fallið í trans.

Annars snýst þetta um bullandi vinnu með kveikt á öllum batteríum í málstöðinni, og stundum gleymast fæturnir alveg þegar maður loksins stendur upp, og þá er eins og hálsinn sé stífur frá herðum upp í hvirfil. Allir dagar eru vinnudagar hjá frílans þýðanda, helgar og kvöld ef því er að skipta, en það geta líka komið góðar pásur inn á milli. Ef ég er komin í stuð með bók verð ég helst að þýða í löngum lotum, og best er að fara eitthvert í einangrun með tölvuna. Kúpla sig út úr lífinu. Þá gerast hlutirnir, en slíkur lúxus er ekki alltaf í boði. Venjulegur vinnudagur við þýðingar er að sitja við frá morgni til miðnættis ef ég fæ frið til þess.

Velur þú sjálf hvaða bækur þú vilt þýða? Úr hvaða tungumálum þá? Hvar lærðir þú norðurlandamál og ítölsku?

Ég hef aldrei gengið á milli forlaga með óskalista yfir bækur sem mig langar til að þýða. Ég hef verið svo heppin að forlögin hafa vitað af mér síðan ég fékk mitt fyrsta stóra tækifæri fyrir 20 árum síðan þegar ég þýddi Líflækninn eftir Per Olov Enquist en þá hafði ég búið í Svíþjóð í 4 ár og lært sænskuna þannig, að vísu ekki í skóla. Ég vann líka eitt sumar um tvítugt á sænskum spítala og lærði ákveðinn grunn þar og svo er mamma fædd í Svíþjóð og ég heyrði sænskuna í æsku hjá afa og ömmu og mömmu í gestaboðum. Sænskan lá því vel við höggi og svo hafa hin Norðurlandamálin flotið með af og til enda stutt á milli, sérstaklega ritmálsins.

Ég er afskaplega þakklát fyrir þau tækifæri sem ég hef fengið en hef aldrei verið með neitt plan, bara verið beðin um hitt og þetta, og þá verð ég bara að mæta hverju verkefni með opnum huga, en ég hef líka hafnað verkefnum. Ég kem úr máladeild í menntaskóla og franskan og latínan sem ég lærði þar hjálpuðu mér þegar ég fór á miðjum sextugsaldri til Sikileyjar að læra grunn í ítölsku. Það átti bara að vera ,,grár fiðringur“ eða flipp hjá mér og svo ætlaði ég að snúa aftur fílefld á minn gamla vinnustað. En þegar til kom var ég komin með blý í fæturna, ég gat mig hvergi hrært. Ég var orðin ástfangin af tungumálinu. Svo það varð logandi ögrun fyrir mig að bjóða henni upp í dans eftir að hafa lifað og hrærst við að miðla íslenskum fræðum og bókmenntum í áratugi. Undirvitundin hafði greinilega planað þetta fyrir mig.

Hver var fyrsta bókin sem þú þýddir og hvernig gekk það, hverjar voru aðstæður þínar þá?

Fyrsta bókin var eiginlega alveg ótrúlegt tækifæri fyrir mig. Ég var rétt skriðin yfir fertugt, 3ja barna móðir í fullri kennslu á því tímabili og hafði engin áform um að gerast þýðandi. Hafði nóg á minni könnu. Mér fannst þetta samt ögrandi verkefni, og innst inni vissi ég að þetta ætti vel við mig. Bókin var engin önnur en Livläkarens besök eftir eitt merkasta skáld Svía á seinni hluta 20. aldar, Per Olov Enquist, ég þýddi hana árið 2001 en hún kom út 2002. Ég fer ekki í neinar grafgötur með það að ég fékk tækifærið í gegnum þáverandi eiginmann, Pál Valsson, sem þá starfaði á ritstjórn eins virtasta bókaforlags landsins, Mál og menningu. Ég fann líka mikinn velvilja frá útgáfustjóranum þar, Halldóri Guðmundssyni. Það var ómetanlegt að finna, enda voru þýðendur fyrst og fremst karlar, ef það var eitthvað annað en ástarsögur eða barnabækur. Átti ég svo bara að klifra? Þykjast vera jafnoki? Gera orðið að mínu?

Já, hiklaust! Það er það sem við þurfum! – Þú hlýtur að hafa gríðarlega einbeitingu og sterka málvitund. Lestu mikið og þá hvað helst?

Það er þetta með að falla í trans. Fórnirnar kom niður á einkalífinu, ég neita því ekki. Ef klaustur væru ennþá í boði væri ég kannski þar. Ég get lokað mig af og hef alltaf haft mikla þörf fyrir það, löngu áður en ég fór að þýða. Ég nærist á einveru.

Málvitund mín byggir auðvitað á þeim grunni sem ég fékk í foreldrahúsum, þar var mikið lesið, ég las talsvert sem barn, það var mikið bókasafn á heimilinu, og bókum var haldið að okkur systrum. Ég byrjaði að lesa Laxness 13 ára og heillaðist bæði af Brekkukotsannál og Sölku Völku, þótt ég botnaði stundum ekki neitt í neinu. Svo fékk ég snemma áhuga á því að setja saman ferskeytlur, það voru svona rímþrautir sem pabbi hafði gaman af að láta mig glíma við, en hann kallaði mig líka stundum,,rassbögu“ og hló.

Þegar svo vinnan fór að snúast um að lesa bækur, að ekki sé talað um að þýða þær, þá fór ég að reyna að gera eitthvað annað í ,,frítímanum“ ef hann var þá einhver. Lestrarnæðið tengist vinnunni alfarið í mínu lífi og ef ég næ því að lesa af nautn en ekki vegna vinnunnar, þá eru jól. Ég gríp helst í ljóðabækur til að næra mig í vinnutörnum, það er svo mikil hvíld í því formi. Svo held ég að píanónámið sem ég stundaði sem barn og fram að 14 ára aldri hafi hjálpað málvitund minni. Að spila eftir nótum, ná fram réttum takti og hljómi eftir forskrift er ekki ólíkt því að þýða. Það er nefnilega ekki nóg að lesa, það þarf að geta spilað á þetta hljóðfæri sem tungumálið er, og miðlað því. Ég var líka söngelskt barn, var í kórum og hef alltaf átt mjög auðvelt með að læra texta, verið taktviss og lagviss. Þarna er einhver tenging. Svo er ég skúffuskáld.

Hversu frjálslega má þýða? Hvernig ætti að þýða td svona senu svo hún hljómi eðlilega á íslensku?

„John,“ she said, smiling. „It´s John, isn´t it?“

„Yes. It is.“

Fyrstu viðbrögð mín eru að segja PASS. Þetta er óþýðanlegt sem stakar línur á floti. En svo get ég reynt að spila út einhverjum spilum:

„John,“ sagði hún brosandi. „Þú ert John, ekki satt?“

„Jú, ég er John.“

Eða: „Jú, mikið rétt/Jú, sá er maðurinn/Jú, passar/ Jú, þú átt kollgátuna/ Jú, ég heiti John/Jú, ég er hann“ o.s.frv. o.s.frv.

Annars er þessi setning gott dæmi um hvað samhengi er nauðsynlegt þegar þýtt er til að þýðandi geti valið stíl eða málsnið við hæfi. ,,Þú átt kollgátuna“ er orðalag úr gömlu Kim-bókunum sem ég skóflaði í mig sem barn. Það er síður notað í dag. ,,Mikið rétt“ er hins vegar algengari frasi hjá þeim sem eru hátíðlegir í tali, kannski smá ,,ungra manna MR-keimur“ af því. Mér fyndist líka freistandi að bæta spurningarmerki við. ,,John?“ til að undirstrika spurnina í ávarpinu. Svo veit ég ekkert hvort það eru börn sem tala, eða fullorðnir eða í hvaða samhengi. Jafningjar? Hver er statusinn á milli persóna? Álitamálin eru endalaus, dulúðin í þýðingunni felst kannski í því að lesandi fær aldrei að vita hvaða krókaleiðir og skúmaskot þýðandi var búinn að fara í gegnum áður en hann fann lausnina.

Hvernig gengur að forðast að frummálið smitist yfir í þýðingarmálið? Manstu eftir dæmum?

Ég kalla það að „vinda frummálið úr“ þegar ég er að fara yfir próförk eða prófarkir. Það gengur misvel eftir því undir hvaða pressu maður vinnur. Ef maður hefur tíma til að lesa þýðinguna aftur og aftur, helst upphátt, þá vinst frummálið úr smámsaman. Það er eins og með þeytivinduna í þvottavélinni, ef hún er sett á fullt kemur plaggið næstum þurrt út. Ég held að lesendur séu betur til þess fallnir að sjá keiminn að frummálinu en þýðandinn sem aldrei les þýðingar sínar eftir á, einmitt af ótta við að keimurinn hafi setið eftir. Svo ég vil ekki finna dæmi eða muna þau. En oftast eru þetta algjör smáatriði, samtengingar, atviksorð, greinarmerki og slíkt sem geta skipt sköpum, líka orðaröð.

Hefur þú gert e-a alvarlega / skemmtilega þýðingarvillu…?!

Ég hef stundum verið nálægt því að detta í pytt en þá koma yfirlesarar til sögunnar og kippa mér upp. Ég var einu sinni næstum búin að rugla morgunmat saman við hádegismat þegar ég var að þýða ,,frokost“ í danskri bók. Það er nefnilega hádegismatur á dönsku, en morgunmatur bæði á sænsku og norsku. Mér fannst persónurnar borða morgunmatinn ansi seint, satt að segja. Norðurlandamálin eru skeinuhætt hvert öðru, nefnilega. Lýsingarorðið ,,rar“ á norsku er furðulegur, eða einkennilegur en ,,rar“ á sænsku og dönsku er góður eða ljúfur.

Hálast á svellinu hefur mér orðið þegar ég þýddi fyrstu ítölsku bókina mína. Það vildi mér til happs að ég hafði ensku þýðinguna sem haldreipi á kantinum, en ég var svo þrjósk að ég kíkti helst ekki í hana fyrr en á lokametrunum, geymdi mér heilu efnisgreinarnar, þar til síðast og þá varð ég bara að kíkja á enskuna. Þá kom ýmislegt í ljós, sem ég segi engum, en vitaskuld var því bjargað, enginn verður óbarinn biskup og allt það. Ég man bara að einu sinni var ég hætt komin þegar ég var búin að þýða að ganga (camminare) á gangstíg (viale) sem að fara út að ganga í fjólubláu peysunni sinni (camica og violetto runnu einhvern veginn til í kollinum þegar ég fór að raða saman málsgreininni). Á ítölskunni þarf maður nefnilega að raða setningunum svo rækilega niður fyrir sér áður en maður íslenskar, vera viss um frumlagið og andlagið sem sagnmyndin vísar til. Svo man ég eftir því að ég var einu sinni orðin dauðþreytt, komið framyfir miðnætti og ég að þýða ,,Hugo har hatt en besvær natt“ og daginn eftir sá ég að ég hafði þýtt: Hugo er með hatt, nóttin var erfið. Maður hrekkur stundum úr gír, en gott að þá sé ekki orðið of seint að hlæja að mistökunum.

Pæling: Er þýðing sköpun eða endursköpun? Túlkun eða yfirfærsla..? Hvað með staðfærslu? Virkar hún? Þýðir þú nöfn á fyrirtækjum, verslun, hundategundum (gullinsækir?)…?

Þýðing er bæði sköpun og endursköpun. Hún er yfirfærsla úr einu tungumáli í annað en orðavalið er þýðandans og þar þarf að gæta þess að vera trúr frumtexta, að stíll, orðaval og blæbrigði haldist sem best, að taktur, tónblær og undirtexti komist til skila, og svo þarf texti að vera lipur og þjáll. Það þarf að vinda hann vel eins og ég kalla það, vinda frumtextann úr svo ekki verði smit á milli tungumála því það er alltaf lýti á þýddum texta ef hann ber þess merki að vera þýddur.

Það er allur gangur á því hvernig staðfærsla virkar, það er auðvelt að staðfæra, t.d. ef um hliðstæðar stofnanir eða fyrirtæki er að ræða, þetta eru þó alltaf vafamál sem þarf að skera úr í hverju tilviki fyrir sig og þarf alltaf að meta hvað passar. Tegundaheiti hunda er eitt af þessum álitamálum en lendingin hefur hingað til verið sú að nota þau heiti sem algengast er að nota í talmáli. Ég myndi hiksta á ,,gullinsækir“ bæði sem þýðandi og lesandi, stundum verður tilgerðarlegt að vera of stífur á að reyna að staðfæra. En ég veit að ég reyndi staðfærslu þegar ég þýddi Stieg Larsson, þ.e. að þýða nöfn á fyrirtækjum og stofnunum, og hafa síðan skammstafanir á þeim í samræmi við það. Ég myndi líklega ekki gera það með sama hætti í dag.

Er hægt að finna eina sanna merkingu milli tungumála? Ertu alltaf með viðtakandann í huga eða höfundinn? Eða eitthvað annað?

Það er alltaf hægt að komast mjög nærri kjarnanum í merkingunni þó óhjákvæmilega tapist alltaf eitthvað í þýðingu vegna þess að málheimur frummálsins er annar en þess máls sem þýtt er á, vísanir í hefðir og siðvenjur og sögulegar skírskotanir geta farið forgörðum, merkingarsvið einstakra orða drífa mislangt yfir í þýðingu, þýddu orðin ná því ekki að lýsa upp allt það svið sem frummálið felur í sér. Þetta er galdur tungumálsins og hann verður aldrei fangaður alveg til fulls. Ég reyni alltaf að lýsa upp öll þessi skúmaskot og þjóna þessum tveimur herrum, höfundi og lesanda, frummáli og þýddu máli, sjálf með tunguna tvíklofna.

Segðu mér frá Ferrante, hvernig rak það verkefni á fjörur þínar? Og hvernig var glíman við það? Var tímapressa?

Ferrante var eitt fyrsta verkefni sem rak á fjörur mínar eftir uppstokkun í þessu örheimi sem íslenskur útgáfubransi er. Guðrún Vilmundardóttir, sem ég hafði unnið mest með þegar hún var útgáfustjóri hjá Bjarti bókaútgáfu, stofnaði eigið forlag Benedikt og var svo elskuleg að leyfa mér að fylgja með í farteskinu en ég hafði þýdd allan Stieg Larsson á sínum tíma þegar hún var útgáfustjóri þar. Skáldsagan Dagar höfnunar eftir Ferrante var fyrsta verkefnið sem hún bauð mér að takast á við og ég var satt að segja tvístígandi og hélt að ég myndi ekki geta þetta. Annað kom í ljós, bókin vakti gríðarlega sterk viðbrögð og ég er enn að hitta fólk sem þakkar mér fyrir þá þýðingu. Ég get samt vel viðurkennt það hér og nú að hún gekk nærri mér og fyrir því liggja persónulegar ástæður, en líka reynsluleysi mitt sem ítölskuþýðanda. Ég vann langt upp fyrir mig þar og klukkustundirnar voru ómældar.

Undir væng Guðrúnar tók ég svo stökkið úr reyfaradeildinni, sem ég var aðeins farin að festast í eftir Stieg Larsson-ævintýrið. Nýjasta skáldsaga Ferrante kom svo út á örlagaríka covid-árinu en hún var unnin undir mun meiri pressu en ég hafði nokkru sinni upplifað áður. Þýðingin átti að koma út í fjölmörgum löndum á sama tíma, engar aðrar þýðingar voru tiltækar ef ég strandaði, fréttir frá Ítalíu voru skelfilegar, ótti og óvissa ríkti. Þegar vika var eftir af skilafrestinum, sem var í lok mars og ég farin að vinna 17-18 tíma á sólarhring til að ná í mark, var ég loksins skorin úr snörunni, útgáfudegi þýðinganna var frestað í öllum löndum fram á haust vegna faraldursins Þá tók við ljúfur tími, þar sem ég gat pússað og lagað og pússað og lagað. Það bjargaði mér fyrir horn í það skiptið.

