Tónlist

Slagarar sem kveikja í gömlu

ELO í Hörpu

Ég hef árum saman verið mikill ELO-aðdáandi. Á níunda áratugnum var ég með lögin þeirra á heilanum og átti flestar plöturnar. Lög eins og Shine a little love, Confusion, Mr. Blue Sky og Living Thing (uppáhalds)  eru sígilt gæðapopp. Við Halla frænka voru alveg heillaðar, tókum Discovery upp á ótal kassettur og skelltum svo þemaplötunni TIME undir nálina á gamla Grundig-grammófóninn hjá afa og ömmu á Akureyri, spiluðum og dönsuðum og sungum með. Á laugardagskvöldið voru ELO-tónleikar í Hörpu og ég lét mig ekki vanta. Stuðið fór rólega af stað og mér fannst hreinlega eins og það væri dósahljóð í flutningunum þar sem ég sat uppi á svölum, en það skánaði eftir hlé. Þarna voru úrvals hljóðfæraleikarar, m.a. Bryndís Halla Gylfadóttir á selló og einhver fiðlusnillingur en strengir eru auðvitað möst hjá ELO.  Fimm söngvarar skiptust á að taka 1-2 lög og ég verð að segja að Magni Ásgeirsson skaraði þar fram úr. Hann var sá eini sem flutti lögin  með sínu nefi, lagði soldið af sjálfum sér í þetta. Pétur Örn er næstur á gæðaskalanum, hann nær sömu tóntegund og Jeff Lynne með léttu og hafði einhvern veginn diskóið alveg í sér, gerði þetta mjög vel og maður fann að hann fílaði lögin.  Eyþór Ingi var einhvern veginn bara í vinnunni og þeir Jóhann Helgason og Eiríkur Hauksson fóru þetta á gömlum sjarma. Bakraddirnar voru oftast góðar, þær eru líka ELO-möst, og Pétur Örn átti mestan heiður af þeim. Ég skemmti mér stórkostlega vel og var farin að dansa trylltan dans á svölunum ásamt hinum 1800 gestunum þegar síðasta lagið kom, Don´t bring  me down.

Freddie Mercury í Hörpu

Freddie Mercury (1946-1991), drottningin í Queen, var einn allra besti rokksöngvari 20. aldar, hann var öflugur  laga- og textahöfundur og hafði rödd sem spannaði fjórar áttundir. Fjörug sviðsframkoma, há kinnbein, skakkar tennur, ber bringa og þröngar sokkabuxur tryllltu lýðinn í þau 20 ár sem hann var í sviðsljósinu.Í gær voru tónleikar til heiðurs honum í Hörpu. Fimm karlar (Hulda Björk Garðarsdóttir söng eitt lag) tóku Queen- lögin með flottri hljómsveit og bakröddum, það voru þeir Eiríkur Hauksson, Eyþór Ingi, Friðrik Ómar, Magni og Matthías Matthíasson. Tónleikarnir fóru rólega af stað, nokkrar syrpur voru teknar og svo skiptust söngvararnir á að flytja uppáhaldslögin sín. Síðasta lag fyrir hlé var Bohemian Rhapsody í mjög vel heppnaðri útsetningu. Ég er ánægð með tónleikana þótt salurinn væri daufur og þvingaður, Eldborg býður ekki upp á mikið stuð, allir eru í fínu fötunum og sitja eins og dúkkur í dýru sætunum sínum. Ekki fannst mér Friðrik alveg nógu góður í uppáhaldslagin mínu, Somebody to love, en hann bræddi mig samt þegar hann snaraðist að trommusettinu í lokin og spurði út í sal: Hélduði að hommar gætu ekki spilað á trommur? Eyþór Ingi var langmesti stuðboltinn, röddin alveg frábær og það geislaði af honum sönggleði og ástríða fyrir flottri rokktónlist. Magni er góður líka með kröftuga rödd og töffaralega sviðsframkomu en hann rífur alltaf míkrófóninn frá andlitinu svo lokatónar hverrar hendingar verða  endasleppir. Hjálagt er heiðursvídeo sem gert var um Mercury í tilefni af 65 ára ártíð hans í fyrra. Hann veitti ekki mörg viðtöl um ævina og forðast fjölmiðla en var hundeltur af gulu pressunni, ekki síst síðustu æviárin vegna þráláts orðróms um heilsubrest vegna alnæmis sem varð svo hans banamein.

[youtube=http://www.youtube.com/watch?v=Uuqx11UOOP4&list=PL3C1EFC4D34B2C5DC&index=1&feature=plpp_video]

Hvað varð um Kim Wilde?

Breska eitíssöngkonan Kim Wilde (f. 1960) er flestum gleymd á Íslandi. Hins vegar er hún enn að syngja og nýtur víða mikilla vinsælda í Evrópu, t.d. í Þýskalandi (sem er nú alltaf frekar púkalegt). Hún hefur gert nokkar plötur sem hafa selst vel og haldið tónleika í mörgum löndum við mikinn fögnuð. Nýlega undirritaði hún plötusamning við Sony og von er á koverlagaplötu frá henni í lok þessa mánaðar. Ég bíð spennt, kannski mætir hún í Hörpu? Hér er eitt stuðlag með henni (gamla Supremes-lagið), textinn þrunginn boðskap og vindasamt vídeóið táknum hlaðið.

Dynheimar 1982

Á Dynheimaballinu á Akureyri um verslunarmannahelgina var þetta tekið með stæl á einu sveittasta og fjölmennasta balli sem ég hef verið á í mörg ár. Var alveg búin að gleyma þessu lagi og skildi þetta aldrei: „I think they got the alias, that you´ve been living under“. Þetta er heilræðavísa til stúlkunnar Gloríu sem er að gera einhverja gloríu. Etísvídeó og eitíslag frá helvíti: