Tónlist

Slagarar sem kveikja í gömlu

Tónleikar

Hildigunnur Einarsdóttir hélt burtfararprófstónleika í gær í Bústaðakirkju. Hún á ekki langt að sækja tónlistarhæfileika sína, móðir hennar er Jóhanna Þórhallsdóttir, söngkona og kórstjórnandi, og faðir hennar Einar Kristján Einarsson, gítarleikari og föðurbróðir minn. Í einu orði sagt voru tónleikarnír frábærir, Hildigunnur syngur eins og engill, með tæra og fallega mezzósópranrödd, einlæga framkomu og er bara algjört sjarmatröll. Amma kom að norðan og naut hverrar mínútu. Kirkjan var troðfull og ekki þurr hvarmur á mínum bekk, lófatak og gleðilæti. Maður er bara uppnuminn.

Forbrydelsen

Þessi söngvari minnir mig doldið á dómsmálaráðherrann í Forbrydelsen. Mögnuð þáttaröð, skemmtilegir karakterar og rosaspenna. Síðasti þátturinn er á morgun og spennan er gríðarleg. Síðast var gefið í skyn að Bilal væri morðinginn en hann er ekki einn að verki…

Elvis konungur

Stórgóður þáttur í Víðsjá, tileinkaður afmælisbarninu: Elvis Presley sem hefði orðið 75 ára í dag. Sagt var frá áhrifum hans á tónlistarsöguna en hann nýtti sér takta úr negrasálmum og tónlist þeldökkra sem þá var bönnuð. Frægð hans var gríðarlega mikil en líkt og Michael Jackson varð hann fórnarlamb hennar, innilokaður á heimili sínu og stútfullur af læknadópi. Hann var líka útpískaður karlgreyið, árið 1972 hélt hann t.d. að meðaltali 10 tónleika í mánuði með miklu stuði og mjaðmahnykkjum, þar sem trylltir aðdáendur hylltu hann og tónlist hans. Bros hans er ómótstæðilegt, göngulagið og hreyfingarnar ótrúlega kynþokkafullar. Hann lést haustið 1977, óumdeilanlega eini konungurinn sem Ameríkanar hafa átt. Þegar ég var ca 15 fékk ég Elvis-æði, við Elva Guðna, elsku vinkona mín heitin, lágum fyrir framan grammófóninn  í stofunni með Elvis í botni, skrifuðum upp textana og horfðum djúpt í augu hans á plötuumslaginu. Sjáið bara hvað hann er rosalega heitur í þessu lagi:

Elvis hefur yfirgefið bygginguna en hann lifir:

Michael, maðurinn í speglinum

Þegar ég heyrði fyrst í  Michael Jackson, Off the Wall (1979), varð ég mikill aðdáandi tónlistar hans. Svo eltist ég en ekki hann svo leiðir skildu. Nú er ég komin með Man in the Mirror á heilann. Hér er vídeóklippa sem einhver jútjúbnörd hefur límt saman með svipmyndum frá tónleikum með tilheyrandi múgæsingu og yfirliðum unglingsstúlkna:

Smellið HÉR til að lesa  grein um goðið úr Mogganum, frá 15. febrúar 2003.