Sem leiðir að Stieg Larsson – þar hlýtur líka að hafa verið tímapressa. Er pressa góð? Hvað þarf þýðandi sjálfur að hafa til að bera til að þýðing verði góð? Er til óþýðanleiki?

Ég virðist alltaf hafa rutt einhverja snjóskafla, þegar ég lít til baka. Byrjaði ekki á garðinum þar sem hann var lægstur; Per Olov, sem urðu tvær á endanum; fór síðan í Stieg Larsson sem engan óraði fyrir að yrði að svo miklu stórveldi á heimsmælikvarða. Svona gerist þegar maður hefur ekkert plan… Pressa er góð upp að vissu marki, sérstaklega á hráþýðingarstiginu, þ.e. fyrsta stigi í þýðingarvinnunni. Ef yfirlestrarstigið og lokapúss er í pressu þá er það vont, hættulegt beinlínis. Texti þarf að fá tíma til að sjatna, og það þurfa fleiri augu að koma að á lokametrunum. Ég er skæð með að breyta fram á síðasta dag, þar kemur sjálfsefinn sterkur inn, honum finnst ekkert nógu gott. Þá er eins gott að einhver þarna hinum megin rífi þýðinguna af mér með valdi. Það til óþýðanleiki og hann birtist t.d. í ljóðum og eins þegar blótsyrðum, t.d. á napólísku, er tvinnað saman eins og hjá Ferrante, en þá reynir á skáldið í þýðandanum, og kannski leikarann líka.

Er þýðing skapandi, hvað má fara langt frá frumtexta? Má bæta texta höfundar td? Má krydda með íslenskum orðtiltækjum til að textinn renni betur? Er allt leyfilegt til að þýðing verði lipur eða eru mörk sem höfundur eða útgefandi setur og ekki má fara yfir?

Sköpunin er alltaf með í för. Orðin eru alltaf val þýðandans og hann hefur oftast nær úr ýmsu að moða hverju sinni. Þýðing sem víkur hvergi frá frumtexta er ekki gerleg í bókmenntaþýðingum. Norskan á orðið,,gjenddiktning“ yfir þýðingu, þ.e. að endursemja. Ég held að það fari nærri lagi að lýsa því sem í þýðingu felst. Ýmislegt gerist í ferlinu. Stundum verður textinn liprari í þýðingu en í frumtexta, það getur vel skeð að hann verði slípaðri.

Þýðing er alltaf höfundarverk þýðandans. Það þarf vissulega að krydda með sem réttustu kryddi en helst ekki með því kryddi sem ekki var fyrir í frumtextanum, nema í algjörri neyð.

Ég laga hiklaust ef ég sé augljóst misræmi í frumtexta, yfirleitt í samráði við yfirlesara eða ritstjóra. Hús sem sagt er á einni hæð er allt í einu orðið tveggja hæða, fólk gengur upp stiga en var nýbúið að fara inn í lyftuna o.s.frv.

Þegar ég þýddi Hafbókina norsku, sem mér þykir einna vænst um af öllum mínum þýðingum, þá þurfti að leggjast í mikla rannsóknarvinnu við að finna réttu orðin yfir hluti sem tengdust sjómennsku, veðri og veiðum, og þar þurfti ég að grípa til eigin lausna með orðatiltæki t.d. og vísubrot. Sú þýðing reyndi mikið á mig og var fyrsta þýðing mín úr norsku t.d. en þar fékk ég líka tækifæri til að kynnast höfundi, fara á bókmenntahátíð í Lillehammer, taka þátt í málstofu með höfundi og þýðendum bókarinnar frá öllum heimshornum og þar gátum við borið saman bækur okkar. Ég var komin stutt á veg með þýðinguna þegar ég mætti á hátíðina en ég bjargaði andlitinu með því að bjóða öllum upp á íslenskan hákarl, enginn hafði smakkað hann, ekki heldur höfundurinn, en þó var hákarl aðalpersóna sögunnar. Í bókinni tók ég mér umdeilt bessaleyfi sem þýðandi og þýddi tegundarheitið beint úr norsku sem hákerling en ekki hákarl. Ég gerði það í listrænum tilgangi og lét skýringar fylgja með. Kannski voru ekki allir sáttir – ég veit það ekki, en þarna skildi ég eftir mig ,,spor“, vísvitandi.

Hversu langan tíma tekur að þýða 300 bls bók á venjulegri ensku td? Hvaða þýðing kemur út næst eftir þig?

Þýðing er aldrei unnin í tímamælingu. Ég legg aldrei út í slíkt nema til að gera grófa tímaáætlun fyrir mig. Stundum lofa ég upp í ermina með skil og þá er unnið í kvöld- og helgarvinnu og stundum er of mikið að gera á öðrum vígstöðum í lífinu svo að þýðing er unnin með afgangsorkunni án þess að slá megi af. Slík þýðing getur lukkast vel en þreytan segir þá bara til sín hjá mér eftir þannig tarnir. Engin bók er ,,venjuleg“ og það geta komið upp ótrúlegar gildrur þótt texti láti lítið yfir sér og virðist sakleysislegur á yfirborðinu. Stundum er eitt dagsverk 10 blaðsíður, stundum 20 blaðsíður eða meira ef ég kemst í stuð og fæ frið en þá er ég aðeins að tala um hráþýðingu sem er alltaf fyrsta útgáfa og hana fær enginn að sjá nema ég. Eftir hráþýðingu leggjast síðan ómældar vinnustundir í að pússa texta, fara í saumana á einstaka hlutum, leysa úr flækjum, fletta upp í orðabókum o.s.frv. Svo les þýðandi yfir próförk stundum einu sinni og stundum tvisvar. Allt tekur þetta tíma sem er ómældur. Næsta bók heitir Tríó, sem ég þýði úr sænsku.

Hefurðu þýtt ljóð? Dæmi?

Það hafa komið upp vísur og ljóð í þeim skáldverkum sem ég hef þýtt og það hefur sannarlega oft verið ögrandi verkefni og þá þarf að virkja brageyrað og opna á lýrísku æðina. En það getur verið ansi snúið. Ég þýddi sænskan skírnarsálm fyrir nokkru og hann mun væntanlega birtast í nýju sálmabókinni. Það er svona eitt dæmi. En ég hef stundum æft mig í að þýða ljóð, bara fyrir mig, svona eins og fingraæfingar á píanói.

Hefur þú þýtt af íslensku yfir á annað tungumál? Er það öðruvísi, hvernig?

Ég hef aðeins prófað það og það er allt öðruvísi. Þá kemur nefnilega svo berlega í ljós að þýðandi þarf að vera svo miklu, miklu betri í tungumálinu sem hann þýðir yfir á en í því sem hann þýðir úr.

Áttu heilræði, hvatningu eða varnaðarorð til lesenda og (skáld)kvenna sem langar að reyna sig við að þýða?

Farið gætilega með orð, þau leyna á sér og eru sannarlega ekki öll þar sem þau eru séð, stíll sögu og form liggur í orðunum. Góður bókmenntaþýðandi verður að hafa næmt auga fyrir stíl og blæbrigðum orða, helst þarf hann að vera bæði túlkandi og skáld inn við beinið svo hann nái að fanga andann í hverju skáldverki fyrir sig. Hann þarf að vera göldróttur, geta brugðið sér í allra kvikinda líki, búa yfir innsæi og smekkvísi til að velja þau orð sem hæfa hverju sinni. Vissulega þarf hann hafa góða þekkingu á því tungumáli sem hann þýðir úr en hitt er þó mest um vert, að vera með trausta þekkingu á íslensku, hafa næmni fyrir henni. Þýðandi er eins og leynilöggan eða innbrotsþjófurinn í glæpasögunni, hann þarf að kunna á þjófalykilinn eða kóðann, geta læðst um öll skúmaskot, brugðið vasaljósinu á loft, leyst gátuna, laumast svo út aftur, loka á eftir sér og skilja ekki eftir sig nein spor. Þýðandi getur stokkið fullskapaður fram ef réttar forsendur eru fyrir hendi, góður grunnur og hæfni, en reynslan hjálpar alltaf og svo er góður yfirlesari ómetanlegur.

Þýðandi verður að þola mikla einveru, langar setur, einangrun og stundum jafnvel að gleymast alveg þegar fjallað er um verk hans, vera ekki nefndur á nafn. Rithöfundar hafa sagt við mig að það sé að mörgu leyti flóknara að vera þýðandi en höfundur. Höfundur ræður öllu en þýðandi verður að vera auðmjúkur þjónn, höfundur má nota alla þá sérvisku sem honum lystir í texta, þýðandi má helst ekki skilja eftir sig nein sérviskuleg spor, hann á að vera fínstilltur, auðmjúkur og fullkomlega meðvirkur. Svo má gjarnan taka fram svona í lokin að það er ákveðin tilhneiging á tímu tæknivæðingar, vélþýðinga og nýrra útgáfumiðla að gleyma vinnu þýðandans, og vilja sem minnst af henni vita.

Sólar nýtur ekki lengur í garðinn og kaffibollarnir hafa verið tæmdir. Takk Halla fyrir spjallið og fyrir að færa okkur heimsbókmenntir. Við sem erum lesendur, kaupendur og bókmenntaunnendur undirstrikum mikilvægi þýðinga fyrir íslenskar bókmenntir og gerum þá sjálfsögðu kröfu að nafns þýðanda sé ávallt getið.

Skáld.is

Íslenskur djammveruleiki

„Ég er ekki vön að keyra full. Ég veit alveg að það er sjálfselskt og heimskulegt að láta sér detta það í hug en ég var bara búin með tvo bjóra sem ég hafði líka ælt og eitthvað smá af grasgufu sem ég vissi ekki einu sinni hvort virkaði, þannig að ég keyrði bara af stað. Annars væri ekki það versta sem gæti gerst að vera tekin af löggunni og fá að gista í fangaklefa“ (87).

Svo mælir María, aðalpersóna í Millilendingu, skáldsögu frá 2017 eftir Jónas Reyni Gunnarsson. María kemur við í Reykjavík á leið til Köben og það gengur á ýmsu þennan sólarhring sem hún stoppar. Líf hennar er í tómarúmi, hún er nýhætt með kærasta og á ekki í nein hús að venda nema þá til pabba, sem er alltaf að skamma hana, eða ömmu sem krefst þess að hún fullorðnist.

María er alveg laus við að rogast með framtíðarplön, hún pælir ekkert í hlutunum heldur hugsar bara í hringi og berst með straumnum; ástand sem flestir kannast við frá einhverju skeiði ævi sinnar. Pabbi hefur keypt handa henni farmiða til CPH og hún veit sosum ekkert hvað bíður hennar þar. Og fær þá skyndihugdettu að fara bara hvergi, með eftirfarandi rökum: „Og ef það átti hvort eð er að neyða mig til að vera óhamingjusöm og finna mér einhverja vinnu sem ég hataði þá gæti ég alveg eins verið í Reykjavík“ (51).

Broguð sjálfsmynd

Framganga Maríu í sögunni einkennist af uppgjöf sem birtist m.a. í því að hún á erfitt með draga andann, getur varla geispað eða fyllt lungun. Sjálfsmynd hennar er eitthvað broguð, henni finnst hún líta út eins og hún sé 11-15 ára, fötin hennar eru ljót, síminn „Samsung piece of shit“ (8); þegar hún lítur í spegil er eins og það sé eitthvað að henni og hollningin er eins og hún hafi strokið af leikskóla. Svefnvana og hálfdópuð þvælist hún á milli staða og fólkið sem verður á vegi hennar er annað hvort hrikalega pirrandi eða alveg sama um allt. Hún hugsar hún með sjálfri sér í hrakningunum: „Áður en ég dey væri ég til í að hitta manneskju sem líður í alvörunni vel“ (148).

Lífið er flókið og erfitt þegar maður er ungur og lesandinn sveiflast milli þess að ætla að taka Maríu litlu í faðminn og vernda hana eða hrista óþyrmilega. Sýn hennar á tilveruna ber ekki vott um mikinn þroska eða bjartsýni, henni finnst t.d. frekar ósanngjarnt þegar pabbi hennar segir henni að hætta þessari vitleysu og taka sig á: „eins og allt sem ég lendi í sé mér að kenna“ (163).

Djúp kreppa

Lesandi fær lítið að vita um bernsku eða fortíð Maríu. Móðir hennar kemur hvergi við sögu en María virðist heimavön hjá ömmu sinni. Hún er reikul og ráðvillt og tilvistarkreppa hennar er töluverð en varla neitt verulega sár eða knýjandi. „Þegar ég hugsa um fortíðina man ég bara eftir einhverju sem lætur mér líða eins og fávita. Það er eins og allt sem ég geri endi með hræðilegri eftirsjá og nú fannst mér eins og það væri ekki lengur nein bið á því, mér leið bara alltaf eins og fávita yfir öllu sem ég var að díla við um leið og ég var að díla við það“ (117).

Þegar María rifjar upp samverustundir með pabba sínum man hún eftir ókláraðri mynd af Friðriki mikla á listasafni í Berlín sem þau skoðuðu saman forðum. Loksins fann hún til samkenndar, henni finnst hún vita hvernig málaranum líði; pirraður yfir að geta ekki lokið verkinu; og hvernig hershöfðingjunum líður sem með útkrotuð andit bíða fyrirmæla og mæna á auðan blett á striganum þar sem Friðrik mikli átti að standa (170-171). Táknrænt fyrir Maríu; hún er auður strigi og bíður eftir því að fá að vita hvernig hún eigi að lifa þessa orrustu af (171) – hún ætlar ekki að sigra, bara lifa af.

Y-kynslóðin

María og vinir hennar, Gaui og Brynja, eru af svokallaðri velmegunarkynslóð  eða Y-kynslóð sem fæddist um síðustu aldamót og er að verða fullorðin núna. Þetta er kynslóðin sem ólst upp við fjölmiðlabyltingu og tækniframfarir, sökkti sér í  tölvuleiki og kann á alla samskiptamiðla og snjalltæki. Kynslóð sem hugsar öðruvísi en fyrri kynslóðir, sér t.d. sáralítinn tilgang með fastri 9-5 vinnu. Vinnan sem Gaui sér fyrir sér að gæti hentað honum er að passa sadda ketti sem fólk færir honum, að vera „helgarpabbi fyrir ketti“ (40). Pælingin er að leggja ekkert á sig, bara chilla og hafa það geðveikt næs, spila Fallout og póker á netinu og panta pitsu. Þegar svona plön ganga ekki eftir, mætir fólk af velmegunarkynslóðinni mótlæti sem það kann ekki að takast á við, heldur verður magnvana og þunglynt. Í stærstum hluta bókarinnar líður Maríu illa; á flótta með ælubragð í munni og þjökuð af hugarórum.

En María er fyndinn og orðheppin manneskja í þessum ömurlegu aðstæðum. Þrátt fyrir doðann sem heldur henni í helgreipum, tekur hún eftir ýmsu í kringum sig, rifjar upp alls kyns atburði og lýsir ítarlega og miskunnarlaust klósettferðum og ælugusum, ropum, svita, hori og húðfrumum, skítugum sokkum, feitum bumbum og  vondri lykt. En hörðust er hún þó við sjálfa sig.

Djammið

Millilending er vel stíluð saga, fyndin og sár í senn, skemmtilega afslöppuð og leynir á sér. Hér er dreginn fram kimi sem er sjaldan á dagskrá, íslenskur djammveruleiki og samtími nýrrar kynslóðar. Myrkt og drungalegt vetrarumhverfið er leikmynd einmanakenndar og þrúgandi vanlíðunar þessa unga fólks sem leitar lífsfyllingar í hverfulum heimi og flýr á náðir vímu, hálfkærings og afstöðuleysis.

Í lokin hefur María náð botninum, komin upp í rúm hjá lúðalegum gaur í von um samskipti sem eru ekki bull (166). Orðalagið þegar hann „byrjaði að sofa hjá mér“ sýnir annað hvort það hversu María er fjarlæg sjálfri sér að átta sig ekki á hvað er að gerast, eða þá að það þykir ekki við hæfi að tala um að ríða eða nauðga í svona flottri skáldsögu eftir svona efnilegan höfund fyrir svona teprulega lesendur.

Víðsjá, 8. nóv. 2017

Annáll þjóðhátíðarársins

Hvurgi er komið að tómum kofa hjá Oddnýju minni:

Með sóma er hátíðarárið á enda.

En á það mig langar þó snöggvast að benda,

sem áður var sannað i sextíu ræðum

og samhljóða lofað i rituðum fræðum.

Þær hljóðuðu svona, þær sextiu ræður,

og sægur af greinum og minningaskræðum:

(Ég segi það hérna i örfáum orðum,

i örlitlum brag til að syngja undir borðum).

Háttvirtu landar, nú hefur það sannazt,

að háöldruð þjóð getur endalaust mannazt.

Heilan dag stóðum við hljóðir og prúðir,

með hugann við Þingvalla fornhelgu búðir.

Við stóðum sem hetjur á stöðugum fótum,

í stað þess að skriða i vilpumog gjótum.

Þar voru engir fólar með víndrykkjublaður.

Það var ekki drepinn einn einasti maður.

Menn óku ekki: fullir á stokka og steina,

en stefndu í rétta átt götuna beina,

og vegmóðir fengu ekki vambfylli neina.

Nú veitti ekki Ríkið sinn þjóðlega beina.

Menn fóru ekki um tjöldin með ráni og rupli

og reyndu ekki að auðgast á smávegis hnupli.

Trjágróður var ekki rifinn með rótum,

og remma var engin frá sorphaugum ljótum.

Einhverjir bjuggust við allt öðrum fregnum

af íslenzka ríkisins kynbornu þegnum.

Nú er ekki blessaður Frónbúinn feiminn.

Frægð okkar berst út um gjörvallan heiminn.

 

Oddný Guðmundsdóttir, 1974

„Hef ekki herbergi út af fyrir mig“

Ég er stolt af þessu viðtali við Sigríði Kristínu Þorgrímsdóttur um ævisögu Jakobínu Sig. Birt á skáld.is, í desember 2019. 

Í Kennarahúsinu við Laufásveg í Reykjavík sitjum við Sigríður Kristín Þorgrímsdóttir yfir kaffibolla. Hún er kölluð Sigga Stína, dóttir Jakobínu Sigurðardóttur, og höfundur ævisögu hennar sem tilnefnd er bæði til íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki fræðibóka og rita almenns efnis og til Fjöruverðlaunanna. Það er vel við hæfi að hittast í Kennarahúsinu en Jakobína ól ung með sér draum að verða kennari en fátækt og veikindi komu í veg fyrir að sá draumur rættist. 

Jakobína er einn af merkustu rithöfundum 20. aldar. Eftir hana liggja níu skáldverk og tvær bækur hennar voru tilnefndar til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Á dögum hennar var staða kvenrithöfunda erfið og viðtökur ekki alltaf uppörvandi. Talað var niður til kvenrithöfunda og skáldskapur þeirra beinlínis sagður lítilsigldur. Það brennur á okkur Siggu Stínu. Eftir að hafa hellt bollana fleytifulla af snarpheitu kaffi hefst spjallið.

 Talaði Jakobína eða skrifaði um stöðu sína sem rithöfundar í karlaheimi? Ég man hún hafi flutt einhvern tímann erindi í útvarp um kynbundið uppeldi og jafnrétti. Var hún femínísti?

Já, ég held að hún hafi talað um þetta, hún sagði að aldrei væri talað um heimilisaðstæður karla þegar rætt væri um bækur þeirra, eins og gert var varðandi hennar verk. Þá á ég við að sífellt var verið að tala um hve merkilegt væri að kona í sveit og með öll þessi börn skyldi gefa út bækur. Varðandi jafnréttismálin, þá hefur hún síðar meir fengið gagnrýni fyrir klisjukenndar kvenímyndir, eins og kennslukonuna í Dægurvísu. En hún var hlynnt jafnrétti kynjanna og sýndi það víða í skrifum sínum, bæði skáldskap og blaðagreinum.

 

Vist og kaupamennska, láglaunavinna og basl einkenndu yngri ár Jakobínu, það virðist vera svo langt síðan þetta var hlutskipti ungra kvenna á Íslandi en er þó svo stutt. Þura í Garði naut t.d. ekki skáldskaparhæfileika sinna, náfrænka Starra, eiginmanns Bínu. Bríet Bjarnhéðinsdóttir er nefnd til sögunnar en hún var ekki sú eina sem lagði eitthvað af mörkum til kvennasögunnar?

Bríet er eins og Everest í íslenskri kvennasögu! En að sjálfsögðu var hún ekki ein á báti. Kvenfélögin höfðu menntun kvenna og bætta stöðu kvenna á stefnuskrá sinni og ekki má gleyma Kvenréttindafélaginu sem barðist að sjálfsögðu fyrir réttindum kvenna og þar má t.d. nefna konu eins og Þorbjörgu Sveinsdóttur. Bríet var hins vegar mikill brautryðjandi og óþreytandi baráttukona svo það er ekki skrítið að nafn hennar heyrist oftast.

Jakobína er afar lipurt ljóðskáld en segist ekki vilja yrkja, nema bara sér til hugarhægðar. Það er mjög áhugavert að lesa um efasemdir hennar, vonir og drauma í bókinni þinni. Heldurðu að hún hafi verið sátt?

Held að ekkert skáld sé sátt við æviverkið. Ég ímynda mér að hún, eins og svo margir aðrir, hafi ætlað sér að skrifa svo miklu meira. Eflaust var hún eins sátt og hægt var við það sem hún fékk gefið út, að baki hverrar bókar lá mikil vinna.

 

Í bókinni nefnir þú veikindi, erfiða andlega heilsu, þunglyndi og sjálfsvígshugsanir. Varðstu vör við þetta á heimilinu í Garði í Mývatnssveit?

Ég nefni sjálfsvígshugsanir sem möguleika á hennar yngri árum og byggi það á bréfum sem hún fær sem svar við einhverju sem hún hefur skrifað. Ég held samt ekki að það hafi rist djúpt. Þyngslin voru meiri á yngri árum – en jú, við systkinin fundum alveg fyrir því að mamma væri ekki alltaf létt í lund. Hún tók sér daga til að sinna þunglyndinu. Svo var nú þetta með breytingaskeiðið; læknar jusu ávanabindandi lyfjum í konur og það tel ég hafa verið slæmt fyrir mömmu. Ég áttaði mig ekki á þessu sem þyngslum fyrr en ég hafði þroska til að meta slíkt. Ég óttaðist þessi köst hennar, þurfti nefnilega að fela þau fyrir nágrönnunum, fannst mér. Hún var stíf í lund, ekki mjög sveigjanleg. Við urðum að lúffa fyrir lögmálum hennar, annars mætti manni kuldi og þögn. En svo var hún líka svo létt og skemmtileg, með góða kímnigáfu og svo notalegt að sitja með henni og rabba um heima og geima. Lífskjör hennar og aðstæður voru þannig að mér dettur ekki í hug að áfellast hana fyrir skapbresti eða óstjórn, ég vil fremur minnast góðu stundanna.

Bréfin, já. Mér svelgist á kaffinu við að hugsa um fjögur horfin bréfasöfn. Og dagbók sem er brennd á báli! Hvað á kona að gera ef hún er beðin um að farga slíku góssi?

Einmitt! Þegar mamma dó var ég í svo mikilli sorg. Dóttir mín var nýfædd, kannski flæddu hormónarnir stjórnlaust um líka. Í mínum huga kom ekki annað til greina en að hlýðnast óskum mömmu um að brenna bréf og dagbækur. Ég dauðsé eftir þessu, en gert er gert og kannski myndi ég gera þetta líka núna ef ég stæði frammi fyrir slíku.

Í bókinni eru skemmtilegar senur þar sem þið mæðgur spjallið saman, hún lifnar þar alveg við, sú gamla. Húsverkin hafa verið krefjandi, borðaði hún út í horni? Var hún sífellt að vinna? Skrifaði hún á nóttunni?

Oft borðaði hún við eldhúsbekkinn en ekki við borðið með hinum. Að sumu leyti held ég að það hafi verið af andúð á afa og svo voru líka húsmóðurskyldurnar, að þurfa kannski að bæta mat á borð, þá var allt eins gott að sitja þar sem var auðvelt að athafna sig.

Varðandi skriftirnar og húsverkin; einhverjir héldu eflaust á sínum tíma að skrifin bitnuðu á húsmóðurskyldunum, en það var nú ekki þannig. Hún skrifaði oft á nóttunni, sagðist ekki hafa þurft mikinn svefn fyrr en hún tók að eldast. Svo kom föðursystir mín á hverju sumri með fjölskyldu sína og sá um heimilið í einhverjar vikur meðan mamma skrifaði. Það voru einu skiptin sem hún hafði almennilegan vinnufrið. Þegar við systkinin uxum úr grasi fór hún stundum suður og fékk inni einhvers staðar þar sem hún gat unnið.

Þú nefnir í bókinni klemmuna um hlutlausa fræðimennsku og það að skrifa um móður sína, nærtækan og persónulegan efnivið. Hún er goðsögn í bókmenntum, róttæklingur og athvarf þitt og skjól, sterk kona, fyrirmynd þín. Hvernig valdir þú sjónarhornið, hvernig gekk að finna frásagnaraðferð?

 Ég vinn allt öðru vísi en mamma gerði, enda voru tölvurnar ekki til þegar hún var að skrifa. Ég veð áfram og skrifa allt sem mér dettur í hug og síðan finn ég smám saman hvernig ég vil nálgast efnið. Mamma glímdi lengi við sín skáldverk í huganum áður en hún tók að skrifa. Þá mátaði hún ýmsar formgerðir og svo átti hún það til að skrifa allt upp á nýtt ef henni líkaði ekki formið, eins og hún gerði með Lifandi vatnið. Bara með penna og ritvél að vopni. Ég ætlaði að skrifa af hjartans lyst út frá sendibréfum fyrst og fremst og láta fræðimennskuna lönd og leið. Skrifa stutta bók. Það stangast samt á við það sem ég lærði í sagnfræðiskor Háskóla Íslands, ég er nefnilega með meistarapróf í sagnfræði og hef skrifað ýmislegt efni fræðilegt, t.d. kennsluefni í sögu. Þannig að meðan ég vann textann svona kæruleysislega þá setti ég samt inn tilvísanir og neðanmálsskýringar til að halda þeim til haga. Eftir því sem verkið óx og stækkaði sá ég að ég yrði að vinna þetta með slíkum hætti, þetta væri svo mikið heimildaverk.

 

 

En ég hafði efasemdir um að kollegar mínir í sagnfræðinni fengjust til að viðurkenna þessa sögu sem sagnfræði, þar sem viðfangsefnið stendur mér nærri og ég nálgast frásögnina svo persónulega. Slíkt er auðvitað ekki óþekkt innan sagnfræðinnar, ekki einu sinni að eiga samtal við rannsóknarefnið. Um það vissi ég reyndar ekki, þetta með samtalið, heldur var mér bent á það eftir á. Þegar ég var að skrifa svona um einkamál mömmu og líf hennar, þá glímdi ég auðvitað við svolítið samviskubit, vitandi það að hún hefði aldrei nokkru sinni látið annað eins á prent. Ekki einu sinni sagt frá því. Því fékk ég þessa hugmynd, að í stað þess að glíma bara við samviskuna – og mömmu – í huganum, að búa til þetta samtal við hana. Einhverjir yfirlesara minna voru í fyrstu með svolitlar efasemdir, en ég var alveg hörð á þessu og flestir sem ég heyri til eru mjög hrifnir af þessari nálgun. Þeir sem þekktu mömmu finnst þeir jafnvel heyra í henni!

Fram kemur í bókinni að Jakobína hafi verið óstöðug og stjórnsöm, tekið læknadóp og verið sívinnandi. Hvernig var hún á heimilinu? Ég man nefnilega aðeins eftir henni, afskaplega grönn og síreykjandi, líka á nóttunni. Hún þekkti afa minn og ömmu og foreldra mína, hún dvaldi hjá okkur fjölskyldunni í nokkrar nætur í Köben þegar við bjuggum þar 1976. Mér þykir alltaf doldið vænt um þessa minningu.

Ha? Nú verður þú að ættfæra nánar! Hvaða fólk er þetta?

Afi minn var líka rithöfundur á Norðurlandi, Einar Kristjánsson frá Hermundarfelli. Ekki er ólíklegt að hann hafi beðið foreldra mína fyrir Bínu.

Þá hefur þetta verið 1977, sem hún segir frá í bréfum sínum, þegar hún var á leið til Stokkhólms í tilefni sænskrar þýðingar á Lifandi vatninu. Þá stoppaði hún einmitt í Kaupmannahöfn. Svona er nú heimurinn lítill.

En að spurningu þinni, mamma stjórnaði með þögninni. Ef henni mislíkaði gat hún skammað mann, síðan tók þögnin við og stóð þess vegna í nokkra daga, allt eftir stærð brotsins. Hún var afar sterkur persónuleiki og við beygðum okkur undir hennar lögmál, öll börnin og kannski ég mest, enda mesta mömmubarnið. Hún var harðdugleg og sívinnandi. Þó svo einhverjar kellingar í sveitinni hafi baktalað hana sem lélega húsmóður (og einhverjir karlar sönglað með) þá var það helber lygi. Hún eldaði, bakaði, tók slátur og allt það, saumaði, prjónaði, gerði við fatnað, tók börn í fóstur, var í stöðugri gestamóttöku og guð veit hvað. Veit ekki hvað sumum þótti vanta þar á, nema ef vera skyldi þessi dauðasynd að gera eitthvað annað en að vera móðir og húsmóðir.

 Hún var viðkvæm og mátti ekkert aumt sjá. Henni féll illa ef fólk kom illa fram við dýr og við minnimáttar. Til dæmis man ég að þegar ríki kommúnismans voru að falla og taka átti Sjáseskú og frú af lífi í Rúmeníu ca. 1989, þá lá við að hún legðist í bælið, ekki af því að þau væru á neinum stalli í hennar huga, heldur vegna þess hvað þetta ofbauð hennar mannúðarhugsun. Hún var góð við krakka, talaði alltaf við þau eins og fólk og af virðingu. Á síðari árum kynntist ég betur hve gamansöm hún gat verið og „aðhlægin“ eins og hún sagði sjálf. Ef henni fannst eitthvað verulega spaugilegt þá veltist hún um af hlátri.

 

Ég tala um læknadóp, já, því var ausið í hana þegar henni leið illa á breytingaskeiðinu. Ég tel, án þess að hafa rannsakað það, að þetta hafi verið gert í miklum mæli við íslenskar konur (kannski erlendis líka). Breytingaskeiðið hafði í för með sér svefnvanda og þungar hugsanir; ráðið var valíum, diazepan og mogadon eða eitthvað þvíumlíkt, vanabindandi róandi lyf og svefntöflur. Hins vegar var hún svo stíf á prinsippinu að ég held að þetta pilluát hafi aldrei farið neitt villimannlega úr böndunum. Hins vegar drakk hún sig stundum fulla þegar mjög illa lá á henni og það fannst mér miklu verra. Ekki að hún væri neitt úti í sveit að skandalísera, heldur lokaði hún sig af. Þetta var e.t.v. bara eitt síðdegi eða kvöld, daginn eftir var eins og ekkert hefði í skorist. Eftir að hafa skoðað ævikjör hennar betur finnst mér þetta skiljanlegt. Hún var svo einmana og um margt ósátt við ævikjör sín. Ég er viss um að ég hefði farið margfalt lengra út á galeiðuna í hennar sporum!

Naut Bína aldrei sannmælis, kona í karlaheimi sem bjó fyrir norðan, var hennar hlutskipti svipað og Oddnýjar Guðmundsdóttur, skáldkonu frá Hóli á Langanesi? Gat hún aldrei almennilega helgað sig köllun sinni? Er það fórnin sem konur færa eilíflega vegna móðurhlutverks, eiginkonustöðu og brauðstrits?

Oddný var vinkona mömmu, hún var einhleyp og starfaði sem farkennari. Hún hafði því tvennt fram yfir mömmu, menntun og frelsi (upp að vissu marki). Mamma þráði menntun en fékk ekki. Og móðurhlutverkið og brauðstritið kom auðvitað í veg fyrir að hún gæti helgað sig köllun sinni, en um leið skapaði það henni tækifæri til að skrifa. Hefði hún átt heima í bæ þar sem hún vann fastan vinnutíma, e.t.v. gift verkamanni og með öll þessi börn, þá hefði það aldrei gengið. Í sveitinni gat hún hagrætt verkunum og leyft sér að vaka á nóttunni og leggja sig á daginn. Oddný þurfti ekkert að velta þessu fyrir sér en hún þurfti að vinna og hún var kona og konur áttu erfiðara uppdráttar með að koma ritverkum sínum á framfæri.

Það er við hæfi að fá sér meira kaffi núna, þegar hugurinn leitar að kellingabókaumræðunni. Hin fræga sena þegar karlar niðruðu bækur kvenna í fjölmiðlum á sjöunda áratugnum og dr. Helga Kress dró fram í dagsljósið, erum við ennþá þar?

Ja – við erum með Fjöruverðlaun, ekki satt? Segir það ekki dálitla sögu? En samt, ég held að við færumst fjær með ári hverju. Þetta er samt ekki eins og hraðlest, meira eins og hægfara sveitalest sem stoppar á hverri stöð.

 

Hjónaband Bínu og Starra í Garði, sannast þar að ástin er sterkari en listin? Kom þeim vel saman? Átti hann ekki sinn þátt í að ekki var gert neitt í því að tengdafaðir Bínu beitti fjölskylduna ofbeldi? Gat hún fyrirgefið það? Hún fer ekki burt en hvert hefði hún getað farið? Hefði brottför eða skilnaður frelsað hana?

Ég veit ekki hvað segja skal. Listin var nú kannski sterkari en ástin, vegna þess að mamma/Bína brotnaði svolítið og hún átti í raun ekki val. En hún var alltaf að hugsa um listina, um það sem hún þráði heitast að gera. Hún var yfir sig hrifin af pabba og þau hvort af öðru. Ástandið heima fyrir reyndi verulega á samband þeirra. Bróðir minn myndi eflaust halda því fram að hjónaband þeirra hafi verið hörmung, en ég er ósammála. Pabbi studdi hana eindregið varðandi rithöfundarferilinn. Það var bara svo takmarkað sem hann gat gert, þau þurftu bæði að strita myrkranna á milli. Ég held að hann hefði gert allt til að létta undir með henni, hefði hann getað. Og þau deildu skoðunum og um margt áhugamálum og þau gátu oftast talað saman. Þetta skrifar hún líka til móður sinnar, eins og fram kemur í bókinni. Já og þetta með að fyrirgefa – það held ég að hún hafi gert og hún álasað sjálfri sér líka, er það ekki bara svolítið dæmigert fyrir okkur konur?

Það er greinilega mikil togstreita í sál Bínu, hún er mjög lokuð manneskja og talar ekki um tilfinningar eða erfiða atburði, það er talað um vestfirska þögn í bókinni. Er hún nú afhjúpuð?

Já, þögnin er sannarlega rofin. En ég afhjúpa auðvitað ekki allt sem ég veit. Ég afhjúpa bara það sem mér finnst þjóna tilgangi í frásögninni. Ég get nefnt sem dæmi að ég skrifa talsvert langt mál um föðurafa minn. Ég komst að ýmsu um hann í leit minni, ég segi ekki frá því öllu vegna þess að ég sé ekki að ég þurfi fleiri drætti í þá mynd. Mamma fær líka að eiga einhverja hluti í friði. Sjálfsagt ekki nógu marga, hefði hún fengið að ráða.

 

Hef ekki herbergi út af fyrir mig, segir Jakobína. Er það sérherbergið sem Virgina Woolfe þráði svo heitt á sínum tíma? Bínu langar að dvelja heima um hríð í herbergi Guðnýjar systur því hún getur ekki unnið í Garði, segir hún. Þá er hún að skrifa Lifandi vatnið. Fríða systir hennar fékk betri tækifæri, bæði til að mennta sig og sinna sínum skáldskap. Mun kvenrithöfunda alltaf vanta sérherbergi til að geta skrifað?

Þegar mamma skrifaði sínar bækur áttu konur erfitt uppdráttar í bókmenntaheiminum. Skrif þeirra náðu ekki eyrum bókmenntaskríbenta sem allir voru karlar. Viðmið „góðra“ bókmennta voru rit karla. Ég veit ekki hvort hætt er að lýsa bókum eftir konum sem litlum huggulegum bókum, eins og svo oft var gert, með áherslu á „litlar“. Konur höfðu fæstar efni á að sitja við skriftir. Mamma var lítið skólagengin og hafði ekki efni á menntun. Hún gat ekki, eins og samtíðarkarlar margir hverjir, rifið upp pening með því að fara á vertíð (eins og Þórbergur lýsir t.d. í Ofvitanum) til að komast í Kennaraskólann, eins og var markmið hennar. Enginn vildi kosta skrif hennar, eins og gert var fyrir Halldór Laxness. Fyrir utan það að Laxness þurfti ekkert að hafa fyrir heimilishaldinu, Auður sá um það. Pabbi var fullkomlega ósjálfbjarga í eldhúsinu!

 Varðandi spurningu þína, þá held ég að hlutirnir hafi breyst mjög mikið. Enn eru þó konur skylduræknari og með meiri ábyrgð á herðunum en karlar. Þá á ég ekki við „opinbera“ sviðið sem er t.d. á vinnumarkaði, heldur einkasviðið, heimilið. Þær eiga pottþétt erfiðara með að taka sér tíma heima heldur en karlar.

Þú vilt breyta umsögn um Jakobínu þannig að hún setji stétt jafnt kyni. Af hverju?

Bína/mamma var eldrauð í sinni lífsafstöðu. En hún var aldrei neinn sellukommi og skellihló þegar ég spurði hana eitt sinn að því. En sósíalisti, jú, það var hún í anda. Hún var samt aldrei virk í stjórnmálaflokki, mér vitanlega. Stjórnmálabarátta hennar var á vettvangi hernaðarandstæðinga, þeirri baráttu helgaði hún krafta sína. Ég varð ekkert tiltakanlega vör við viðhorfið „stétt gegn stétt“ eins og oft heyrðist meðal vinstrimanna. Verk hennar einkennast af gagnrýninni hugsun, ekki upphafinni dýrkun verkamannastéttarinnar. Hins vegar fyrirleit hún auragræðgi og peningadýrkun. Auðvaldið átti ekki upp á dekk hjá henni.

 

Mér finnst gagnrýni sumra feminískra bókmenntafræðinga á verk hennar byggð á misskilningi. Vissulega má segja að sumar konur í verkum hennar séu klisjukenndar. En erum við þá að segja að slíkar tilfinningar hafi ekki fyrirfundist? Að aldrei hafi verið til miðaldra kona sem hafði farið á mis við ástina og séð eftir því? Eða má ekki segja frá því? Það sem vekur mig til svolítillar uppreisnar er lýsing kvenna sem eru eins og brúður, komast áfram út á útlit og kynþokka, eiga góða fyrirvinnu og hugsa bara um útlit og veraldleg gæði en þykjast ekki hafa vit á neinu öðru. Eins og Svava í Dægurvísu. Ég er ekki í vafa um að nóg var af lifandi fyrirmyndum, en mér finnst mamma dæma þær svolítið hart. Þær voru bara afurð ríkjandi fyrirkomulags og hlutverks kvenna innan þess. Af hverju ég segi að hún setji jafnrétti kynjanna jafnt stéttabaráttu? Jú, vegna þess að jafnrétti kynjanna er rauður þráður í skrifum hennar og þau mál voru henni afar hugleikin.

Skemmtilegur er lokakaflinn þar sem Bína sjálf segir álit sitt á bókinni í sviðsettu samtali ykkar mæðgna. Ertu þá búin að ljúka kafla í lífi þínu, koma frá þér fargi eða skyldu, ljúka köllun þinni með þessari bók?

Jú, ljúka kafla í lífi mínu, það er rétt lýsing. En ég myndi aldrei kalla það farg eða skyldu. Ég hef mikla ánægju af að skrifa, hvort heldur er sagnfræði eða skáldskapur en er samt byrjandi þar. Auðvitað hvílir á manni að þurfa að klára verk fyrir ákveðinn tíma og viss léttir að ljúka því. Og mér fannst ég verða að skrifa þessa bók – hún átti reyndar aldrei að verða svona stór, en þannig eru skriftir, þær þróast og ekki hægt að sjá fyrir hvernig, jafnvel þótt höfundurinn setji sér stefnu og markmið.

 

Mér heyrist þú ætla að skrifar meira? Ertu kannski með sérherbergi?

 Alltaf skrifandi. En ég er fullvinnandi kona og vinnan er oft krefjandi og stundum koma tímabil þar sem ég ferðast mikið og hef þá ekki tíma til skrifta. Ég fæ alls konar hugmyndir, hef skrifað skáldsögu sem ekki náði í gegn sem fullunnið ritverk og er líka með hugmyndir að annars konar ritverk. Árið 2013 kom út bók eftir mig sem heitir Alla mína stelpuspilatíð. Hún var einskonar feminísk ævisaga, ég var að velta fyrir mér kjörum kvenna fyrr og nú og notaði eigin æviatriði sem grunn. Þessi bók varð satt að segja talsvert vinsæl, alls konar fólk hringdi í mig eða skrifaði og þurfti að ræða efni hennar. Það var svo skemmtilegt. Hún varð ekki metsölubók, en seldist samt upp, held ég. Fékk engin verðlaun en þessar viðtökur, jafnvel að fólk stoppaði mig inni í verslun til að ræða bókina, voru það besta sem hægt er að fá. Þá bók skrifaði ég meðfram krefjandi vinnu og hafði mitt eigið litla sérherbergi með bókunum mínum. Þetta var meðan ég bjó í Skagafirði. 

Hér í borginni er ég líka með indælt vinnuherbergi með allt sem ég þarf. Maðurinn minn hvetur mig áfram og styður allt sem ég tek upp á. Það má segja að hann eigi stóran þátt í tilurð bókanna, því með fyrri bókina rak hann mig til að senda uppkast til útgefanda og með þessa bók hvatti hann mig til að halda inni þessum fræðilega vinkli. Án hans hefði ég líklega ekki fengið þessar tvær tilnefningar til bókmenntaverðlauna, sem eru svo ótrúlega ánægjulegar og hvetja mig áfram. Samt finnst mér eiginlega að mamma og konurnar í Hælavík á Hornströndum og í Garði í Mývatnssveit séu að fá viðurkenningu frekar en ég.

Takk Sigga Stína, fyrir að halda heiðri Jakobínu á lofti, rjúfa þögnina um hana og leyfa okkur að kynnast henni og þér.

Kaffið hefur kólnað meðan á spjallinu stóð, Sigga Stína orðin óróleg og lítur á úrið sitt, því hún hefur lítið komist í jólaundibúninginn vegna anna við að kynna bókina sína. Við erum búnar að tala okkur heitar um konur og skáldskap og höldum hugdjarfar út í frostið og snjóinn.

12. desember 2019

Steinunn Inga Óttarsdóttir

Táknþrungin endurfæðing

cf136036 (1)

Listaverk: Konstantin Antioukhin

Ný skáldsaga Soffíu Bjarnadóttur, Hunangsveiði, er djúp og safarík. Löðrandi í sætu hunangi orða og skapandi myndmáls um líkamlegan sársauka og andlegar þjáningar, ástina og fyrirgefninguna. Líkt og í fyrstu skáldsögu Soffíu, Segulskekkju, er arfur kynslóðanna til umfjöllunar; áföll og angur erfast og eru helsi á framfarir mannkyns (sjá umfjöllun um Segulskekkju).

 Hunangsveiðimenn eru í rauninni til. Þeir spranga í klettum Nepals og safna dýrmætu hunangi meðan býflugurnar sveima öskureiðar í kringum þá, stinga þá jafnvel í augun. Silva Saudade, aðalpersóna sögunnar, er með vængjað skordýr fast í vinstra auga, dapurlegt tákn fyrir hana sjálfa sem berst um í eðjunni og getur ekki breitt út vængina. Silva er buguð þegar hún leitar til tengslafræðingsins Tómasar O. sem fer með hana í ferðalag um fortíðina ásamt hinum bráðmyndarlega Rónaldi sem firrtur og fjarlægur nærist á hverri konu sem verður á vegi hans.

 Í sögunni seytla blóð, sæði, tár og sviti þar sem þau þrjú dvelja á niðurníddu heilsuhæli sorgmæddra í Portúgal í leit að svörum við lífsgátunni. Öll skynfærin eru virkjuð, húðin er ofurnæm, lykt leggur af öllu, sársauki býr um sig í augunum. Textinn er ákaflega fallegur, myndrænn og mergjaður, þrunginn táknum; seigfljótandi mjakast sagan áfram í átt að uppgjöri en ekki er víst að öll þrjú komist af. Það dregur jafnt og þétt af þeim, skynjunin víkkar og sársaukinn vex, það er næstum óbærilegt að lesa síðustu kaflana.

 Skordýr hafa áberandi hlutverk í sögunni og prýða bókarkápuna þar sem pera og píka renna saman. Í líffræði skordýra felst endurfæðing sem vonandi er það sem Silvu hlotnast eftir allar þjáningarnar. En þegar skordýrin deyja er ekki lengur lífvænlegt á jörðinni.

„Sorgin hylmdi yfir það sem raunverulega á sér stað. Þjáningin er og við leitum stöðugt að leið út úr henni. Við þurfum ekki endilega að hugsa um sorg, Hún er þarna. Hún kemur og fer og kemur aftur upp úr djúpinu. Eins og selur lyftir kolli sínum upp úr sjó. Hún er. Við því verður ekkert gert. Allt er hverfult og það er sorglegt. Skordýrin eiga sér líka langa sársaukafulla sögu. Hugsið ykkur alla umbreytinguna og hamskiptin. Að klekjast út úr sjálfum sér, endurfæðast.“ (79)

Birt á skald.is, 24.11. 19

Mulningsbaka Nadiyu

half_a_pear_crumble_83241_16x9.jpgSá þessa í sjónvarpinu!

Flysja perur (hálf á mann) og skera í tvennt og hita í potti, í eplasafa eða rauðvíni í ca hálftíma með vanillu úr einni stöng

25 g smjör og  25 g hveiti og 25 g hrásykur og 100 grömm af múslí hrært saman

Veiða perur upp og setja í eldfast mót og nota safann í pottinum til að búa til sýróp með 150 g af hrásykri, hita rólega þar til það er orðið að karamellu

Setja marsipankúlu (eða eitthvað gott) í holurnar á perunum og klessa deiginu oná, inn í ofn í 20 mín.

Taka út, einn peruhelmingur á mann með ísskúlu og sýrópi.